miðvikudagur, júlí 31, 2013

Sumarfrí 2013: Fimmtándi kafli

16.06.2013



Messudagurinn 16.06 rann upp og ekki var sól á himni þennan morguninn. Samt var nú varla hægt að kvarta undan veðri þrátt fyrir léttan úða. En hvað um það. Allir voru nú bara rólegir þó svo að Bogga hafi farið og kíkt á þríþrautina sem var þarna í gangi. Það sem helst telst til tíðinda er að við tókum gott rölt um húsaþyrpingu á Laugarvatni undir dyggri leiðsögn Boggu. Íþróttakennarinn tók líka að sér kennslu í að útskýra fyrir okkur línur og annað á hlaupabraut sem þarna er. Stoppuðum við Vígðulaug og virtum ýmislegt þarna fyrir okkur. Það er nefnilega oft gaman að koma sér úr bílnum og skoða bæi fótgangandi þá sér maður oft margt forvitnilegt. En hvað um það.
Þegar leið á daginn var kominn tími að taka saman og síðan bíða eftir gamla settinu til að fá drátt í bæinn. Þarna lauk sumarferðinni 2013 hjá okkur hjónaleysinum og þeirri fyrstu hjá Skottu.

Myndir frá deginum eru hér

þriðjudagur, júlí 30, 2013

Hjólað í bað



Fyrir sléttri viku eða nákvæmlega síðsta þriðjudag gaukaði Maggi Móses því að Litla Stebbalingnum að hann og Bergmann væru með þá flugu í höfðinu að hjóla í Reykjadal þá um kveldið enda Bergmann æstur að prufa nýja hjólheztinn sinn í smá action. Þessu höfðinglega boði var tekið og um kveldmatarleyti voru fjórir drengir sem lögðu í hann á tveimur sjálfrennireiðum en þetta voru:

Maggi á móti á sínum Gary Fisher
Stebbi Twist á Cube

og sá Sindy um að koma þeim og hjólheztum á Hellisheiði

Bergmann á nýja Merida hjólheztinum sínum
Litli Bergmann á Trek

síðan sá Gullvagninn að koma þeim á áfangastað.


Við lögðum síðan Gullvagninum í Hveragerði en Sindy við afleggjarann á Hellisheiði.
Síðan var bara stígið á sveif fyrst bara á veginum en síðan beygðum við af honum og þá tók drulla við. Bara gaman að því. Svona eins og lög gjöra ráð fyrir þá þurfti eitthvað að teyma hjólin en öllum tókst að skila sér niður í Reykjadal þar sem örtröðin við lækinn beið manns. En okkur tókst nú að finna lausan blett og skelltum okkur þar í bað. Eftir skrúbb var ekkert annað í stöðunni en að setjast á hnakkinn og stíga á sveif niður í Verahvergi. Ekki var nú minni drulla þar og tóku sumir faceplant á leiðinni en bara til að hafa gaman af því. Allir skiluðu sér svo niður misdrullugir en það var svo hægt að smúla bæði fólk og fáka er til byggða var komið. Allir voru svo sáttir við afrek kveldsins þó svo að ekkert nýtt né frumlegt hafi verið við þetta þá var þetta samt skemmtilegt

En það má svo skoða myndir frá kveldinu hér

mánudagur, júlí 29, 2013

Sumarfrí 2013: Fjórtandi kafli

15.06.13



Laugardagurinn 15.06 var orðinn staðreynd og við vöknuðum á tjaldsvæðinu á Kirkjuhvammi á Hvammstanga.Þrátt fyrir að lognið hafi verið á smá hreyfingu skein sól í heiði. Fyrst það var hægt að komast í fríkeypis steypibað þarna var það að sjálfsögðu gjört. Tjaldstæði þetta er alveg hið prýðilegasta, flott þjónustu hús með eldunar-og mataraðstöðu, skjólhús yfir grill, þvottavél og sturta. Svo er náttúrulega stutt í alla þjónustu eins og sundlaug, nýlenduvöruverzln, mjólkurbúð ríksins og bar.
Þegar það var búið að baða sig og pakka niður skelltum við okkur niður að höfn og fengum okkur þar snæðing. Þar sem síðast þegar snædd var á Kaffi Sírop fengum við viðbjóð var það ekki í myndinni en þess í stað fórum við á kaffihúsið Hlaðan. Þar tók Skotta sig til og bræddi þar eina franska snót og má öruggt telja að þar sé nú komið barn undir. En hvað um það. Undirritaður fékk sér hússúpuna og Krunka fiskbollur. Vorum við bæði skínandi ánægð með þennan mat og hægt að mæla með snæðing þar. Er allir svo orðnir mettir var haldið áfram sem leið lá suður á boginn þar sem veik von var um það að einhverjir ætluðu í útilegu í Varmaland. Þegar á vesturlandið var komið þá kom í ljós að engin var á leiðinni í útilegu nema kannski Hubner, sem síðar sló það af, svo það var þá bara ákveðið að skella okkur á Laugarvatn.
Þar vissum við að gildum limum þ.e Hvergerðingnum og Plástradrottingunni sem að sjálfsögu voru með Sunnu með sér. Þar voru líka góð kunningjar hópsins þau Eyþór og Bogga ásamt Katrínu. Bogga hafði einmitt tekið þátt í Gullsprettinum fyrr um daginn. En það átti ekki eftir að ganga áfallalaust fyrir sig að komast á suðurlandið. Er við vorum í Lundareykjadal c.a mitt á milli Brautartungu og Krosslaugar mættum við hrossastoði sem var verið að reka áfram. Svona eins og sönnum góðborgara sæmir stoppuðum við útí kanti og bíðum eftir að stoðinn tölti framhjá. Okkur átti eftir að hefnast fyrir það. Við vorum rétt lögð aftur af stað er eitthvað furðulegt var í gangi og Rex fór að vera með eitthvað pex. Svaraði ekki inngjöf, svo bara dó hann og neitaði alfarið að fara í gang. Rétt eins og oft áður dró maður upp símann og hringdi bara í aldraða foreldra og þau komu á svæðið til að draga okkur í bæinn. Þar sem Rex er nú sjálfskiptur og rafstýrðum millikassi með engum hlutlausum gír þurfti að losa drifsköftin áður hægt var að draga hann. Svo áður en dráttur hófst kom sú hugmynd upp að draga okkur bara á Laugarvatn svo við kæmust í útilegu. Það varð sum sé lendingin að við komum bara í spotta á Laugarvatn enda lætur maður fátt stoppa sig til að komast í góða útilegu.

En hér má skoða myndir frá deginum

sunnudagur, júlí 28, 2013

Í miðri viku



Nú komandi miðvikudag mun Litli Stebbalingurinn eiga kærkomið vaktafrí. Sú hugmynd hefur skottið upp kollinum að skreppa þá í smá hjólheztaferð. Þar sem kauði er laus allan daginn þá er ekkert einn tími frekar en annar sem hentar betur. En alla vega ef einhver hefur áhuga að skella sér með nú eða kannski bara gjöra eitthvað allt annað þá má sá aðili alveg tjá sig í skilaboðaskjóðunni hér að neðan

föstudagur, júlí 26, 2013

Halló þarna Agureyrish



Kannski svona á mörkunum að eftirfarandi frásögn eigi við hér á lýðnetinu þar sem þetta var eiginlega einkaferð meira en opinber V.Í.N.-ferð
Miðvikudag í síðustu viku skellti litla fjölskyldan sér í stutta ferð í höfuðstað norðlendingafjórðungs. En þannig var mál með ávexti að Litli Stebbalingurinn var í vaktafríi og Krunka auðvitað í fæðingarorlofi svo við hoppuðum bara í flugvél seinnipart miðvikudags og flugum norður yfir heiðar. Sumarið tók þar svo sem á móti okkur og þetta kveldið var bara afsleppi hjá gamla settinu hennar Krunku.
Á fimmtudag var svo ætlunin að fara inn að Hrafnagil í hálfgjörða pílagrímsferð og skella sér á ís í Vín. En ekki alveg var það ferð til fjárs því Vín-skálinn er bara búinn að loka. Svo jólahúsið varð bara að duga en kíktum svo á mannmerðina sem hafði ,,tjaldað" við Hrafnagil því þar voru aðallega húsbílar, hjólhýsi og fellihýsi. Reyndar tókum við líka lengri leiðina inní fjörð í gegnum Kjarnaskóg en þar var margt um manninn. Síðan var líka lengri leiðin tekin aftur á eyrina þ.e í gegnum Eyjafjörðinn og renndum svo á kaffihúsið í Lystigarðinum þar sem við nutum veitinga í góða veðrinu meðan sú stutta svaf. Kveldið fór svo bara í að gera sem minnst.
Svo kom upp flöskudagur en þá átti sá sem þetta ritar að fara vinna um kveldið svo það var því brottför um síðdegiskaffibil. En áður en Agureyrin var kvödd var heilzað upp á sendiherra V.Í.N. í þessum landshluta en auðvitað er þar verið að tala um Snorra hin aldna perra. Eftir stuttan stanz hjá honum var lítið annað að gjöra en að koma sér suður þar sem kveldvaktin beið manns

En hafi einhver áhuga þá má skoða myndir hérna

fimmtudagur, júlí 25, 2013

Sumarfrí 2013: Þrettandi kafli

14.06.13



Flöskudagurinn 14.06.13 rann upp og kemur varla á óvart að það skein sól í heiði. Þarna var dagurinn tekinn heldur snemma því á hádegi þurftum við að skila af okkur kofanum. Einhvern tíma áður klukkan sló hádegi var ekið á brott og næzta stopp var Agureyrish. Þar var notið þess að fá sér síðdegis hressingu. Svo lá leiðin á Tröllaskaga þar ætlunin var að heilza upp á æskuvin og óðalsbónda í Fljótunum. Það sem eina athyglisvert var á leiðinni var það að í Héðinsfirði var botnslónið ísilagt.
Er við komum í sveitasæluna var kauði að taka á móti laxaseiðum og fylgdumst við bara með því. Svo var bara hinn íslenski siður að bjóða gestum upp á kaffi og var það vel þegið yfir spjalli. Einhverntíma var svo kominn tími á halda suður á boginn. Þarna var ætlunin að skrölta alla leið í Varmaland í Borgarfirði því einhverjar sögusagnir voru þess efnis að þar ætlaði jafnvel fólk innan V.Í.N. að tjalda í sumarútilegunni. Þetta var jú löng helgi. En þegar í Húnavatnssýzlu var komið og eftir að hafa símað í Magga á móti var niðurstaðan að renna bara á Hvammstanga og tjalda þar. Sem og var gjört. Þarna var komið að stóru stundinni þ.e að fara með Skottu í sína fyrstu tjaldferð. Er á Hvammstanga var komið var rúllað upp á tjaldsvæði og kom það þægilega á óvart hvað það leit vel út. Flott þjónustuhús þarna og flest önnur aðstaða til fyrirmyndar.
En það sem öllu skipti þarna máli var hvernig Skotta myndi taka þessu öllu. Líkt og gamla fólkið sitt þá tók hún þessu öllu saman með hinu mezta jafnargeði og gekk bara eins og bezt verður á kosið með svona smáfólk.

En hvað um þá er bezt að láta myndir tala sínu máli frá deginum hér

miðvikudagur, júlí 24, 2013

Síðasta helgin í júlí



Nú er júlí mánuður þessa árs að renna sitt skeið á enda. Ekki seinna væna að sumrið lét sjá sig hér á suðvezturhorninu. Nú er líka útilegutímabilið að ljúka hjá mörgum. Nú er bara spurt hvort einhvern hefur hug á utanbæjarför um komandi helgi. Það er allt opið en samt skal sólin og góða veðrið elt. Hvert svo sem verður farið. En alla vega ef einhver hefur hug á einhverju þá væri gaman að heyra af því

mánudagur, júlí 22, 2013

Sumarfrí 2013: Tólfti kafli

13.06.13



Fimmtudagurinn 13.06.13 kom líkt og aðrir dagar og viti menn, það var ekki sól en samt eiginlega ekki hægt að kvarta undan veðrinu. Hefði svo sem engu breytt ef maður kvartar undan veðri en hvað um það. Þennan dag var skroppið í smá bíltúr og var ekið Út-Kinn. Þar var bara keyrt und vegurinn endaði og síðan snúið við. Engu að síður var gaman að skrölta þetta. Maður sá þarna fullt af fossum sem voru í fjallshlíðinni þarna örugglega flestir tilkomnir vegna leysinga. Svo sá maður Flatey úr fjarska, Húsavík frá nýju sjónarhorni sem Húsavíkurfjall. En svo var komið að rúsinunni en það er Fellsskógur í Kinn. Um það skóg hafði ég ekki hugmynd um áður ákveðið var að fara í bústað í Aðaldal og maður fór að kynna sér næzta nágrenni. Reyndar er ekki hægt að komast þarna nema á jeppa og er það bara vel. Svo ókum við slóðan þarna í gegn og eins gott að við þurftum ekki mæta neinum en töff var þetta. Fengum okkur svo síðdegishressingu þarna í einhverju rjóðri sem við fundum bara þarna. Gaman að því.
Dagurinn endaði svo með að skella sér á Húsavík og mat hjá sjálfum Völla Snæ þar sem Þóra í Stundinni okkar þjónaði oss til borðs.

Nenni einhver að skoða myndir frá deginum má gjöra slíkt hér 

laugardagur, júlí 20, 2013

Sandari og Kefsari



Nú um síðustu helgi eða fyrir sléttri viku var haldið í víking verstur á Snæfellsnes. Það var byrjað á því að herja á Stykkishólm, eða hólminn þar sem forfeður vor komu saman til að gjöra stykkin sín, þar sem skyldi njóta tóna áhafnarinnar á Húna II. Hér úr borg óttans fóru 6 sálir en það voru:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist

á Rex


Hvergerðingurinn
Plástradrottningin
Sunna

á Spænskumælandi koreubúa

Undirritaður og Hvergerðingurinn komust að þeirri niðurstöðu að hafa hjólhezta með í för og jafnvel brúka þá eitthvað ef fólk væri í stuði.

Er komið var á Kjalarnes símaði Gvandala-Gústala í oss en hann og stelpurnar voru einmitt stödd á Snæfó. Reyndar í veiðihúsi við Skógarströnd einhverja 50 km frá Stykkishólmi í austurátt. En í samtali þessu var ákveðið að hittast í Hólminum, grilla þar og skella sér síðan á tónleika. Áður komið var á nesið var gjörður stuttur stanz í Borgarnesi til að koma þar við í nýlenduvöruverzlun.
Er í Hólminn var komið var endanlega tekin sú ákvörðun að slá þar upp tjöldum. En Gvandala-Gústala og co voru komin fyrir en höfðu skellt sér í sundlaugarferð. En þegar Vangoborgin var komin upp var hafist handa við að grilla ofan í og í mannskapinn.
Svo þegar allir voru orðnir mettir var kominn tími að rölta niður á höfn til að njóta menningar. Þegar á hafnarbakkann var komið rákumst við á Raven og Örnu. Gaman að því. En Gvandala-Gústala og þau stoppuðu styttra en við hin þar sem stelpunum var orðið kalt og þær þreyttar. Eftir tónleika var bara tölt aftur upp á tjaldsvæði og þar komu hinir ýmsu gestir í heimsókn, bæði vinir og skyldmenni.

Það var svo uppúr hádegi á laugardegi sem tjöldin voru felld niður og ætlunin að halda vestur á Hellissand þar sem Plástradrottingin hafði verið svo höfðingsöm að bjóða okkur þak yfir höfuðið. En áður en hægt var að leggja í´ann var rennt við í morgun kaffi hja bróður Plástradottingarinnar og mágkonu. Þar var tekið höfðinglega á móti oss með kaffi og morgunhressingu. Kunnum við þeim hinar beztu þakkir fyrir veigar. Svo rétt áður en hægt var að yfirgefa Stykkishólm var kíkt á einn frænda Krunku sem er að gera hús upp við höfnina á Stykkishólmi. Síðan var bara ekið sem leið lá vestur á Hellissand. Þarf varla að koma neinum á óvart að það gjörði nokkra skúraleiðingar á okkur á leiðinni. Þegar við rúlluðum í gegnum Ólafsvík sáum við frænku Krunku og þurftum aðeins að rabba við hana.
Loks komum við á Hellissand og ekki leið á löngu uns Maggi Brabra ók inní götuna en hann var þar á ferðinni með allt sitt klan en það eru:

Maggi á móti
Elín Rita
Andrés Þór
Birgir Björn
Magnea Marta

á Sindy með Ken í eftirdrægi.

Plástradrottningin skellti í pönnsur eins henni einni er lagið og bauð okkur upp á síðdegishressingu. Þetta var mjög veglegt hjá henni líkt og henni er von og vísa. Þegar allir voru búnir að njóta hressingar var farið í göngutúr um bæinn undir traustri leiðsögn heimastúlkunnar. Það má líka eiginlega segja að þetta hafi verið hálfgjörð pílagrímsför hjá Litla Stebbalingnum og Magga Móses eftir dvöl okkar þarna eina júlíhelgi árið 2000. Þarna var margt skoðað m.a gamlar verstöðvar, gömul hús og skrúðgarð. Við vörum bara í rólegheitarölti þarna og höfðum gaman að. Þegar komið var aftur í hús var bara hafist handa við að undirbúa og græja það sem þurfti fyrir kveldmat. Kveldmaturinn gekk sinn vanagang og svo þegar yngstu meðlimirnir voru komnir í koju var bara sitið og spjallað. Að vísu skuppum við karlpenningurinn í stutta heilzubótargöngu til að kíkja á stemninguna við Röstina sem og á tjaldsvæðinu.

Þegar messudagsmorgun rann upp og fólk fór að týnast á lappir kom það á daginn að gestgjafinn okkar var bara orðin slöpp og hálf veik. Ekki gott það. En eftir morgunmat, messu og mullersæfingar ákvöðu við strákarnir að skella okkur í smá hjólheztatúr og skreppa yfir á Rif. Á leið okkar yfir yrðum við fyrir fólskulegum loftárásum frá brjáluðum kríum á leiðinni og m.a var skitið á bakið á Stebbalingnum svo ógnandi þótt hann. Við virtum aðeins Rif og þá aðallega höfina fyrir okkur og á bakaleiðinni þá fórum við þjóðveginn en ekki sama stíg. Það er einmitt fínasti stígum á milli Hellissand og Rifs.
Er komið var úr hjólhestaferðinni var hafist handa við að undirbúa brottför og ganga frá eftir okkur. Það gekk allt ágætlega og vonandi skildum við við húsið sómasamlega amk ekki verra en við tókum við því. En svo skildu bara leiðir. Maggi, Elín og börn ætluðu í sund og jafnvel svo reisa tjaldvagninn upp á nesinu, við hjónaleysin ætlum að heilza upp á fólk í bústað á Arnarstapa. Meðan gestgjafarnir ætluðu bara að hvílast aðeins lengur áður þau færu. Við ökum svo sem leið lá út fyrir nes og gjörðum smá stanz á Arnarstapa þar sem við m.a heilzuðum upp á svín Skottu til mikillar gleði. Á leiðinni suður hafði Plástradrottingin samband og kom þá í ljós að við vorum ekki langt á eftir þeim. Það var því komist að þeirri niðurstöðu að hittast í Borgarnesi og skelli sér þar á þjóðveganezti enda komið að kveldmatartíma. Ferðin endaði því með kveldmat í nýju Hyrnunni (nýjar umbúðir sami skíturinn).

Auðvitað var myndavél með í för og myndir má skoða hér

mánudagur, júlí 15, 2013

Sumarfrí 2013: Ellefti kafli

12.06.13



miðvikudagurinn 12.06 rann upp. Það þarf varla að koma neinum sem hefur lesið hina kaflana að veður þennan dag var með ágætum. Þennan dag var ætlunin að halda á Mývatn og hafa hjólheztana meðferðis. Eftir að Skotta hafði lokið við morgunlúrinn var ekið sem leið þá austur í Mývatnssveit. Reyndar var lognið á smáhreyfingu þennan dag og það sem meira það virtist sem það gæti gjört skúraleiðingar. Við byrjuðum að halda að Kröflu bæði hólnum og virkjunin. Kíktum aðeins í gestastofuna í Kröfluvirkjun og kom þaðan út margsfróðari um gufuaflsvirkjanir. Það var svo sú pólitíska ákvörðun tekin að skoða Dimmuborgir og jafnvel skella pulsum á grillið þar. Það var reyndar það fyrsta sem við gjörðum þe að skella pullum á grillið og éta. Þegar allir voru mettir tókum við litla fjölskyldan skoðunarferð um Dimmuborgir. Óhætt að fullyrða að torfærukerran hafi verið peninga virði þarna á stígnum sem við fórum til að taka hringinn. Er við komum aftur á bílastæðið skelltum við okkur í hjólheztagallann og stígum á sveif stutta stund uns komið var að Skútustöðum. Ekki kannski lengsti hjólatúrinn en engu að síður hressandi. Við Skútustaði skelltum við hjólheztunum aftur á hjólheztagrindina og heldum til baka sem leið lá aftur í bústaðinn.

Alla vega þá eru myndir frá deginum hér

miðvikudagur, júlí 10, 2013

Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðarskýrzla 2013



Líkt og mörg undanfarin ár var stefnan tekin á Bása á Goðalandi um síðustu helgi til að fagna þar fyrstu helgin í júlí. Eitthvað voru veðurguðirnir ekki á sömu hillu og við hin, enda er Ingó hálfviti, en þrátt fyrir það vorum við nokkur sem létum spámenn ríkzins ekkert tala okkur af því að halda innúr. Enda höfðum við endalausa trú á því að þarna myndi verða sól og blíða. Brekku-Billi hafði verið í Básum frá ca 1500 og við litla Fjölskyldan komum milli 19:30 og 20:00. Okkur til mikilla leiðinda var skilti við flötina okkur sem stóð ,,no camping" og á hinum endanum voru einhver sirkustjöld og norsk tjöld með fúlum túrheztum innan borðs. Svo ekki var hægt að planta sér niður þar en við skelltum okkur bara niður í næzta rjóðri og þar fengum við bara meira skjól.
Það er alveg óhætt að fullyrða að það hafi rignt eld og brennisteinn á leiðinni inneftir. Á tíma fékk maður bara regnið fjúkandi á móti manni. Líkt og eðlilegt má telja var eins meira í ánum en oft áður en samt ekkert ofur. Reyndar var ekkert svo mikill rigning þegar við settum upp tjaldið. En hvað um það. Rétt eins og tjéllingin sagði þá styttir öll él upp um síðir og átti það svo sannarlega við. Það stytti upp og það sem meira er það sást aðeins til sólar. Svo gerði reyndar góða skúra inn á milli. Þegar líða fór á kveldið fór að tók aðeins að fjölga en ekki var það mikið. Mjög tómlegt í Básum þetta kveldið. Góli og frú mættu á Yankee Monster og komu sér niður í nágrenni við okkur. Góðkunningar tjalda með oss eins og bara í gamla daga. Svo birtist Bergmannklanið með sína tvo tjaldvagna. Það hafðist að koma þeim fyrir. Kvöldið var svo bara frekar rólegt en mezt allt kveldið sátum við í partýtjaldi þeirra Graðabæjarskáta og sötruðum það öl og sögðum sögur.

Á laugardagsmorgni hafði stytt upp og er það vel. Nú fór aðeins að týnast inn fólk. Bæði gildir limir sem og góðkunningar oss. Matti Skratti og Addi voru manna árrisulir úr bænum og því mættir fyrstir á Patta með hjólheztana á toppnum. Voru þeir með áætlarnir um að skella sér upp að Gosstöðvum og hjóla svo niður. Þetta gjörðu þeir og það tvisvar.
Eldri Bróðirinn var svo næztur á svæðið og fékk kauði far með come on Viktor og Áslaugu á Bláu þrumunni. Fljótlega eftir það símaði leynigesturinn í oss og þá var kominn tími að halda til móts við þá og pikka þá upp. Þar er auðvitað verið að tala um sendiherra oss í Svíaríki og var frumburður þeirra sendiherrahjóna með í för. Ekki vorum við Billi komnir langt eða bara að Hvanná þegar smá vandræði hófust. Hvannáin hafði grafið sig hressilega og var ansi hressandi ál í henni sem náði upp fyrir húdd á Rex. Þar bleyti kauði sig og gekk því mjög tussulega. Þar sem við Billi biðum í grunna hlutanum á Hvanná með dautt á bílnum símaði maður í Eldri Bróðirinn og óskaði eftir aðstoð. Ekki klikkuðu félagarnir frekar en fyrri daginn og brugðust skjót við. Reyndar þegar þeir komu hafði mér tekist að koma Rex í gang og upp á þurrt en samt gekk hann nú ekki alveg á öllum. Það var bara ekkert annað að gjöra nema þerra kauða. Til að komast svo aftur yfir Hvanná var spotti hengdur aftan í Gullvagninn og til öryggis hafður á milli yfir. Gullvagninn dró svo Ken líka yfir og Bláa þruman fór á undan Sindy með spotta á milli. Allt gekk vel nema það að Eldri Bróðirnn óð þrisvar yfir og var óvart skilinn yfir á hinum bakkanum þegar allt action var búið. En eitt verkefni var eftir sem var að pikka Tiltektar-Togga upp og fór Viktor í það verkefni. Fær hann beztu þakkir fyrir það. Svo var bara farið að huga að kveldmat og öllu því sem því fylgir. Reyndar kíktu svo Eyþór og Bogga í stutta heimsókn á Lata Róbert en þau voru bara á rúntinum og höfðu ma kíkt upp í Tindfjöll. En hvað um það. Eftir að fólk var búið að borða tók bara við almenn höld en þetta var nú samt allt frekar í rólegri kantinum svona m.v mörg undanfarin ár.

Auðvitað var svo sól og blíða á messudag. Fólk helt bara áfram sínum almennum rólegheitum en að vísu var stuttur göngutúr yfir í Litla Enda og upp tröppurnar á Bólfelli. Það tókst að rífa tjöldin niður í þurru og pakka þeim saman. Síðan var bara raðan í bíla og ekið í halarófu niður að Stóru-Mörk. En skemmtilegt var svo að skrölta yfir gömlu Markarfljótsbrúna aftur eftir langa bið. Helginni var svo slúttað með ís og kaffi á Hvolsvelli.

Þessi Helgi klikkaði ekki frekar en þær fyrri þó svo að veður hafi verið betra en þá var félagsskapurinn betri.

En alla vega þá má skoða myndir frá Helginni hér

þriðjudagur, júlí 09, 2013

Sumarfrí 2013: Tíundi kafli

11.06.13





Þriðjudagurinn 11.06 kom, líkt og aðra daga þar á undan var ekki hægt að kvarta undan veðrinu. Það höfðu verið upp pælingar með að fara austur á Mývatn þennan dag. Þar sem litli farþeginn hafði sofnað seint þennan morgun og þá ákveðið að sofa lengur en vanalega var aðeins breytt útaf áður auglýstri dagskrá. Þar sem það var farið að líða á daginn svo ekki tók því að kíkja austur yfir á Mývatn þá tókum við bara rúntinn um sveitina. Skoðunarferð var gjörð að Laxárvirkjun og það verður að segjast að þar er eitt það glæsilegasta virkjunarstæði á landinu, jafnvel þó víðar væri leitað. Það var aðeins rölt upp með ánni þarna og aðeins gægst inn um glugga á virkjunni til að sjá rafaflana þar.
Eftir þetta var áfram ekið um sveitina uns komið var að Grenjaðastöðum. Vorum reyndar svo seint á ferðinni að safnvörðurinn þar leyfði okkur aðeins að reka þar inn nefið áður en kauði skellti í lás. Er við nálguðuðumst bústaðinn var tíminn orðinn það áliðinn að við nenntum ekki að standa í eldamennsku heldur kíktum við aðeins til Húsavíkur og brugðum okkur á Gamla Bauk niðri við höfnina.
Eftir að kvelda tók og Skotta var sofnum brugðum við hjónaleysin okkur í stuttan hjólheztatúr sem var ansi hressandi

Annars eru myndir frá deginum hér

mánudagur, júlí 08, 2013

Helgarútilega



Nú þegar Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórmerkurferð, sem reyndar var haldin í Básum á Goðalandi, fór fram um rétt liðna helgi rættu Maggi á móti og Litli Stebbalingurinn aðeins komandi helgi. Eina sem var ákveðið var að stefna á útilegu. Þar kemur reyndar Snæfellsnes sterklega til greina, svona ef spámenn ríkzins verða í góðu skapi, en auðvitað fer eftir hvernig það kemur til með að viðra hvernig endanleg ákvörðun verður tekin með áfangastað. Auðvitað eru allir áhugasamir, jafnvel líka þeir sem ekki hafa áhuga, sem og allir aldurshópar velkomnir með. Þetta skýrist allt vonandi þegar nær dregur komandi helgi

Kv
Tjaldbúarnir

sunnudagur, júlí 07, 2013

Sumarfrí 2013: Níundi kafli



Mánudagurinn 10.06 rann upp og viti menn, hann var jú bjartur og fagur. Það hafði verið ákveðið kveldinu á undan að kallarnir í bústaðnum skyldum halda á Samgöngusafnið á Ystafelli á meðan kvennþjóðin myndi sá um almenn bústörf á meðan. Það var bara ekið sem leið lá lengri leiðin að Ystafelli. Þar var einhverjum klst eydd við að skoða gamla bíla sem og spjalla við staðarhaldara. Þar sem það var mjög lítið að gjöra þennan dag fengum við að kíkja á Hælisbílinn sem er í uppgjörð. Eftir bílana gerðum við stuttan stanz við Goðafoss svona til að gjöra samanburð m.v flöskudaginn þá var reyndar tækifærið nytt í að grípa eins og einn ís úr vél eða svo. Bakaleiðinni tókum við rúnt um sveitina í Aðaldal svona til að lengja aðeins í. Svo tók bara eldamennska við
Svo er kvelda tók þá skelltum við Krunka okkur í baðlaugina við Kaldbak og létum gullfiskana þar narta aðeins í tærnar á okkur. Viss vonbrigði að finna hvergi krókudíla sem þarna eiga að leynast.

En það má skoða myndir hér en bezt að vara við að þetta er meztmegnis bílamyndir

föstudagur, júlí 05, 2013

fimmtudagur, júlí 04, 2013

Hafsjór minninganna

Þar sem Helgin byrjar barasta á morgun er ekki úr vegi að rifja aðeins upp Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferðir, sem reyndar eru allar inní Bása, síðustu árin

2007
2008
2009
2010
2011
2012


Góðar stundir og sjáumst um Helgina
Skál í botn og restina í hárið

miðvikudagur, júlí 03, 2013

Sá tuttugasti og sjötti þetta árið

Já góðir hálsar. Nú er komið að því. Síðasti Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurlistinn þetta árið að fara í loftið. Það er alltaf viss fögnuður þegar kemur að því en um leið tregablandinn kvíði.
En mikið verður þetta gaman nú þegar haldið verður í 19.skiptið og styttist væntanlega í tuttugasta skiptið sem og eru 20 ár bara rétt handan hornsins.
Verum ekkert að dvelja við einhverjar tölur heldur komum okkur bara að máli málanna

Skemmtilega fólkið:


Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist
Eldri Bróðirinn
Brekku-Billi
Bergmann
Frúin
Erfðaprinsinn
Gosi
Maggi á móti
Elín Rita
Andrés Þór
Birgir Björn
Magnea Marta
Pabbi Bergmann
Mamma Bergmann
Brósi Bergmann


Fallegu bílarnir:

Willy
Brútus
Gullvagninn
Sindy og Ken
Yankee Monster
Litli Koreustrákurinn


Svo er náttúrulega von á leynigest sem og sú saga gengur um bæinn að það eigi að fjölmenna upp í Reykjadal í kveld og skella sér þar í árshátíðarbað
Fleira var það ekki þetta árið og skráningardeildin birtist svo aftur strax eftir áramót og byrjar að taka við skráningum fyrir Bása 2014 1.jan 2014 kl:00:01
Góðar stundir

Kv
Skráningardeildin

P.s Líf og fjör Ósló bíður í ofvæni. Háborg skemmtanalífsins

þriðjudagur, júlí 02, 2013

Almannarómur

Sú saga gengur nú um bæinn að nokkrir sveinar hafi uppi hugmyndir um að skella sér í árshátíðarbað, að sjálfsögðu upp í Reykjadal, annað hvort í kveld eða annað kveld. Slíkt er vel. Þá er barasta að fjölmenna uppeftir

mánudagur, júlí 01, 2013

Geysir



Þegar fór að draga nær síðustu helgi gerðu spámenn ríkzins okkur þann greiða þá batnaði spáin með hverjum degi sem nær dró helginni. Við hjónaleysin höfðum líst yfir áhuga að bregða oss úr bænum svo eins og eina nótt. Þegar leið á flöskudag var sú pólitíska ákvörðun tekin að fara bara á laugardag og vera yfir á sunnudag. Eftir að hafa lagt hausinn aðeins í bleyti var komist að þeirri niðurstöðu a halda á Geysi. En stór hluti að þeirri ákvörðun var auðvitað sú að hér á bæ var fjárfest í útilegukortinu fyrir sumarið og er Geysir inni í því. En hvað um það.
Við lögðum í´ann um hádegi á laugardag með stefnun á gullna hringinn en gjörð viðkoma í Mosó til að tanka og koma við í nýlenduvöruverzlun. Ferðin austur gekk stóráfallalaust fyrir sig sem og að finna gott tjaldstæði og koma upp ,,sumarbústaðanum". Það má alveg fullyrða að þetta tjaldsvæði kom okkur þægilega á óvart og má alveg mæla með því. Sérstaklega skal taka það fram að bezt að koma sér fyrir sem næzt hverasvæðinu þrátt fyrir hallanda þar. En hvað um það.
VJ hafði líst því yfir að þau hefðu hug á tjaldferð en svo kom í ljós að allt útilegudótið þeirri var ,,týnt" ofan í geymslu svo þau breytu útilegu yfir í dagsferð. Meira að því síðar
Þetta var allt saman óskaplega rólegt hjá okkur. Tókum rölt um tjaldsvæðið, hverasvæði og fórum svo að lokum að leiksvæðinu þar sem Skotta fékk að reyna rennibraut og rólu. Að vísu hvar ekki farið í rólustökk með þá stuttu enda ekki ennþá búin að ná hvorki lágmarksaldri né hæð. Svo tók bara grillmennska við. Eins og áður kom fram var þetta allt saman frekar rólegt og þægilegt hjá okkur. Það sem var líka skemmtilegt um kveldið og nóttina þegar maður lá í tjaldinu þá heyrði maður í Strokki gjósa.
Á sunnudagsmorgninum var áframhaldandi leti og nenntum við ekki strax á fætur heldur láum við bara í chilli inni í tjaldi í blíðunni. Þegar svo VJ símaði var spurði leiðar að oss var ekki lengur til setunar boðið og maður hundskaðist loks á labbir. Nánast um leið renndu VJ, HT og TSV í hlað hjá oss. Eins og íslendinga er siður bauð maður gestum upp á kaffi og köku. Svo var svo sem eiginlega bara notið veðurblíðunnar en að sjálfsögðu var svo tekið rölt. Við kíktum í Haukadalsskóg vopnuð sitthvorri torfærukerrunni, þar er prýðilegasta aðstaða og vel hægt að skrölta þar reyndar vantaði bara neztið. Er hringnum var lokið beið okkar pulsupartí við tjaldið. Svo fljótlega eftir það var farið að huga að brottför og var skemmtilegt að fá þetta heiðursfólk í heimsókn og bralla aðeins með því yfir daginn. Eftir tiltekt var bara ekið heim og auðvitað tókst manni að fara hring.

Auðvitað var myndavélin með í för og má sjá afraksturinn hér. (smá viðvörun því fullt að barnamyndum eru þarna og ekki víst að allir hafi gaman að því