þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Eins og þegar hefur komið fram hérna á síðunni á undan þá fór jeppadeildin í nýliðaferð 4X4 nú um síðustu helgi. Að vísu fór jeppadeildin sem hópstjórar en ekki nýliðar. Einn spurning brann á okkur öllum og sú var: Skyldi Pétur Nýliði vera þarna á svæðinu í nýliðaferðinni.

Undirrituðum hafði verið úthlutað hópi D sem átti að leggja af stað frá Lélegt á Vesturlandsvegi kl:18:30 á flöskudagskveldinu. Eftir að hafa hringt út liðið á fimmtudeginum var skundað inn í skúr. Þá átti að gera njög svo einfaldan hlut sem var að strekkja á viftureim. Það byrjaði að brotna einn bolti sem varð að keðjuverkun sem endaði með ónýtum rafaflsgjafa. Nú var úr vöndu að ráða. Lítið sem ekkert að gera á fimmtudagskveldinu. Málið endaði með því að maður bónaði bara Willy á fimmtudagskveldinu og gerði allt annað klárt fyrir utan rafmagnsaflsgjafann. Nokkuð merkilegt að eitthvað sem er ekki til skuli geta stoppað mann svona. Eftir athugun á flöskudeginum kom í ljós að svona rafaflsgjafi var til í Hafnarfirði, af öllum stöðum, og endaði með því að Runólfur kippti einum með það sem hann átti leið um Hafnarfjörð. Kom hann honum til mín í vinnuna. Þar sem maður var ekki búinn að vinna fyrr en kl:18:00 og þá var drifið sig heim og beint í skúrinn. Það var sem manni væri ekki ætlað að fara þarna á flöskudeginum því nú kom það í ljós að enginn bolti var til að strekkja á rafaflasgjafanum. Þar sem þetta er tommubolti var ekkert hlaupið í Húsasmiðjuna til að redda bolta og maður sá fram á að vera í bænum með bullandi öræfaótta. Eftir að hafa talað við Runa og viti menn kappinn fór í málið og sagði svo: ,,farðu í Hafnarfjörð, (af öllum stöðum) til Kela mág og hann á bolta handa þér´´. Það var við það hoppað upp í bíl og ekið sem leið lá í guðsvolaðan Hafnarfjörð. Þar eru bara vegaframkvæmdir og hringtorg sem tefja mann og svo verður maður ringlaður af öllum þessum hringtorgum að maður getur ekki fundið staðinn og villist. Þarna var lítil, einmana og skíthræddur Stebbalingur í Hafnarfirði og það eftir að skyggja tók. Ekki veitir það á gott. Eftir að hafa svo loks fengið leiðsögn þá fannst skúrinn og boltinn fékkst. Nú var ekkert annað að gera nema koma sér úr Hafnarfirði og það sem hraðast og fyrst. Það var mikil léttir þegar litli Stebbalingurinn komst aftur í öryggið í Grafarvoginum og beinustu leið í skúrinn að skrúfa. Í fór rafaflsgjafinn og hlóð kvikindið sem nýr væri. Nú var bara að sjá hver staðan væri á hópi D (sem var upphaflega minn hópur og Runólfs) voru þeir þá að renna inn í Hrauneyjar. Eftir að hafa spjallað við VJ og við ráðið ráðum okkur og borið saman bækur sáum við að það var eiginlega heldur seint í rassgatið gripið og við værum alltof seinir til að geta náð hinum. Var því ákveðið bíða laugardags og sjá þá til. Við ákvæðum þess í stað að horfa á tímamótaverkið Old School og éta eitthvað af þessu nesti sem við höfðum verzlað kvöldið áður. Haft var samband við Skáldið og hann boðaður á staðinn, enda fer þar smekkmaður á kvikmyndir. Þegar svo vel var liðið á þessa epískustórmynd hringdi Runólfur og var að láta vita að þeir væru komnir yfir Þjórsá þar sem einn Bronco væri með ónýtan afturöxul. Minnist hann á ef hægt væri að útvega öxul hvort maður væri ekki til að koma til móts við þá með öxulinn. Ekki var hægt að skjótast undan þeirri ábyrgð.


Það var svo rúmlega 10:00 á laugardagsmorgni er síminn glumdi hjá mér og á línunni hinum megin var Runólfur. Hann tjáði mér að öxul væri á leiðinni til minn og hann yrði kominn einhverntíma milli 11:00 og 11:30. Líka varð hann að minnast á að þarna væri sól og blíða. Maður leit út og hugsaði ,,auðvitað´´. Líka tjáði hann mér að það væri frábært færi. Allt gert til að hrista úr manni öræfaóttann sem var þó eiginlega ekki til staðar. Maður spratt á lappir, ræsti út Vigni, fékk mér að éta, í sturtu og dótið inn í bíll. Þetta var allt saman gert til að vera tilbúinn og geta lagt af stað um leið og hluturinn kæmi. Svo beið maður og biðin varð lengri og aðeins lengri. Þegar svo Runólfur hafði samband um 12:30 og heyrði að maður væri enn að bíða eftir öxlinum fór hann að kanna málið. Það var svo rúmlega 13:00 sem haft var samband og spurt hvar ég væri svo hægt væri að koma stykkinu til mín. Ákveðið var að hittast á Olísstöðinni úti á horni. Þarna um 13:30 var maður loks kominn með öxulinn í hendurnar. Næst var að pikka upp VJ sem var gert og ekki tók það langan tíma. Nú þurfti bara að renna við í sérvöruverzlun ríksins og næla þar sér í jólabjór. Það var svo 13:45 sem við loks vorum komnir við borgarmörkin á leið til fjalla. Ekki fannst okkur leiðinlegt að vera loks komir með stefnuna í Setur þó eiginlega 2.klst seinna en til stóð í upphafi. Nóg um það. Það var frekar þungbúið og aðeins ýrjaði úr lofti á okkur. Þoka tók við í Hveradalabrekkunni en þó ekki lengi því fljótlega tók við heiðskýrt gat og við blasti suðurlandið og Vestmannaeyjar, með sínar 10 ljúfu minningar, þegar við renndum hjá Ingólfsfjalli var fjallasýnin ekki amaleg og við sáum þá hvað menn höfðu verið að tala um. Eftir stuttan stanz í Hnakkaville þar sem Willy fékk að drekka og Vigni sýndir alvöru bílar var haldið sem leið lá upp í Hrauneyjar. Lítið merkilegt gerðist þar á milli enda maður búinn að fara þessa leið oftar en tvisvar og jafnvel þrisvar. Þó fannst okkur sólin vera lágt á lofti klukkan 15:00 enda kannski ekki óeðlilegt miðað við hvaða árstími er. Við komum að benzínbælunni í Hrauneyjum nákvæmlega kl:15:35:48. Eftir að hafa tankað og gert það upp fengum við GPS-punkt hjá Runa hvar við ættum að beygja út af Kvíslaveituvegi. Að gömlum og góðum sið var kvittað í gestabókina og kíkt aðeins á Fógetann. Þar sem maður vissi hvað beið manns taldi maður enga þörf á að tefla við páfann í Hrauneyjum. Okkur var nú ekkert að vanbúnaði að halda för okkar áfram. Það verður að segjast að veðrið var vægast sagt frábært og fjallasýnin var mögnuð og jafnvel enn magnaðri þegar dalalæða kom þarna yfir. Það var svo aðeins frelsað loft úr hjólbörðunum til aðeins að mykja. Þegar við komum svo að GPS-punktinum sem Runi hafði gefið okkur þá fór það ekkert á milli mála að þarna átti maður að taka vinstri beygju. Nýr punktur var settur í GPS-tækið sem var Setrið og sagði það að 19 km væru í skála. Þarna var líka hleypt úr og farið niður í 6.psi því maður var aðeins smeykkur við grjót. Við ókum svo þar sem leið lá á vestur átt, upp og niður holt og hæðir bíðandi þess að koma að Sóleyjarhöfðavaði. Við vissum það að Broncoinn væri vestan megnin við vaðið sem var allt á ís. Við höfðum fréttir af því að vel hefði gengið að komast yfir þó aðeins hefði blotnað ísinn og skemmst er að minnast Hnjúkakvíslarninar. Þegar við vorum svo á voða fínni sléttu sáum við allt í einu glitta í bíl og þá föttuðum við það að við værum á miðri Þjórsá á ís. Allt gekk þó vel og við renndum við hlið Broncoins. Þarna var sú pólitískaákvörðun tekinn að nota þetta stanz til snæðings. Meðan undirritaður kom öxlinum fyrir frammí Broncoinum útbjó VJ túnfisksamloku handa okkur. Við höfðum séð ljós í fjarska í smá tíma og okkur grunnaði að þarna væru strákarnir á ferðinni að koma á móti okkur. Þar sem við sátum að snæðingi birtust þeir Runólfur og Maggi Brabra. Þarna með þeim í för voru Halli Kristins í Tvistinum og Tiltektar-Toggi og Dabbi í Barbíinum. Eftir stutt spjall var ekkert annað að gera í stöðunni nema bruna sem leið lá að Setrinu eða um 14.km leið. Það verður bara að segjast alveg eins og að færið var alveg geggjað og þrátt fyrir að nánast hafi verið malbikað að Setrinu þá var oft best bara að marka eigin för og mikið fjandi var gaman að láta gamninn geysa þarna. Við renndum svo í hlað fyrir framan Setrið rétt um 19:00 þarna voru saman komnir 30 jeppar auk þess sem við bættumst þarna í hópinn. Það yrði of langt að telja alla fram en hér er listi um nýliðina. Þó var Pétur nýliða hvergi að finna en við vorum þó ekki búnir að gefa upp alla von. Eins og hefð er þá verður maður að telja upp einhverja jeppa og þá sem í þeim voru og er þá ætlunin að hafa þá hópstjórana/fararstjórana:

Stebbi Twist og Vignir á Willy´s CJ7

Runólfur, Tiltektar-Toggi og Dabbi á Toyota Land-Cruiser 90

Maggi Brabra og Halli Kristins á Toyota Land-Cruiser 70

Arnór og Birkir á Toyota Hi-Lux Double Cap

Atli E á Toyota Hi-Lux Double Cap

Svo var það Elvar sem stýrði ferðinni úr bíl hjá einum af nýliðunum.

Þarna heilsaði maður upp á liðið sem var að fullu við að grilla og var okkur VJ bara tekið þarna fagnandi þrátt fyrir að hafa mætt seint en þó vonandi ekki illa. Bílaflotinn þarna samanstóð af nánast öllum tegundum. Þó nokkrir uppfylltu öll skilyrði til að vera fullgildir meðlimir í ,,Major League´´, nokkrir Semi meðlimir þ.e japanskir með amerískt hjarta og afgangurinn tilheyrði ,,Little League´´. Það leið ekki á löngu uns Albert nokkur birtist og þakkaði mér fyrir að koma með öxulinn sem var hið minnsta mál fyrst það gekk svona vel. Stuttu síðar var komið með fyrstu rolluafturhásinguna og þrátt fyrir að hafa verið nokkuð blóðug, allt að því jarmandi, þá var nánast slegist um að fá bita. Þeir sem voru að fara að redda Broncoinum fengu með þeim fyrstu og komu sér svo að stað til að lagfæra Broncoinn. Allir fengu svo kjét og vil ég þakka kokkunum fyrir góðan mat. Við fengum svo okkar hlut og settumst frammi þar sem við sáttum svo þar fram eftir kvöldi. Þarna ræddu menn um jeppa, tölvumál og fleira nördalegt en höfðu samt gaman af. Þarna hafði ekkert bólað á Pétri Nýliða en við vorum ekki búnir að gefa upp alla von meðað finna Pétur Nýliða. Það var svo skriðið í koju rúmlega 01:00 og farið að sofa. Það var svo seinna um nóttina sem við vorum vaktir af einum kappa sem tjáði okkur að einn bíll væri búinn að rústa dekki (þessi mynd kemur þessu máli ekkert við). Sá bíll fór víst til móts við þá til að kippa Patrolnum upp úr krapapit. En af björgunarleiðangrinum var víst að frétta að öxulinn var kominn í og dekkið á, en þeir náðu honum ekki í gang. Víst ónýt glóðarkerti. Þeir fóru svo til baka með eitt varadekk og skiptu um dekk. Þannig að það mál reddaðist .


Það var svo alltof snemma á sunnudagsmorgninum sem síminn glumdi hjá einum. Ekki reyndist svo auðvelt að finna símakvikindið til að slökkva á vekjaranum fyrr en einhver tjáði að síminnn væri undir dýnunni hans Elvars. Eftir að hafa komið sér á fætur urðu hin hefðbundnu morgunverk næst á dagskrá sem auðvitað eru morgunmatur, Mullersæfingar og að sjálfssögðu morgunbæn/messa. Maður var bara fljótur að verða ferðabúinn því maður hafði verið óvenjulega sjéður á laugardagskveldinu og tankað. Svo eftir að maður var búinn að pakka ofan í poka og fá sér kaffisopa var maður nánast ferðbúinn. VJ kom dótinu okkar fyrir inní Willy og á meðan gekk sá gamlin en um leið síungi, og fékk að hita sig. Það voru þó nokkrir fulltrúar hreingerningardeildar voru þarna svo að skálinn var þrifinn hátt og lágt. Áður en lagt var af stað var nauðsynlegt að taka eina loka fallprufun á kamrinum og að sjálfsögðu varð kamarinn fyrir valinu. Þar er á sama tíma var líka einn fulltrúi hreingerningardeildar að bíða eftir að komast á settið og þar sem maður er svo vel upp alinn herramaður þá eftirlét maður kvennmanninum vatnsklósettið. Ekki það að holan hafi verið verri kostur. Nóg um það. Þegar allt hafði verið gert klárt, þrifið og gengið frá eftir mannskapinn fór hver hópurinn af stað á eftir öðrum. Sjálfir fórum við með okkar upprunalega hóp eða hóp D. Þarna hafði hlýnað talsvert frá kvöldinu áður og hafði verið snjókoma/slydda í einhvern tíma. Eftir að lagt hafði verið af stað kom í ljós að snjóblinda var all mikill og allt rann saman í eitt hvít og varla að maður greindi förin. Sú leið sem var farin var norður fyrir Kerlingafjöll áleiðis á Kjöl. Ferðin gekk barasta nokkuð vel þrátt fyrir nokkrar festur hér og þar hjá hinum og þessum. Ekkert sem óeðlilegt geti talist. Þegar við vorum komnir undir Loðmund breytist slyddan í rigningu og ekki nóg með það heldur snarminnkaði snjórinn líka þarna. Þá var líka kominn tími til að bæta aðeins í dekkinn aftur því grjótið var farið að standa óþægilega vel uppúr á sumum stöðum. Við renndum svo í Kelló og áttu sumir í meira basli með síðustu brekkuna en aðrir. Allir komust þó upp að lokum. Þarna uppi á hryggnum er óhætt að segja að hafi verið skítaveður eða þvílíka rigningin og slíka rokið. Þarna minnkaði líka snjórinn alverulega og átti bara eftir að minnka. Næst var það Ásgarðsáin sem er ekki nokkur farartálmi. Leiðin upp á Kjöl var ekki svo slæm þrátt fyrir nokkra krapabelgi hér og þar en lítið mál var að þræða þá. Áin við Gýgjarfoss var frosinn og held ísinn svo ekki var það mikið mál. Næst svo einhver spræna sem ég man aldrei hvað heitir en þar voru bakkarnir sæmilega háir en ekki mikil fyrirstaða sérstaklega ef maður sveigði aðeins til hægri þegar uppúr átti að fara. Fljótlega komum við svo á Kjalveg og var hann all blautur. Það var svo við eina brekkuna stuttu eftir að við komum á Kjöl að annað drifskaftið hafði losnað undan Wagonernum og var 100% næloni komið á milli hans og Patrol. Menn festu sig svo hér og þar í krapanum á Kili en það er bara eitthvað til að hafa gaman af í. Alltaf minnkaði snjórinn eftir því sem sunnar dró og í stað krapans tók við fljúgandi hálka og tóku menn bílana í danskennslu og sýndu þeim sem á eftir voru vel valin spor. Brekkan upp að Beinakerlingunni reyndust sumum aðeins erfiðari en öðrum en allir komust upp að lokum. Eftir að Bláfellshálsinum lauk var nánast allur snjór farinn. Þegar við vorum svo komnir yfir Sandá má eiginlega segja að allt hafi verið orðið iðagrænnt eða svona allt að því. Menn stoppuðu svo til að pumpa í dekkinn og heldu svo niður að Geysi. Þegar á Geysi var komið fóru nokkrir að ráðum háttvirts Landbúnaðarráðherra og fengu sér einn ,,nong í klebbi´´ til þess að verða stórir og sterkir. Þarna var líka ferðinni slitið og menn þökkuðu fyrir sig um leið og þeir kvöddust. Við VJ tókum þá ákvörðun að fara Gjábakkaveg (Lyngdalsheiði) heim. Við höfðum fréttir af því að þar væru nokkrir skaflar sem ættu ekki að vera neitt vandamál. Við fórum svo þessa leið og þetta reynist satt. Nokkrir skaflar urðu á vegi okkar en ekkert vandamál. Þarna hittum við líka einn slyddujeppa sem ákvað að snúa við eftir að hafa rædd við okkur. Ekki er ég viss um að þessi leið hafi reynst vera fljótlegri en skemmtilegri var hún heldur en Hellisheiðin, enda vorum við svo sem ekkert að flýta okkur heim. Við komum svo í Árbæinn rétt fyrir fréttir á Stöð 2 á sunnudagskvöldinu eftir góða ferð.

Ég vil bara þakka ferðafélögum mínum fyrir góða helgi, þó stutt hafi verið hjá mér. Takk fyrir mig þetta var gaman. Eitt olli okkur þó vonbrigðum en það var að hvergi var Pétur Nýliða að finna í þessari nýliðaferð.

Að lokum. Þrátt fyrir frábæra helgi þá bar einn skugga á en það var banaslysið við Vonarskarð. Vill undirritaður fyrir hönd jeppadeildar votta aðstandendum, vinum og ferðafélögum þess látna samúð sína. Það er aldrei of varlega farið.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ekki á morgun heldur hinn, þá er komið að næstu jepparferð. Eins og áður hefur komið fram er stefnan sett á Setur, sem er fyrir sunnan Hofsjökul.

Það eru í kringum 25 bílar sem eru að fara í þessa ferð.

Væntanlega verður farið kl 17:00 og 18:00 úr bænum.


mánudagur, nóvember 22, 2004

Þá eru bara 4 dagar næstum 3 þangað til það verður jeppaferð í Setrið..... og ekki er veðrið að spilla fyrir.

Snjór frost og önnur flottheit.

Hérna er svo mynd af hinum mikla skála Setrinu.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Aðeins 6 dagar í næstu jeppaferð. Farið verður þá inn í Setur í nýliðaferð 4x4.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Svona eins og glöggir lesendur hafa sjálfsagt tekið eftir þá lagði jeppadeildin land undir dekk núna síðustu helgina í október. Sem átti sér svo framhald fyrstu helgina í nóvember en sú saga kemur síðar. Ferð þessi var farinn með bílaflokk Flugbjörgunarsveitarinar í Reykjavík.

Það var svo flöskudaginn 29.okt. s.l. sem ferðalag þetta hófst. Um klukkan 18:45 renndi undirritaður í Kleifarselið til að taka upp Jarlaskáldið sem átti að vera kóari í þessari ferð. Eftir að hafa hlaðið dótinu hans Nóra um borð í Willy var komið víð í nýlenduvöruverzlun, á æskuslóðunum, áður en rennt var í hlað á Lélegt við Vesturlandsveg. Var þar megin hluti hópsins mættur á svæðið. Eftir að hafa lagt Willy við dæluna komu Jón Sigfús, hér eftir nefndur bara JónFús, og Arnar til að aðstoða við dælinguna. Var Willy þarna kominn á tvo spenna og ekki veitti af. Eftir að hafa styrkt Skeljung, sem ekki veittir víst af þessa dagana, með bensínkaupum og pylsuáti var loks hægt að koma sér út úr bænum. Næsta stopp var Hnakkaville þar sem komið við var á góðum stað til að næra sig. Þrátt fyrir að við bræðurnir höfðum snætt í bænum ákváðum við að hafa ungmennafélagsandan í heiðri og vera með og fengum okkur því einn bita hvor. Þarna afrekaði Halli Kristins það að henda debetkortinu sínu. Snilld það sem átti eftir að vera brandari það sem eftir lifði ferðar. Eftir að menn voru orðnir mettir var ekið sem leið lá í uppsveitum Árnessýslu og yfir í Rangárvallasýslu og ekki numið staðar fyrr en komið var í Hálendismiðstöðina í Hrauneyjum. Þar sem þetta er síðasta bensínbúllan í langan tíma var tankað. Að gömlum og góðum síð var kíkt á Fógetann. Þarna var loks allur hópurinn samankominn og hann fylltu eftirfarandi karlmenn og ökutæki:

Stebbi Twist og Arnór Jarlaskáld á Willy´s

Maggi Móses og Kjartan á Toyota LandCruiser 70

Arnar Bergmann og Jón, föður hans, Bergmann á Toyota HiLux Double Cap

Jón Sigfús og Bjarni bróður hans á Toyota LandCruiser 80

Ásgeir, Jón litli bróðir hans og Bjartur á Land Rover Discovery

Steinar og Halli Kristins á Nissan Patrol

Bræðurnir Óli og Halldór á Hyundi Terracan

Allir þessir bílar voru á 38´´ nema Terracaninn sem var á 35´´. Það er helst telst til tíðinda er að bara tveir þessara bíla brenndu bensíni á meðan allir hinir spúuðu eiturgufum af grút út í loftið. Líka vekur það athygli að engin fulltrúi var frá hreingerningardeildinni.

Þarna var líka ákveðið að keyra beint upp í Nýja-Dal og gista þar um nóttina. Eftir að hafa strappað brúsana niður gátum við Nóri loks komið okkur af stað aðeins á eftir hinum í hópnum. Leið lá um veg uns komið var að vegamótum að Sprengisandi og þar varð líka til smá rangur misskilningur og fórum við á Willy óvart framhjá afleggjarnum en kveiktum fljótt á perunni þegar við fórum yfir brúna á Tungá. Eftir að hafa snúið við og náð hinum var loft frelsað úr hjólbörðunum svona til að mýkja. Fljótlega eftir að úrhleypingum lauk og ekið var aftur að stað fór e-ð hvítt að koma niður úr loftinu. Var það mál manna að þetta væri snjórinn sem öldungarnir hafa talað svo mikið um. Okkur til mikilar undrunar og gleði þá varð þetta hvíta alltaf meira og meira áberandi eftir því sem ofar dró. Það kom svo að því að alhvít var orðið og þurfti að hleypa nokkuð vel úr. Þá fór aðeins að bera á festum og átti Ásgeir fyrstu festu vetrarins. Til hamingju með það. Svartá reyndist ekki vera erfið en þó rifjaði upp gamla og góða tíma. Við mjökuðumst svo hægt og sígandi í áttina að Nýja-Dal með tilfallandi festum og stuði. Hópurinn renndi svo í hlað við Nýja-Dal rúmlega 02:00 aðfararnótt laugardags. Það var svo komið sér fyrir og þurftum við bræðurnir að deila saman koju en vorum til fóta. Um 03:00 var maður kominn í heimsókn til Óla Lokbrá og svaf maður vært þá nóttina ekki vitandi hvað beið manns.

Það var svo ræs kl. 09:00 á laugardagsmorgninum og var maður furðu sprækur á lappir þann morguninn. Eftir morgunbæn, mat og Mullersæfingar var pakkað ofan í poka og farið að gera bílinn kláran. Þó ótrúlegt megi virðast þá þurfti barasta að skafa þennan morguninn og voru allir bílarnir nokkuð hrímaðir. Eftir að hafa sett í gang og látið miðstöðina vinna sína vinnu ásamt því að skafa rúðurnar, að sjálfsögðu var maður ekki með sköfu með og ekki dugði krítarkortið svo maður fékk þar til gert tæki lánað úr Tvistinum. Þegar þessu var öllu lokið og allt komið um borð stillti hópurinn sér upp fyrir myndatöku og fengu sumir að taka fleiri myndir en aðrir. Nóg um það. Eftir þetta var ekkert annað að gera nema fara að keyra. Leið okkar lá í áttina að Laugafelli. Eftir því sem Laugafell nálgaðist þá þyngist færið svo það þurfti að hleypa betur úr. Á leið okkar var m.a. komið að vegamótum og sléttu eina sem allir sprettu úr spori og höfðu gaman að. Bergvatnskvíslin varð á vegi okkar eða öllu heldur vegleysu og komust allir þokkalega klakklaust yfir hana. Þó var brugðið á það ráð að hafa nælon á milli Terracan og Datsun svona til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig. Eftir að hópurinn var kominn yfir Bergvatnskvíslina var haldið áfram að Laugafelli og þarna á teygðist aðeins á hópnum og drógust sumir aðeins afturúr, ekkert alvarlega þó. Við renndum svo í hlað við Laugafell um kl 13:45 eftir að hafa þurft að taka aðeins á því þegar við fórum uppúr Laugakvíslinni að norðan verðu. Bara gaman að því. Í Laugafelli var fengið sér að borða og sumir tóku líka fallprufarnir á klósettinu þarna ásamt yngri Bergmanninum. Það verður barasta að segja að fáir staðir á hálendinu þar sem eins gott er að taka eina skák og finna ylvolgann eiminn leika um bossann á manni meðan beitt er Sikileyjarvörn. Hvað um það. Eftir miklar vangaveltur var sú ákvörðun tekinn að halda eina umferð í heimsbikarmótinu í sprellahlaupi og var því tekið stuttsprettlellahlaup út í laug. Jarlaskáldið fékk þó að taka þátt þrátt fyrir að vera í 3ja.hlaupa banni. Þó varð gerð undantekning á því banni því við vorum jú einu sinni á fjöllum og þetta keppisbann nær aðallega yfir sprettlellahlaup í bústöðum. Það var svo legið í lauginni í ca 15-20.min og þar sem hún var svo sem ekkert alltof heitt þá var ekkert tiltöku mál að taka sprettinn til baka. Eftir baðið var ekkert til fyrirstöðu að koma sér af stað sem og var gert. Þarna í kringum Laugafell hafði minnkað snjórinn og eftir því sem vestar dró varð þessi hvíti æ minni. Nú komum við að Hnjúkakvíslinni sem átti eftir að reynast örlagavaldur. Ásgeir kom fyrstur að ánni og leist ekki á ísinn á henni og skiljanlega var stráksi eitthvað tregur við að vera fyrstur yfir. Arnar Bergmann tók þá á skarið og viti menn hann komst yfir. Næstur var Ásgeir og heil komst hann á Breska heimsveldinu, Terracaninn var næstur og þrátt fyrir bresti fór hann yfir. Maggi Brabra var næstur á FBSR2 og það kom að því, ísinn brotnaði undan honum að aftan. Hófust nú miklar æfingar við að ná honum uppúr. Með í för þarna voru 3 vöðlum og 2 þurrbúningar, sem ég helt að myndu seint gagnast í jeppaferð. Það var reynt að spila tvistinn upp en lítið gekk svo ál- og jarnkarlar voru dregnir fram og byrjað að brjóta. Svo kom að því að Tvisturinn reif dekk og nú var úr vöndu að ráða. JónFús skellti sér þá í þurrbúninginn og vippaði sér ofan í vökina vopnaður drullutjakki og hífði upp Krúserinn. Því næst var að losa dekkið sem var allt á kafi í vatni og gerði JónFús þetta eftir minni og giskaði á restina. En uppúr fór dekkið og það var tappað og mesta vatnið losað úr því. Nú var bara eitt vandamál eftir en það var að koma dekkinu uppá aftur. Einhverja hluta vegna vildi það alltaf fljóta og reyndist það nokkuð erfitt að halda því undir vatninu en hafðist að lokum. Nú var hægt að halda áfram að koma honum uppúr og var spilið notað til þess. Þegar spilvírinn var dreginn inn þá dró það bílinn áfram en ekki upp að aftan svo hann braut bara ísinn en fyrir rest þá komst hann á bakkann vestan megin eftir uþb 2.klst. Þá voru 4.bílar komnir yfir og 3 eftir á eystri bakkanum. Þar sem bara búið að dæla í dekkinn á Pattanum var hann sendur fyrstur yfir til að spara tíma. Þarna má segja að vandræðin hafi byrjað fyrir alvöru. Ofan í fór Pattinn og í vökina en ekki var hann að hafa það upp hinum megin og þrátt fyrir þær áætlanir að spila hann upp hinum megin þá var það engan vegin að ganga. Pattinn var þarna ofan í með vatn uppá miðjar hurðar og komst hvorki uppúr að framan né aftan og byrjað að flæða inn í hann. Þess mó til gamans geta að Patrol hefur aldrei farið eins hratt og þarna ofan í og það án þess að hreyfast nokkuð. Svo nú byrjaði kapphlaupið við að ná honum upp áður en meiri skemmdir yrðu á honum. Það var byrjað að brjóta ísinn og komist að þeirri niðurstöðu að best væri að ná honum upp á bakkann að austan verðu. Það var farið að brjóta ís á fullu og moka klakkastykkjum í burtu og farið svo að kippa í. Það slitnaði svo kaðall og skemmdi hann aðra afturhurðina og braut rúðuna á Patrolnum ásamt því að afturstuðarinn var þarna orðinn tjónaður. Það var svo 3.klst síðar að Patrolinn komst á bakkann austan megin en við það að ná honum upp þá hætti allt í einu stýrið að virka. Kom þá í ljós að sektosarmurinn hafði látið undan í átökunum enda var komið brot í hann áður. Þarna komu svo líka aðrar skemmdir í ljós. Brettakanturinn v/m framan brotinn og tveir aðrir skemmdir, þrír drullusokkarfarnir, vatn hafði flætt inn hann upp fyrir olíugjöf og þrátt fyrir að hann hafi haldist í gangi þá vissum við ekki hvort einhver tölvan væri skemmd. Þar sem enginn var með auka pitmanarm var ekkert annað í stöðunni að gera nema skilja hann eftir. Okkur tókst að koma honum þannig fyrir að hann væri hvorki fyrir né í hættu fyrir ánni. Þarna hófust svo umræður um hvað ætti að gera. Menn voru eiginlega ekki tilbúnir að leggja í ísinn aftur og skipti það litlu máli hvoru megin menn voru. Var það því ákveðið að þeir sem komnir voru yfir myndu halda áfram og við bræðurnir og JónFús myndum snúa við ásamt Steina á Patrolnum og þarna ákvað Kjartan að slást í för með okkur, sem átti eftir að koma okkur vel en spurning með hann. Við ákváðum að byrja á því að fara í Laugafell og spá aðeins í stöðunni þar. Við vissum af hóp sem ætlaði að vera þar um nóttina svo við vissum að þeim möguleika að gista þar. Hitt var svo að koma sér til byggða annað hvort niður í Nýja-Dal eða til Agureyris og þá niður Bárðardalinn. Þegar við renndum svo í Laugafell var ekki kjaftur í húsinu en þá sáum við ljós í fjarska. JónFús hófst nú handa við að ræða við norðan menn í Súlum og útvegaði hann okkur gistinu í húsnæði Súlumanna. En fremur tjáði þessi norðan maður okkur að fært væri niður Eyjafjörðinn en við mættum búast við ,,smá´´ hliðarhalla. Svo það var ákveðið að slá til enda mun styttra á korti í það minnsta. Nú renndi þessi fyrrnefndi hópur í Laugafell eða fyrstu bílar. Eftir smá spjall þar sem þeir samþykktu að hafa okkur í skálanum sögðu þeir sínar farir ekki sléttar úr Bergvatnskvíslinni því einn Musso náði víst að súpa þar vatn inn á sig sem er ekki gott. Þegar við fengum okkur að borða komu að okkur maður sem spurði hvort einn bíll mætti vera samferða okkur til Agureyris og var það samþykkt. Eftir að hafa fengið sér næringu var lagt í´ann og nú var tíminn um 22:35 og vorum við svo bjartsýnir að telja okkur trú um að við kæmum í höfuðstað norðurlands um 03:00 aðfararnótt sunnudags. Svo var fjósað af stað og eitthvað fannst Patrolnum við fara hægt yfir svo hann tók fram úr okkur. Sem var svo sem fínt því hann tróð mesta leiðina. Þarna endar maður í 900 mys og því varð snjórinn meiri eftir því sem ofar dró og færið þyngist. Eftir nokkrar festur þar sem JónFús kippti okkur upp úr var ákveðið að hleypa almennilega úr enda maður farinn að verða ansi þreyttur. Maður endaði í tæpum 4psi og þá fór líka að ganga betur. Stundum er ótrúlegt hvað maður er nískur á að hleypa úr. Hvað um það. Það var svo á einum stað sem þurfti að kippa Patrolnum upp og svo hélt hann bara áfram að tróða. Svo gerðsit það að JónFús reif dekk og voru settir 3 tappar í það og það hélt sæmilega. Eftir 5.klst ferð frá Laugafelli komum við að brekkunum og ekki laust við að smá kvíði væri hjá okkur með það sem myndi bíða okkar. Því eftir að lagt af stað væri niður væri ekkert svo auðveldlega snúið aftur við. Þeir bensínglæpamenn á Pattanum voru komnir niður fyrstu brekkurnar og voru ekki vissir hvar vegurinn væri. Við héldum svo áfram niður og tók nú JónFús við forystu og Steini gekk á undan til að kanna leiðina. Þegar við vorum að mjaka okkur niður og komir í ca 750 mys var kominn góður hliðarhalli og JónFús stóð tæpur. Nú var ekkert annað að gera nema moka undan LC og síðan moka rás. Voru þetta nokkrir tugi metra en það var barasta að halda áfram og moka. Þetta þurftum við að gera allnokkrum sinum á nokkrum stöðum og alltaf góðan slatta í einu. Það var vara skipst á að moka enda ekkert annað gera ef við ætluðum okkur að enda á Agureyris einhverntíma áður en það voraði. Svo endaði með því að Pattinn tók framúr okkur. Þá kom vel á vondan, því að sjálfsögðu var hliðarhallanum ekki lokið né þá heldur mokstrinum, var þá ekkert annað fyrir hann að gera nema moka en sá þurfti að fá skóflu frá okkur lánaða vegna þess að hann var ekki með skóflu. Gerðist þetta tvisvar í viðbót en allt hafðist að lokum og eftir því sem neðar dró minnkaði snjórinn og við hættum að keyra utan í hlið. Eftir allan þennan mokstur var maður feginn því að Kjartan hafði ákveðið að koma með okkur enda var hann duglegur með skófluna. Það var líka gleðiefni þegar við sáum loks ljósin á innstu bæjum í Eyjafjarðardalnum. En það endaði með því að snjórinn var næstum því horfinn og kominn tími á að dæla í dekkinn og þá kom sér fínt að hafa pattann því meðan JónFús dældi hjá sér fékk Willy loft hjá þeim og það var farið að birta. Við ókum svo sem leið lá að fyrsta bæ og í gegnum síðasta skaflinn og þar sem JónFús afrekaði að festa sig. Svo nú vorum við loks komnir á veg og þá tók bílstjórinn á Pattanum eftir því að hann var eitthvað skrýtinn í stýrinu og við nánari skoðun kom í ljós að millibilsstöngin var bogin í U og bíllinn útskeifur eftir því. Svo nú þegar út á Þjóðveg var komið og actionið búið reyndist það sumum erfitt að halda sér vakandi hvort sem það var kóarinn Arnór eða bílstjórinn JónFús sem skipti við Kjartan sem keyrði til Agureyris. Mikið var þetta langt svona miðað við í minningunni. Við komum svo til krummaskurðsins Agureyris um 09:45 á sunnudagsmorgni eftir að hafa verið 11.klst frá Laugafelli og vakandi í rúman sólarhring. Þegar við komum í glæsilegt húsnæði Súlna höfðu menn varla meiri orku en að græja sér bedda og fara beint að sofa. Held að undirritaður hafi sjaldan verið jafn þreyttur áður, eina helst þá Hrafntinnuskerstúrinn haustið´ 95. Maður var fljótur að sofna þegar maður skreið ofan í poka og lagðist á koddann á beddanum.

Af hinum hópnum var það að frétta að þeir komust í Ingólfsskála um 03:00 um nóttina og hófust þá handa við að grilla sem var eitthvað sem engin af okkur hinum nenntum að gera þegar við komum til Agureyris. Humm, skrýtið.

Það var svo um kaffileytið á sunnudeginum sem maður vaknaði og mikið var maður reittur og tættur. Það sem bjargaði því sem bjargað var að JónFús og Steini höfðu farið í bakaríið og keypt sérbakað og ameríska kleinuhringi. Það var ljúft. Nú hófust vangaveltur um hvað gera skyldi. Eftir að hafa heyrt í hinum og komist að því að dekkið sem rifnaði í ánni væri ónýt undir Tvistinum og öll önnur skynsemi sagði okkur að ekkert vit væri að fara aftur uppeftir til að sækja Patrolinn. Svo það var ákveðið að fara í bæinn og redda því sem þurfti og fara aðra ferð næstu helgi. Sú saga kemur síðar. Það var svo almenn stemmning fyrir því að skella sér í sund svona til að ná úr sér mestu strengunum eftir átök næturinnar. Það var svo um 18:00 sem við lögðum af stað frá Agureyris með stefnuna á Reykjavík. Þegar við komum svo í Varmahlíð fréttum við það að JónFús hefði þurft að snúa við í Öxnadalnum og fara aftur til Agureyris með skemmt dekk. Þe tapparnir frá um nóttina heldu ekki. Það ætlaði ekki af þessari ferð að ganga í bilanamálum og almennu veseni. Það var svo ekið sem leið lá á hringveginum í áttina að Reykjavík. Þegar við komum að stuðbænum Blönduósi skelltum við Radíusflugi einni í þar sem þessi bær kemur við sögu. Eftir að þessari flaugu lauk fengu Harry og Heimir að njóta sín undir öruggri leiðsögn Ísleifs Jökulsonar sem okkur þótti vel við hæfi svona nýkomnir af hálendinu. Mikið rosalega er alltaf jafnleiðinlegt að aka í gegnum Húnaþingin og var mikið gleðiefni að komast á Holtavörðuheiðina. Þó var gert stutt stopp á Brú þar sem við komust að því ,,the hard way´´ að grillið lokar kl.21:00 og klukkan var 21:04 svo pullan varð að duga. Ekki var nú bilana og hrakfallasögu ferðar þessar lokið. Því þegar Willy milli 4-5 km ófarna að Hreiðavatnsskála/Bifröst þá fór vatnsdælan og ekkert flóknara að Willy færi ekki mikið lengra á eigin vélarafli. Auðvitað er varla GSM samband þarna og síminn við alveg dauður svo ekkert annað gera nema banka upp á næsta bæ og fá að hringja. Þegar við náðum í Brabrasoninn var Tvisturinn úr leik. Sprengdi dekk við Hreiðavatnsskála með tilþrifum og eyðilagði einn loftbúða í leiðinni. JónFús að skíða upp Öxnadalsheiðina svo það voru amk 2.klst í hann. Svo nú var orðið fátt um fína drætti. Haft var samband við Togga og var hann ekkert alltof spenntur við að koma til að kippa Willy í bæinn. Ekki vorum við með símann hjá hinum ferðafelögunum svo þrautalendingin var að fá aldraða foreldra mína til að sækja okkur. Á meðan við biðum eftir að verða sóttir var okkur boðið í kaffi hjá heiðurshjónum á Hraunsnefi og sögðu þau okkur nokkrar skemmtilega jeppa og ferðasögur. Bara takk fyrir okkur. Það var svo á 12.tímanum sem öldruð móðir mín mætti til að koma okkur litlu strákunum heim í bólið. Það var svo um 01:00 sem við loks komum í bæinn úr ferð þar sem 7 litlir jeppar lögðu af stað og 4 skiluðu sér í bæinn.

Það var svo farið á stúfana á mánudeginum til að redda sér vatnsdælu og fékk maður eina. Þegar við feðgar vorum komnir í Borgarfjörðinn og búnir að skipta um dæluna kom í ljós að maður fékk ekki réttu dæluna þ.e fékk dælu fyrir flatreim þegar Willy er með kílreim. Ekki besti staður til að komast að því að Bílanaust afgreiddi vitlaust né heldur besta veðrið til komast að því. Rétta dælan var svo hvergi til svo það endaði með því að Willy var sóttur á þriðjudeginum og settur upp á kerru og þannig komið til Reykjavíkur. Hann fékk þó tvo aukadaga þar sem hann var ekki í bænum og þar sem þetta er Jeep þá á hann ekki heima í þéttbýli. Hvað um það.

Þó svo að Willy hafi komist í bæinn þá var ferðinni ekki alveg lokið því Patrolinn sem Steini var á var ennþá við Hnjúkakvíslina og það átti að gera leiðangur eftir honum. Sú saga mun birtast síðar. Bíðið því spennt eftir Part II.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Þá er einni rosalegustu jeppaferð lokið. Þar sem 7 bílar lögðu af stað í jeppaferð og komu 4 til byggða. Sá sem er lengst í burtu er staddur við Laugafell rétt hjá ánni Hnjúkakvísl, þar sem bílinn fékk sér aðeins að drekka. Farið verður í björgunarleiðangur eftir honum um næstu helgi.

Sjá myndir á http://www.pbase.com/maggi3/norur_fyrir_hofsjkul