laugardagur, júlí 20, 2013

Sandari og KefsariNú um síðustu helgi eða fyrir sléttri viku var haldið í víking verstur á Snæfellsnes. Það var byrjað á því að herja á Stykkishólm, eða hólminn þar sem forfeður vor komu saman til að gjöra stykkin sín, þar sem skyldi njóta tóna áhafnarinnar á Húna II. Hér úr borg óttans fóru 6 sálir en það voru:

Stebbi Twist
Krunka
Skotta Twist

á Rex


Hvergerðingurinn
Plástradrottningin
Sunna

á Spænskumælandi koreubúa

Undirritaður og Hvergerðingurinn komust að þeirri niðurstöðu að hafa hjólhezta með í för og jafnvel brúka þá eitthvað ef fólk væri í stuði.

Er komið var á Kjalarnes símaði Gvandala-Gústala í oss en hann og stelpurnar voru einmitt stödd á Snæfó. Reyndar í veiðihúsi við Skógarströnd einhverja 50 km frá Stykkishólmi í austurátt. En í samtali þessu var ákveðið að hittast í Hólminum, grilla þar og skella sér síðan á tónleika. Áður komið var á nesið var gjörður stuttur stanz í Borgarnesi til að koma þar við í nýlenduvöruverzlun.
Er í Hólminn var komið var endanlega tekin sú ákvörðun að slá þar upp tjöldum. En Gvandala-Gústala og co voru komin fyrir en höfðu skellt sér í sundlaugarferð. En þegar Vangoborgin var komin upp var hafist handa við að grilla ofan í og í mannskapinn.
Svo þegar allir voru orðnir mettir var kominn tími að rölta niður á höfn til að njóta menningar. Þegar á hafnarbakkann var komið rákumst við á Raven og Örnu. Gaman að því. En Gvandala-Gústala og þau stoppuðu styttra en við hin þar sem stelpunum var orðið kalt og þær þreyttar. Eftir tónleika var bara tölt aftur upp á tjaldsvæði og þar komu hinir ýmsu gestir í heimsókn, bæði vinir og skyldmenni.

Það var svo uppúr hádegi á laugardegi sem tjöldin voru felld niður og ætlunin að halda vestur á Hellissand þar sem Plástradrottingin hafði verið svo höfðingsöm að bjóða okkur þak yfir höfuðið. En áður en hægt var að leggja í´ann var rennt við í morgun kaffi hja bróður Plástradottingarinnar og mágkonu. Þar var tekið höfðinglega á móti oss með kaffi og morgunhressingu. Kunnum við þeim hinar beztu þakkir fyrir veigar. Svo rétt áður en hægt var að yfirgefa Stykkishólm var kíkt á einn frænda Krunku sem er að gera hús upp við höfnina á Stykkishólmi. Síðan var bara ekið sem leið lá vestur á Hellissand. Þarf varla að koma neinum á óvart að það gjörði nokkra skúraleiðingar á okkur á leiðinni. Þegar við rúlluðum í gegnum Ólafsvík sáum við frænku Krunku og þurftum aðeins að rabba við hana.
Loks komum við á Hellissand og ekki leið á löngu uns Maggi Brabra ók inní götuna en hann var þar á ferðinni með allt sitt klan en það eru:

Maggi á móti
Elín Rita
Andrés Þór
Birgir Björn
Magnea Marta

á Sindy með Ken í eftirdrægi.

Plástradrottningin skellti í pönnsur eins henni einni er lagið og bauð okkur upp á síðdegishressingu. Þetta var mjög veglegt hjá henni líkt og henni er von og vísa. Þegar allir voru búnir að njóta hressingar var farið í göngutúr um bæinn undir traustri leiðsögn heimastúlkunnar. Það má líka eiginlega segja að þetta hafi verið hálfgjörð pílagrímsför hjá Litla Stebbalingnum og Magga Móses eftir dvöl okkar þarna eina júlíhelgi árið 2000. Þarna var margt skoðað m.a gamlar verstöðvar, gömul hús og skrúðgarð. Við vörum bara í rólegheitarölti þarna og höfðum gaman að. Þegar komið var aftur í hús var bara hafist handa við að undirbúa og græja það sem þurfti fyrir kveldmat. Kveldmaturinn gekk sinn vanagang og svo þegar yngstu meðlimirnir voru komnir í koju var bara sitið og spjallað. Að vísu skuppum við karlpenningurinn í stutta heilzubótargöngu til að kíkja á stemninguna við Röstina sem og á tjaldsvæðinu.

Þegar messudagsmorgun rann upp og fólk fór að týnast á lappir kom það á daginn að gestgjafinn okkar var bara orðin slöpp og hálf veik. Ekki gott það. En eftir morgunmat, messu og mullersæfingar ákvöðu við strákarnir að skella okkur í smá hjólheztatúr og skreppa yfir á Rif. Á leið okkar yfir yrðum við fyrir fólskulegum loftárásum frá brjáluðum kríum á leiðinni og m.a var skitið á bakið á Stebbalingnum svo ógnandi þótt hann. Við virtum aðeins Rif og þá aðallega höfina fyrir okkur og á bakaleiðinni þá fórum við þjóðveginn en ekki sama stíg. Það er einmitt fínasti stígum á milli Hellissand og Rifs.
Er komið var úr hjólhestaferðinni var hafist handa við að undirbúa brottför og ganga frá eftir okkur. Það gekk allt ágætlega og vonandi skildum við við húsið sómasamlega amk ekki verra en við tókum við því. En svo skildu bara leiðir. Maggi, Elín og börn ætluðu í sund og jafnvel svo reisa tjaldvagninn upp á nesinu, við hjónaleysin ætlum að heilza upp á fólk í bústað á Arnarstapa. Meðan gestgjafarnir ætluðu bara að hvílast aðeins lengur áður þau færu. Við ökum svo sem leið lá út fyrir nes og gjörðum smá stanz á Arnarstapa þar sem við m.a heilzuðum upp á svín Skottu til mikillar gleði. Á leiðinni suður hafði Plástradrottingin samband og kom þá í ljós að við vorum ekki langt á eftir þeim. Það var því komist að þeirri niðurstöðu að hittast í Borgarnesi og skelli sér þar á þjóðveganezti enda komið að kveldmatartíma. Ferðin endaði því með kveldmat í nýju Hyrnunni (nýjar umbúðir sami skíturinn).

Auðvitað var myndavél með í för og myndir má skoða hér

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!