föstudagur, júní 01, 2012
Tevufar
Eftirfarandi TEVU-Far reglur er frá Stórmeistara Danna Djús
Tevufarsreglur
1. Teva er alltaf skrifað með stórum staf, vegna virðingar, ekki vegna þess að orðið er sérorð. Æskilegast er að allir bókstafir séu með hástöfum (TEVA).
2. Teva fallbeygist á eftirfarandi hátt í íslensku
Eintala Fleirtala
Teva Tevur
Tevu Tevur
Tevu Tevum
Tevu Teva
3. Það má alltaf, hvar og hvenær sem er monta sig og sína Tevufarið sitt. Enginn staður telst vera of fínn til þess. Æskilegt þykir að viðkomandi Tevufarsberi sé í hreinum sokkum, með hreinar fætur þegar til sýninga kemur.
4. Það er æskilegt að þeir einstaklingar sem bera Tevufar sýni öðrum þeim, sem bera Tevufar og hafa það sýnilegt, virðingu og hrósi viðkomandi. Til dæmis á sundstöðum. Árstími hefur ekkert að segja um þessa reglu.
5. Það er stranlega bannað að nota sokka þegar gengið er um í Tevum, sérstaklega á þetta við í útilegum og erlendis. Það er óþarfi að nefna það að sokkar, Tevur og stuttbuxur eiga ekki saman, aldrei saman og er hreinlega bara rangt. Regla þessi gildir alltaf, nema við nokkrar undantekningar sem teljast hér að aftan. Reglan gildir fyrst og fremst á keppnistímabilinu (frá byrjun maí til og með ágúst).
6. Að nota Tevur um hávetur (án eða með sokkum) utandyra telst sem fífldirfska og á ekkert skylt við þessar keppnisreglur.
7. Notkun sokka við Tevur á vinnustöðum, sérstaklega á við á skrifstofum, er í lagi. Æskilegt er að vera í svörtum sokkum við svartar Tevur og ljósum sokkum við ljósar Tevur. Annars er í lagi að vera í marglituðum sokkum, það kætir alla, í kringum þann Tevuklædda. Bent er á hinu almennu reglur fyrirtækja um að vera berfætt(ur) í inniskóm eða Tevum. Þessar reglur er oftast beintengdar stuttbuxnareglum fyrirtækisins, sem að öllu jöfnu banna slíkt. Bent er á að þessi regla á ekki við póstburðarmenn.
8. Keppnistímabilið er eingöngu frá byrjun maí og til loka ágúst, má lengja í vissum hópum, félögum, samtökum, félagasamtökum og/eða klúbbum. Of notkun sokka án gildrar ástæðu getur orsakað brottvísun úr keppninni. Ef meira en 30% keppenda á afmörkuðu svæði eru ekki í sokkum teljast hinir 30% brottvísir úr keppninni ef þeir fara ekki úr sokkunum eða í annan skófatnað hið fyrsta við ábendingu um slíkt ef engin gild ástæða er fyrir sokkavalinu.
a. Til gildra ástæðna telst ekki að kalt sé í veðri (hér er talað um á keppnistímabilinu). Það er í lagi að vera í sokkum eftir sólsetur á keppnistímabilinu og fram til klukkan sex að morgni. Undir flestum tilvikum er þetta um 5 klukkutímar eða svo, á keppnistímabilinu.
9. Þegar lofthitastig nær yfir 12°C og sólskin eiga allir keppendur að vera án sokka.
10. Sjálfkrafa teljast til keppenda allir meðlimir sama hóps, félags, samtaka, félagasamtaka og/eða klúbbs.
Reynslu saga Daníel Sigurbjörnssonar
Sumt má bara ekki gera þegar maður gengur í TEVA, það lærði ég í Amsterdam. Ég eignaðist mitt fyrsta par árið 1996 og ákvað að kaupa mér F1 týpuna af þeim (að mig minnir að hún hafi heitið þá). Af einhverjum ástæðum voru Tevurnar ekki notaðar mikið í fyrstu. Í flestum tilfellum voru þær eingöngu notaðar í útilegum og sem inniskór í framhaldsskóla. Þegar ég fór svo að vinna á fullu sem rafvirki urðu þær að vörkumerki mínu ásamt myndasokkum frá The Sock Shop. Það má ekki gleymast að það var ekki fyrr en árið 1999 í Amsterdam að ég uppgötvaði að ég væri Íslendingur. Þar var ég ásamt 2 vinum mínum, þeim Tóta og Bensa. Þegar við gengum inn í eina verslunina, allir í Teva, af sjálfsögðu, þá bað afgreiðslustelpan vinsamlegast að fara út, fara úr sokkunum og koma svo aftur inn. Eftir þetta þá hef ég frelsað fæturna mínar frá böl sokkanna þegar það á sjálfsögðu við. Ég hætti ekki að vinna sem rafvirki og notaði Tevurnar óspart. Til þess að lífga aðeins upp á virku daga varð ég einstaklega velbúinn sokkum frá The Sock Shop í Kringlunni, því ekki telst það viðeigandi að fá berfættan rafvirka í heimsókn þótt í Tevum sé.
Fyrstu Tevurnar mínar, keyptar í Skátabúðinni, 1996, á Snorrabrautinni, voru F1 eins og áður kom fram, lifðu fram til ársins 2001. Þá voru þær skildar eftir á Roskilde hátíðinni. Þær höfðu farið vítt og braut um Ísland og náð að fara í þrennar utanlandsferðir og það í þremur heimsálfum. Par númer 2 voru líklega keypt í Nanoq, þó ég muni það ekki alveg, líklegast nokkrum mánuðum síðar. Það var Teva F1. Þær náðu að lifa fram í október 2008. Þá var þeim hreinleg hent. Þetta par náði að ferðast vítt og breitt um Ísland, lifðu tvenna háskóla, þrennar íbúðir í Danmörku og endalausar flugferðir á milli Danmerku og Íslands, og loks aðeins eina desideraða utanlandsferð. Þrenna parið fékk ég svo í afmælisgjöf haustið 2008. Þetta eru Teva F2. Það má búast við því að þær lifi að minnsta kosti 5 ár. Það sem vanalega fer með þær er ekki að þær slitni, rifni eða fari illa. Það er fyrst og fremst lyktin sem gerir út af við þær, eftir endalausa notkun. Þessar þriðju Tevur hafa nú þegar komist í 3 heimsálfur.