mánudagur, október 29, 2007

Aðventuferð



Skíðadeild VÍN hefur hafið störf þennan veturinn. Haffi spjallaði áðan við pabba Bjarkar og var niðurstaða þeirra samræðna að íbúð í Furulundinum góða bíður eftir okkur 30. nóvember næstkomandi. Það er því tilvalið að fara að bera á skíðin og byrja að hlakka til.

mánudagur, október 22, 2007

Er það grand eða nóló?

Sælt veri fólkið, og takk fyrir síðast. Þetta var sennilega með betri þrítugsammilum sem Jarlaskáldið hefur haldið.

Einhvern tíma þegar sól var hærra á lofti var sú lýðræðislega ákvörðun tekin að halda La Grande Bouffe helgina 26.-28. október. Það mun vera næsta helgi. Það er allt gott og blessað, en síðan virðist sem undirbúningsnefndin hafi ekki verið sérlega dugleg, og leikur grunur á að það hafi gleymst að skipa hana. Í það minnsta hefur ekkert nefndarálit borist.

Nú eru því góð ráð dýr. Eða hvað? Svo virðist sem Haffi hafi fundið ráð sem ætti ekki að vera neitt sérlega dýrt. Hann er sem sagt búinn að panta hús skammt sunnan Langjökuls sem kallað er Ríkið. Það er hið ágætasta hús sem rúmar dágóðan fjölda gesta, og því fleiri eftir því sem vinskapur gestanna er meiri. Þá er þar stórt grill og sauna, en að vísu enginn heitur pottur. Það er ekki á allt kosið. Í Ríkið er tæplega fólksbílafært, en allavega Lillafært, svo það ætti ekki að vera mikið vandamál að koma þeim sem vilja á staðinn.

Það er s.s. tillaga nýskipaðrar og um leið sjálfskipaðrar undirbúningsnefndar að fara í Ríkið um helgina og halda þar La Grande Bouffe, eða Semi-Grande Bouffe, eða jafnvel Grande Bouffe Nano. Tillagan er s.s. sú að fara á laugardaginn, grilla eitthvert gott ket og jafnvel eitthvað meira ef vilji er fyrir því, dreypa þar á fínasta víni og gista eina nótt. Hefur einhver áhuga á því?

fimmtudagur, október 11, 2007

Eina ósk

Rétt eins og VJ bendir hér á hefur verið lítið líf á hér á V.Í.N.-síðunni undanfarið.
Ætli það sé ekki rétt að maður reyni að beita þeirri litlu skyndihjálparkunnáttu sem maður hefur yfir að búa og geri tilraun til þess að hnoða smá lífi í þetta allt saman.

Annars er það helst að frétta að utanfararhópur fór til Bandaríkjanna Norður Ameríku nú 28.sept s.l. Reyndar hefur helmingurinn nú þegar skilað sér aftur á ættjörðina. Spurning hvort þar fari betri helmingurinn, ætli það sé ekki bezt að láta aðra dæma um það. Hinn hlutinn er enn í US&A og er í rómantískriferð í sólinni og svitanum á Floridaskaga. Eru nú reyndar væntanleg á klakann eftir ekki svo langan tíma. En hvað um það.
Kannski fyrir þá örfáu sem ekki enn hafa skoðað myndirnar úr fyrsta hluta ferðarinnar, frá Skáldinu, þá er hægt að skoða þær hérna.

Fyrr nefndur kappi spyr líka hvort eitthvað nýtt sé að frétta af stóra Matarveizlumálinu. Rétt eins og alþjóð er kunnungt þá fer hún fram dagana 26-28.okt n.k. Eftir því sem Litli Stebbalingurinn veit bezt þá er ekkert nýtt að frétta. En þó ber að taka því með fyrirvara þar sem kauði er þekktur fyrir að frétta allt saman langsíðastur. Ef einhverjar fréttir eru þá má alveg koma þeim á framfæri í þar tilgerðu athugasemdakerfi. Þó það sé vissulega nokkuð til í því sem tjéllingin sagði eitt sinn ,,að engar fréttir væru góðar fréttir´´.
En þangað til eitthvað nýtt gerist þá skulum við gæða okkur á þessu

Að lokum er kannski rétt að minnast á það að nú rétt í þessu var hluti af göngudeildinni að ræða hugsanlegan hreyfing um komandi helgi. Ekki er frekar fast í hendi hvorki með tímasetningu né ákvörðunarstað. Líklegast mun það ráðast af veðri og vindum. Áhugasamir velkomnir með. Ekki svo vitlaust að láta reyna á nýkeyptu í útlöndum græjunar. Svona fyrir þá sem það á við.

Fleira var það vart í bili.
Þangað til næzt.