föstudagur, febrúar 27, 2015

Landmannalaugar



Dagana 6-8.febrúar s.l fór FBSR í sína næztum því árlegulegu Landmannalaugaferð þar sem fararskjótarnir voru gönguskíði, jeppar og vélsleðar. Í þessari ferð voru nokkrir gildir limir í V.Í.N. og svo fullt af góðkunningjum. Bara gaman að því. Þarna á ferðinni voru:

Stebbi Twist
Maggi á móti
Eldri Bróðirinn
Bergmann

voru þetta gildu limirnir en síðan voru líka góðkunningjar:

Brekku Billi
Matti Skratti
Arnaldur Diablo
Halli Kristins, sem er með ykkur á Bylgjunni og þar sem öllu máli skiptir að lúkka vel á fjöllum
Steinar
Eyþór
Sleða Stebbi
Biggi sá er kom með í fyrstu fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð fyrir bráðum 20 árum síðan

Nú menn völdu sér misjafna fararskjóta:

Stebbi Twist-Salomon XADV 69 (já, takk) GRIP
Steinar- Ficsher E99 Crown
Matti Skratti- Ficsher E99 Crown
Arnaldur Diablo- Ficsher E99 Crown
Eyþór-Karhu
Birgir- Ficsher E99 Crown

voru allir á gönguskíðum

Maggi á móti á FBSR5
Eldri Bróðirinn á Lágfeta
Brekku-Billi á Lágfeta
Halli Kristins með ykkur á bylgjunni á FBSR5

voru sum sé á jeppum

Bergmann á Ski do
Sleða Stebbi á skemmtaranum

Þ.e vélsleða.

Ferðin byrjaði á flöskudegi þar sem sagnaritari hafði snúist í marga hringi með það hvort maður ætti að druslast með púlku eður ei. Á endanum var það Steinar sem sannfærði Litla Stebblinginn um að hafa með púlku, enda um að gjöra að nota þetta dót sem er til. En alla vega það var svo stigið upp í langferðabíl frá Gvendi Jónasarsyni og ekið sem leið lá að beygjunni, ef það segir einhverjum eitthvað. Þar stigu þau út sem ætluðu á prikum inneftir. Þar gekk á með hríðjum en sem betur fer var kári kallinn í bakið og að auki var eðal skíða og púlkufæri. En eftir c.a 5 km göngu var kominn tími að reisa tjöld og koma sér í svefninn.
Af jeppum og sleðum er það að frétta að þeim gekk sæmilega innúr og voru að koma í skála einhvern tími milli 02-03 um nóttina.
Steinar hafði verið svo hjartgóður að skjóta skjólshúsi yfir Stebbalinginn sem var einn og yfirgefinn eftir að Maggi Móses hætti við að fara á skíðum og flúði yfir í jeppa. En alla þá var sá sem þetta ritar loks svo frægur að gista í Hillebergtjaldi.

Laugardagurinn rann svo upp og nú skiptist hópurinn upp í tvennt. Þ.e B1 fór sína leið og B2 fór svo aðra leið og fór Twisturinn með þeim síðarnefnda. Þetta svo gekk ágætlega og þrátt fyrir gil, brekkur, sneiðinga og skorninga þá gekk bara vel að skrölta þetta allt saman með púlkuna í eftirdrægi. Enda íslensk framleiðsla fyrir íslenskar aðstæður.
Við Löðmundarvatn var svo tekinn hádegismatur og þar var kallað til sleðamann sem komu skömmu síðar til heilza upp á oss. Bergmann gaf okkur svo grafið hreindýrainnralæri að smakka. Nammi, namm. Sleða-Stebbi tók svo nafna sinn í smá prúfurunt á turboskemmtaranum. Vá, því líka orkan í einu tæki og ekki mikið vandamál að fjósa upp brekkur á þessu tæki. En hvað um það.
Ferðin hélt svo áfram en við vorum ekki komin í skála fyrir en eftir myrkur og þá bólaði ekkert á Beinum. En Maggi Brabra og Eldri Bróðirinn tóku á móti oss. En þeir höfðu ásamt Halla Kristins, sem er með ykkur á Bylgjunni, verið að fjallaskíðast um daginn á fjöllunum í kring. Það er vel.
Svo leið að því að bílarnir kæmu og þá með nokkra úr Beinum en líka með kjetið og töskuna með aukafötunum. Mikið var nú ljúft að komast í þurr fött, nýja sokka og síðast en ekki síst í Tevurnar.
En alla vega nú tók við eldamennska en að vanda vorum við með jöklalamb ala Matti Skratti. Var það étið af beztu lyzt. Svo eftir mat var kominn tími á laugarferð og auðvitað um leið umferð í heimsbikarmótinu í sprettlellahlaupi. Þar bar Eldri Bróðirinn sigur úr bítum. Svo er komið var úr lauginni var bara skriðið í koju enda flestir lúnir eftir daginn.

Messudagur rann svo upp og arkað var af stað í áttina að Sigöldu. Í fyrstu voru við með vindinn í bakið en svo þegar kom að jarðfallininu og restina var vindurinn svo skáhallt í bakið. En heimferðin gekk alveg ágætlega en auðvitað eins og gengur og gjörist í svona ferðum var fólk misjafnlega á sig komið. Sumir fóru hraðar yfir en aðrir, á nokkra vantaði hælana, veikindi, meiðsli og fleira, En það vildi svo ekki betur til að í einni brekkunni, frekar sakleysisleg, datt einn nillinn og snéri sig illa á hné. Honum var bara skellt á púlkuna hjá Stebbalingnum og arkað með hann ca 50m að hópnum. En það tók í og var erfitt að koma honum af stað þarna en það hafðist. Honum var svo skömmu síðar komið fyrir í einum af Hrælúxum sveitarinnar. Ferðin gekk svo bara áfram og við göngubrekkuna var hádegismatur og þar fékk maður kaffi ala Arnaldur, bezta fjallakaffi í veröldinni. Svo var gaman að sjá fólk slysast niður Sigöldbrekkuna.
En þrátt fyrir skítaspá þessa helgi þá vorum við bara heppin með veður ekki virtist þessi spá alveg ganga eftir. Það einmitt passaði að þegar við komum að rútunni þá kom skítaveður en eiginlega bara á bezta tíma

En sé einhver áhugi fyrir hendi má skoða myndir frá helginni hjer

miðvikudagur, febrúar 25, 2015

Áttundi í skráningu 2015 AD

Já, komið sæl og blessuð þessa vikuna sem margar aðrar. Nú er síðasta vikan í styðsta mánuði ársins víst staðreynd sem auðvitað þýðir bara eitt. Við erum næztum heilum vinnumánuði nær en við vorum í janúar nú eða bara um áramót er byrjað var að taka á móti skráningum. Guðmundur Magni Ásgeirsson.
En allavega þá stystist eins og óð fluga í fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarammælisþórsmerkurferðina 2015 sem er vel. En ætli fólk sé nú ekki meðvitað um það svo bezt er sjálfsagt bara að koma sér að lista hina viljugu og staðföstu þessa vikuna


Ammælisgeztir:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist
Bergmann


Ammælisjeppar:

Willy (svona af gömlum vana)


Fleira var það ekki þessa vikuna


Kv
Skráningardeildin

miðvikudagur, febrúar 18, 2015

Sjö í skráningu 2015 AD

Já í enn eitt skiptið eru fastalesendur þessarar síðu angraðir með lista hina viljugu og staðföstu. En auðvitað er bara gaman að því amk að bögga fólk með því. En hvað um það

Nú farið að síga á seinni hluta styðsta mánaðar ársins og auðvitað táknar það að við erum næztum því mánuði nær Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsammælisferðinni 2015. Það er vel. En er ekki bara bezt að koma sér að máli málanna þessa vikuna

Ammælisgeztir:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist
Bergmann


Ammælisjeppar:

Willy (af gömlum vana)


Eins og sjá má hefur ekki mikið bæst í hópinn. Sjálfsagt er fólk upptekið við skíðamennsku, jeppaferðir eða bara almennan heimilsrekstur. Ekki má svo gleyma því að sumarið er rétt handan við hornið og verður komið áður en fólk veit af, þrátt fyrir að tíðarfarið síðustu daga benti eigi til slíks.
Svo er bara að skrá nafn sitt og sinna hjer í skilaboðaskjóðunni að neðan og málið er dautt

Fleira var þá ekki þessa vikuna og bara þangað til í næztu viku

Kv
Skráningardeildin

mánudagur, febrúar 16, 2015

Stuð í Skálafelli



Nú þann síðasta dag síðasta mánaðar skellti sagnaritari ásamt Eldri Bróðirnum sér á opnunardaginn í Skálafell. Þar var ekki bara ætlunin að skíða heldur líka aðeins að fylgjast með ,,fyrsta" fjallaskíðamótinu. Sem og var gjört. (Til gamans má geta að V.Í.N átti fulltrúa og handhafa verðlaunasætis í fystafjallaskíðamótinu hér á fróni).  Það var stuð að sjá keppendur og maður kannaðist misvel við æði mörg andlit á meðal keppanda. En alla vega þá fylgdust við með keppendum í startinu. Þeir sneggstu voru nú ansi kvikir því þegar við komum upp með stólalyftunni voru fyrstu menn farnir framhjá en til gamans má geta að sá sem vann tók þetta á 43 mín. Sæmilegt það.
Aðeins síðar hittum við svo á Steinar og frú, skíðuðum aðeins með þeim. Svo rákumst við líka á Jökla-Jölla en þau voru öll fimm í fjallinu að renna. Það er vel.
Svo fyrir tilviljun hittum við aðeins Danna litla gaman að því.
En skemmtilegasti partur dagsins var að Fjallakofinn var með prufueintök af skíðapörum þarna í fjallinu og auðvitað þurfti maður aðeins að prufa. Gaman að því og alltaf gaman að prufa ný skíði þá fer manni nefnilega að langa í ný og þessi skíðadagur gæti reynst þeim sem þetta ritar ansi dýr þegar uppi er staðið. En auðvitað á maður að eyða peningunum

Sé einhver áhugi og nenna til staðar má kíkja á myndir frá deginum hjer

miðvikudagur, febrúar 11, 2015

Sexti í skráningu 2015 AD

Já, gott fólk nú styttist í að styðsti mánuður ársins verði hálfnaður, tíminn líður víst hratt á gerfilimaöld eins og skáldið sagði eitt sinn. Auðvitað táknar það líka að óðum styttist í Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurammælirferð. Já eins og marg oft hefur komið fram þá verður þetta 20 ára ammælishátíðarferð ekki amalegt það.
Skiljanlegt að fólk sé kannski ekki mikið farið að huga að sumrinu nú þegar vetur konungur er í essinu sínu og auðvitað eiga allir að vera úti að leika sér í snjónum. Munið bara að þetta styttist

Ammælisgeztir:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist
Bergmann


Ammælisjeppar:

Willy (af gömlum vana)


Þá var það ekki fleira þessa vikuna gott fólk. Bara þangað til í næztu viku



Kv
Skráningardeildin

þriðjudagur, febrúar 10, 2015

Skíðavertíðin byrjar



Svona í ljósi þess að meira en 1/3 er liðin af febrúarmánuði er kannski kominn tími að byrja á því að segja frá ,,ævintýrum" þessa árs.

Þannig var nú mál með ávexti að fyrsta laugardag þessa árs var ákveðið í samráði við Eldri Bróðirinn að skella oss á skíði í Bláfjöll. Ekki voru við einu V.Í,N.-verjarnir þar, nei ekki aldeilis, við vissum af Magga Brabra & CO. Á bílastæðinu þegar vér vorum að gjöra oss klár renndi Jökla-Jolli og Auður framhjá með drengina í aftursætinu. Reyndar vorum við alls ekki ein um þessa hugmynd að skella oss á skíði því það var æði margt um manninn þennan laugardag. Sem er auðvitað vel en svo vill maður náttúrulega helst eiga brekkurnar fyrir sig og þurfa ekki vera í röð í lyfturnar. En það verður víst ekki á allt kosið.

En þeir svo voru þarna á ferðinni voru

Stebbi Twist
Krunka (á nýju fjallaskíðunum, nýju fjallaskíðabindingunum og nýju fjallaskíðaskónum)
Eldri Bróðirinn

Þessi voru í samfloti en svo voru líka

Strandamaðurinn sterki
Auður
Úlfar Jökull
Óli Kalmann

Maggi á móti
Elín Rita
Andrés Þór
Birgir Björn
Magnea Marta

Gaman að hitta alla þessa í fjallinu og spurning um fara halda fjölskylduskíðadag í vetur?

En hvað um það. Það var ekki búið að vera lengi í fjallinu þegar Kóngurinn bilaði. Þá  minnti röðin í Drottinguna á hvernig þetta var í gamla daga. En þrátt fyrir þetta þá áttum við fínan dag og var þetta góð byrjun á vertíðinni.

Hafi fólk nennu má skoða myndir frá deginum hjer

miðvikudagur, febrúar 04, 2015

Fimmti í skráningu 2015 AD

Já nú er kominn nýr mánuður sem þýðir auðvitað að við erum mánuði nær 20 ára ammælis Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð 2015 en um áramót þegar skráning hófst. Það er vel.
Lítið að frétta frá síðast en við bíðum róleg, enda verður þetta ekkert betra ef fólk stressar sig á þessu.

Þar sem það gætir aðeins fyrir þreyttu hjá skráarrita þá höfum við þetta bara stutt í dag og komum oss að máli málanna.

Ammælisgeztir:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist
Bergmann


Ammælisjeppar:

Willy (af gömlum vana)

Þetta telst bara gott þess vikuna.


Kv
Skráningardeildin

mánudagur, febrúar 02, 2015

Á aðventu jóla



Svona fyrst það er komið fram í febrúar er þá ekki tilvalið að reyna klára að gjöra árið 2014 upp í máli og myndum.

Þá er komið að síðustu ferð síðasta árs sem var hinn árlega aðventuför Litlu fjölskyldunnar til Agureyrish. Þetta árið var ekki ætlunin að skíða enda ekki búið að opna skíðasvæði heimamanna. Ekki það að slíkt þurfi að stoppa mann, En hvað um það.
Við lentum seinni part dags á flöskudegi og fljótlega var ætlunin að skella oss á jólahlaðborð á Hótel KEA. Sem og var gjört. Að gömlum og góðum vana var étið á sig gat og veitingunum skolað niður með norðlenskum jólabjór.

Þegar laugardagsmorgunn rann var ætlunin að skella oss austur yfir heiðar og í Mývatnssveit. Þar var ætlunin að halda í Dimmuborgir og heilza þar upp á sveina nokkra kennda við jólin. Sú hugmynd kom upp að heilza upp á Smartísinn fyrst maður var þarna á ferðinni. En eftir að hafa símað í kauða þá kom það í ljós að slíkt var illómögulegt því hann var bara staddur í kaupstaðnum fyrir sunnan.
En allavega við komum í Mývatnssveitina og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið okkur hliðhollir en það var stilla og auðvitað kuldaboli en það er bara til að herða mann. Eitthvað var Skotta smeyk við þá bræður en í staðinn tókst þeim bara að skemmta okkur sem eldri voru. En það er óhætt að mæla með heimsókn á þá bræður í Dimmuborgir á þessum árstíma. Við skoðum líka helli einn sem einhverjir af þeim bræðrum hafa aðstöðu í. Áður en haldið var heim á ný kíktum við í kakó í gámabænum sem er þarna.
Síðar á laugardagskveldinu gjörðust Litli Stebbalingurinn og Krunka mjög svo menningarlega og skelltu sér í samkomuhúsið. En þar var Hundur í óskilum að gjöra upp 21.öldina á sinn hátt. Líkt og með Dimmuborgir þá má vel mæla með þessu stykki og fáar afsaknir því það er víst farið að sýna þetta í hinu útsvarsniðurgreidda Borgarleikhúsi. Gaman að því

Svo á messudag var haldið örlítið í suðurátt og inná Hrafnagil þar sem litið var í Jólahúsið og aðeins bætt á jólaskrautið ásamt því að drekka í sig jólastemninguna. Svo biðu bara oss pönnsur áður en haldið var aftur í borg óttans.

Sé áhugi og nenna til staðar má skoða myndir frá helginni hjer