Mánudagurinn 06.08: Haldið norður á boginn
Það var hið þokkalegasta veður á mánudeginum enda bezti dagur vikunnar þegar pakkað var niður í Fljótstungu. Það var ákveðið að halda nú norður á boginn. Ekið var sem leið lá í gegnum Hvítársíðuna og heilzað upp á nokkrar geitur í leiðinni en annars tók við þjóðvegaakstur með kaffi/pizzustoppi í Staðarskála.
Ekki vorum við að flýta oss of mikið og Hrabbla hafði ekki komið að Hvítserk svo það var lagt út á Vatnsnesið til berja þetta náttúruundur augum. Við röltum niður í fjöru hjá þeim arna til berja Serkinn augum ekki bara af útsýnispallinum, enda ekkert að flýta okkur. Þegar búið var að skoða kauða var næzt komið við í Borgarvirki og útsýnisins notið þaðan enda þar víðsýnt. Að svo búnu var haldið sem leið lá yfir í Skagafjörð. Í Varmahlíð var kíkt á lýðnetið og næztu skref ákveðin. Sum sé að tjalda á Steinstöðum og stefna á Hreppsendasúlur daginn eftir.
Það var svo slegið upp tjaldi á Steinstöðum og skellt sér þar í sund njóta þar útsýnisins á Mælifellshnjúk úr pottinum. Að loknu baði tók við eldamennska þar sem íslenska lambakjetið var matreit og nýtum við tjaldstæðagjaldið með að elda sósuna inni og éta þar svo. Síðan var bara slakað á og notið þess að vera í fríi, röltum aðeins um svæðið og komust að einu þar. Sem er að næzta sumar væri tilvalið að fara í fjölskyldu útilegu V.Í.N. norður á Steinstaði. Þarna er flott aðstaða, hægt að komast inn, sundlaug á staðnum og nóg hægt að gjöra í nágrenni. Það er amk tillaga að hafa fjölskyldu útileguna 14-17.júní á næzta ári. Ekki stemning fyrir því??
Frá deginum má skoða myndir hér