þriðjudagur, september 01, 2015

Í brúðhlaupi: Laugardagur



Laugardagur rann upp og vissulega var bjartur sem fagur. Ástand fólks var svona eftir atvikum en ekki svo slæmt að ekki væri hægt að spæla egg og skella beikoni á grillið. Svo var bara sitið aðeins og spjallað í blíðunni enda lá svo sem ekkert á
.
En eftir að hafa tekið saman partýtjaldið hjá Eldri Bróðirinum, en öll herbergi voru bókuð þá nótt. Var hægt að koma sér eitthvað út í buskann. Fyrsti stanz var í bústaðnum hjá foreldrum Eldri Bróðirins þar sem kauði var með timburmenni handa þeim. Líkt og oft áður réð þar blíðan ein völdum. Líkt og áður var oss tekið með kostum og kynjum og boðið upp á kaffi og með því að íslenzkum sveitasið og kunnum við þeim beztu þakkir fyrir höfðinglegar móttökur.

Eftir kaffisópann og smá bakstur af sunnlenzku sólinni var stefnan tekin á Þjórsárdal. Þess má geta að þar hafði Krunka aldrei komið. En við fórum þar og kíktum á Stöng í Þjórsárdal, leituðumst líka eftir Gauki Trándilsyni til að rökræða um leggjalengd fornmanna. Eftir þjóðveldisbæinn var haldið sem leið lá í Gjána. Þar vorum vjer bara í rólegheitum og nutum þeirrar vin í eyðimörkinni sem Gjáin er. Það var síðan ákveðið að klára veginn uppeftir og kíkja í kaffi við Hólaskóg. Yfir kaffibolla nú eða gosflösku var staðan aðeins tekin. Litla Stebbalingnum datt í hug að fara í Skarfanes og slá þar upp tjöldum.Vjer ókum sem leið lá þangað, en mikið var Landvegurinn skelfilega leiðinlegur allt fína efnið horfið og nær eingöngu stórgrýti.

Eftir að hafa beygt út af þjóðveginum til halda í Skarfanes var kíkt bæði á Tröllkonuhlaup sem og Þjófafoss. Það er skemmtilegt að koma svona norðan frá í Skarfanes. Maður keyrir bara á algjöri auðn en kemur svo inn í flottan og skjólsælan birkiskóg. Þar er leyfilegt að tjalda en engin þjónusta er á staðnum svo það er bara að taka allt sitt aftur. Þar voru nokkrir fyrir á svæðinu og búnir að koma sjer fyrir í nokkrum lautum. Vjer fundum svo eina og þegar átti að henda upp tjöldum leist samferðafólki ekkert á magn flugna, sóðastrumpur hefði sjálfsagt verið sáttur með það, svo það var slegið af að vera þar og ákveðið að færa sig um sett og halda á Leirubakka. Vjer ókum svo skemmtilegan slóða í austur átt og yfir á þjóðveg. Er komið var á Leirubakka hentum vjer upp tjöldum, græjuðum grill enda flestir farnir að finna fyrir hungri svo ekki sje talað um að svala sjer með einum köldum, hressandi fullorðins svaladrykk. Eftir mat og uppvask var haldið í ,,náttúrulaugina" en sú var ekki nema rétt rúmlega hlandvolg í þetta skiptið. Svo eftir ,,bað" var bara fljótlega haldið í koju. Þannig lauk nú þeim degi

Fyrir áhugasama þá má skoða myndir hjer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!