þriðjudagur, september 29, 2015

Á jaðri þess að vera...



Næzt komandi messudag höfum vjer Magnús frá Þverbrekku tekið stefnuna á að fara Jaðarinn. Þar sem stóri stúfur hefur ekki enn farið þessa snilldarleið þá er ekki seinna vænna. Ekki er ennþá komin nákvæm tímasetning en óhætt að fullyrða að hún verður á sunnudag komandi. En allavega eru allir áhugasamir velkomnir með og jafnvel má búast við smá drullumalli

Kv
Hjóladeildin

mánudagur, september 28, 2015

Agureyrish 2015: Dagur 4



Já, helgin er svo lengi að líða. Hversu lengi má ég bíða...fram á þriðjudagskvöld.
Að vissu byrjaði dagurinn á morgni en ekki kveldi. Svona snemma dags var því bara tekið rólega til að byrja með. Síðan var haldið í næzta sveitafélag fyrir sunnan þ.e niður í Hrafnagil og kíkt í heimsókn í jólahúsið. Líkt og áður var bætt aðeins í jólaskrautssafnið og teknar myndir allt voðalega venjubundið eitthvað. Svo á heimleiðinni kom upp sú skyndihugdetta að koma við í Fnjóskadal og rúlla yfir Vaðlaheiðina í leiðinni. Það var skemmtileg tilbreytni að keyra yfir Vaðlaheiðina um komin upp hugmynd með hjólaleið einn daginn. En hvað um það. Við komum svo niður hjá gangnaframkvæmdunum austanmegin og hvergi var Stebbi Geir sjáanlegur. En á bakaleiðinni var bara farið yfir Víkurskarð. Þegar í Tröllagilið var komið aftur fóru þær mæðgur að baka snúða við mikinn fögnuð. Síðar um kveldið gjörðist Litli Stebbalingurinn ,,sjálfboðaliði" hjá Rauða krossinum er tengdaföðurinn plataði kauða til að hjálpa til við að fylla einn 40´ gám af fötum. Þar í miðjum klíðum hitti maður dreng einn fyrir, er var að losa sig við gömul föt, þar sem ákveðið var að fara að hjóla á fimmtudagskveldinu. Fleira er svo sem ekki að segja frá þessum degi

Alla vega þá má skoða myndir frá deginum hjer

fimmtudagur, september 24, 2015

Agureyrish 2015: Dagur 3

Á þriðjadegi sem var að þessu sinni mánudagur var hvíldardagurinn tekin bókstaflega og nánast ekkert gjört. Amk ekkert sem telst til tiðinda. Bara kaffiboð og svo kveldmatur. En gott öðru hverju að gera ekki neitt

miðvikudagur, september 23, 2015

Agureyrish 2015: Dagur 2



Þá var kominn messudagur norðan heiða, sem og sjálfsagt annarsstaðar á landinu.
Dagurinn byrjaði á því að skreppa að Ystu-Vík. Sem sjálfsagt vekur upp minningar hjá Blöndahl og Jarlaskáldinu frá 2002. En hvað um það. Þar átti að dífa girni í vatn og reyna vekja upp veiðieðlið. En í stuttu máli er þarna fiskeldi og seld veiðileyfi í nokkrar tjarnir sem þar eru og er allt skaffað og líka beitu. Við við náðum þarna fjórum kvikindum af regnbogasilungi og aðeins er greitt fyrir veiddan afla, 1500kr/kg og maður fær bara flakað, tilbúið á grillið. Í kveldmatinn var sum sé regnbogasilungur. Sæmilegt það.

Síðan um kveldið héldum við niður í bæ á útitónleika sem þar voru. Til að vera alveg hreinskilinn með þá er ekkert gott hægt að segja um þá. Lélegt lineup skelfilegt hljóðkerfi sem var svo toppað með slappri flugeldasýningu. En eftir þetta allt saman komum við við á Pósthúsbarnum og fengum okkur einn kaldan, hressandi fullorðins svaladrykk á meðan bílstjóri kveldsins sá um að koma öllum til síns heima

En burtsjeð frá því öllu þá má skoða myndir frá deginum hjer

mánudagur, september 21, 2015

Agureyrish 2015: Dagur 1



Þá var komið að því þetta sumarið að fara norður til Agureyrish í hina árlegu sumarheimsókn. Þar sem Krunka þurfti að taka eina vinnuviku svona í miðju sumarfríinu síðustu vikuna á júlí var haldið í´ann norður yfir heiðar laugardaginn um verzlunnarmannahelgina þetta árið. Þar sem búið var að fezta kaup á ,,jeppa" var auðvitað haldið upp á hálendið til að komast í höfuðstað norðlendingafjórðungs. Enginn öræfaótti hjer.

Það átti sum sje að skrölta norður Kjöl og með smá útúrdúr á leiðinni. Fyrsti stanz var í Mosó þar sem það þurfti jú að snæða aðeins og varð Subway fyrir valinu. Síðan heldum vjer sem leið lá á Kjalveg yfir Mosfellsheiði. Ekki veit maður hvaðan allt þetta fólk kemur sem var við Geysi en þar var nú bara eitt stórt kaos en við sluppum þar í gegn.

Er komið var upp á Kjalveg og um leið og malbikinu sleppti var stökkið út til að mykja í dekkjunum. Kjölur var bara hin sæmilegasti enda búið að vinna í veginum og hækka hann upp nánast alla leið að Árbúðum. En þar rétt áður sleppir nýja veginum og sá gamli tók við. Þar þekkti maður Kjölinn sinn og var hann svoleiðis alveg fram að Hveravöllum og þessa 12 km norður af þeim.
Það að gjörður stuttur stanz á Hveravöllum, aðeins að teygja úr sjer og losa þvag. Úff hvað aðstaðan þarna er orðin sjoppuleg og eiginlega bara sóðaleg. Eftir að Skotta hafði aðeins fegnið að sletta úr klaufunum m.a í rennibraut og Litli Stebbalingurinn rölti um og skoðaði hin ýmsu farartæki sem þarna voru, eins og við má búast voru þarna nokkur áhugaverð tæki á ferðinni. Svo þurfti einfaldlega að halda áfram för oss þó svo sem að ekkert hafi legið á.
Við heldum sem leið lá í norðurátt og ekki leið á löngu uns vjer komum að Blöndulóni og er við komum að norðurenda þess var stefnan tekin í austurátt og keyrt yfir tvær stíflur við lónið. Þarna sá maður að greinilegt að ekki var mikið í lóninu eins og komið hafði fram í fréttum fyrr um sumarið. Þegar á Eyvindarstaðaheiði tókum við vinstri beygju og heldum í norður í átt að Blöndudal en þangað fórum við ekki heldur ofan í Svartárdal og nánast bara beint upp úr honum aftur og yfir Kiðaskarð. Þegar yfir Kiðaskarð var komið vorum vjer í Skagfirskaefnahagssvæðinu rétt við Mælifellshnjúk.
Í Varmahlíð var svo gjört örstutt pissustanz og svo beið manns bara Öxnadalsheiðin. En mikið fjári er langt til Agureyrish eftir að maður kemur niður af Öxnadalsheiði, held svei mjer þá að hún verði alltaf lengri og lengri eftir því hvað maður fer oftar þarna um. Við komum svo til Agureyrish og renndum bara beint í Tröllagilið.
Þar sem það var víst verzlunnarmannahelgi og Halló þarna Agureyrish var í gangi skruppum vjer í miðbæinn þar sem tónleikahöld voru í gangi. Þar komu fram m.a hinir þingeysku ,,Ljótu hálfvitar" við sáum þá spila á útisviði örfá lög og höfðum gaman af. Svo kíktum við á Símstöðina og fengum okkur Einstök White Ale úr krana. Ansi ljúffengur sá. Síðan bara haldið heim á þokkalegum kristilegum tíma.

Sé einhver vilji þá geta einstaklingar skoðað myndir frá deginum hjer

föstudagur, september 18, 2015

Frá Hlöðufelli niður í Úthlíð



Nú í sumar hafði VJ komið með þá hugmynd að hjóla frá Hlöðufelli og niður í Úthlíð þar sem kauði var í sumarfríi ásamt sínu fólki í bústað einum þar.

Hann lét nokkra vita og þriðjudag einn var ákveðið að kýla á þetta. Að auki lét nú Stebbalingurinn Magga Móses vita en hann afþakkaði.
Það var svo hittingur í bústaðnum í Úthlíð kl:1100 á þriðjudagsmorgni en þangað var stefnt:

Stebbi Twist á Cube LTD SL sem kom á Konungi jeppanna
Eldri Bróðirinn á Merida One Twenty 7.800 og renndi hann í hlað á Litla Kóreustráknum
Danni litli á Scott Scale 735 og kom akandi á Hyundai i10, lét kauði að sjálfsögðu bíðaeftir sjer en við hinur græddum bara kaffi á meðan í staðinn
Síðan gestgafinn VJ sem var með sína Merida One Twenty 7.800

Síðan var öllum hjólheztunum raðan á Konung jeppanna og farið sem leið lá upp Efsta Dalsfjall og leiðin sú sem liggur að Hlöðufelli. Síðan fórum vjer vestan megin við Hlöðufell og uns komið var norðan megin við Hlöðufell var stanzað, bílnum lagt, hjólin tekin af og fljótlega hafist handa við að stíga á sveif. Við hjóluðum sem leið lá yfir klappir og hraun austan megin við Hlöðufell. Þegar suður fyrir Hlöðufell var komið var gjörður stuttur stanz við skálann á Hlöðuvöllum. Hann er nýuppgerður og er orðinn hins glæsilegasti. Það sem helst telst til tíðinda er að í skálnum hefur verið skipt um gardínur. Það telst nú til tiðinda. Eftir að hafa kvittað í geztabók að gömlum og góðum íslenzkum sveitasið heldum við för áfram. Ferðin gekk vel og sótist bara ágætlega áfram, sólin skein í heiði og allir sáttir við lífið og tilveruna. Svo komum við á Rótarsand og þá þyngdist róðurinn betur heldur. Þar hefði verið gott að vera á Fat-bike.
Brúarskörð er magnaður staður og þar var gaman, vel þess virði að hafa gert stopp þar. Magnað umhverfi. Eiginlega ekkert hægt að lýsa þeim neitt nánar, bara hægt að segja fólki að fara á staðinn og sannreyna það.
Við heldum svo bara áfram í sól og blíðu. Ekki leið svo á löngu, eftir Brúarskörð, dró ský fyrir sólu og hann byrjaði að rigna sem síðan síðan breyttist í haglél. Ekki mjög svo hressandi að fá haglið berjandi á mann. Lítið annað hægt að gjöra samt en að halda áfram bara klæða sig eftir veðri.
Þegar komið var svo að Hellisskarði fór veðrið að batna og við bara brunuðum þar niður og ekki leið á löngu uns sólin kom fram aftur. Að vísu misstum við að slóðanum til að komast að Miðfelli en það kom svo sem ekki að sök. En slóðin eftir Hellisskarð var mjög skemmtilegur og svona c.a að miðja vegu að Úthlíð. Við renndum svo aftur að bústaðnum í Úthlíð.

Það kom svo að því að það þurfti að rúlla eftir Konung jeppana og eftir smá hressingu sem fataskipti fór Eldri Bróðirinn með Litla Stebbalinginn á Litla Kóreustráknum uppeftir. Það tók svo sem sinn tíma en ekkert svo sem óeðlilega langan. Er leiðir skyldu þar sem Konungur Jeppana var skilinn eftir fór Eldri Bróðirinn sömu leið til baka þ.e aftur niður í Efsta-Dal og sá sem þetta ritar fór sem leið liggur vestur línuveginn inn á Kaldadalsveg og þaðan niður á Þingvelli. Þar með lauk sérdeilis aldeilis prýðilegum hjóladegi í góðum hóp á skemmtilegri leið

En fyrir þá sem áhuga hafa má skoða myndir hjer

Kv
Hjólheztadeildin

miðvikudagur, september 16, 2015

Skarð svínanna



Veit að spámenn ríksins eru ekkert alltof vongóðir en þrátt fyrir það þá vitum vjer þá staðreynd að veðurfræðingar ljúga. Í ljósi þeirrar staðreyndar langar Stebbalingnum að varpa þeirri hugmynd hjer fram og spurningu hvort að sé vilji og eða áhugi fyrir því að hjólheztast Svínaskarðsleið um komandi helgi annað hvort þá laugardag eða sunnudag. Fer bara eftir því hvort hvað henti áhugasömum, séu einhverjir slíkur, eða veðurspá.
Alla vega hugmynd og sjáum til hvað verða vill

Kv
Hjólheztadeildin

þriðjudagur, september 15, 2015

Úti í Jaðri alheimsins



Þá var runninn upp bezti dagur vikunnar sem er auðvitað mánudagur. En allavega Litli Stebbalingurinn hafði mæt Magga á móti á förnum vegi fyrir tilviljun og í kjölfarið símast við hvorn annan. Þar var ákveðið að taka eins og einn Jaðar eða svo enda veður með ágætum. Það átti svo eftir að bætast í hópinn um einn. Aðeins síðar bauð Hólmvaðsklanið oss litlu fjölskyldunni á H38 í pizzu eftir Jaðarstúr. Slíkt var að vonum vel þegið með þökkum.
En þennan dag fóru í hjólheztatúr:

Stebbi Twist á Merida One Twenty 7.800
Maggi Móses á Merida One Twenty 7.800
Sigurgeir gjaldkeri á Trek 6.Series

Krunka sá svo um að skulta oss uppeftir ásamt Skottu á Konungi Jeppanna.

Svo var bara að rúlla af stað niður í mót. Ferðin gekk vel og ætíð stuð að renna þessa leið. En svo kom að því. Viti menn og þið megið giska en Lilti Stebbalingurinn sprengdi. Enda hjólaði hann svo hratt að það sprakk. Að þessu sinni sprakk að framan aldrei þessu vant. En eins og tjellingin sagði eitt sinn: ,,aldrei að sleppa góðu brasi". Með varaslöngu í hnakktöskunni var þessu fljótlega reddað og haldið áfram leið oss. Nú fórum við ,,réttu" leiðina og það verður að segjast að sú leið gerir skemmtilega leið bara skemmtilegri. Svo tók bara hraunið við. Þegar við vorum rétt svo komnir af hrauninu og inn á veginn í Heiðmörk var vinstri pedalinn hjá Litla Stebbalingnum eitthvað skrítinn og þegar átti að skoða það betur hékk pedalinn bara laus úr sveifinni undir skónum hjá kauða. Hafði sum sé slitið sig úr sveifinni og rifið með sjer allar gengjurnar. Það var hægt að skrölta aðeins á þessu svona en svo þurfti bara að hringja í vin og láta sækja sig en þá var maður svo sem kominn langleiðina að Helluvatni svo ekki kom það mikið af sök.
Það var svo endað bara í Hólmvaðinu og grillaðar þar flatbökur.

Hjer má svo skoða myndir frá deginum

Kv
Hjólheztadeildin

mánudagur, september 14, 2015

Sumarfrí: Skúraleiðingar



Laugardagsmorguninn kom. Eftir að hafa fengið oss morgunmat sem ma innihelt beikon og kaffi var farið að gjöra klárt fyrir brottför. Dótinu hlaðið aftur í Konung Jeppanna. Nú er allt var að verða klárt til burtfarar heyrðum vjer í þyrilvængju starta og vakti það forvitni og ekki síst þegar maður heyrði að þetta væri tveggja cylendra þyrilvængja. Skömmu síðar sáum við Dauphininn frá Norðurflugi rísa upp og svífa á brott. Síðar kom svo í ljós að þarna var á ferðinni Billi nokkur Hlið. En hvað um það.

Vjer kvöddum svo höfðingshjúin og þökkuð kærlega gestrisnina og gistinguna áður en haldið var í óvissuna. Þ.e við vissum ekkert hvert átti að fara né hvað átti að enda. Vísu voru uppi hugmyndir að kíkja aðeins á Kjöl og jafnvel aðeins í Hagavatn eða miklu heldur á skálann undir Einifelli. Byrjað var á því að kanna aðstæður til tjöldunar í Skjóli. En hætt við það það. Þessi nafngift á tjaldstæði er eitt það mezta rangnefni, bara rétt eins og Hólaskógur, þvi þetta er á algjörum berangri og ekki einu sinni hrísla þar til mynda vott af skjóli. En hvað um það. Vjer heldum bara leið oss áfram upp á hálendi en þá komu bakþankar í Krunku og hún vildi endilega meina að hún hafi komið upp að Hagavatni svo úr varð að kíkja aðeins að Fremstaveri í staðinn. Við ókum bara veginn sem beygir útaf Kjalvegi áður en lagt er í´ann upp Bláfellsháls. Var það fínasti slóði og gjörðum við stuttan stanz í skálanum við Fremstaver. Skoðuðum bygginguna aðeins og kvittuðum í geztabókina svona af gömlum og góðum sið. Síðan var bara að halda til baka á Kjalveg en nú skyldi farið efri leiðin sem endar, nú eða byrjar, uppi á Bláfellshálsi. Sá slóði byrjaði sæmilega en fljótlega varð hann grófari og grófari uns komið var bara í gott jeppó. Gaman að því. Þarna á leiðinni byrjaði að skúra á oss og það meira að segja bara nokkuð hressilega. Svo er þurfti að fara yfir eina sprænu sem var mikið grýtt og með háa bakka heyrðum vjer er afturstuðarinn rakst niður en ekki dugði það til að stöðva för konung jeppanna og haldið var sem leið lá unz endað var uppi á Kjalveg. Hann ókum við svo til baka unz komið var að vegamótunum við Haukadalsheið og þar tekin hægri beygja, ætíð gaman að beygja til hægri í lífinu, og sá slóði farinn alveg þar til endað var á Geysi. Nú er vjer vorum þar á ferðinni fór einhver ulli að benda á afturhlutann hægra megin á Galloperinum en pældi ekkert svo sem í því. Hugsaði hann er örugglega að benda á hvað það er lítið í dekkunum.
Þegar loks við fundum svo stæði við Geysi kom í ljós að hægra afturljósið hékk bara á vírnum hafði greinilega losnað í hamagagnum frá Fremstaveri að Kjalvegi aftur. Því var nú reddað snarlega. En þvílík mannmergð þarna inni á Geysi og við ákvöðum snarlega að forða okkur á brott þegar allir höfðu tæmt blöðruna og jafnvel verðlauna okkur með ís í Efsta-Dal.
Þar sem það var farið að ganga á með ansi hressilegum síðdegis hitaskúrum var svona orðið spursmál hvað við ættum að enda um daginn. Við fórum og fengum okkur í í Efsta-Dal og hægt að mæla með heimsókn þar. Svona túrhesta fjós og heimagjörður ís. En einhvern tíma þarna heyrðum við í Boggu og voru þau þá á leiðinni aftur til Reykjavíkur frá Hvammstanga. Þar sem það rigndi nánast eld og brennisteinn á meðan við vorum, aður en við komum og eftir að við fóum í Efstal-dal kom upp sú hugmynd að enda bara í borg óttans og athuga hvort Bogga og Eyþór myndu ekki bara vilja hitta okkur og elda saman kveldmat. Varð það sum sé niðurstaðan og þannig endaði sumartúrinn 2015 í góðra manna hóp að borða góðan mat

En vilji fólk þá má það skoða myndir frá deginum hjer

föstudagur, september 11, 2015

Sumarfrí: Kíkt í bústað



Upp var kominn föstudagur eða eins og gárungarnir kalla hann: Flöööööskudagur.
Þannig var nú mál með ávexti að Hvergerðingurinn þurfti að fara í bæinn þar sem til stóð að steggja félaga hanz því voru kauði og stelpurnar hanz á heimleið. Danni Djús og Huldukonan ætluðu að fara í bústað í Fljótshlíðina. En við vissum bara ekkert hvað gjöra skyldi. Að vísu hafði VJ gjörst svo höfðinglegur að bjóða oss í kaffi í Úthlíð þar sem hann ásamt sínum voru á leið í bústað þar. En fyrst þurfti nú að finna sjer sitthvað til dundurs.

Þar sem komið var fram að hádegi ákvöðum við að byrja á að kíkja yfir í Reykholt og prufa þar kaffihúsið/veitingastaðinn Mika. Vjer rúlluðum þanngað og inn þar sem oss var vísað á borð ásamt matseðli. Það tók ekki langan tíma að velja af honum en humarsúpa skyldi það vera og fengum við að auku hálfan skammt fyrir Skottu. Vel er hægt að mæla með þessum stað. Fín þjónusta og afbragðs humarsúpa og ekki skemmdi fyrir að verðið var heldur ekki úti á þekju þ.e útlendingaverð.
Eftir mat var farið að velta því fyrir sjer hvar vjer ættum að skella oss í sund. Niðurstaðan var sú að fara í Hnakkaville og taka þar út framkvæmdirnar við Sundhöll Árborgar.
Jú, jú þetta er allt orðið voða nútímalegt og svona sundlaugarlegt en gamli hlutinn hafði nú meiri persónuleika yfir sjer. En þetta ágætt svo sem og vaðlaugin þarna er góð.
Eftir sundið heyrðum við í Eldri Bróðirnum og hittum hann fyrir til að oss ís. Það var farið á Huppu og skellt í sig bragðarref þar. Svo var bara haldið austur í Úthlíð.

Þar tóku VJ og HT vel á móti oss og gaman að hitta á þau. Það var að sjálfsögðu boðið upp á kaffi af íslenzkum sveitasið. Það leið svo að kveldmat og oss var boðið afnot af grillinu sem var þegið með þökkum. Svo endaði með því að þau buðust til veita okkur þak yfir höfuðið eina nótt. Sannkallaðir höfðingar heim að sækja. Slíku boði var ekki hægt að hafna og enduðum vjer því sem næturgeztir í Úthlíð. Sátum við svo frameftir nóttu að spjalla og spá í hinum ýmsu hlutum. Svo auðvitað leystum flest öll heimsins vandmál, man bara ekki nákvæmlega hvernig við ætluðum að gjöra það. En það var ógeðslega sniðugt eins og við ætluðum að gera það.

En allavega ef einhver hafi áhuga má skoða myndir frá deginum hjer

fimmtudagur, september 10, 2015

Sumarfrí: Dýragarðsbörnin



Upp var kominn fimmtudagur og þá bætist í hópinn. Danni Djús og Huldukonan komu og tjölduðu hja oss ásamt sonum sínum þeim Steina og Bjössa. Þegar leið fram að ca hádegi fórum við að koma oss að Laugarás þar sem skyldi skundað í Slakka þar sem skoða átti dýrin. Er þangað var komið fannst oss einn Hrælux þar kunnuglegur og setum vjer smurningarmerki hvort þar væri Viktor, Áslaug og Arnar Þór á ferðinni. Síðar kom í ljós að svo var. En allavega þá fórum vjer um skoðum dýr og hnáturnar leiku sjer líka að dótinu þar. Eftir dýragarðsferð og ís var haldið yfir í Reykholt þar sem sundlaugin var könnuð og kom hún ágætlega út þetta sumarið. Eftir sundferð var bara haldið aftur í Brautarholt og þar farið að huga að kveldmat.

Eftir mat og búið var að koma afkvæmunum ofan í svefnpoka sátum við ,,fullorðna" fólkið áfram með öl og spjölluðum um hitt og þetta en samt aðallega ekki neitt.

En það má sjá myndir frá deginum hjer

miðvikudagur, september 09, 2015

Sumarfrí 2015: Haldið í sólina



Upp var kominn miðvikudagur og smurning um hvað gjöra skyldi. Hólmvaðsklanið hafði hug á því að fara halda heim á leið með kannski smá útúr dúr á norðanverða vestfirði. Plástradrottningin og Hvergerðingurinn höfðu haldið kveldið áður í áttina að oss. En vegna tannpínu þurftu þau frá að hverfa í Búðardal, þar sem þau giztu, en höfðu svo hug á að halda á suðurlandið.

Eftir smá fundarhöld þar sem rýnt var í veðurkort var tekin ákvörðun um að halda amk á vesturlandið og heyra þar í Plástradrottingunni og Hvergerðingnum. Því var pakkað niður og við kvöddum ferðafélagana á þessu annars prýðilega tjaldstæði þeirra Tálknfirðinga. Er vjer vorum klár til brottfarar var hafist á þvi að halda til Bíldudals. Þar var aðeins rúntað um bæinn og tankað. Síðan var bara ekið sem leið lá um firði og heiðar uns komið var í Flókalund. Þar var gjört matarstanz og teygt úr zjer. Eftir að allir voru mettir var ekkert annað í stöðunni en að aka sem leið lá um Barðaströnd sem er komin með sína annars ágætu vegi. Svo sem ekki mikið hægt að segja um þetta annað en þetta var bara þjóðvegaakstur með einhverjum 27 km ómalmikuðum kafla uns vjer komum á vesturland. Þar heyrðum vjer í Hvergerðingnum. Hann tjaði oss að þau væru komin í Brautarholt og ætluðu að vera þar. Sú ákvörðun var ekki erfið að bruna bara sem leið lá yfir Kaldadal og á Suðurlandsundirlendið. Kaldidalur var bara hinn ágætasti en gaman að því hvað mikill snjór var á svæðinu hvað hann  náði neðarlega. Venju skv var stanzað við vörðuna og bætt í hana enda í fysta sinn sem Skotta átti leið þarna um. Það var svo svona frekar seint um kveld er vjer renndum í Brautarholt og hittum á Hvergerðinginn og Plástradrottinguna ásamt foreldrum hennar.

Vjer slógum bara upp tjöldum í kring og skelltum svo á grillið enda allir orðnir frekar hungraðir eftir þennan keyrzludag.

En fyrir þá sem vilja má skoða myndir frá deginum hjer

föstudagur, september 04, 2015

Sumarfrí 2015: Ammælisdagur



Þá var kominn þriðjudagur. Loksins enda er helgin svo lengi að líða. En alla vega þá var því bara tekið rólega um morgnuninn. Krökkunum leyft að sprikla úti og vjer hin sötruðum bara kaffi ásamt því að gjöra uppvask inní þjónustuhýsinu.

Svo var komið að því að skoða sig um. Ekki var svo sem farið langt en haldið var á Suðureyri. Þá erum við ekki að tala um Suðureyrina við Súandafjörðinn heldur þessi við Tálknafjörð. Sum sé hinum megin fjarðar er eyri sem nefnist einmitt Suðureyri og þar standa rústir af hvalveiðistöð sem ku vera víst sú fyrsta sem hvalveiðþjóðinn Ísland átti, reisti og rak. Til að komast þar að þurfti að skrölta smá vegarslóða ekkert alvarlegan en skemmtilegan engu að síður. Síðan er á Suðureyri var komið var þvi bara tekið rólega. Rústirnar skoðaðar, farið í fjöruferð, fylgst með einhverjum hvölum, vel við hæfi svona á gamali hvalstöð, síðan endað á smá neztistíma. Þegar tími var til að skrölta til baka fór Stebbalingurinn að velta því fyrir sjer að reyna redda sjer handklæði því ekkert slíkt var til í Tálknafirði til kaups amk. Í base camp var því ákeðið að skreppa í næzta sveitarfélag á meðan Hólmvaðsklanið ætlaði að skella sjer á sitjandi kæjak í tilefni ammæli Birgis Björns. Úr varð að við litla fjölskyldum tókum Magnegu Mörtu með í bíltúr yfir heiðina. Þær vinkonur skemmtu sjer konunglega yfir Línu Langsokk á leiðinni og rúllaði diskurinn amk tvisvar sinum á leiðinni. En hvað um það.

Við komum yfir á Patreksfjörð og renndum beint í nýlenduvöruverzlun þar. Kaupmaðurinn þar átti ekki handklæði en, já bíðið við, þarna inní verzluninni var kona ein sem tjáði oss það hún ætti heima hjá sjer handklæði sem hún gæti selt oss. Hún rúllaði bara heim og kom til baka með handklæði og fram fóru vöruskipti. Svo var nú ekki nóg með það heldur lét nýlendivöruverzluninn oss hafa plastskálar, því engin var djúpur diskur með í för. Já manni er oft reddað. Kunnum við öllu þessu fólki hinar beztu þakkir fyrir. En góðverkum kaupstaðarbúa var ekki lokið. Það vantaði líka eins og einn bolta í grillið og því var byggingarvöruverzlun þefuð uppi. Þar gróf kaupmaðurinn upp úr einni skúffu bolta og ró sem gat reddað málunum og þegar Litli Stebbalingurinn spurði hvað hann skuldaði fyrir þjónustuna var honum sagt ekkert og vinsamlega beðinn um að koma sjer út áður en skipt yrði um skoðun. Maður á varla til orð yfir þjónustuvilja bæjarbúa. Næzt verður tjaldað á Patreksfirði þegar sunnanverðir Vestfirðir verða teknir almennilega til skoðunnar. Þegar þessum erindum var lokið var ekkert annað að gjöra en koma oss aftur yfir á Tálknafjörð. Áður en vjer komum í þorpið sáum við Magga og co úti á pollinum að róa. Við renndum niður í fjöru til að fylgjast með þeim og auðvitað aðeins að heilza þeim.

Er komið var aftur á tjaldstæðið á Tálknafirði var skellt sjer í sundlaug bæjarins. Sæmilegasta laug þar og fyrir tjaldgezti kostaði ekkert inn. Nema fyrir okkur handhafa útilegukortsins. Þegar sundferðinni var lokið og allir orðnir hreinir og fínir fyrir ammælisveizlu kveldsins var haldið sem leið á Hopið í flatbökuveizlu.


Vilji fólk skoða myndir frá deginum má sjá þær hjer

fimmtudagur, september 03, 2015

Sumarfrí 2015: Haldið ve(r)stur



Eftir góða helgi á suðurlandinu hafði Maggi á móti samband og tjáði oss að Hólmvaðsklanið væri á ve(r)stfjörðum sunnanverðum. Þegar spurt var til veðurs var það sagt mjer að veður væri með ágætum þar. Það var því niðurstaðan að hlaða konung jeppana, koma við í nýlenduvöruverzlun og halda svo sem leið lá ve(r)stur á Tálknafjörð.

Satt bezt að segja leist oss eiginlega ekkert á blikuna á leiðinni því lognið var á mikilli hraðferð mezt alla leiðina. Í Svínadalnum helt maður fast í stýrið og stýrði á móti vindinum. Á Barðaströndinni var Breiðafjörðurinn ekki beint frýnilegur. En svo upp á Kleifaheiðinni um leið og öll vötn fóru að falla til Patreksfjarðar datt allt bara í dúnalogn. Er vjer komum svo á tjaldstæðið á Tálknafirði og hittum þau heiðurshjón fyrir var veður hið ágætasta. Amk logn. Vjer hentum upp tjaldi oss eða öllu heldur tjöldum. Svo var haldið í léttan göngutúr og endað á bæjarkráninni og splæzt á sig einum köldum úr krana. Er komið var aftur á tjaldsvæðið komu fullorðna fólkið afkvæmunum í koju og heldu síðan áfram léttu spjalli.

En alla vega þá má skoða myndir frá deginum hjer

miðvikudagur, september 02, 2015

Í brúðhlaupi: Messudagur



Messudagurinn kom upp í austri. Eða eitthvað álíka. Ekki var hægt að kvarta undan blíðunni þenna dag frekar en þann á undan. Eftir morgunmat, messu og mullersæfingar var komið að því að trítla af stað til byggða. Litli Stebbalingurinn hafði fengið þá hugmynd í kollinn að aka slóða sem liggur meðfram Ytri Rangá þ.e vestanmegin við. Bara svona til að fara ekki alltaf sömuleið.

Þessi leið kom skemmtilega á óvart. Maður hefur góða sýn yfir Rangárvellina, sjer Tindföll og þúsund ára ríki FBSR, sem og Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull. Ekk var svo til að skemma fyrir að sjá aðeins glita í Þórsmörk. Amk skemmtileg leið og vel hægt að mæla með henni eigi fólk á annað borð leið þarna um.

Við komum svo niður á þjóðveg 1 við Hellu. Þá var ákveðið að skella sjer fyrir brúna og kæla sig niður með rjómaís og um leið að slútta helginni. Eldri Bróðirinn fór á Flúðir en við hjónin héldum bara sem leið lá í borg óttans

En sje áhugi fyrir hendi má skoða myndir frá deginum hjer.

þriðjudagur, september 01, 2015

Í brúðhlaupi: Laugardagur



Laugardagur rann upp og vissulega var bjartur sem fagur. Ástand fólks var svona eftir atvikum en ekki svo slæmt að ekki væri hægt að spæla egg og skella beikoni á grillið. Svo var bara sitið aðeins og spjallað í blíðunni enda lá svo sem ekkert á
.
En eftir að hafa tekið saman partýtjaldið hjá Eldri Bróðirinum, en öll herbergi voru bókuð þá nótt. Var hægt að koma sér eitthvað út í buskann. Fyrsti stanz var í bústaðnum hjá foreldrum Eldri Bróðirins þar sem kauði var með timburmenni handa þeim. Líkt og oft áður réð þar blíðan ein völdum. Líkt og áður var oss tekið með kostum og kynjum og boðið upp á kaffi og með því að íslenzkum sveitasið og kunnum við þeim beztu þakkir fyrir höfðinglegar móttökur.

Eftir kaffisópann og smá bakstur af sunnlenzku sólinni var stefnan tekin á Þjórsárdal. Þess má geta að þar hafði Krunka aldrei komið. En við fórum þar og kíktum á Stöng í Þjórsárdal, leituðumst líka eftir Gauki Trándilsyni til að rökræða um leggjalengd fornmanna. Eftir þjóðveldisbæinn var haldið sem leið lá í Gjána. Þar vorum vjer bara í rólegheitum og nutum þeirrar vin í eyðimörkinni sem Gjáin er. Það var síðan ákveðið að klára veginn uppeftir og kíkja í kaffi við Hólaskóg. Yfir kaffibolla nú eða gosflösku var staðan aðeins tekin. Litla Stebbalingnum datt í hug að fara í Skarfanes og slá þar upp tjöldum.Vjer ókum sem leið lá þangað, en mikið var Landvegurinn skelfilega leiðinlegur allt fína efnið horfið og nær eingöngu stórgrýti.

Eftir að hafa beygt út af þjóðveginum til halda í Skarfanes var kíkt bæði á Tröllkonuhlaup sem og Þjófafoss. Það er skemmtilegt að koma svona norðan frá í Skarfanes. Maður keyrir bara á algjöri auðn en kemur svo inn í flottan og skjólsælan birkiskóg. Þar er leyfilegt að tjalda en engin þjónusta er á staðnum svo það er bara að taka allt sitt aftur. Þar voru nokkrir fyrir á svæðinu og búnir að koma sjer fyrir í nokkrum lautum. Vjer fundum svo eina og þegar átti að henda upp tjöldum leist samferðafólki ekkert á magn flugna, sóðastrumpur hefði sjálfsagt verið sáttur með það, svo það var slegið af að vera þar og ákveðið að færa sig um sett og halda á Leirubakka. Vjer ókum svo skemmtilegan slóða í austur átt og yfir á þjóðveg. Er komið var á Leirubakka hentum vjer upp tjöldum, græjuðum grill enda flestir farnir að finna fyrir hungri svo ekki sje talað um að svala sjer með einum köldum, hressandi fullorðins svaladrykk. Eftir mat og uppvask var haldið í ,,náttúrulaugina" en sú var ekki nema rétt rúmlega hlandvolg í þetta skiptið. Svo eftir ,,bað" var bara fljótlega haldið í koju. Þannig lauk nú þeim degi

Fyrir áhugasama þá má skoða myndir hjer