þriðjudagur, október 31, 2006

La Gran Bouffe - taka tvö

Góðir hálsar, líkt og hér kom fram fyrir ríflega mánuði síðan stendur til að halda hið svokallaða La Gran Bouffe dagana 17.-19. nóvember næstkomandi. Undir gleðina hefir Jarlaskáldið fest leigu á sumarbústað í eigu starfsmannafélags þess, nefndur Jónshús, eftir gefanda þess, Jóni "vonda" Ólafssyni. Mun hann vera staðsettur í Reykjaskógi (bústaðurinn þ.e., veit ekkert hvar Jón er), sem er ríflega 10 km fyrir norðan Laugarvatn, rétt áður en komið er að Brekkuskógi. Þar ku vera svefnpláss fyrir hátt á annan tug manna, sæmilega hátt til lofts og vítt til veggja, og ætti bústaðurinn því að geta húsað væntanlega gesti, fari fjöldi þeirra ekki fram úr hófi. Nú eru einungis 17 dagar til stefnu, og þó að það sé langur tími í pólitík er það mat undirbúningsnemdar að vissara sé að fara að huga að skipulagningu.

HVERJIR MÆTA?

Eins og þeir sem til þekkja vita snýst La Gran Bouffe um að útbúa og njóta góðs matar og drykkjar í fallegu umhverfi og helst ágætum félagsskap, þó að iðulega sé nú tekið upp á ýmsu öðru þegar leikar taka að æsast. Eðli fagnaðar þessa er ólíkt mörgum skemmtunum Vinafélagsins, einkum og sér í lagi sakir staðsetningar og viðhafnar, sem kemur í veg fyrir að allir og amma þeirra geti sótt fagnaðinn. En hverjir eiga og mega mæta? Einfaldasta skýringin væri: þeir sem eru í VÍN. En þar sem það mengi hefur aldrei verið almennilega afmarkað dugar það kannski ekki. Niðurstaða Jarlaskáldsins er því nokkurn veginn á þá leið að allir sem hafa mætt áður í La Gran Bouffe eða hefur verið sérstaklega boðið af til þess bærum aðilum eigi rétt til að sækja fögnuðinn. Til þess bærir aðilar eru þeir aðilar sem eiga VÍN-peysu, sem sullað hefur verið bjór á. Komi upp vafamál verða þau leyst af gerðardómi.
Þeir heppnu aðilar sem rétt eiga á að sækja fögnuðinn ættu að sjálfsögðu að fjölmenna allir sem einn, og þakka æðri máttarvöldum fyrir að njóta slíks heiðurs, en reynslan sýnir að það mæta aldrei allir, hverjar sem ástæðurnar eru. Það er hins vegar afar mikilvægt að vita hverjir ætla að mæta, og þeir sem ekki skilja hvers vegna það er, ja, þeir ættu líklega bara að vera heima. Tilvalið væri að nota kommentakerfið hér fyrir neðan til að tilkynna fyrirætlanir sínar, nota símtæki, eða tilkynna til þess bærum aðilum það á annan hátt.

HVAÐ SKAL ETA?

Sem fyrr segir er aðalatriðið í hátíð þessari að njóta góðra veitinga. En hvaða veitinga? Soðin lifrarpylsa og blóðmör? Brennivín í kók? Haggis? Campari? Langreyður? Rísottó!?! Nei, það er vissara að huga vel að veitingunum svo engin verði slysin. Því er ráðlegt að væntanlegir gestir fari að leggja höfuðið í bleyti og spá í hvað sniðugt væri að gera, og ef menn hafa góðar tillögur má alveg geta þeirra í kommentum. Svo væri ekki galið að halda einn af okkar sívinsælu undirbúningsfundum þegar nær dregur, t.d. seinni part næstu viku, og (vonandi) komast þar að niðurstöðu. Einn fyrir alla, allir fyrir einn, og aðeins dregið úr seldum miðum.

Heimsfrægir...

...á Íslandi! Eða hvað?

Í tilefni þess að jólin er komin í Ikea þá var litli Stebbalingurinn að ráfa um síður alnetsins, æi þið við þetta sem Al Gore fann upp, að skoða jeppaferðamyndir. Þegar undirritaður rakst á þessa fínu mynd. Já, við birtumst víða og það að óspurðu

sunnudagur, október 29, 2006

90.dagar

90.dagar. Já, dömur mínar og herrar í dag eru nákvæmlega 90 dagar eða 3X30.dagar nú eða bara einfaldlega 3.mánuðir í það að úrvalslið skíðadeildar V.Í.N. muni skunda út á flugstöð Eiriks Haukssonar með stefnuna á Austurríska/Ungverskakeisaradæmið. Rétt eins og sjá má á teljara hér til hægri. Já, hægri.
Já er nú hræddur um það. Þann 27.janúar kl:15:20 verður tölt um borð í vél frá Iceland Express, þar sem heilzað verður upp á sjálfann Heimsborgarann, með stefnuna á Friedrichshafen. Þegar komið verður til Týskalands verður gerður þar stuttur stanz og er ætlunin að koma sér sem fyrst til Týrólasýzlu í Austurríska/Ungverskakeizaradæmisins.
Fyrsti stanz þar verður Stanton og rifjuð upp kynni af Giglmaier. Skíðað verður í Stanton og nágrenni í nokkra daga. Jafnvel verður kíkt á Krazy Kanguruh og Mooserwirt
. En þó bara ef við verðum í góðu skapi eins og einu sinni eða tvisvar sinnum eða svo.
Eftir daga í Stanton er svo óráðið hvað verður en við komum til með að enda í Kitzbuhel. Uppi eru komnar hugmyndir um einhverja dvöl í Innbrú áður en haldið verður til Kitzbuhel. Ferð mun svo ljúka 7.feb á komandi ári

Skíðadeildin þakkar fyrir sig að sinni

miðvikudagur, október 18, 2006

Aðventuferð til Agureyrish



Sjá, kæru landsmenn, ég boða yður mikinn fögnuð. Eftir stíf fundahöld í allan dag með tilheyrandi kaffidrykkju og kleinuáti hefur undirbúningsnemd skíðadeildar VÍN komist að þeirri niðurstöðu að fara í opinbera heimsókn til Agureyrish á aðventunni, nánar tiltekið dagana 8.-10. desember. Standa vonir til þess að þá verði jafnvel opnar skíðalyftur í Hlíðarfjalli (og ekki eru þessar fréttir að skemma fyrir) svo iðka megi vetraríþróttir í bland við aðra skemmtun. Þar sem gera má ráð fyrir að hitastig verði með lægra móti og tjaldgisting e.t.v. ekki heppileg hefur kvenarmur undirbúningsnemdarinnar fest leigu á íbúð við götu sem heitir Furulundur, sem einhverjir gætu kannast við. Ojæja, það er sosum ekki meira að segja um það, nú er bara að fara út í geymslu og finna skíðin og brettin og skella sér svo norður yfir heiðar þegar þar að kemur. Þaðheldégnú.

mánudagur, október 16, 2006

Hverusvollus

Eins og sjá má ,,á döfunni´´ hér hægra megin á síðuni, mikið er alltaf jafngaman að benda fólki á að líta til hægri (þarna fór undirritaður aðeins út fyir efnið). Þá er fyrirhugað nú um komandi helgi að V.Í.N. skelli sér í hálendisferð. Svona fyrir utan þá sem ætla að standa í röð alla helgina. Stefnan er sett á stað þar sem hægt er að taka eina umferð í heimsbikarmeiztaramótinu í Sprellahlaupi.
Staðarvalið er ekki af verri endanum eða sjálfir Hveravellir eða Hverusvollus eins þeir nefnast víst á fræðimáli. Þar er ætlunin að dvelja eina nótt á söguslóðum Fjalla-Eyvinds og hanz kvindi Höllu.
Farið verður á laugardaginn og komið svo til byggða daginn eftir eða á hvíldardaginn 22.okt. Er skipulagning í öruggum höndum mastermechanicplanner aka Hrönnslan og bezt að beina öllum smurningum til hennar. Sem ætti væntanlega að vera hægt í þar til gerðu athugasemdakerfi hér að neðan. Þar væri líka fróðlegt að sjá hverjir hafa hug á því að fara.

Kv
Jeppadeildin

sunnudagur, október 15, 2006