þriðjudagur, nóvember 27, 2012
Fjölskylduútilegan 2013
Eins og Litli Stebbalingurinn var búinn að skella fram á Snjáldursíðu V.Í.N á lýðnetinu þá var kominn upp sú hugmynd með fjölskylduútilegu V.Í.N. 2013. Sjálfsagt eins og glöggir lesendur muna þá var hugmyndin að halda norður í Skagafjörð, nánar tiltekið á Steinsstaði, og slá þar upp tjaldbúðum helgina 14-17. júní n.k.
Við hjónaleysin, ásamt laumufarþeganum, komum við þarna síðasta sumar svona sem undirbúnings-og eftirlitsferð. Það verður að segjast að þarna er aðstaðan til fyrirmyndar. Flott tjaldsvæði með rafmagn í boði sem það vilja. Nú sömuleiðis er sá möguleiki fyrir þá sem ekki geta hugsað sér að liggja í seglskýli að leigja sér herbergi svo fáar eða engar afsakarnir eru teknar gildar. Sömuleiðis er hægt að komast inn og borða þar ef þannig viðrar og á neðra tjaldsvæðinu var amk í sumar samkomutjald sem hægt var að matast inní. Svo er þarna líka sæmilegasta sundlaug og úr heitapottinum hefur maður útsýni á Mælifellshnjúk. Ekki amalegt það.
Okkur ætti ekkert að leiðast þarna og getum fundið heilmargt til dundurs. Við strákarnir gætum skellt okkur á samgöngusafnið í Stóragerði á meðan kvennpeningurinn fer á hannyrðasafn og prjónabúðir.
Jæja þá er þessari upphitun lokið í bili með einhverjum nokkrum myndum frá staðnum og svo sjáumst við bara 14. júní n.k
Kv
Nemdin
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!