föstudagur, október 29, 2010

Úrslit í Le Gran Buffey Innanbæjar

Jæja þá hefur talningarnefnd lokið störfum og öll atkvæði verið talin.

Úrslit eru eftirfarandi.



Þannig þetta verður haldið 13 nóvember í Hólmvaði.

ég smelli svo við tækifæri hvað var kosið í matinn.

þriðjudagur, október 26, 2010

Lýðræði

Jæja prufum lýðræðið. ... formleg kosning á le Grand buffey.

Niðurstaðan verður kynnt hér á Vínvínvín á föstudaginn.

Create your free online surveys with SurveyMonkey, the world's leading questionnaire tool.

sunnudagur, október 24, 2010

Le Gran buffey (innanbæjar) fyrri hluti.



Hæ hæ.

Hvernig lýst ykkur á að hafa innanbæjar Gran Buffey 6 nóvember ???

Miðað við dagskrá FBSR, þá er neyðarkall þessa helgina.

Kveðja

fimmtudagur, október 21, 2010

Magma Energy

Eftir mikla legu og vangaveltur um hvaða fjall á að skunda á um helgina þá er komin niðurstaða. Nú á að taka mikla áhættu og hætta sér á Reykjanesið því þar er hóll einn er nefnist Grænadyngja. Þetta fjall hefur ekki verið klifið af undirrituðum sem og nær það líka í 400 mys svo það passar inn í 35.tindaverkefnið Sem er mjög gott.
Ef svo ólíklega að einhverjum langi með þá er öllum það velkomið og er ætlunin að fara á laugardag. Svona einhvern tíma eftir að maður vaknar og áður en það dimmir aftur

Kv
Stebbi Twist

miðvikudagur, október 20, 2010

Týndir nillar



Nú um síðustu helgi skrapp undirritaður, ásamt nokkrum öðrum félögum sínum úr FBSR, í Tindfjöll til þess að henda nillum út í buskann með áttavitann einan að vopni.
Þarna voru á ferðinni tveir gildir limir V.Í.N. og þónokkrir aðrir góðkunningjar V.Í.N. en þetta voru

Stebbi Twist
Krunka

Síðan vinir og velunnar

Matti Skratti
Eyþór
Billi

Þrátt fyrir að aðeins hafi ýrjað úr lofti skiluðu allir sér til baka og það sem helst telst til tíðinda er að gist var í tjöldum en ekki í Tindfjallaseli. En puslupottrétturinn var að sjálfsögðu til staðar.
Á messudag var síðan rölt venjulega leiðin að Hafrafelli.
En hér eru myndir frá túrnum

Kv
Stebbi Twist

mánudagur, október 18, 2010

Þriðja helgin í október

Nú þegar þetta er ritað inn þá er þessi stórkostlegi mánudagur senn á enda. Það táknar bara eitt að næzta helgi er bara rétt handan við hornið. Þar sem þetta er nú ,,fríhelgi" hjá Litla Stebbalingum þá telur kauði það vera alveg kjörið að nýta komandi helgi og bæta nýjum topp við í 35.tinda verkefninu. Ekkert hefur enn verið ákveðið hvert skuli halda en hvort það yrði þá á laugardegi eða messudegi. Slíkt verður þá bara auglýst síðar
Sem og oft áður eru allir, sem áhuga hafa á annað borð,velkomnir með og láti bara vita með margvíslegum samskiptaformum

Kv
Stebbi Twist

mánudagur, október 11, 2010

Ríkisfan(n)tur



Rétt eins og hér var talað um var ætlunin að bæta við þeim 23ja í safnið um helgina og var stefnt á Fanntófell.
Ekki var svo verra þegar Kaffi stakk upp á því á flöskudeginum að halda í Ríkið á laugardag. Væri ekki amalegt að komast í pottinn eftir gönguna og tala nú ekki um grillið maður.
Það voru svo tvær mannenskjur sem heldu af stað úr höfuðborginni um hádegisbil á laugardag á Rex upp á Kaldadal. Uppganga á Fanntófell tókst með ágætum í sumarblíðunni og var alveg hægt að njóta þar útsýnis til allflestra átta. Eftir nokkrar toppamyndir og eins og eina samloku eða svo var haldið aftur niður á veg svo hægt væri að komst í skála og fá sér eins og einn öl eða svo.
Þegar í Ríkið var komið var þar gestgjafi mættur ásamt Jarlaskáldinu, á Sigurbirni, og hjónaleysunum VJ og HT, á Blondí. Ekki leið á löngu þar til að hitað var upp í grillinu og hinum ýmsu landbúnaðarvörum skellt þar á. Ekki vildi betur til en að HT fékk skyndilega heilzubrest og þurftu þau hjónaleysin því frá að hverfa í fyrra fallinu sem var heldur leiðinlegt. Við hin sem eftir urðum skelltum okkur í pottinn þar sem maður skolaði af sér svitann undir stjörnubjörtum himni.
Sól og blíða tók svo á móti okkur er við vöknuðum á morgni messudags. Eftir hinn hefðbundnu morgunverk þe morgunmat, messu og mullersæfingar var haldið til byggða. Leiðin sem var fyrir valinu var vestur og suður fyrir Hlöðufell, gegnum Rótarsand og endað niðri á Miðdal við Laugarvatn, þar sem hugmyndin var að skella sér í fótabað þó svo það hafi ekki alveg tekist.
Myndavél var með í túrnum og að sjálfsögðu er afraksturinn kominn á síður lýðnetsins. Má nálgast þær hér

Kv
Jeppadeildin í samstarfi við Göngudeildina

föstudagur, október 08, 2010

Leitin af Rauða Október II




Síðasta laugardag var stórafmælisæfing Flugbjörgunarsveitarinnar haldin til tilefni þess að 60 ár eru síðan Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð. Öllum sveitum á landinu var boðið og því fjölbreytt verkefni í boði. Það var þétt dagskrá og mikið af ólíkum verkefni fyrir hina ýmsu hópa.
Litli Stebbalingurinn ásamt öðrum inngengnum sáu um rústabjörgun. Það var varla að maður vissi hvað rústabjörgun væri en það lærðist smátt og smátt. Verkefni í rústabjörgun voru á þremur stöðum og þurfti einn póstastjóra á hvern póst. Ekki var nú leitað langt yfir skammt heldur fengnir V.Í.N.-liðar í þetta. Þar voru á ferðinni:

Maggi á Móti
Bergmann
Jarlaskáldið

Þetta gekk allt saman á endanum, enda úrvals menn á hverjum póst, má skoða myndir hérna.

miðvikudagur, október 06, 2010

Næzti tindur

Nú eftir alltof langt hlé er kominn tími að halda áfram með 35.tinda verkefnið nú um komandi helgi. Það lítur allt út fyrir ágætis veður skv spámönnum ríkzins og engin ástæða er til að sitja heima heldur skulu gönguskórnir viðraðir.
Hugmyndin þessa stundina er að skunda á Fanntófell á Kaldadal við jaðar Oksins. Rétt eins og staðan er núna er ekki alveg neglt niður hvort haldið verður á laugardag nú eða messudag. Hvort sem heldur væri ekki vitlaust að hafa með sér sundföt (þ.e. komi einhver með) og skella sér í Krosslaug eftir göngu. Svona af því gefnu að farið verði á Fanntófell.
Ef svo ólíklega skyldi nú vera að einhverjum langaði með er þeim bent á skilaboðaskjóðuna hér að neðan. Sem og hafi fólk hugmyndir um annað fell þá endilega viðra þá hugmynd á sama vettvangi.

Kv
Stebbi Twist

þriðjudagur, október 05, 2010

Útilíf

Sælt veri fólkið.

Það er kannski rétt að benda fólki (þar sem við erum flest öll meðlimir í ýmsum björgunarsveitum) að í kveld verður víst búnaðarkveld í Útilíf í Glæsibæ. Þar verður víst 25% afsláttur af öllum vörum, nema snjóflóðaýlum og GPS-tækjum, svo verða einhverjar vörur á sértilboði og verða þær víst sérstaklega merktar. Herleg heitin hefjast kl.19:00. Annað var það ekki, í bili amk

Kv
Stebbi Twist