laugardagur, október 25, 2003

Hátíðardagar
Sama hvað öllum öræfaótta áhrærir þá er meginþorri VÍN-verja í Reykjavík þessa helgina. Helsti sökudólgurinn fyrir því, annar en öræfaótti, er Eyjólfur Magnússon (Jökla Jolli) sem í dag er að útskrifast með Meistaragráðu í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands. VÍN vill að sjálfsögðu óska honum hjartanlega til hamingju með prófgráðuna. Ekki mun það nú vera eina ástæða þess að gleðjast þessa dagana, því félagi vor Arnór Hauksson átti afmæli í gær og fyllti drengurinn þar með fullan 26 vetra aldur, til hamingju með það.

fimmtudagur, október 23, 2003

Um síðustu helgi brá jeppadeild V.Í.N. undir sig betri bensín fætinum, reyndar grútarfætinum hjá sumum. Þrátt fyrir að öræfaótti hafi hrjáð marga þá voru það fjórir sem létu ekki öræfaóttann buga sig. Stefnan var sett á Þjórsárver og láta svo bara kylfu ráða kast í sambandi við gistingu. Hér kemur sagan af því.

Menn risu úr rekju eldsnemma laugardagsmorguninn 10.okt sl. Eftir að menn höfðu nýtt sér nútíma tækni til samskipta var komist að þeirri niðurstöðu að hittast í Bryggjuhverfinu og hefja þar för okkar. Leiðangursmenn voru að þessu sinni undirritaður ásamt Jarlaskálinu á Willy og Maggi Móses sem var með Togga Túbu í HiLuxinum. Vegna hve menn voru snemma á ferðinni þá gleyndu allir, sem þurftu að gera ferð í Bryggjuhverfið, gönguskónum sínum. Var því brugðið á það ráð að hver og einn skyldi halda til síns heima og grafa upp þar til gerða skó ætlaða til göngu. Ekki vildur betur til nema að ég misskildi Skálið eitthvað vitlaust og hann hélt fram röngum misskilningi svo tafir urðu á okkur í svona c.a. 20.min. Ekkert til að tala um þegar V.Í.N. er annars vegar. Allt annað hefði verið fullkomnlega óeðlilegt. Þegar við í Willanum vorum rétt ókomnir á suðurlandsundirlendið var þeim félögum á lýsisbrennarnum eitthvað farið að lengja eftir okkur í Hnakkaville svo þeir héldu áfram áleiðis í Árnes og æluðu að bíða eftir okkur þar. Eftir að hafa verzlað okkur nýlenduvöru hröðuðum við okkur sem mest við máttum áður enn Selfosshnakkar færu að setja spolier á Willy og træbaltattó á okkur spilandi Skímó. Það hafðist að komast í Árnes þrátt fyrir að bensínmælirinn hafi verið á E alla leið úr bænum, þetta hafðist á gufunum. Eftir að hafa stutt Olíufélagið um rúmar 5000.kr og snædd pylsu var ekkert því til fyrirstöðu að koma sér á fjöll nema hvað að vargur einn sýndi för okkar mikin áhuga og var ekki rólegur fyrr en við höfðum komið með alla ferðaáætlun og sýnd honum á korti hvar Setur er á landinu. Leið okkar lá nú framhjá Þjórsárdal og Hólaskógi uns við beygðum út af þjóðvegi við Sultartangavirkjun. Þar notuðum við tækifærið og frelsum smá loft úr hjólbörðunum á einu að dýrasta úrhleypingarplani á landinu og þó víðar væri leitað. Kunnum við Lalla frænda bestu þakkir fyrir. Vorum við nú komnir inn á s.k Gljúfurleitaleið. Fátt markvert gerðist á leið okkar þar svona til að byrja með. Við komum svo að á einni er nefnist Dalsá. Þar getur maður þurft að passa sig og fara þvert á brotið og beygja svo upp til vinstri annars getur illa farið. Allt gekk þó vel í þetta skiptið og allir komumst yfir svona þokkalega heilir á geði. Næsta stopp okkar var við Bskálann Bjarnalækjabotna og snæddum við nesti okkar þar en slepptum nýju skónum. Urðum fyrir miklum vonbrigðum við að finna ekki gestabókina þó voru þarna tveir pennar. Allt hið dularfyllsta mál. Mikli-Lækur var næst á vegi okkar eða vegleysu, verð að segja að þetta var stór lækur kannski ekki mikli lækur, heldur var Kisa ekki mikið vandamál. Leið okkar var nú kominn á vegamót við Setursleið og Tjarnaver. Setum við stefnuna á Þjórsárver og vorum við núna á slóðum Norðlingaölduveitu. Þegar Maggi fór yfir Hnífsána þá var þar dýpsti álinn í allri ferðinni og gaman að því. Við renndum upp að skálanum í Tjarnarveri þó er réttara að tala um kofa frekar enn skála. Eftir að hafa kvittað fyrir komu okkur var ekkert að fyrirstöðu að halda lengra. Eða hvað? Maggi festi sig nefnilega í drullupit svona 60m frá skálanum og ekkert í stöðunni að gera nema krækja næloni á milli í Willy. Þegar spottinn var kominn á milli og drógu al-amerísk hestöfl ásamt BFG Mud-Terrain Lúxa upp úr drullunni. Þar sem ennþá stærri pitur var framundan og varla hægt að sneiða framhjá honum nema búa til önnur för var tekinn sú pólitíska ákvörðun að snúa við og halda í Setur og sjá ekki til hvort það væri ekki pláss þar fyrir eins og 4.litla og hrædda strákalinga. Eina frúttið á bakaleiðinni var þessi eini áll í Hnífsánni og svo sandarnir þar sem hægt var að eyða takmörkuðum orkulindum heimsins og hafa gaman að. Þegar Setrið fór að nálgast kom gömul vinkona okkar í spilið þ.e. þokan. Nokkrir skaflar urðu á leið okkar og var Maggi duglegar að máta þá aðeins þrátt fyrir að hægt væri að sneiða þá flesta. Það gerði ég enda Willy á inniskónum og ekki til að blotna í lappirnar. Við renndum í Setrið rúmlega 17:00 við skemmtilega tóna Ladda með sönginn um Búkollu. Þegar rúllað var á planið var ekki kjaftur í húsinu og þá mundu sumir að árshátíð 4X4 var um kvöldið svo við græddum á því. Næst var að koma einhverri kyndingu í gang og það hafðist að lokum eftir miklar pælingar. Maggi fór upp á loft og fann þar pappadiska, 200.stk af plastgöflum og góðan slatta af plasthnífum sem var eins gott því enginn af okkur var með þar til gerð áhöld til að neyta matar. Þarna uppi fann stráksi líka 3ja.fasa 12.V tengistykki og húkkuðum við Lúxa við 12.V kerfið í húsinu. Ekki var það að virka og það kom ekki ljós fyrr heldur að flugvirkinn og glussakallinn snéri einni perunni og þá kom ljós. Ekki mikið mál. Toggi fór svo leiðangur stóran að græja til vatn. Menn tóku svo til óspilltra mála við að grilla og ýmislegt á matseðilinum m.a Skjóni, lamb, svín ásamt piparsveppasósu og smakkaðist allt saman vonum framar. Þess má til gamans geta að við fjórir notuðum þarna samtals 17.pappadiska. Nokkuð góður árangur það. Það var svo setið og spjallað um hin ýmsu málefni ásamt því að skolla niður snakki. Menn skriðu svo í rekju um eitt leytið.

Menn vöknuðu svo um 10:00 á sunnudagsmorgninum og voru allir nokkuð hressir enda ekki annað hægt. Hafist var handa við morgunmat, morgunbæn og svo Mullersæfingar. Þar sem ekkert var nú hreingerningarlið þá þurftum við karlmennirnir að taka til eftir okkur sem og við gerðum og það verður að segjast að okkur tókst alveg merkilega vel til. Þetta er samt eitthvað sem við ætlum ekki að gera nema í algeri neyð eins og þegar hreingerningarliðið er skilið eftir í bænum með öræfaótta. Lagt var í´ann rúmlega 11:00 og komum við í Kelló rúmlega klst síðar eftir tíðindalausan akstur nema að því undanskyldu að við fórum svona samtals yfir 53,2 metra í snjó ef maður tekur alla skaflana saman. Í Kerlingafjöllum kíkjum við á pottinn sem er inn í Hvergili og þar sem ekki allir voru með sundföt ,eins og það sé einhver afsökun., þá slepptum við að fara í pottinn að þessu sinni enda var hann ekki geðslegur og ekki freistandi að fara upp úr honum í slyddunni. Eftir þetta var farið til baka og stóri gamli skálinn skoðaður. Þetta var alveg satt sem maður var búinn að heyra, ekki beint vistlegur sá. Svo var bara Kjölurinn ekinn heim. Það snjóaði, slyddaði og svo rigndi. Kjölur var frekar holóttur og vatnskorinn. Þegar við komum að Beinakerlingu hætti að rigna og eftir því sem sunnar dró létti til. Við komum svo á Geysi og loftuðum og fengum okkur nong í klebbi með bestu lyst. Við enduðum svo ferðinna við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum.

þriðjudagur, október 21, 2003

Víst Stebbi var svona duglegur að setja inn ferðasögu af Grand buffet.

Þá bætti ég við myndum úr ferðinni á http://www.pbase.com/maggi/le_gran_buffey

Ps. Þær eru ekki í hárri upplausn en segja samt sýna sögu.

mánudagur, október 20, 2003

Eins og alþjóð veit þá brá V.Í.N. sér í bústað 3-5.okt. s.l. til að halda sitt árlega Grand buffet. Jeppadeildin hafði í tilefni þess skipulagt hringferð ætluð fjórhjóladrifsökutækjum. Eitthvað var öræfaótti að gera vart við sig svo að það fór frekar fámennur hópur úr bænum á föstudeginum og samanstóð hann af undirritðuðum Stebba Twist, hinum nýbakaða jeppaeiganda Arnóri og vorum við á nýjasta jeppanum í hópnum Suzuki Sidekick í eigu Jarlaskálsins og svo voru það Maggi Brabra og Elín spússa hans á Toyota X-Cap þeirra hjónaleysingja. Heldur var ferðin á Flúðir frekar stórtíðindalaus þrátt fyrir tilraunir okkar með að finna eitthvað jeppó á Lyngdalsheiði. Þegar við komum á Flúðir þá höfðum við ekki hugmynd hvar bústaðurinn væri og ekkert annað að gera í stöðunni nema spyrja til vegar. Það eina sem við vinnum hvar var er pöbbinn Útlaginn. Hvernig skyldi standa á því? Eftir að hafa fengið leiðbeiningar tókst okkur að finna náttstað okkar svona sæmilegaþrautalaust. Þar sem þetta er ferða-og jeppasaga þá ætla ég ekkert að fara lýsingar á föstudagskvöldinu enda hefur Jarlaskáldið þegar gert það.

Vaknað var og risið úr rekkju alltof snemma á laugardagsmorgni 04.10 og farið að gera klárt fyrir brottför. Þegar fólk hafði lokið við morgunbænir, morgunmat og Mullersæfingar var ekkert að annað að gera í stöðunni nema fjósa að stað. Leið okkar lá núna í Gjúpverjahrepp og framhjá nýlenduvöruverzlunni í Árnesi þar sem við tókum vinstribeygju og ókum veg einn uns við komum að bænum Skáldabúðum og fórum þar inn á slóða sem liggur upp á Skáldabúðaheiði. Þarna lá yfir öllu eitthvað sem maður þekkir bara að afspurn og kallast víst snjór. Þótti þessi skán þó í minna lagi í alla staði og er víst nú horfin með öllu. Slóði þessi er sæmilegur uns komið er að skálanum Hallarmúla, þó útsýnið sé alltaf í alla staði nokkuð gott. Hallarmúli er nokkuð snyrtilegur skáli þar sem klósettið vakti eina mesta athygli okkar og sér í lagi þar sem maður þarf ekki að bregða sér út til að gera þarfir sínar. Nokkuð gott sem fleiri skálar mættu taka sér til fyrirmyndar. Þó það verði reyndar toppað seint þessi snilld ,,Snúið sveifinni til hægri og gerið það sem þarf að gera". Nóg um það. Eftir Hallarmúlla fór aðeins að hægast á okkur þó enginn Stóri Sandur. Þegar við vorum svo mætt á Tangaleið vorum við það tímanlega í því að við ákvöðum að aka leiðina til ve(r)stur. Ekki leið á löngu un við þurftum að fara yfir fyrstu ána og var það engin fyrirstaða þrátt fyrir að vera Stóra, ekki litla heldur Stóra Laxá, svo þurftum við að fara aftur yfir sömu á og svo loks í þriðja skiptið var farið yfir Stóru Laxá. Þá mætum við hersingu af slyddujeppum og varð okkur svo um og ó að það var ekkert annað að gera í stöðunni nema renna við í Helgaskála og fá sér í gogginn. Hádegismaturinn okkar þennan daginn var Peking önd með appelsínu sósu. Eftir þetta gerðist fátt markvert nema hvað drullan á veginum varð meiri og fákarnir skítugir eftir því, en um leið sönnun að þeir voru notaðir þennan daginn. Við komum svo aftur á Flúðir um kaffileytið og komum við í nýlenduvöruverzlunni og fengum okkir ís í tilefni dagsins eftir að sumir höfði skolað að sjálfrennireið sinni. Svo var haldið í bústaðinn og afgangurinn er segin saga.
Jæja þar sem vinvinvin myndasíðan var eitthvað biluð, þá stofnaði ég nýja myndasíðu http://www.pbase.com/maggi/.

Hinn á hana er komnar myndir helgarinnar.

Ferðasaga í stuttu máli. (arnór kemur líklega með betri)

Reykjavík - Sultartangi - Tjarnarver (festi mig í drullu) - Stefnan sett í Setur - Kerlingafjöll - Hveragil - Kjölur - Geysir - Reykjavík

Snilldar ferð.... þá er bara að bíða eftir næstu ferð ( sem verður vonandi í snjó).

Kv
Maggi

föstudagur, október 17, 2003

Jæja það er jeppaferð á morgun laugardag. Líklega verður farið inn í Þjórsáver. Svona til að sjá hvernig þau eru áður en þeim verður sökkt. Gist verður í skála, en hvar sá skáli er, á eftir að koma í ljós.

Þeir sem hafa áhuga að koma með hafi samband við Magga eða Stebba. Hægt er að senda okkur SMS beint af síðunni.

fimmtudagur, október 16, 2003

Toggi hvar eru myndirnar? Síðast þegar ég kvartaði undan þessu varstu fljótur að bregðast við. Það eru kröfur í gangi um að þú verðir ekki lengur að í þetta skiptið.
Kær kveðja
Alda
Undirbúningur Ítalíuferðar
Nýjustu tíðindin af væntanlegri Ítalíuferð eru þau að nú hefur einn til viðbótar bókað sig. Mun þetta vera félagi hans Viffa sem ég kann reyndar lítil deili á önnur en þau að hans helstu áhugamál eru að falla ofan af fjölbýlishúsum (án fallhlífar þó) og slasa sig við knattspyrnuiðkun. Þó skilst mér að hliðarskilyrði fyrir þátttöku hans séu þau að hann verði heill heilsu þegar farið verður (þ.e. æskilegt þykir að hann verði ekki nýfallinn af fjölbýlishúsi).

þriðjudagur, október 14, 2003

Fjarítalska 2
Held að eftir ferðina til Ítalíu í fyrra muni allir eftir því hvernig panta skuli stóran bjór, það var jú nánast það eina sem við lærðum í ítölsku í fyrra. Fyrir þá sem ekki voru á Ítalíu síðasta vetur þá er "Uno birra grande, per favore" einföld aðferð við að panta sér stóran bjór.
Fleira markvert lærðum við á Ítalíu í fyrra t.d. ef einhver sem merktur er "polizia" stöðvar mann við skíðalyfturnar og segir "Mi fa vedere il passaporto, per favore" þá má búast við því að lögreglan sé að stöðva þig fyrir of hraða skíðun og vilji fá að sjá vegabréfið þitt. Best er þá að svara með því að segjast ekki skilja: "non capisco" og spyrja svo í kjölfarið hvort viðkomandi tali ensku: "parla inglese?" (leggja þetta á minnið Viffi!). Þannig er líklegast að menn sleppi tiltölulega vandræðalaust frá skíðalöggunni á Ítalíu.
Meira um fjarítölsku síðar, lifið heil.

sunnudagur, október 12, 2003

Nýjustu fréttir af VÍN-verjum eru á þá leið að við erum að jafna okkur á sárum okkar eftir leik dagsins. Ekki nógu góð úrslit það. Annars er eimskipuð undirbúninsgnefnd vetrarferða samankomin í Heiðarásnum hjá Vigni núna að fara yfir eldri ferðir og taka stöðuna á vetrinum. Stefnt er að því að skella sér í "operation snow" ferð aðra helgina í nóvember.
Annars er einnig væntanleg ferðasaga fyrir Grand Buffet ferðina síðar í vikunni. Held reyndar að nú sé kominn tími til að panta bíl og skella sér á Hverfó.

mánudagur, október 06, 2003

Eins og flestir vita stefnir VÍN á Ítalíuför í upphafi næsta árs. Af því tilefni verður staðið fyrir fjarkennslu í ítölsku hér á heimasíðu VÍN. Fyrsta kennslustund er í kvöld.
Það getur orðið vandræðalegt ef pappírslaust verður á salerninu. Því getur komið sér vel að kunna að láta vita af salernispappírsleysi á ítölsku.
"Það er enginn salernispappír á baðherberginu" útleggst á ítölsku sem: "Non c´é carta igienica in bagno" (hljóðfr.: nón sjé karta íjeníka ín banjó).
Athyglivert að það sem við þekkjum sem hljóðfæri skuli vera baðherbergi hjá Ítölum!
Tekið verður við fyrirspurnum og ábendingum nemenda í shout out hér að neðan.
Ekki verður fleira tekið fyrir að þessu sinni, lifið heil.

föstudagur, október 03, 2003

Jæja þá er Le Grand Buffet dagurinn runninn upp. Bjartur og fallegur með sól í heiði.

Í dag ætla 5-6 undanfarar að fara í bústaðinn á Flúðum koma sér fyrir og drekka öl. Ekki er alveg ákveðið hvaða leið þær ætla að fara en jeppó leið verður það.

Sjáumst á flúðum.

Fyrir hönd undanfara.
Maggi

fimmtudagur, október 02, 2003

Fyrir ykkur sem ekki gátuð mætt á undirbúningsfundinn í gær þá er hér matseðill laugardagsins. Við byrjum á léttum forrétt sem er reyktur og grafinn lax. Að því loknu verður skellt sér í aðalátið. Þá verður á boðstólnum lambafillet, hrefnukjöt og svín á pinna, ásamt ýmsu meðlæti. Að þessu áti loknu fáum við okkur svo ís með marssósu í eftirrétt. Nú ættu allir að vera orðnir vel saddir. Hættum við því að borða á þessari stundu og tökum til við drykkjuna. Að sjálfsögðu á að drekka aðeins meir en maður borðaði. Sem endar að öllum líkum í einhverri skemmtilegri vitleysu ef marka má fyrri Grand Buffet veislur.
Þið sem farið á föstudag skemmtið ykkur vel en passið samt að geyma næga orku fyrir laugardaginn.
Hlakka til að sjá ykkur á laugardag.
Ekki lengur skúbb.

Jæja Jarlaskáldið er búið að fjárfesta í jeppa. Við í jeppaklúbbi VÍN bjóðum nýjasta meðliminn velkominn í klúbbinn.

Og ég undirritaður fjárfesti í 38" dekkjum í gær, þannig nóg að gerast hjá jeppaklúbbi VÍN í gær.

Hvað ætli gerist næst hjá klúbbnum ????

..... en jæja allavega brottför á morgun í jeppó og bússtað. Skál fyrir því.
Skúbb.

Jæja nú er Þverbrekknigurinn ekki einn um að vera Batman stjarna því Jarlaskáldið og steggurinn hafa bæst í hópinn.

miðvikudagur, október 01, 2003

Við bíðum enn spennt eftir nýjustu fréttum af Jarlaskáldinu .... verður það jeppaeigandi á næstu mínútum. Fylgist spennt með nýjustu fréttum aðeins hér á vínvínvín
Nýtt skúbb .......

Ætli að Jarlaskáldið breytist í jeppakall um fimmleytið í dag ??????

Eitt er þó allavega víst að það breytist í fyllibyttum um helgina.