þriðjudagur, júlí 26, 2011
Skíðað á Snjófelli
Núna þriðju helgina í júlí gerði Litli Stebbalingurinn hlut sem hann hafði ekki gjört þá í 12 ár. En það var að skella sér á skíði í miðjum júlí. Ekki amalegt það. Eftir að hafa reynt að komast að því hvað fólk ætliaði sér að gera eða hefði áhuga á einhverju, líkt og oft áður voru svörin engin, en eftir að hafa hringt upp á Arnarstapa, spurst þar fyrir um skíðafæri og fengið jákvæð svör var valið ekki flókið. Spáin var líka góð svo lítið var annað gjöra en að skella skíðunum á toppinn á Polly og svo bara afstað. En þarna voru á ferðalagi:
Stebbi Twist
Krunka
á Polly
Í blíðviðrinu var nú ekki hægt að bruna beint á Nesið heldur var komið við í Borgarfirði og rölt þar í rólegheitunum á stórfjallið Hestfjall, alveg heilir 220 mys. En eins og oft er með hóla og hæðir var prýðilegast útsýni af toppnum og m.a sáum við takmark helgarinnar. Eftir að hafa toppað var upplagt að skola af sér svitann í sundlauginni í Varmalandi síðan var bara ekið sem leið lá upp á Arnarstapa þar sem ársmiðinn kom að góðum notum. Reyndar leist okkur ekkert á hvað það var skýjað yfir nesinu og jöklinum en það átti eftir að breytast til betri vegar. Eftir að hafa komið okkur fyrir og skellt burger á grillið var bara komið sér fyrir ofan í poka og Óli Lokbrá heimsóttur fljótlega.
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Eftir morgunmat, messu og Mullersæfingar var gjörsamlega spólað upp Jökulhálsinn þangað þar sem sleðaleigan var með byrjunarpunkt. Þar voru skinin sett undir skíðið, spennt á sig nýju skóna, skíðin öxluð og arkað af stað. Fljótlega settum við skíðin undir okkur og gengum bara upp á topp. Reyndar var skýjað á toppnum þegar við hófum gönguna en eftir því sem ofar dró þynntist alltaf skýjabakkinn. Eftir tæpa 2,5 klst göngu toppuðum við og viti menn nánast um leið létti til. Eftir einhverja stund á toppinum þar sem hittum fullt af fólki sem kom upp á sleðum, með tróðara og svo líka gangandi í línu voru skíðin gerð klár fyrir niðurför. Já, takk allir saman fyrir afmælisgjöfina. Skinin virkuðu vel.
Það tók okkur svo ekki nema tæpa klst að komast aftur niður að bíl enda lá okkur svo sem ekkert á heldur nutum útsýnisins og veðurblíðunnar. Dagurinn endaði svo sem pottalegu í Lýsuhólslaug, grilli og bjór.
Sunnudagurinn fór að mestu í að safna Tevufari og afslappelsi. Eftir að hafa fellt tjaldið og komið öllu inní bíl var farið sem leið lá fyrir Nesið og á heimleiðinni gengum við upp á einn útsýnishól sem kallst víst Klakkur og er við Kolgrafarfjörð. Reyndum svo að kæla okkur niður á Vegamótum með ís. En allavega algjör snilld að komast svona aftur í sumarskíðun og vonandi verður það aftur hægt næzta ár. En myndir frá helginni má skoða hér
Kv
Skíðadeildin
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!