sunnudagur, ágúst 31, 2014

Sumar 2014: Agureyrish-Dagur 10



Þá var komið að síðasta deginum á Agureyrish þetta sumar, eða svo hélt maður. Framundan var brúðkaupsútilega við Brúarás í boði Tóta og Jarlaskáldsins. Dagurinn byrjaði á því að renna niður á tjaldstæði við Þórunnarstræti til að koma það óskilamun til réttra eiganda en Borghildur hafði gleymt símanum sínum í kaffiboðinu deginum áður. Þar leikju þær vinkonur sér aðeins á meðan pabbarnir gæddu sér á alvöru útilegu uppáhelling. Ætíð ljúft að kaffið sitt og jafnvel kleinu með. Á heimleiðinni renndum við feðgin upp í Hlíðarfjall og kíktum þar á aðstæður en þá mátti alveg finna lænu til að skíða í og það um miðjan júlí. En hvað um það. Það þurfti víst að pakka niður slíkt gjörir sig ekki sjálft og svo kom bara að því að koma sér aftur suður. Heimferðin gekk vel enda svo sem um steindauðan þjóðvegaakstur um að ræða en rennt var í borg óttans um miðnætti.
Nenni einhver að sjá hvað á þennan dag dreif má gjöra slíkt hjer

laugardagur, ágúst 30, 2014

Sumarið 2014: Agureyrish-Dagur 9



Það var kominn miðvikudagur og þá eftir hádegi fer að halla í rétta átt. Amk þegar það er venjuleg vinnuvika hjá venjulegu fólki. Þennan dag langaði Litla Stebbalingnum að kíkja á söguslóðir djáknas frá Myrká í Hörgárdal en þó aðallega til að sjá Hraundranga ,,hinum megin" frá þ.e ekki frá þjóðveg 1. Þetta var svo sem sæmilegasti bíltúr og alltaf gaman að koma á nýjar slóðir. Ekki er Hraundrangi síður tignarlegur séður frá Hörgárdal. Er við komum aftur í höfðuðstað norðurlands renndum við á tjaldstæðinu við Þórunnarstræti en þar voru Bogga, Eyþór og Katrín ásamt fylgdarliði að koma sér fyrir. Úr varð að við buðum þeim í T12 til kaffisamsætis. Síðan fór bara restin af deginum og kveldinu í almennt ekki neitt svona eins og á að vera í fríinu.
Annars má svo skoðamyndir frá þessum degi hér.

föstudagur, ágúst 29, 2014

Sumarið 2014: Agureyrish-Dagur 8



Þriðjudagur sem vill einmitt svo skemmtilega til að er einmitt þriðji dagur vikunnar Gaman að því. En þennan dag var ein bezta spáin fyrir Mývatnssvæðið svo við ákáðum bara að skella okkur austur og rölta þar upp á Hverfell eða Hverfjall, fer eftir hvort fólk er sunnan Mývatns ellegar norðan. En hvað um það. Þetta var alveg hin rólegasta ganga en um leið skemmtilegur hringur á toppnum sem hægt er að taka. Frábært útsýni m.a var gaman að sjá Dimmuborgir svona ,,ofanfrá" og annað útsýni yfir Mývatn og nágrenni. Annars eftir þessa heilzubótargöngu var neztisstanz við Samkaup Strax og tekin svo lengri leiðin heim.
Annars geta bara forvitnir skoðað myndir frá deginum hér

miðvikudagur, ágúst 27, 2014

Sumarið 2014: Agureyrish-Dagur 7



Mánudagur eru svo sannarlega bezti dagur vikunnar og það sannaðist þennan mánudag. Sól skein í heiði og sumarblíða. Fyrst það var loks komið sumar var tilvalið að skreppa aðeins í Eyjafjörðinn og kíkja í Jólahúsið, verzla þar jóladót enda styttizt óðum í sólrisuhátíðina. Alla vega þá var verzlað sitthvað þar og Skotta skemmti sér þar konunglega. Þegar við höfðum lokið erindum okkar í jólahúsinu var komið svo gott sem hádegi. Kom upp sú hugmynd að kíkja á Kaffi Kú og snæða þar hádegisverð. Það er óhætt að mæla með heimsókn þangað. Alveg prýðilegur matur, við gæddum okkur á gúllassúpu með nautakjeti beint frá býli og prýðlegasta kaffi á eftir. Skottu og reyndar þeim fullorðnu líka leiddist ekki svo að kíkja í fjósið ekki var svo verra að skoða síðan líka dráttarvélar nýlegar sem og af eldri gjörðinni. Fínasta skemmtun það. Síðan var bara dagsins notið á eyrinni
Sé áhugi fyrir hendi má skoða myndir frá deginum hér

þriðjudagur, ágúst 26, 2014

Sumarið 2014: Agureyrish-Dagur 6


Þetta var messudagur og óhætt að fullyrða að hvíldardagurinn hafi verið haldinn hátíðlegur. Fyrir utan að klára allsherjar þrif á Polly var bara ekki annað gjört.
Örfáar myndir frá deginum hér

miðvikudagur, ágúst 20, 2014

Sumarið 2014: Agreyrish-Dagur 5



Það var kominn laugardagur og loks farið aðeins útfyrir bæinn. Svo sem ekkert frumlegt en komið við á einum stað þar sem Litli Stebbalingurinn hafði aldrei komið á áður. Það var sum sé Hjalteyri. sem um ræðir. Þar eru nokkur hús, varla meira en húsaþyrping og gömul síldarverksmiðja frá Kveldúlfi, Það var nú samt gaman að koma þarna. Snyrtileg hús og vinaleg svo að auki nokk merkilega saga á bakvið síldarverksmiðjuna. Demantur fyrir sögunörd eins og Litla Stebbalinginn.
Bíltúrinn hélt áfram í norðurátt, gegnum, Dalvík og Ólafsfjörð síðan gjörður stuttur stanz á Siglufirði. Á bakaleiðinni var rennt við í kaffi og vöfflur hjá bræðrum frá Bakka í Svarfaðardal á kaffihúsi Gísla, Erík og Helga á Dalvík. Má mæla með því. Síðan var bara ekið sem leið lá aftur til Agureyrish
En alla vega þá eru myndir frá deginum hér

þriðjudagur, ágúst 19, 2014

Sumar 2014: Agureyrish-Dagur 4


Flöskudaginn var nákvæmlega ekkert gjört. Fyrir utan smá rölt um tjaldsvæðið á Hömrum og síðan fengum við skyldfólk í kaffi eftir hádegi. Annað var svo sem ekki á dagskráninni þann daginn.
Amk er myndir af litlu og engu hér

mánudagur, ágúst 18, 2014

Sumarið 2014: Agureyrish-Dagur 3



Á þriðja degi norðan heiða var byrjað á því að taka smá göngutúr. Var tækifærið nýtt í leiðinni til að skottast með Skottu á róló og síðan á bakaleiðinni sníktum við kaffi hjá einum innfæddum. Seinni partur dags var svo brúkaður til þess að skola af Pollý og taka hann í gegn að innan. Annars var bara svona almennt tjill þennan dag og hápunktur dagsins er Stebbalingurinn rakst á gamla Togaogýta bifreið sem maður helt að allar slíkar væru komnar í sitt náttúrulega ástand
Annars má skoða myndir af engu hér

sunnudagur, ágúst 17, 2014

Sumar 2014: Agureyrish-Dagur 2



Óðinsdagur 08. júlí rann upp og aldrei þessu vant var bara ágætis blíða í kauptúninu við botn Eyjafjarðar. Þessi dagur fór í svo sem ekki neitt nema kannski afslöppun, lestur góðra bóka, bæjarferð og sólsleikju á pallinum við hús foreldra Krunku. Ekkert spennandi né áhugasamt. Enda kannski fjöldi mynda eftir því.
Hafi einhver nennu að skoða myndir ekki af neinu má gjöra það hér

laugardagur, ágúst 16, 2014

Sumar 2014: Agureyrish-Dagur 1



Það hafði verið ákveðið á sameiginlegum fjölskyldufundi fyrr um veturinn að halda norður í höfðuðstað norðlendingafjórðungs og vera þar í einhverja daga. Svo myndum við skilja Skottu eftir hjá afa og ömmu er haldið væri í brúðhlaup í Borgarfirði. En hvað um það.
Þriðjudaginn 8 júlí var haldið sem leið lá norður um veg með stefununa á Eyjafjörð. Veður var með ágætum og frekar tíðindalaus þjóðavegaakstur. Það sem helst getur talist fréttavert er að Litla Stebbalingnum tókst að láta láta bösta sig. Missti kauði þolinmæðina fyrir aftan tvö hjólhýsi við Veiðilæk og ekki vildi betur til en þegar framúrakstri var að ljúka þá blasti við hraðamyndavél og hraðamælirinn sýndi rúmlega 100 svo varð úr að ríkissjóður varð 7500 verðlausum íslenskum nýkrónum ríkari eftir þetta.
En það skemmtilegasta við för þessa er að þegar í Staðarskála var komið var í gangi knattspyrnuleikur á milli Vestur-Þjóðverja og Brazilíu. Var staðan 1-0 fyrir Vestur-Þjóðverjum en svo mátti maður varla líta frá sjónvarpsskjánum og þá var komið verztur-týzkt mark. Gaman að því og staðan var við brottför 5-0 fyrir Prússlandi. Reyndar varð líka þarna svona míni ættarmót fyrir Skottu og Krunku. Það var svo rennt til Agureyrish um miðmæturbil eftir tíðindalausan akstur frá Staðarskála þar sem einni kúkableju var grýtt út á N1 á Blönduósi
En svona fyrir forvitna þá má skoða myndir frá bíldeginum hér

E.s Bezt að vara lesendur við (örugglega óþarfi þar sem ekki nokkur kjaftur les þessa síðu lengur) en þarna eru fullt af myndum af Skottu að kjammsa á ís og öðrum viðlíka barnamyndum. Hafi fólk ekki gaman að slíku má sleppa að skoða þær

föstudagur, ágúst 15, 2014

Sumarið 2014: Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð-messudagur



Svona eins og gengur þá vaknaði fólk bara á messudag þegar það vaknaði. Eins og venjur gjöra ráð fyrir var ástand manna og kvenna æði misjafnt. En þó ekki eins og það var fyrir nokkrum árum síðan. Smurning hvort aldurinn sé eitthvað farinn að segja til sín. Um það má reyndar efa stórlega um.
Vel viðraði messudagsmorgun og vel fram yfir hádegi en svona rúmlega 1400 fór að þykkna upp og sást til rigningarskýja, já þessara sem fela sólina af illgirni, þá var ákveðið að taka saman tjöld og pakka niður í snarhasti.Það passaði líka því stuttu síðar fór að rigna svona gróðraskúr. En óhætt að segja að allir hafi svo yfirgefið Goðaland sáttir.
Að lokum sá svo geta þess að þetta var 19.árið í röð sem V.Í.N. fer í sína árlegu Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð svo á næzta ári verður stórhátíðarferð.
Myndir frá messudeginum svo svo skoða hér

fimmtudagur, ágúst 14, 2014

Sumarið 2014: Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð-Laugardagur


Laugardagur kom og svo sem fór líka. En það var eitthvað brallað á þeim degi. Við byrjuðum daginn á því að vakna, bara eins og svo marga aðra daga, síðan eftir morgunkaffi, kökur, hádegismat og ýmislegt slíkt fleira var kominn tími á að hreyfa sig aðeins. Reyndar hafði aðeins bæst í flóruna og þar á meðal voru góðkunningjar okkar V.Í.N. liða þau Eyþór og Bogga á Landanum.
En alla vega þá höfðum við sett stefnuna á Langadal og er þangað væri komið skyldi rölt upp á Valahnjúk. Eldri Bróðirinn og Gömlu bræður slógust í för með oss. Gangan yfir og upp var svo sem tíðindalítill en fólk svo sem bara spjallaði á göngunni. Er upp var komið blasti við okkur frábært útsýni ásamt því að hrafnar Óðins voru þarna líka á vappi. En eftir toppamyndatökur og flöggun var haldið sem leið lá niður í Skagfjörðsskála. Rétt fyrir neðan toppinn hittum við Eyþór og Boggu með Katrínu á bakinu og var ákveðið að hnikra eftir þeim niðri í Langadal. Allir skiluðu sér svo aftur niður og töltu í samfloti aftur yfir í Bása. Þar tók svo bara við undirbúningur fyrir kveldmatinn og á meðan Krunka og Eldri Bróðirinn græjuðu humarinn frá Billa tóku feðgnin rölt um svæðið þar sem heilzað var uppá rauða ameríska skólabílinn og sníkt þar smá ís í forrétt. Er til bara var komið var kveldmáltíð við það að hefjast. Er allir voru orðnir mettir af mat og drykk tók við hefðbundin dagskrá. Brennan og svo bara almenn aðalfundarstörf fram eftir nóttu.
Sé vilji fyrir að skoða hvað dreif á þennan dag þá má gjöra það hér

miðvikudagur, ágúst 13, 2014

Sumarið 2014: Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð-flöskudagur



Flöskudagurinn byrjaði og eftir hefðbundinn morgunverk þ.e morgunmat, messu og mullersæfingar var farið að gjöra eitthvað. Þetta svæði er ansi skemmtilegt þó það sé ekki stórt. Fyrst ber að telja fossinn Gljúfrabúa. Þrátt fyrir að vera ekki stór. Við skelltum bara Skottu í burðarpokann sinn og byrjuðum á því að skoða kauða ofan frá.Þar voru á ferðinni á undan okkur hópur manna og kvenna frá Ameríkuhrepp og voru þau vægast sagt hissa og jafnvel hneyksluð á því að við skyldum vera að skunda þarna upp með krakka á bakinu en það bara til að hafa gaman af. Fossinn er vel þess virði að skoða frá þessu sjónarhorni. Við fórum svo niður og inní gilið til berja Gljúfrabúann augum neðan frá og ekki var það síðra þrátt fyrir smá úða þar. En það amk alveg vel hægt að mæla með að skoða þennan foss. Að mati Litla Stebbalingsins þá er hann eiginlega ekkert síðri en nágranni hanz þ.e Seljalandsfoss. Talandi um Seljalandsfoss þá var hann einmitt okkar næzti áfangastaður. Rölt var yfir og á leiðinni varð á vegi á okkar gömul heimarafstöð og til heiðurs Hvergerðingnum þá var smellt af myndum. Hvað um það svo sem þá lá leið okkar áfram og að sjálfsögðu var farið bakvið fossinn sjálfan. Stórlega ofmetið og allt saman myndað og skjalfest frá öllum hliðum. Síðan var bara rölt aftur yfir Hamragarða því kominn var tími á svefn hjá sumum.
Það var svo um kaffimál er góðkunningjar V.Í.N. renndu í hlað en það voru gömlu bræðurnir Guðni og Billi ásamt fylgdarliði sem ekki verður talið upp hér en þeir voru á Séra Jóka og Svaka Súkku. Við rúlluðum svo af stað með stefnuna á Goðaland. Ekki var nú vegurinn né árnar teljandi til vandræða amk komust allir inní Bása og tókst að hertaka flötina góðu. En Adam var ekki lengi í paradís. Skömmu eftir að við höfðum komið okkur fyrir birtist þarna eins og skrattinn úr sauðlæknum MB Unimog með tvo týzkara um borð. Kom þá í ljós að þau áttu víst alla flötina því von frá á hópi frá Týzkalandi á laugardeginum sem færi svo og kæmi aftur næzta mánuðinn. En eftir harðar samningaviðræður við skálavörðinn var niðurstaðan sú að við fengum að vera á flötinni yfir helgina enda virt fjölskylduhátíð í vændum.
Er leið svo á kveldið þá fjölgaði á flötinni Matti Skratti kom, Hólmvaðsklanið renndi í hlað á Sindý með Ken í eftirdragi, Eldri Bróðirinn á Litla Kóreustráknum og svo stór Bergmannsfjölskyldan á Silfurrefnum. Svo hófst bara almenn aðalfundarstörf, grill og gleði fram á nótt
Sé einhver áhugi þá má skoða myndir frá deginum hér

þriðjudagur, ágúst 12, 2014

Sumarið 2014: Fyrstahelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð-fimmtudagur



Eftir sameiginlegan fjölskyldufund í júnímánuði var ákveðið að taka Helgina aðeins snemma og byrja hana á fimmtudegi. Að vísu var ekki ætlunin að fara alla leið inní Bása á Goðalandi þann dag eða öllu heldur kveld heldur láta bara duga að fara á tjaldstæðið á Hamragörðum.
Er lokið var að pakka í Rex og gjöra allt annan sem tilheyrir áður en haldið er með tjald og bjór út úr bænum var ekið sem leið lá um suðurland uns komið var að Hamragörðum. Við slógum þar upp gamla og trausta Tjaldborgartjaldinu og sötruðum eitthvað á öli á meðan. Er lokið var við að reisa bústað vor var haldið í þjónustuhús þar sem ætlunin var að flambera þar burgera. Það verður samt að segjast að eldhúsið bauð ekki upp á marga fiska, ef svo má að orði komast, reyndar var þar eldavél og svo panna til steikingar en þar með er það eiginlega upptalið. Alla vega þurfti Litli Stebbalingurinn að hlaupast nokkrar ferðir út í tjald til að pikka þar upp búnað svo hægt væri elda og svo éta. Verður að segjast að þetta dregur þetta tjaldsvæði niður í stjörnugjöfinni sem annars er hið ágætasta í flottu umhverfi og fær 3 tjöld af fimm mögulegum.
Eftir mat og uppvask var tekið létt rölt um svæðið í leit ma af áhugaverðum bílum. En alla vega þá er möguleiki fyrir áhugsasama að skoða myndir frá deginum hér.

mánudagur, ágúst 11, 2014

Sumarið 2014: Formáli



Það er óhætt að segja að þetta sumarfrí, sem nú er nýlokið, hjá Litla Stebbaling&CO hafi verið örlítið öðruvísi en mörg önnur sumarfrí síðustu ára. Kom það til m.a vegna leti almennt, brúðkaups og nokkra óvæntra atburða t.d bilanna. En svona í stuttu máli þá byrjaði sumartúrinn á hinni árlegu fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð 2014 og það á fimmtudegi, svo tóku við 9 dagur á Agureyrish í tómu tjilli, skemmtilegt brúðkaupsútilega í boði Jarlaskáldsins og Tóta og síðan endaði í ferðalagi með Hólmvaðsklaninu sem reyndar tók á sig óvænt tvist strax á öðrum degi þess ferðalags. Annars er bara ætlunin að hafa þessar frásögn hefðbundna, enda greinarhöfundur einstaklega vanafastur, þ.e taka hvern hluta út í einu og það jafnvel dag fyrir dag. Vonandi en kannski ólíklegt að manni takist að gefa V.Í.N.-verjum góðar hugmyndir. Það kemur bara í ljós.

miðvikudagur, ágúst 06, 2014

Sumarið er ekki alveg búið,



Jæja þá er sumarfríinu hjá Litla Stebbaling lokið en að vísu er sumarið ekkert búið ennþá þó svo það sé tekið að styttast í annan endann. En hvað um það
Fyrst sumarfríinu er lokið og drengurinn er búinn að fara í gegnum myndirnir sýnar og þá er ekkert til fyrirstöðu að segja frá því og útskýra ítarlega með myndum svona fyrir þá sem nenna að lega og skoða. En vonandi er eitthvað að gjörast á næztu dögum og vikum. Þetta var reyndar frekar óvenjulegt frí að því leyti að maður byrjaði það með Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð, svo tóku við 9 dagar á Agureyrish, brúðkaup hjá Jarlaskáldinu og Tóta, 8 daga ferðalag um norðurland með fjölskyldunni úr Hólmvaðinu og svo endaði það með stuttri verzlunarmannahelgi á suðurlandi. Vonandi að manni takist að benda fólki á spennandi staði þó svo að ekki hafi verið mikið um það en maður veit aldrei. Fylgist spikspennt með þetta verða æði margir kaflar.