þriðjudagur, desember 18, 2012

Aðventuferðin 2012



Nú um síðustu helgi skelltum við hjónaleysin okkur norður yfir heiðar í okkar árlegu aðventuferð. Við komum norður um kaffibil á flöskudeginum og sugum í okkur norðlenzka jólastemningu í göngugötunni sem reyndar má keyra á. En svo sem ekki mikið gjört því okkur beið svo jólahlaðborð á sjálfu Hótel KEA en þar var étið á sig gat svona skv venju.

Þegar laugardagsmorgun bar að garði var farið að élja og skv vefmyndavélum var skyggni frekar takmarkað. Svo maður beið bara rólegur frameftir degi og skellti sér upp í fjall rétt fyrir 1400. Maður náði þar ágætis tveim klst nema skyggni var ekkert og algjörlega blint uppi. Nú vitna ég bara í Þverbrekkinginn og ,,maður sá ekki framfyrir buxnaklaufina". Sem var hálf fúlt því færið var nokkuð gott. En hvað um það. Stebbalingurinn komst á skíði og það er fyrir öllu. Þar sem Krunka er með einhvern sjúkdóm gat hún ekki skellt sér upp í fjall en fór í heimsókn þess í stað. Þar sem hún var sótt
Síðan um kveldið boðuðu sendiherrahjón V.Í.N. oss í kveldmat í sendiherrabústaðinn. Slíkt var þegið með þökkum og nutum við gestrisni þeirra og fórum ekki svöng þaðan. Gaman að hitta þau

Síðan á messudeginum var brugðið sér í Kjarnaskóg og brugðið sér á gönguskíði því það var jafn blint upp í fjall og á laugardeginumm. Við tókum saman einn hring 2,2 km og síðan tók Litli Stebbalingurinn annan aukahring. Þetta var prýðilegasta skemmtun og jólalegt. Okkur beið svo jólagrautur og endaði með sunnudagslæri áður en haldið var aftur í borg óttans

En allavega þá eru myndir, svona fyrir áhugasama, hér

sunnudagur, desember 16, 2012

Halló þarna Agureyrish



Við hjónaleysin skruppum um helgina í okkar árlegu aðventuferð til Agureyrish þar sem m.a var kannað ástandið á Hlíðarfjalli. Ferðaskýrzla og myndir væntanlegt innan tíðar. Amk fyrir jól

Kv
Twist

fimmtudagur, desember 06, 2012

Hairy Blue Mountains


Jæja, nú í dag var skíðasvæði okkar höfuðborgarbúa opnað í Bláfjöllum. Í ljósi þeirrar staðreyndar datt Litla Stebbalingnum í hug að kanna hvort einhver stemning væri fyrir því að skella sér uppeftir um helgina, þá annað hvort laugar-nú eða messudag, til þess að renna sér dagspart eða svo. Sjáum til hvað spámenn ríkisins segja

Kv
Skíðadeildin

sunnudagur, desember 02, 2012

Æfa, æla



Í gær var haldin risasjúkraæfing FBSR og þar var Litli Stebbalingurinn þátttakandi ásamt tveimur öðrum gildum limum innan V.Í.N. En það vill svo skemmtilega til að það voru Eldri Bróðirinn sem sá um að stjórna lýðnum úr Birninum og svo Krunka sem var í heimstjórn í húsi. Sá sem þetta ritar var með fjallahóp í fjallabjörgunarverkefni. Þetta gekk allt svo sem ágætlega og allir leystu sín verkefni. Varla kemur það á óvart að myndavél var með í för og myndir frá deginum í gær má sjá hér

miðvikudagur, nóvember 28, 2012

Skíði sunnan heiða

Skv heimasíðu Bláfjalla þá er stefnt að opnun í Blue Mountains um komandi helgi. Spurning hvort það sé stemning fyrir því að skella sér uppeftir komandi messudag og renna sér þar dagspart?

þriðjudagur, nóvember 27, 2012

Fjölskylduútilegan 2013



Eins og Litli Stebbalingurinn var búinn að skella fram á Snjáldursíðu V.Í.N á lýðnetinu þá var kominn upp sú hugmynd með fjölskylduútilegu V.Í.N. 2013. Sjálfsagt eins og glöggir lesendur muna þá var hugmyndin að halda norður í Skagafjörð, nánar tiltekið á Steinsstaði, og slá þar upp tjaldbúðum helgina 14-17. júní n.k.
Við hjónaleysin, ásamt laumufarþeganum, komum við þarna síðasta sumar svona sem undirbúnings-og eftirlitsferð. Það verður að segjast að þarna er aðstaðan til fyrirmyndar. Flott tjaldsvæði með rafmagn í boði sem það vilja. Nú sömuleiðis er sá möguleiki fyrir þá sem ekki geta hugsað sér að liggja í seglskýli að leigja sér herbergi svo fáar eða engar afsakarnir eru teknar gildar. Sömuleiðis er hægt að komast inn og borða þar ef þannig viðrar og á neðra tjaldsvæðinu var amk í sumar samkomutjald sem hægt var að matast inní. Svo er þarna líka sæmilegasta sundlaug og úr heitapottinum hefur maður útsýni á Mælifellshnjúk. Ekki amalegt það.
Okkur ætti ekkert að leiðast þarna og getum fundið heilmargt til dundurs. Við strákarnir gætum skellt okkur á samgöngusafnið í Stóragerði á meðan kvennpeningurinn fer á hannyrðasafn og prjónabúðir.

Jæja þá er þessari upphitun lokið í bili með einhverjum nokkrum myndum frá staðnum og svo sjáumst við bara 14. júní n.k


Kv
Nemdin

mánudagur, nóvember 26, 2012

Skíðavertíðin hafin



Hlíðarfjall opnaði um helgina og vonandi styttist í það hér sunnan heiða líka. Annars þarf maður svo sem ekkert lyftur þegar maður á skinn.

Kv
Skíðadeildin

þriðjudagur, nóvember 20, 2012

Upphífingar


Jæja, þessi blessaða síða er nú ekki alveg dauð úr öllum æðum þrátt fyrir lítið líf síðustu vikur. En það á sér svo sem sínar skýringar. En hvað um það

Nú síðasta laugardag var Litli Stebbalingurinn boðaður á þyrluæfingu með Gæzlunni og undanförum, svona sem undanrenna. Þetta er kannski ekki beint tengt V.Í.N. en amk einn gildur limur var þarna á ferðinni.
Flugferðin var ekki svo sem löng en farið var upp á Sandskeið og teknar þar nokkrar upphífingar og svona almenn umgegni í kringum þyrilvængju. En gaman var að því í norðanáttinni og ef einhver er áhugasamur má skoða myndir hér

mánudagur, nóvember 05, 2012

Skíðaupphitun

Jæja það styttist í skíðatímabilið þennan veturinn. Að sjálfsögðu er stefnt að því að vera rosa duglegur að skíða af manni rassinn í vetur og vera ofurmenni á fjallaskíðunum.
K2 er með nokkuð skemmtilega síðu þar sem farið er yfir ýmis atriði sem tengjast fjallaskíðamennsku. Svo sem snjóflóðagryfjur og tækni. En allavega má kíkja á þessa síðu hér og hafa nokk gaman af

Kv
Skíðadeildin

þriðjudagur, október 23, 2012

Ísfjörðurinn



Dag einn í mánuðinum hanz Gústa var Litli Stebbalingurinn sendur til landsins Græna. Það var ekki svo gott að maður væri að leið til Godthåb að heimsækja heiðursfólkið og sendifulltrúa V.Í.N. á Grænlandi eða þau Öldu og Gunna. En maður var á vegum vinnunnar og fór til Ilulissat. Það var reyndar stutt stopp og ekki einu sinni farið af flugvellinum. En maður sá hve magnaður þessi staður er með sína náttúru og umhverfi. Vel hægt að mæla með því að gera sér ferð þangað í framtíðinni,
En allavega þá má skoða myndir frá deginum hér

mánudagur, október 15, 2012

Chief Seattle



Dagana 07-16. sept síðast liðin þá skruppum við hjónaleysin í opinbera heimsókn á vestur strönd US&A nánar tiltekið til Seattle. Þar var ætlunin að lengja aðeins sumarið ásamt því að kynna sér vesturstrandabjór, skoða flugvélar, kíkja í Boeing verksmiðjuna og bæta í dótakassann.
Óhætt er að fullyrða að Seattle er skemmtileg borg og margt þar að gera. Sérstaklega þegar maður er svona flugvélanörd eins og Litli Stebbalingurinn er. Svo var nú ekki að skemma fyrir manni gleðina að maður fékk að aka um á Crown Victora í boði Enterprise. Mikið var það gaman.
En þarna er líka flott fjallasýn sem er ekki til láta manni leiðast. Spurning hvenær V.Í.N. leggur Mt.Rainier að fótum sér.

En hvað um það. Ef einhver hefur áhuga þá má skoða myndir hér.

Varúð þarna er haugur af bíla-og flugvélamyndum en kannski að einhverjir kunni að hafa gaman að því

laugardagur, október 13, 2012

Rata í vandræði



Nú um síðustu helgi, fyrir nákvæmlega sléttri viku síðan, skrapp Litli Stebbalingurinn ásamt nafna sínum í Tindfjöll. Þar var Matti Skratti með núbbana sína í rötun.
Hún Krunkhildur var svo elskuleg að skutla okkur að rótum Tindfjalla þar sem annar af Patrólum FBSR pikkaði okkur upp. Síðan var haldið beinustu leið í Tindfjallasel þar sem okkur beið veizluborð af beztu gerð. Þ.e bakaðar baunir og pulsur. Eftir að hafa sporðrennt nokkrum pullum var haldið að tjaldstæðinu og slegið þar upp tjaldi og lagst til hvílu. Nýji svefnpokinn stóð alveg undir væntingum og maður svaf eins og unga barn alla nóttina og vaknaði svo upp þar sem allt var orðið hvít. Sem er mjög gott og boðar vel á framhaldið í vetur. Hef fulla trú á því
Svo var bara haldið sem leið lá að Hafrafell að vísu aðeins lengri leiðina og endað á því að vaða Rangá. Allt fastir liðir eins og venjulega. En það ánægjulegasta við þetta allt saman er að maður fékk nánast allar gerðir að veðri nema rigningu. Mikið var nú gott að haglið í feisið þarna uppfrá og snjókomuna. Það amk gladdi mitt gamla hjarta að þarna var allt orðið hvít sem er mjög gott

En fyrir einhverja þá má skoða myndir frá þessum sólarhringslanga túr hér

fimmtudagur, október 11, 2012

Mayday


Nú síðasta laugardag fór fram flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli. FBSR var auðvitað með í því og fór Litli Stebbalingurinn með í RNF-hóp sveitarinnar ásamt Birninum svona af þeim sem V.Í.N.-verjar ættu að þekkja. Annars tók maður lítið þátt í björgunarhlutanum heldur var sem hluti af löngum armi RNF.
En alla vega ef einhver þarna úti skyldi hafa áhuga má skoða myndir frá deginum hér.

þriðjudagur, október 09, 2012

Smáfell

Nú er senn komin miðvika og þá styttist í helgi ekki satt. Það þarf nú varla að koma neinum á óvart að þá langar okkur hjónaleysunum jafnvel að reima á okkur gönguskóna og tölta á einhvert smáfjallið í ekki alltof mikilli fjárlægð frá höfuðborginni. Ekkert er ákveðið ennþá hvort farið verði á laugardegi eða messudegi. Fer eftir nokkrum óvissuþáttum eins og veðri og nennu. Allavega þá eru áhugasamir að sjálfsögðu velkomnir með

föstudagur, október 05, 2012

Sumartúrinn: Tíundi kafli

Messudagur 12.08: Heimför

Það kom að því þe dagurinn þar sem ekki skein sól en það var líka í góðu lagi því komið var heimferð. Þar sem við blasti frekar langur akstur var nú ekkert alltof seint lagt í´ann. Þegar var komið á Öxi byrjaði að rigna og ekki tók nú betra við því rúðuþurrkurnar bara stoppuðu. En sem betur fer var eitthvað af Rain-X eftir á framrúðunni svo það slapp en það var svo ætlunin að bæta við á Djúpavogi en þar komust við að því að ekkert er hægt að fá af bílavörum í því kauptúni svo lítið annað var að gjöra nema halda áfram för til Hornafjarðar.

 Þangað var komið með nokkrum myndastoppum um það leyti sem tími var kominn á kveldmat. En þar var hægt að þrífa framrúðuna og klína Rain-X á hana. Þá var komið tími á mat. Þar sem við vorum á Hornafirði kom ekkert annað til greina en humar. Við komum við á fyrsta veitingstað sem við sáum en þar var svo ömurleg þjónusta að við gengum út og heldum áfram að leita. Við enduðum í gamla KASK húsinu á flottum stað. Litli Stebbalingurinn fékk sér humarsúpu en Krunka humarflatböku. Hvortveggja prýðilegasta máltíðir.

Svo var svo sem lítið annað gjöra en halda bara förinni áfram því að var komið kveld. Það gerðist svo sem ekkert merkilegt á leiðinni um suðurlandið. Við stoppuðum að vísu við Freysnes til að skoða hve snjólítið var á Hnjúknum, Dyrhamri og Hrútfjallstindum. Við skriðum svo í Frostafoldina upp úr miðnætti eftir 9 daga frábært ferðalag um land vort þar sem ekki var hægt að biðja um betra veður. Takk fyrir það

Myndir frá lokadeginum eru hér

fimmtudagur, október 04, 2012

Sumartúrinn: Níundi kafli




Laugardagur 11.08: Hvítur serkur

Veðurblíðan hélt áfram á laugardeginum og nú var ætlunin að fara á Borgarfjörð Eystri og rölta þar upp á Hvítserk. Það voru gerð nokkur stutt stopp á leiðinni ma við vinnuskúr Kjarvals og sjálfsalann. Bakkagerði tók á móti manni jafn hlýlega og alltaf með sínu magnaða umhverfi.  Ekið var upp að rótum Hvítserk og skildust þar leiðir. Við Krunka töltum af stað upp á við á meðan samferðafólk okkar helt áfram niður í Húsavík og Loðmundarfjörð.

Það er óhætt að mæla með göngu upp á Hvítserk auðvelt fjall nema hvað hitinn þennan dag var kannski það eina sem gjörði þetta erfitt. En maður er verðlaunaður með möguðu útsýni af toppnum með alla þessa liti og svo er bara fjallið sjálft svo flott. Eftir að hafa flaggað á toppum og tekið toppamyndir var rennt niður í bíl. Á leiðinni til baka var ákveðið að taka smá aukakrók og renna yfir á Breiðuvík og fá smá jeppó. Það var svo stoppað yfir ofan Breiðuvík við útsýnisskífuna enda ekki annað hægt en njóta útsýnsins og svo sem verðursins. Svo var bara komið niður í Bakkagerði og hitt liðið á bryggjunni. Á bakaleiðinni var kirkjan skoðuð eins og oft vill verða. Annað gerðist svo sem ekki merkilegt áður en komið var aftur á Einarsstaði til hefja þar eldun á mat.

En allavega má skoða myndir frá deginum hér

miðvikudagur, október 03, 2012

The Fjallið



Eins og sjá má á þessari færslu var ætlunin hjá okkur hjónaleysunum að skella okkur í létta fjallgöngu síðasta laugardag. Að kveldi Frjádags fór húsmóðirinn í Frostafoldinni að finna fyrir hálsbólgu svo ekkert varð úr göngu á laugardeginum. En þegar messudagur rann upp var komið annað hljóð í skrokkinn og því ákveðið að slá til og herja á eitthvað smáfjallið. Að þessu sinni var Fjallið eina fyrir valinu. Þar sem engin hafði sýnt áhuga á að koma með vorum við bara tvo á ferðinni eins svo oft áður því segir það sig eiginlega sjálft að þarna á ferðinni voru:

Stebbi Twist
Krunka

Þetta var sæmilegasta rólegheitarölt en ætíð gott að komast aðeins út. Þó svo að þetta eina fjall sé ekkert sérlega hátt var prýðilegasta útsýni af því. Eins og oft er svo sem af fjöllum.

En allavega þá er fyrir áhugasama myndir hér

þriðjudagur, október 02, 2012

Sumartúrinn: Áttundi kafli





Flöskudagur 10.08: Heim á Hérað

Það er óhætt að fullyrða að þegar skriðið var úr rekkju að morgni flöskudagsins hafi verið veðurblíða dauðans. Úff því líkur hiti. Eftir að hafa notið þess í stutta stund var kominn tími að halda för vor áfram og framundan var sjálf Hellisheiði Eystri. Reyndar var svo gjört stuttur stanz við flugvöllinn til að fylgjast með POF-inum frá Norlandair fara í loftið. Svo var það bara Hellisheiði Eystri. Polly fór nú létt með þetta (þó ekki hafi nú hann farið mjög hratt amk ekki upp) og án efa léttar heldur en húsbílinn sem við mættum. Það var gaman að viðra fyrir sér útsýnið austan megin yfir Héraðsflóann og Dyrfjöll.

Þegar komið var á Eyglóarstaði vorum við það tímanlega á ferðinni að við skruppum í Atlavík til að slappa þar aðeins af og njóta veðurins. Á leiðinni í bústaðinn var ætlunin að koma við í sundi á Hallormstað en þar var barasta sundlaugin lok, lok og læs. Svo lítið annað var að gjöra en koma sér upp á Einarsstaði koma sér í bústaðinn, skella sér í sturtu og láta renna í pottinn ásamt því að safna tevufari.

Svo kom nú allt hitt fólkið og hafist var handa við að grilla burger. Um kveldið skelltum við hjónaleysin okkur til Reyðarfjarðar til þess að heilza upp á stórmeistarnn Brynjar Jóhann Halldórsson eða bara Bibbi eins og kauði er líka þekktur sem. Hann tók okkur í útsýnistúr um vinnuna sína ásamt því að taka okkur með yfir á Eskivík áður en við renndum aftur á Reyðarfjörð í nokkrar kollur af öli. Það var virkilega ánægulegt að hitta þennan meistara og fá smá leiðsögn um Fjarðarbyggð.

Myndir hér

sunnudagur, september 30, 2012

Sumartúrinn: Sjöundi kafli




Fimmtudagur 09.08: Á sléttu melrakkans

Það var þvílíka veðurblíðan er risið var úr tjaldi í Lundi  og eftir morgunmat var ekið afstað í heitum bílum. Fyrsta stopp var á Kópaskeri og aðsjálfsögðu var ekið um kauptúnið og það skoðað. Virtist vera alveg þokkalegasta húsaþyrping þarna. Því næzt var haldið á Melrekkasléttuna sjálfa. Það var áhugaverður akstur. Þarna hafði ég aldrei komið og var mjög gaman að skoða sig um þarna. Sérstakt var að koma á Raufarhöfn og skoða sólargarðinn eða hvað sem hann heitir og síðan er þessi bær mikið sorglegur úff. En flott var að koma að vitanum fyrir ofan höfnina og sjá yfir bæinn. Hef svo sem ekkert fleiri orð um það.  Leiðin lá áfram austur á boginn og næzta þorp var Þórshöfn sem er mikið mun skárra en Raufarhöfn. Skemmtilegast var þó að hitta hann Hafliða þarna og fylgjast með löndun báta frá Vinnslustöðinni.  Freistandi var að reyna komast á Gunnólfsvíkurfjall en ekki er ég viss um að Polly hefði haft það upp svo kíkt var bara í Bakkafjörð áður en komið var í sundi í Selársdalslaug. Er örugglega einn um þá skoðun að finnast það ein flottasta sundlaug landsins á mögnuðum stað.

Eftir það lá leiðin á Vopnafjörð þar sem slegið var uppi tjaldi í einum að þessum Alaskavíðishólfum. Frekar lítið og þröngt tjaldstæði en í flottu umhverfi með skjól af klettunum og útsýni yfir höfnina. Eftir að hafa soðið pöst og etið með beikoni og rjómasósu var tekið kveldrölt um bæinn. Ma komið við í kirkjugarðinum og Sambandsherberginu. Eftir það var bara skriðið ofan í poka til hvílast fyrir Hellisheiði Eystri  og þetta var síðasta nóttin í tjaldi í þessu ferðalagi. Við tók tvær nætur í bústað (sem er hálfgerð sóun á sumri)

Myndir


laugardagur, september 29, 2012

Athugun



Á flöskudag fyrir rúmri viku fór Litli Stebbalingurinn í óvissuferð með vinnunni. Þar var óvissan á Agureyrish og verður svo sem ekkert farið neitt nánar í það. Nema hvað að maður horfði til fjalla og sá að snjór er kominn í þau. Kaldbakur er hvítur langt niður í hlíðar og síðar var kíkt í skoðunarferð í Bruggverksmiðjuna Kalda og þar sá maður á fjöllin á Tröllaskaga og eru þau líka vel hvít niður fyrir miðjar hlíðar. Þetta haust lofar góðu með veturinn. Nú treystir maður bara á það sendiherra V.Í.N. á norðurlandi standi sig í fréttaflutningi

föstudagur, september 28, 2012

Sumartúrinn: sjötti kafli




Miðvikudagur 08.08: Kröflueldar

Í miðri viku var vaknað og þann dag var veðrið síst. Aftjölduðum að vísu í þurru en það komu einhverjir dropar á leiðinni austur á Mývatn ekkert nema til að herða mann. Þegar á Mývatnssvæðið var komið var haldið að Kröflu með það takmark að rölta á toppinn. Það hafðist og þar var Kári sterkur en náði samt ekki að feykja okkur um koll. Að yfirstaðinni göngu var komið að föstum lið þe að skella okkur í sund og varð sundlaugin í Reykjahlíð fyrir valinu. Heitapottslegan þar var alveg hreint prýðileg og kallaði fram hungurtilfinningu. Til að verða við því kalli líkamans skelltum við í súpu við Dimmuborgir. Fínasta súpa með góðu útsýni yfir vatnið og svo jólasveinana og Dimmuborgir.

Með fullan maga var haldið í vesturátt, kannski meira svona vestnorðvestur, til Húsavíkur. Þar var tankað og ísað áður en haldið var yfir Tjörnesið og yfir í Kelduhverfi. Í Kelduhverfinu var að sjálfsögðu kíkt aðeins á ættaróðalið. Tjaldað var svo í Lundi í Öxarfirði.( Dr. Skipuleif átti að vera ánægð með það). Þar er mjög svo hefðbundið tjaldstæði á hæðóttu túni með Alaskavíði í kring. Við fundum okkur góðan og sléttan blett í einu horninu og hofum að elda tudda kallinn. Eftir staðgóðan kveldmat skoðuðum við örlítið staðhætti þarna og leist vel á. Þrátt fyrir sléttu eru þarna nokkrir hólar sem kalla á mann að rölta uppá. Svo þarf að taka þessa sundlaug út við tækifæri. Bíð reyndar eftir því að Dr. Dilla skipuleggi ferð um þetta svæði og taki að sér leiðsögumanninn um Melrakkasléttuna. Hér með er skorað á Dýrleifu með það við tækifæri á næztu 10 árum

Sjáið myndir hér


fimmtudagur, september 27, 2012

Heilzubótarrölt

Nú ekki á morgun heldur hinn, eða á morgun ef þetta er lesið á morgun, þá er væntanlega laugardagur. Það sem meira er að þá er líka fínasta veðurspá svona ef veðurspámenn ríksins eru ekki að ljúga að okkur.
Þá erum við hjónaleysin, með laumufarþegan, að spá að skella okkur í einhverja hólagöngu á einhvern hólinn í nágrenni stórborgarinnar. Það er ekkert ákveðið ennþá á hvað skal halda en ýmislegt kemur til greina, misfrumlegt þó eins og td Helgafell, Mosfell, Fjallið eina, Grænavatnseggjar nú eða Miðfell við Þingvelli.  Ef einhverjir þarna úti hafa áhuga að skella sér í kjúklingagöngu þá eru að sjálfsögðu allir velkomnir með. Bara láta vita af sér

miðvikudagur, september 26, 2012

Smiðir gegn klámi



Nú síðasta messudag var öllum messuhaldi sleppt og skellt sér í vinnuferð upp í Tindfjöll. Svona með það að leiðarljósi að vonandi klára þennan skála einhverntíma í framtíðinni. Í sjálfu sér er þetta ekkert frásögum færandi nema nákvæmlega helmingur vinnuhanda þarna voru gildir limir innan V.Í.N. Hefðum getað verið í meirihluta ef ölið hefði ekki gjört VJ heilzulausan á sunnudagsmorgninum. En þessir þrír V.Í.N.-liðar sem þarna voru:

Stebbi Twist
Jarlaskáldið
Maggi Móses

Síðan var einn þarna sem er bara okkur að góðu kunnugur en það var Billi. Síðan voru tvær aðrar Flubbasálir sem fáir þekkja og nenni því ekki að nefna þá (þó með fullri virðingu fyrir þeim).

Þarna voru menn vopnaðir með hömrum, borvélum, hnoðtöngum, kúbeinum og kíttissprautum. Ýmislegt að gjört þarna uppfrá og náðist að klára verkefnalistann frá Óla yfirsmið. Þannig að það sem er búið er ekki eftir.

Ef einhverjir nenna þá má skoða myndir hér

þriðjudagur, september 25, 2012

Sumartúrinn 2012: Fimmti kafli




Þriðjudagurinn 07.08: Hrepparígur

Áfram helst veður ágætt og allt leit út fyrir fjallarölt.  Eftir að hafa gengið frá öllu okkar hafurtaski var komið við á benzínstöð á Sauðárkrók til að skipta um aðalljósaperu. Þarf að vera eitthvað bílavesen. Að viðgerðum loknum var ekið í gegnum sveitir Skagafjarðar, gegnum Fljótin og yfir Lágheiði uns komið var að neyðarskýlinu þar. Þaðan var lagt upp á Hreppsendasúlur. Óhætt er að mæla með þeirri göngu upp á fjall sem nær yfir 1000 mys og hefur eðli málsins skv gott útsýni. Kannski hægt að kvarta undan því að ofheitt var í veðri. Luxus vandamál.

Eftir hressandi gönguför var haldið í Ólafsfjörð í sund og þar nýtti maður ferðina til prufa nýju rennibrautina. Fín rennibraut þar og ágætis laug líka. Foreldrar Krunku voru svo búin að bjóða okkur í mat og slíkt boð vel þegið. Eftir stutt stopp í höfuðstað norðurlands og snæðing á grillaðri bleikju var haldið yfir Vaðlaheiði. Þar sem var farið að líða á kveld létum við það duga að fara í Fnjóskadal til að leggja okkur. Fyrst var meningin að tjalda í Systragili. Það er lítið tjaldstæði og við fundum ekki laust pláss þar svo vel væri þannig að kíkt var austur yfir á og slegið upp tjaldi í Vaglaskóg. Þar var að sjálfsögðu Vor í Vaglaskógi eins og ætíð.  Þar voru ekkert nema hjólhýsi, húsbílar og fellihýsi svo komum við með litla tjaldið okkar og allir heldu að við værum ullar.

Þarf svo sem ekkert að tíunda neitt um þetta tjaldsvæði þar sem við höfum nokkrum sinnum gist. Að vísu vorum við uppi þe ekki niður við á. En mér finnst þetta orðið svolítið ekki spennandi og ofmikið af íslendingum þarna. En hvað um það

Skoðið myndir hérna

mánudagur, september 24, 2012

Sumartúrinn 2012: Fjórði kafli




Mánudagurinn 06.08: Haldið norður á boginn

Það var hið þokkalegasta veður á mánudeginum enda bezti dagur vikunnar þegar pakkað var niður í Fljótstungu. Það var ákveðið að halda nú norður á boginn. Ekið var sem leið lá í gegnum Hvítársíðuna og heilzað upp á nokkrar geitur í leiðinni en annars tók við þjóðvegaakstur með kaffi/pizzustoppi í Staðarskála.

Ekki vorum við að flýta oss of mikið og Hrabbla hafði ekki komið að Hvítserk svo það var lagt út á Vatnsnesið til berja þetta náttúruundur augum. Við röltum niður í fjöru hjá þeim arna til berja Serkinn augum ekki bara af útsýnispallinum, enda ekkert að flýta okkur. Þegar búið var að skoða kauða var næzt komið við í Borgarvirki og útsýnisins notið þaðan enda þar víðsýnt. Að svo búnu var haldið sem leið lá yfir í Skagafjörð. Í Varmahlíð var kíkt á lýðnetið og næztu skref ákveðin. Sum sé að tjalda á Steinstöðum og stefna á Hreppsendasúlur daginn eftir.

Það var svo slegið upp tjaldi á Steinstöðum og skellt sér þar í sund njóta þar útsýnisins á Mælifellshnjúk úr pottinum. Að loknu baði tók við eldamennska þar sem íslenska lambakjetið var matreit og nýtum við tjaldstæðagjaldið með að elda sósuna inni og éta þar svo. Síðan var bara slakað á og notið þess að vera í fríi, röltum aðeins um svæðið og komust að einu þar. Sem er að næzta sumar væri tilvalið að fara í fjölskyldu útilegu V.Í.N. norður á Steinstaði. Þarna er flott aðstaða, hægt að komast inn, sundlaug á staðnum og nóg hægt að gjöra í nágrenni. Það er amk tillaga að hafa fjölskyldu útileguna 14-17.júní á næzta ári. Ekki stemning fyrir því??

Frá deginum má skoða myndir hér

sunnudagur, september 23, 2012

Sumartúrinn 2012: Þriðji kafli




Messudagurinn 05.08: Ferðalagið hefst

Messudagur rann upp og var í upphafi ekki eins bjartur og fagur og spámenn ríksins höfðu lofað en lítið við því að gjöra. Eftir að hafa pakkað seglskýlum saman að raðað í Polly skyldu leiðir við Eyþór og Boggu.

Við heldum sem leið lá í Þjórsárdalinn þar sem við komum við hjá Hjálparfossi, röltum í kringum Þjóðveldisbæinn og enduðum svo í sundi í Þjórsárdalslaug. Hún er reyndar lokuð en virðist mega mega sundlauga sig því vatn er í lauginni og hægt að komast í steypibað á staðnum. Eftir baðferð helt bara ferðalagið áfram og ætlunin var að koma sér yfir á vesturhluta landsins. Við enduðum sum sé daginn í Fljótstungu í Hvítársíðu í Borgarfirði.

Þar er tjaldsvæði og telst það helst til tíðinda að nágranni okkar á Land Roverinum frá á Leirubakka var þarna. En þetta er svo sem dæmigert tjaldstæði á túni og með einu klósetti á hinum endanum. Svo sem ekkert að kvarta yfir nema sumt þarfnast þarna endurnýjunnar en skíthopparinn bragðist vel sem skellt var á grillið þarna. Við röltum svo aðeins um svæðið og Krunka mátaði m.a gamlan traktor, sem virðist vera svolítið þemað þetta sumarið en hvað um það.

Tjaldsvæðið þarna í Fljótstungu er samt prýðilegt þrátt fyrir að vera á berangri en samt mun skárra en vera í Húsafelli sé maður á annað borð á ferðalagi í uppsveitum Borgarfjarðar. Samt mætti klósettið vera í betra ástandi

Sjá myndir hér

laugardagur, september 22, 2012

Sumartúrinn 2012: Annar kafli




Laugardagurinn 04.08: Traktorstorfæra

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Eftir morgunmat, messu og mullersæfingar var kíkt yfir hæðina í morgunkaffi til Eldri Bróðurins. Þar var tekið á móti okkur með kostum og kynjum í annars glæsilegum sumarhíbýlum þeirra með sínu frábæru fjallasýn. Þar vorum við bara í rólegheitum og góðu yfirlæti í hitapotti út á palli hjá þeim. Það bættist svo í hópinn þegar Billi og Guðni renndu við á leið sinni á traktorstorfæruna
.
Um hádegi skröltum við yfir á Flúðir og horfðum þar á fullorðna stráka leika sér á traktorum í vatnabraut í kappi við klukkuna. Ágætis skemmtun það í veðurblíðunni. Að keppni lokinni skoðuðum við tækin og kíktum svo á litla fornbílasýningu sem var þarna í gangi. Er hugað var að mat í kaupfélaginu hittum við þá rafmagnsbílafélaga Raven og Hvergerðingin. Við kíktum svo aftur á Álfaskeið og grilluðum þar nong í klebb.

Um kveldið var okkur boðið í kjetsúpu í Grímsnesi hjá Steina frænda. Svo sem ekki mikið meira um það að segja. Allt frekar siðlegt barasta

Sjá myndir hér

fimmtudagur, september 20, 2012

Sumartúrinn 2012: Fyrsti kafli





Föstudagurinn 03.08: Álfabikar

Það var byrjað ferðalagið á því að elta veðrið með að skrölta á suðurlandið.  Eyþór og Bogga ásamt Katrínu höfðu ákveðið að slagst í för með oss.  Eftir smá bollalengingar var ákveðið að halda á Álfaskeið, sem er okkur flestum kunnungt og þarfnast tæpast frekari lýsingar, koma sér þar fyrir og skella sér svo á traktorstorfæru á laugardeginum á Flúðum.

Eftir að búið var að koma sér fyrir renndi Eldri Bróðurinn við á leið sinni í fjölskyldusetrið sitt og heilzaði upp á oss. Um leið bauð hann okkur í morgunkaffi sem og var með þökkum þegið. Svo var bara sötrað á öli og spjallað þangað til fólk lagðist ofan í poka.

Myndir eru hér

miðvikudagur, september 19, 2012

Sumartúrinn 2012



Dyggir lesendur þessara síðu hafa án efa fylgst með því sem hefur á daga drifið í sl sumar. Amk hjá okkur hjónaleysunum. En ekki hefur ennþá verið sagt frá sumarfríinu hja oss en það stendur nú til bóta enda óhætt að fullyrða að sumrinu sé formlega lokið. Nú næztu daga munu birtast ferðaskýrzlur þar sem sagt verður frá því hvað varð á vegi okkar þessa 9 daga sem túrinn tók. Ásamt því að vera með létta gagnrýni á þeim tjaldstæðum þar sem slegið var upp tjaldi og sofið. En allavega þá er barasta að fylgjast við næztu daga og viku

Kv
Hjónaleysin

fimmtudagur, september 06, 2012

Tobbi kallinn



Nú síðasta messudag þegar sólin lét loks sjá sig var kýlt á létta göngu. Svona fyrir vakt. Þar sem víssara þótti að fara sér að engu óðslega var ákveðið að hætta sér á Suðurnesin og rölta þar á Þorbjarnarfell. Sem ku vera bæjarfjall þeirra Grindjána. Þarna voru á ferðinni:

Stebbi Twist
Hrabba

á Polly


Nú og góðkunningjar okkar þau:

Eyþór
Bogga
Katrín

á Rollu

...slógust svo í för með oss.

Skemmst er frá því að segja að allt gekk þetta stóráfallalaust fyrir sig og gaman að því að Katrín toppaði þarna sitt fyrsta fjall.
En til að gjöra langa sögu stutta, þó svo það sé um seinan þá má skoða myndir frá töltinu hér.

Kv
Göngudeildin

mánudagur, september 03, 2012

Í það heilaga



Nú um þar síðustu helgi gekk, stórvinkona okkar og mikli snillingur, hún Dísa í hjónaband með Hjalta (sem er ekki síðri en hún Dísa sín). Athöfnin og veizlan voru haldin í Fljótshlíð nánar á Hellishólum. Þau heiðurshjón buðu okkur fornu Eyjaförum auk maka en þarna voru:

Stebbi Twist
Krunka
Gvandala-Gústala
Oddný
VJ
HT

Auk þess voru þarna tvær af frumkvöðlum V.Í.N. sem áttu það til að koma með í okkar fyrstu ferðir um miðjan síðasta áratug síðustu aldar en það voru:

Hrabbla
Lena

Að sjálfsögðu voru svo líka brúðahjónin þarna líka

Óhætt að fullyrða að þetta var hin bezta veizla, góður matur og skemmtiatriðin stóðu undir nafni.
Gaman að samgleðjast svona vinum sínum á þeirra degi
En allavega þá eru myndir hér

P.s
Við hjónaleysin enduðum svo helgina á þvi að stökkva upp á Stóra-Dímon á heimleiðinni. Sáum vel inn í Þórsmörk og fengum annars hið prýðilegasta útsýni á annars auðvelt ,,fjall"

sunnudagur, ágúst 26, 2012

Skafti og Skapti



Nú um síðustu helgi skruppum við hjónaleysin austur í Skaptafell þar sem við hittum foreldra Krunku þar og notuðum við Polly til að koma okkur fram og til baka.  Þar gerðist svo ekki mikið merkilegt en engu að síður er ætíð ljúft að koma í Skaftafell.
Á laugardeginum tókum við rólegheita 10 km göngutúr, fínn rúntur fyrir væntanlega fjölskylduferð í Skaftafell eftir einhver ár, upp að sjónarnípu og Svartafoss. Kannski það sem helst telst til tíðinda eftir þessa ferð er að sundlaugin í Svínafelli hefur lokað.  Á messudag var svo skundað heim með einhverjum nokkrum stuttum stoppum. En hafi einhver áhuga má skoða myndir frá túrnum hér


föstudagur, ágúst 24, 2012

Skreppitúr til Agureyrish



Fyrir rétt rúmum mánuði síðan skutumst við hjónaleysin eina kveldstund til Agureyrish. Megin tilgangur ferðarinnar var að sníkja kveldmat og svona í leiðinni að færa smá fréttir. Svona í óspurðum fréttum.  Að sjálfsögðu var myndavél með í för og auðvitað var lágskýjað og hvergi sól að sjá í höfuðstað norðurlands, né heldur yfir landinu eins og sjá má hér.

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Skáldað við skálið

Þá er komið að næztum því árlegum viðburði í hinni margfrægu V.Í.N.-rækt þetta árið. Það er að sjálfsögðu verið að tala um hina altöluðu hjólheztaferðHúsi Skáldsins undir Grínmannsfelli í Mosfellsdal.
Það skal hittast á hjólheztum vorum við Gullinbrúna komandi Týsdag á hinum klassíska tíma kl:1900 árdegis og stíga svo á sveif sem leið liggur um vegi, slóða, stíga og vegleysur uns hringurinn er kláraður. Þetta skal ekki haft lengra að sinni

Kv
Hjólheztadeildin

mánudagur, ágúst 13, 2012

Læstur í búri

Þá er komið að því að halda áfram með V.Í.N.-ræktina þetta sumarið. Nú er komið að hellaferð og það ekki af verri endanum. Að þessu sinni skal haldið ofan í jörðina í hellinn Búra sem er nokkuð magnaður eins og sjá má hér.
Þar sem haldið er í austurátt þá er auðvitað hittingur við Gasstöðina kl:19:00 komandi Týsdag og haldið sem leið liggur austur á boginn. Muna bara að koma með ljós og hjálm.

Kv
Jarðálfarnir

fimmtudagur, ágúst 02, 2012

Á fellinu hanz Viffa



Það bezta við að gera plön er að þeim er alltaf hægt að breyta henti það manni.
Nú síðasta þriðjudag var ætlunin að Hvergerðingurinn myndi leiðsegja okkur uppá sitt heimafjall sem ku vera Reykjafjall ofan Hveragerðis. En þar sem fararstjórinn skyndilega forfallaðist þar sem kauði var bara í vinnuferð upp við Sultartangalón þegar áttu að leggja í´ann. Þegar þetta kom upp á daginn var ákveðið að slá  þessu í kæruleysi og skella sér bara á Vífilsfell. En þarna voru:

Stebbi Twist
Krunka

á Polly


Vífilsfellið stóð alveg fyrir sínu í blíðviðrinu og varð á endanum ágætis hreyfing í bongóblíðu og útsýnið var alveg eftir því. Það þarf svo sem ekkert að hafa neitt fleiri orð um það og barasta láta myndir tala sínu máli hér

Kv
Göngudeildin

miðvikudagur, ágúst 01, 2012

Fram í Dalanna ró



Eins og sjá má hér var stefnan hjá okkur hjónaleysum að skella okkur veztur í Dali til að vera við jarðsetningu afa Krunku á messudag. Þar sem athöfnin átti að vera síðla dags messudags var óhætt að segja að maður hafi haft alla helgina til þess að gjöra eitthvað. Góðkunningi okkar V.Í.N.-verja var svo hugulsamur að bjóða okkur þak yfir höfuð vort á ættarsetri sínum á Skarðsströnd. En þau sem þarna voru á ferðinni voru:

Stebbi Twist
Krunka

á Polly


og síðan

Billi Stórhöfðingi
á Framsókn


Við byrjuðum á því að skella okkur í Grafarlaug sem nýkomin úr yfirhalningu og er betur heldur glæsilegri heldur hún var árið 2008 þegar undirritaður og VJ skelltum okkur í hana. Að því loknu var heimsókn í Laxárdalinn áður en brunað var á Skarðsströnd í bústaðinn til Billa.

Laugardagurinn rann upp bjartur en það blés aðeins. Eftir morgunmat, messu og mullersæfingar var farið í Saurbæjarkirkjugarð til að hjálpa til við að gera gröfina klára fyrir kerið. Þegar því var lokið skiptum við á bílum við tengdó og fórum sem leið lá í næztu sýzlu til að rölta á Vaðalfjöll. Skemmst er frá því að segja að það tókst með eindæmum vel að toppa. Eftir að hafa dvalið skamma stund á toppnum var ákveðið að þvo af sér ferðarykið í Grettislaug á Reykhólum. En þar komumst við í feitt og fengum sannkallaða vinninga því þar var sýning á forndráttarvélum og fékk Litli Stebbalingurinn að sitja í einum árgerð 55 af Deutz gerð og líka taka í. Þar sem þetta lengdist aðeins þá var hætt að hleypa ofan í er komið var á svæðið. Þá var ætlunin að fara í laugina á Laugum í Sælingsdal en þangað náuð við heldur ekki í tæka tíð svo það var látið duga að skella sér ofan í Guðrúnarlaug. Eftir hressandi bað var okkur boðið í grillveizlu að Svarfhóli. Þegar allir voru orðnir mettir var Fellsströndin ekin að bústaðinum og hlustað á útsendingu frá Bræðslunni á meðan. Það tók svo við videokveld þegar ,,heim" var komið.

Á messudag var svo sem ekki mikið gert nema auðvitað jarðsetningin en við skellum okkur að vísu í sund á Laugum í Sælingsdal og kíkjum á jörðina sem afi Krunku og móðir bjuggu eitt sinn á.
Annars fyrir áhugasama má skoða myndir hér

sunnudagur, júlí 29, 2012

Enn og aftur Reykjaeitthvað

Þá er komið að síðasta dagskrárliðnum í V.Í.N.-ræktinni í júlímánuði þetta árið.  Líkt og hefur verið eins konar þema þetta sumarið þá er það Reykjaeitthvað.
Að þessu sinnu ætlar sjálfur Hvergerðingurinn að teyma okkur á heimaslóðir sínar komandi Týsdag og rölta þá upp á hanz heimafjall sem ku vera Reykjafjall. Hittingur er við Gasstöðina á þriðjudag kl:1900. Sum sé allt frekar sígild svo sem

Kv

föstudagur, júlí 27, 2012

Verzlunarmannahelgar hugrenningar



Núna þegar þetta er krasað niður er ekki nema slétt vika i verzlunarmannahelgi og ekki stendur til að fara á Þjoðhátíð.  sem þetta ritar er svo sem lítið farinn að hugsa um næztu helgi en þar sem við hjónaleysin verðum að vísu byrjuð í sumarfríi þá munum við án efa hefja ferðalag flöskudeginum.
Eina sem heyrst hefur er hugmynd frá Eldri Bróðirnum um að halda til Kerlingafjalla. Ma rölta þar á Loðmund og kíkja í laugina þar eða borholuna. Það verður að segjast að heyrst hafa mun verri tillögur en að fara í Kelló og er alveg vel athugandi að því gefnu að spámenn ríkizins hagi sér vel
Annars er ekkert neglt niður en gaman væri að fá hugmyndir lumi fólk á slíku. Svo er annað að ekki er svo sem reiknað með miklum undirtektum frekar en fyrri daginn. En orðið er laust í skilaboðaskjóðinni

fimmtudagur, júlí 26, 2012

Reykjahjólafell



Rétt eins og auglýst hér var ætlunin að fara á Fagradalsfjall í síðasta dagskrárlið V.Í.N.-ræktarinnar.  En plön eru jú til þess að breyta þeim. Þar sem engin hafði boðað sig þá var ákveðið að bregða útaf áður auglýstum dagskrárlið og þess í stað stíga á hjólhestana, stíga á sveif til Mosó, að vísu ekki til að fara á KFC, rölta síðan upp á Reykjafell og hjóla svo heim aftur.
Þau sem þarna sátu á hnökkunum voru:

Stebbi Twist
Krunka

Skemmst er frá því að segja að báðir aðilar náðu að skila sér lifandi heim aftur og hvorugur þeirra dó.  En þetta var vel hressandi og mætti alveg gera aftur og meira af. Þ.e hjóla svona að hólum í nágrenninu og rölta síðan upp á þá og hjóla svo til baka.
En allavega fyrir áhugasama þá má skoða myndir frá kveldinu hér

Kv
Gönguhjóladeildin

þriðjudagur, júlí 24, 2012

Horft til vezturs



Sem betur fer er farið að styttast í næzta mánudag sem táknar bara eitt. Það þýðir lík að það er heldur ekki langt í helgi. Komandi helgi er víst fríhelgi hjá Litla Stebbalingnum svo það er kominn ferðahugur í kappann. Enda er það góð skemmtun að gista í tjaldi.  Þar sem við hjónaleysin þurfum að vera í Dalasýzlu á messudag til að vera viðstödd jarðsetningu þá höfum við huga á því að halda veztur um helgina og amk enda í Dölunum á messudag.
Það er ekkert svo sem ákveðið ennþá hvernig helgin verður en margt kemur til greina. Það er hægt að fara beint veztur og slá upp tjaldi á Laugum í Sælingsdal. Kíkja í Guðrúnarlaug, rúnta um Fellsstönd og Skarðsstönd, rölta á Vaðalfjöll svo dæmi séu tekin.
Það kemur líka vel til greina að byrja á Snæfellsnesi, hugsanlega baða sig í Siggu og Stjána, finna einhvern hól og tölta á hann. Nú eða bara rúnta um svæðið og skoða eitthvað merkilegt. Ef einhverjir þarna úti hafa áhuga að koma með um helgina þá eru allar hugmyndir vel þegnar og að sjálfsögðu er allt skoðað.

Kv
Tjaldbúarnir

sunnudagur, júlí 22, 2012

Fagurt er fjallið

Þar sem nú er messudagur og ekki mikið eftir af honum er vel við hæfi að halda í hefðir og auglýsa næzta dagskrárlið í V.Í.N.-ræktinni. Nú komandi Týsdagskveld er það Fagradalsfjall sem hefur orðið fyrir valinu. Hól þessi er ekki langt frá Grindavík og ætlum við því að hætta okkur á Suðurnesin. Þessi ganga verður svona í lengra laginu fyrir kveldgöngu en það þarf ekkert að stöðva okkur.
Hittingur er við N1 í Gaflarabænum og við skulum aðeins vera í fyrra fallinu og því skal brottför verða kl:1800.

Kv
Göngudeildin

laugardagur, júlí 21, 2012

29"er



Litli Stebbalingurinn fékk þá flugu í höfuðið ekki fyrir löngu síðan að reyna að smala saman í hjólheztareið á mánudag ca um og eftir hádegi. Sá sem þetta ritar er í vaktafríi komandi mánudag og ef einhverjir þarna úti eru komnir í sumarfrí og nenna aðeins að stíga á sveif eru allir að sjálfsögðu velkomnir með. Ýmisleg kemur svo sem til greina en líklegast er Svínaskarðið ansi heitt þessa stundina. Maggi á móti er vel til, að því gefnu að kauði verði kominn aftur í Gnarrinburg. Alla vega sjáum hvað verða vill.

Kv
Hjóladeildin

föstudagur, júlí 20, 2012

Þrjú tonn af sandi



Rétt eins og kom fram hér var ætlunin að ganga á Sandfell þessa vikuna. Það varð að lokum lendingin að í gærkveldi, fimmtudagskveld, var haldið á heimaslóðir Bubba til þess að sigra Sandfell í Kjós. Líkt og við var að búast var nú ekki fjölmennt eða öllu heldur tvímennt. Það voru:

Stebbi Twist
Hvergerðingurinn

Þrátt fyrir að við höfum ekki séð skóginn fyrir trjánum þá tókst okkur að komast á toppinn í svona dæmigerðu íslensku sumarveðri þar sem við biðum eftir skúrunum sem aldrei komu. En hvað um það þá má skoða myndir frá göngunni hér

Kv
Göngudeildin

miðvikudagur, júlí 18, 2012

Leirkallarnir



Eins og var auglýst eftir hér þá voru uppi hugmyndir um að viðra seglskýli sín um síðustu helgi.  Eftir að hafa rýnt í fjöldan allan af veðurspám var afráðið að leggja suðurlandið undir fót. Einhverjir tóku forskot á sælunna og skellu sér á fimmtudeginum og ætluðu svo að hitta okkar. En þetta endaði sem þokkalega fjölmennri V.Í.N.-ferð. Sem er vel. En þau sem voru þarna á ferðinni voru:

Stebbi Twist
Krunka

á Polly


Maggi á Móti
Elín Rita
Andrés Þór
Birgir Björn

á Barbí og Ken


Hvergerðingurinn
Plástradrottingin með laumufarþega

á Brumma


Eftir þó nokkrar vangaveltur í Hnakkaville var afráðið að fara í Landsveit og slá upp tjöldum á Leirubakka. En Hvergerðingurinn og Plástradrottningin höfðu gert vettvangs-og rannsóknarferð á Tjaldstæðinu á Faxa og ekki litist nógu vel á. Berangurslegt og hvasst.
Alla vega þá var ekki hægt að kvarta yfir roki á Leirubakka er þangað var komið. Svo um kveldið var bara tekið þvi rólega, grillað burger, tekin skoðunarferð að lauginni og spilað Jenga. Auðvitað má ekki gleyma því að þeir Flubbabræður kíktu svo á okkur á álfugli stjórnað af þeim Yngri. Skemmtileg heimsókn það.

Á laugardeginum var bara byrjað á þvi að vinna í Tevu-farinu í rólegheitunum. Síðan þegar allir voru orðnir mettir var afráðið að skreppa í smá bíltúr að Skarfanesi með viðkomu hjá Þjófafoss. Við gjörðum þetta svo sem allt í rólegheitum, tókum okkur ágætis tíma við fossinn og ekki var svo hægt að taka eitthvað rallý á fólksbílunum á veginum í Skarfanes. Þegar í Skarfanes/Lambhaga var komið tók við hálfgerð paradís. Þetta var alveg jafn fallegt þarna og þegar litli Stebbalingurinn kom þarna síðast 8 ára pjakkur. Klárlega málið að koma þarna í útilegu við tækifæri með góðan mannskap með sér. Þarna var bara svo sem skoðað sig um, keyrðir einhverjir slóðar. Síðan við tóftirnr af Skarfanesbænum skildu leiðir því þar komum við að einhverjum læk sem fólkbíladeildinni leist ekki alveg nógu vel á en Maggi Brabra helt áfram. Við hin snérum við og heldum til baka þar sem við fundum okkur litla laut til að snæða smá nezti. Á bakaleiðinni var rennt við hjá Tröllkonuhlaupi og síðan bara rúllað aftur í tjaldbúðirnar þar sem leið að kveldmat. Um kveldið var síðan skellt á grillið, spjallað og endað svo í lauginni.

Messudagur rann upp og eftir mullersæfingar og morgunmessu var bara tjillað fram að kaffi þegar fólk var orðið klárt að koma sér af svæðinu. 1/3 af hópnum þurfti að fara í borg óttans en hin heldu áfram og gistu næztu nótt að Hamragörðum. Fólksbíladeildin fór í smá sunnudagsbíltúr og tók Heklubraut sem endar við Gunnarsholt og þar skildu leiðir

En einhverjir vilja rifja upp helgina nú eða skoða bara myndir þá má gjöra slíkt hér

sunnudagur, júlí 15, 2012

Sandur, sandur útum allt

Góðir lesendur já V.Í.N.-ræktin heldur áfram í nýrri viku. Að þessu sinni er ætlunin að skunda á eitt af  nokkrum Sandfellum sem eru hér á Skerinu. Þetta Sandfell er víst í Kjós og skv dagskrá er það á miðvikudaginn sem skal skundað á það. Reyndar þarf undirritaður að skella sér aðeins úr bænum annað hvort á miðvikudag nú eða fimmtudag. Ef af verður að maður fari á miðvikudaginn þá væri það vel þegið ef lagi væri að fresta göngunni fram á fimmtudag. En skiptir litlu hvorn daginn farið verður þá er hittingur á N1 í Mosó kl:1900

Kv
Göngudeildin

fimmtudagur, júlí 12, 2012

Hjól-sól



Nú síðasta þriðjudag var betur heldur stigið á sveif um höfuðborgarsvæðið. Það var farið í hjólheztaferð um höfuðborgarsvæðið í boði Danna Djús sem fararstjóra. Skemmtilegt við ferð þessa er að hún var þokkalega fjölmenn eða fimmmennt þó svo að nafnagiftin í hópnum hafi verið heldur ófrumleg en á ferðinni voru:

Stebbi Twist
Nafni Geir
Magnús frá Þverbrekku
Maggi á móti
Danni Djús

Farið var í blíðviðrinu frá Gullinbrú upp í Mosó, Hafravatn, Heiðmörk, Gaflarabær, Fossvog og í gegnum Fossvogsdalinn heim. Hjá Litla Stebbalingnum endaði þetta í 71,3 km og nokkrum öðrum eitthvað svipað. En alla vega var þetta hin bezta skemmtun í góðum félagsskap þar sem veðurguðurnir voru í góðu skapi,  en frumkvöðul V.Í.N. í hjólheztareiðum var þó saknað.  Kemur vonandi með næzt.
Fyrir áhugasama þá má skoða myndir frá túrnum hér

Kv
Hjóladeildin

þriðjudagur, júlí 10, 2012

Út vil ek



Nú senn nálgast ein júlíhelgi í viðbót og þar sem þetta er nú á prime time útilegutímabilsins þá er vel við hæfi að skella fram þeirri spurningu hvort fólk hafi hug á því að viðra seglskýli sín um komandi helgi. Það verður að teljast all verulegar líkur á því að við hjónaleysin munum leggja land undir fót og notfæra okkur blíðviðrið sem spámenn ríkizins hafa lofa almúganum. Það er ekkert ákveðið svo sem ennþá en allir eru velkomnir með hafi þeir einstaklingar áhuga á. Sömuleiðis væri gaman að heyra ef einhverjir aðrir séu með einhver plön og ef það myndi henta væri e.t.v hægt að sauma eitthvað saman

Kv
Útilegufólkið