Þá er loksins komið að því dagurinn sem svo margir hafa beðið eftir fer að renna upp Túristadagurinn. Dagurinn verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 19. maí.
Dagskrá dagsins hefur verið ákveðin og er hún á þessa leið.
Hittingur við Sundhöll Reykjavíkur kl. 11.00. Þaðan verður gengið niður á Laugarveg, sest inn á einhvern huggulegan veitingastað og fengið sér brunch. Þegar allir eru svo orðnir saddir verður göngu haldið áfram að Hótel Centrum þar sem við munum skoða fornleifar í kjallaranum. Áfram verður svo arkað að Þjóðminjasafninu og skoðað meira gamalt dót. Næst á dagskrá er Hallgrímskirkja eða öllu heldur Hallgrímskirkjuturn þar sem við munum njóta magnaðs útsýnis yfir okkar fögru borg eða eitthvað álíka. Þegar því er svo lokið er spurning um að líta á klukkuna og athuga hvort tími sé fyrir eitthvað fleirra áður en farið er í sund í Sundhöll Reykjavíkur. Þegar allir eru komnir með fína rúsínuputta, nema Arnór hann má ekki fara í sund, er nú kominn tími á að fá sér smá næringu og er stefnan sett á Austur Indía fjelagið. Að mat loknum er svo komið að því að skoða næturlíf Reykjavíkur sem samkvæmt erlendum blaðagreinum er það bezta í heimi.
Til að dagurinn verði nú sem skemmtilegastur vil ég hvetja alla til að taka þátt í honum með okkur. Veit ég að sumir eru eitthvað uppteknir en gaman væri ef sem flestir mættu þó það væri nú ekki nema í matinn. Þó svo að það sé lang skemmtilegast að taka þátt í þessu öllu.
Vil ég að lokum biðja ykkur um að láta vita í kommentunum ef þið ætlið að mæta í matinn svo hægt sé að ganga frá pöntun á borði. Það væri líka gaman að vita hverjir ætla að taka þátt í hinni frábæru dagskrá sem er búið að setja saman fyrir daginn.
Sjáumst hress á laugardag
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!