föstudagur, mars 25, 2005

Rétt eins og nokkrum sinum hefur komið fram þá svífur rómantíkin yfir vötnum í skíðareisu V.Í.N. í hinu rómantíska austurrísk-ungverska keisaradæmi. Þeir í rómantísku svítunni sem deila rúmi í rómantíkinni. Þannig er víst mál með ávexti að rómantíkin sveif í loftinu á miðvikudaginn, þá í orðins fyllstu, í þyrluferðinni. Í þeirri ferð dró Perrinn upp hringi og Katý játti honum. Við hér í rómantísku svítunni óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með þetta. Nú bíðum við bara eftir brúðhlaupinu. Fólk má giska hvað gert verður þá. Nóg um rómantík í bili a.m.k.

Dagurinn í gær, þá áttu sumir erfiðara með að vakna, líklegast e-ð sem við kemur miðvikudagskveldinu. Samt áttu menn almennt góðan dag þrátt fyrir að hópurinn hafi splittast aðeins. Engu að síðu góður dagur.

Í dag var svo farið til (Ford) Cortina til að stunda skíðaiðkun á söguslóðum þjóns hennar hátignar Bond, James Bond. Það er óhætt að segja að skyggni hafi verið fágætt. Hvað sem því líður þá getum við nú sagt það að við höfum komið til Cortina. Færið var nokkuð gott sem bjargaði því sem bjargað varð. Fínn dagur sem var svo toppaður með verzlun á kassa af nebbakonfekti.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Þá er besti skíðadagurinn, enn sem komið er, lokið. Nú er haldið upp á snilldina í rómantísku svítunni með bjór og Obstler.Nú kunna sjálfsagt einhverjir að spyrja sig: ,,Í hverju er þessi snilld fólgin?´´ Fyrir þá fáu lesendur sem ekki fengu sms í dag, þá var aðalmálið þyrluskíðun upp á Marmoladajökul. Þyrlan skilaði okkur upp í 3269 m.y.s. og síðan var rennsli niður í 1446 m.y.s og upp aftur. Síðan var dagurinn toppaður með uxahalapizzu. Bara gaman. Sorry fyrir Markús Örn að hafa hætt við og misst af þessu. Ýkt óheppinn.

Kveðja.
Úrvalshópur skíðadeildar.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Jæja börnin mín stór og smá þarna úti. Núna er kominn skammtur nr:2 af myndum á hið svokallaða alnet úr magnaðri skíðaferð okkar í austurríska/ungverskakeisaradæminu líkt og áður hefur komið fram. Þetta er nú með aðeins öðru sniði nú, það eru möppur merktar Jarlaskáldinu og síðan Stebba Twist.

Svo er á morgun þá er þetta.

Kveðja
Úrvalshópur skíðadeildar V.Í.N.

sunnudagur, mars 20, 2005

Rétt eins og Öræfaóttinn veit manna best þá er úrvalsdeild V.Í.N. núna stödd í Wolkenstein í austurríska/ungverskakeisaradæminu. Hér allt nýmoðins svo að hér í rómantísku svítunni er tenging við hið svokallaða alnet. Hér er kominn fyrsti sammtur af myndum sem teknar voru á stafrænarmyndavélatæki. Ekki leiðinlegur okkar fyrsti dagur.

Að lokum: Þetta kallar maður sko kúlurass.

Kveðja úr sólinni og snjónum.
Úrvalshópur skíðadeildar

miðvikudagur, mars 16, 2005

Rétt svona eins og glöggir lesendur hafa eflaust vitað síðustu átta mánuði þá stefnir úrvalsdeild V.Í.N. í skíðareisu til austurríska/ungverskakeisaradæmisins komandi laugardag eða þann 19.marz n.k. Það sem er líka merkilegt við þennan dag er að Stebbalingurinn mun þá verða 18.ára í 12.skiptið á ævi sinni. Fyrir þá sem verða svo óheppnir að geta ekki samfagnað Stebba Twist með að gefa honum eins og einn ammælisbjór á flugvallarknæpunni á Miðnesheiði í Sandgerðishrepp geta engu að síður glatt hans barnslega hjarta. Það má gera með að senda ammæliskveðju í símtæki með SMS-tækni. Hægt er senda slíkar kveðjur hér á síðunni og er tengill á slíkt hérna megin sem ég vil síður nefna, en það er ekki hægra megin, undir Stebbi Twist. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja senda slíka, skulu gjöra það á annað hvort Tudda-Tuð eða Öræfaóttann.

Góðar stundir

miðvikudagur, mars 09, 2005

Sono di Islanda

Nú hafa náðst samningar við Hópferðir um að ferja VÍN liða frá Reykjavík að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er samningurinn metinn á um 11 þús. krónur sem þýðir að hver kjaftur þarf að punga út um 1.250 kr. verði fullfermi.

Gert er ráð fyrir að langferðabíllinn leggi í ferð sína úr Bryggjuhverfinu milli kl. 5.30 og 6 á laugardagsmorgni (þann 19. mars eins og væntanlega flestir vita) og komi við í Kópavogi og Garðabæ á leið sinni út úr bænum. Sjái einhver meinbugi á fyrirætlan þessari er viðkomandi beðinn um að láta skoðun sína í ljós hið fyrsta.

sunnudagur, mars 06, 2005

Svona rétt eins og landið og miðin hafa án efa gert sér grein fyrir þá fór V.Í.N. í sína árlega skíða- og menningaferð til Agureyrish helgina 24-27 feb. sl. Hér er ætlunin að koma með ítarlega ferðaskýrslu af þessum aðalfundi. Varúð lesist á eigin ábyrgð.

Ferð vor hefst rúmlega 19:00 fimmtudaginn 24.feb er Stebbalingur kom á æskuslóðirnar til þess að sækja bróður sinn. Að þessu sinni hafði undirritaður ekki Papa-San, sem er kórenskur sjúkrabíll, heldur BAR-Hondafarartæki að nafni Jenson. Eftir að Skáldið hafði komið öllu sínu fyrir þurftum við að hætta okkur í gegnum Fellin til þess að sækja þann aðila er ætlaði að sjá um hreingerningar í ferðinni. Þegar fulltrúi hreingerningardeildarinnar var komin þá var haldið af stað með stefnuna á Mosfellssveit. Ekki komunst við mjög langt er kom í ljós að Adolf hafði gleymt skíðagallanum sínum heima svo það þurfti því að snúa við og ná það dót. Er gleymda dótið var komið um borð var brunað sem leið lá í sveitina sem kennd er við Mosfellinga. Er við renndum í hlað á Esso/Subway þá beið okkar Perrinn og Frú . Við tókum við að tanka og svo skelltum við okkur í stutta heimsókn í skúrinn hjá pabba Tiltektar-Togga þar sem verið var að græja stafi fyrir Gvandala-Gústala. Perrinn hafði þá hafið för sína til Agureyrishkauptúns.
Nú skal haldið í gamlar venjur og telja þá upp sem þarna voru með í för ásamt þeim farartækjum sem hver og einn var um borð í.

Stebbi Twist, Jarlaskáldið og Dolli á Jenson

Tiltektar-Toggi og Gvandala-Gústla á Herbie

Perrinn og Katý á Galloper.

Fljótlega eftir að við komum aftur innfyrir borgarmörkin hófst frumflutningur á Pottþétt Agureyrish 2005. Þar er á ferðinni tímalaus snilld. Framundan var frekar tíðindalaus þjóðvegaakstur þar sem fátt markvert gerðist. Sjálfsagt flugu einhver gullkorn á milli okkar Jarlaskáldsins ásamt ýmsum lausnum við markskonar vandamálum. Við rifjuðum upp ferð eina og góða er við ókum framhjá Hraunsnefi. Holtavörðuheiðin stóð alveg fyrir sínu og var alveg jafn leiðinleg að keyra eins og fyrr. Við rúlluðum svo í Staðarskála um kl:22:00. Sumir notuðu tækifærið og brugðu sér á náðhúsið þó ekki hafi menn verið illa haldnir af Staðarskálasyndromi. Þeir sem þarna fengu sér að snæðu völdu allir sér súpu dagins, alltaf jafn frumlegir, sem að þessu sinni var blaðlaukssúpa og hefði alveg mátt vera meiri rjómi í súpunni. Þó var þetta enginn lauksúpa eins og Hrauneyjum júlídag einn 2003. Eftir að menn voru orðnir mettir var aftur haldið út á þjóðveginn. Við okkur blasti leiðinlegasti hluti á öllum hringveginum Staðarskáli og að Bólstaðarhlíðabrekkunni eða barasta Húnavatnssýslurnar. Nokkrir lélegir fimmaurabrandarar fuku á leiðinni og þá sér í lagi er við nálguðumst Vatnsdalshóla. Já, já og fleira. Eitthvað voru farþegar í Jenson í vandræðum með blöðruna á sér því það var nuðað í manni um að gera stuttan stanz í því ægilega krummaskurði Blönduósi til að létta þrystingin. Sem betur fer var stanzað stutt þarna og okkar beið hinn langi og leiðinlegi Langidalur sem tekin var með trompi. Lítið markvert gerðist svo sem uns við náðum til Agureyrish ef kannski er undanskilin þykk þoka í Öxnadalnum sem gerði framúrakstur nokk spennandi á köflum. Við renndum svo í stærsta krummaskurð landsins, hugsanlega að Kópavogi undanskildum, um 00:30. Fyrsta mál á dagskrá var að ná lyklana. Einhvers misskilning hafði gætt milli Tiltektar-Togga, Gvandala-Gústala og Pabba Bjarkar því þeir voru endalaust lengi að sækja þess lykla en allt hafðist á lokum. Á meðan við hin biðu á fórum við á bílasölurúnt, skoðuðum Surfcity Agureyrish og ókum framhjá H-12 þar sem við bræður rifjuðum upp þegar við komum til Agureyrish eftir frægðarför niður/út Eyjafjarðardalinn. Nóg um það í bili. Loksins fengu drengirnir lykla af íbúðunum frá pabba Bjarkar. Lá þá leið okkar beint upp í Furulund og voru við með afnot að íbúðum í Furulundi 8 K og N (filter). Perrinn kom svo fljót en þau hjú gistu að þessu sinn á öðrum stað, já þó trúlegt megi virðast þá er víst hægt að vera á nokkrum stöðum í þessu skurði, það var svo hafist handa við að þjóra nokkra bjóra og senda þeim sem vooru svo óheppnir að ekki vera með okkur nokkur vel valin SMS. Alltaf sami góði brandarinn.

Þegar vaknað var á flöskudeginum var það fyrsta sem undirritaður gerði var að hringja upp í Hlíðarfjall og fékk þær upplýslingar að opna ætti kl:13:00 sól og blíða. En þegar maður leit út var alveg svarta þoka. Þrátt fyrir þokuna á rötuðum við í Kristjánsbakarí og verzluðum staðgóðan morgunmat, NÝMJÓLK og sérbakað. Eftir að fólk var orðið mett og mál var að koma sér af stað en fyrst þurfti nú að skella sér í sérvöruverzlun ríkisins og bætta á birgðarnar. 12.pack af Kylle, Kylle og kippa af þessum venjulega urðu fyrir valinu. Nú var barasta að koma sér upp í fjall og það beinustu leið. En við HA varð maður að gera flautubrandarann góða. Við þessar aðstæður var ekki annað hægt og tókst hann fullkomnlega. Er við ókum upp svo Hlíðarfjallsveginn þá keyrðum við upp úr þokunni eða öllu heldur dalalæðunni og við okkur blasti heiður himinn. Bara gaman. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gríðarmikið fannfergi þá mátti alveg gera góðan dag úr þessu. Sem og var gert. Ekki er beint hægt að segja að maður hafi haft mikið úrval af brekkum/leiðum en það var gert gott úr þessu. Nokkrar Ítalíumyndir voru teknar enda veittir víst ekki af að æfa sig fyrir för V.Í.N. til austurríska/ungverskakeisaradæmisins. Það var svo gott sem skíðað af sér rassgatið ásamt að senda hinum og þessum SMS til að reyna að láta þá vita hvað gaman væri hjá okkur. Ætli það megi búast við að eitthvað slíkt verði gert dagana 19-29.marz nk. Við renndum okkur til klukkan að vera 18:00 alla vega þeir sem lengst voru. Eftir skíðaiðkun var haldið í aðra hefð og skellt sér í sund. Þegar í sundlaugina var komið sáum við það að rennibrautin var ekki opin og olli það okkur miklum vonbrigðum. En engu að síður fengu lúnir vöðvar þar kærkomna hvíld. Gvandala-Gústala reyndi nokkur góð trikk eins og ,,ert þú heimakona? Veistu kl.hvað Baugur hættir að ræna fólk?´´ Við komust að því að Bónus væri búinn að loka. Eins gott því ég hefði ekki nennt að keyra þangað. Því urðum við að skella okkur í Hagkaup, þar sem er nú einu sinni skemmilegast að verlza. Þarna má segja að fyrstu vonbrigðin hafi verið því ekki var heimasætan í nýlenduvöruverzlunni í Árnesi að sinna verzlunarstörfum. Þarna var verzlað í kvöldmatinn úrvalsgrillmat og bernesósa. Það var svo ekið framhjá H-12 á leið okkar upp í íbúð. Þið megið geta hvað við bræðurnir fórum að tala um er við sáum hús þeirra Súlumanna. Jú, rétt til getið. Hvað við vorum þreyttir þegar við vorum þarna síðast. Þegar við komum svo loks upp í Furulundinn þá gat maður loks fengið sér ölið og teigaði ,,Kylle,Kylle´´ með bestu lyst ásamt þessum venjulega. Grillmaturinn var góður og drengir: Takk fyrir mig. Perrinn og Frú komu svo með afruglara og við heldum okkar Idolgleði ásamt að komast að því að Skectshow er snilld. Um 22:00 komu svo Tyrólabræður og voru þeir boðnir velkomnir í þessa endalausugleði. Rétt áður en þeir Tyrólabræður komu í hús hafði Maggi Brabra samband og sagði farir sínar ekki sléttar. Var hann þá staddur við Brú og hafði önnur felgan að framan losnað og ein ró var týnd og svo brotnaði víst annar bolti þegar Maggi var að herða upp á felgunni á Barbí. Hann var ekki viss um hvað best væri að gera í stöðunni en þrautalendingin bvar sú að hann ásamt sinni ekta Frú og VJ snéru við og fóru aftur til Reykjavík. Koma þau ekki meira við sögu. Restin af kvöldinu er frekar þokukennd en að sögn var farið á Lessukaffi þar sem menn heldu áfram að drekka af sér hausinn og örugglega ásamt einhverju öðru. Það var svo haldið áfram drykkju frameftir morgni og þá í Furulundinum.

Það var risið hæfilega snemma úr rekkju á laugardagsmorgninum. Eftir staðgóðan morgunmat var fátt til fyrirstöðu að drífa sig upp í fjall en fyrst þurfti víst að sækja gamla perrann. Þegar við komum svo loks upp í fjall kom það í ljós að Skáldið hafði gleymt hönskunum niðri í íbúð svo það var ekkert annað að gera nema sækja vettlingana enda var svo sannarlega fingravettlingaveður þarna. Vegna blíðunnar sem ríkti þarna upp í fjalli var bæjarferðin líka notuð til þess að sækja sólgleraugu fyrir Toggólf. Það var svo skíðað af miklum hressleika frameftir degi og með nokkrum (bjór)pásum inn á milli. Engu að síður var dagurinn ágætilega notaður þrátt fyrir fáar leiðir en samt. Þegar að skíðaiðkun lauk var aftur farið niður í íbúð þar sem knattleikir voru til áhorfs til skamms tíma. Eftir það var haldið í drullupollinn og en voru vonbrigðin mikil er ekki var enn búið að opna rennibrautina. Eftir sundsprett var haldið í Brynju en þó ekki til að verzla sér ís, þó svo að sumir hafi gert þau mistök, heldur til að verzla inn sitónur. Þarna má segja að Brynja hafi ollið okkur bræðrum miklum vonbrigðum því ekki var þessi nýlenduvara á boðstólnum en þó var það bót í máli að enn er boðið upp á hrossakjöt í neytindapakkningum. Ekki var verzlunarleiðangri lokið þarna því Skáldið og söguritari heldum í suðurátt og komum við á Esso til þess að verzla inn Útiveru. Eftir að hafa fjarfest í þessu ágæta tímariti og litið greina hans Arnórs augum og séð góða myndir af Willy. Verð eiginlega að segja það maður saknaði þess að þessi mynd skyldi ekki hafa verið birt.Þið vitið svo hvað við rifjuðum upp á leið okkar í Furulundin. Jebbs, ferðina norður fyrir Hofsjökull. Eftir að Útivera var komið í hús var næsta mál á dagskrá að verða okkur úti um sitrónu ásamt því að redda síðustu vinningum í þeim skemmtilega leik um gestnr:20000 og 25000. Þegar í Furulund var komið komst maður loks í bjór. Mikið var hann góður. Ójá. En hvað sem því líður þá áttum við pantað borð á Greifanum kl:20:00 á laugardagskveldinu svo ekki gafst mikið tóm til að stunda drykkjuleikinn Gísla Martein. Toggi og Arnar Tyrólabróður voru svo á bíl er við mættum stundvíslega á Greifann kl:20:00 og við tók BIÐ. Eftir að hafa pantað bjór og svo mat þá vorum við látin bíða í 75.min eftir matnum. Þessi bið kallaði á annan bjór. Ef þetta á að halda svona mikið meira aftur að láta mann bíða svona óendanlega eftir mat þá er spurning með viðskiptabann. Reyndar einn galli þá er ekkert mikið af veitingastöðum til að fara. Þar er alltaf Subway og svo Móngópizzur. Eftir mat var haldið aftur upp í íbúð þar sem aðalfundarstörf heldu áfram að miklum krafti. Á miðnætti var komið að stóru stundinni því þá voru verðlaun afhend fyrir hinn stórskemmtilega leik um gestnr:20000 og 25000. Þar var bara einn verðlaunahafi staddur á svæðinu þarna fyrir norðan til taka á móti verðlaununum en það var Perrinn. Fékk hann loftmæli og tusku í verðlaun. Þótti þetta vel við hæfi þar sem hann er nýkominn í jeppadeildina. Brabrasonurinn var ekki á staðnum svo að Stebbalingurinn tók við verðlaunum fyrir hans hönd. En stóru vonbrigðin voru þau að Forvitna stelpan kom ekki til að taka við sínum verðlaunum. Annars verða þeim sem ekki mættu veitt sín verðlaun í Fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð n.k. Þess má svo til gamans geta að sú verð verður líka ammælisferð og stórglæsilegri en nokkru sini fyrr. Hvað um það. Eftir þessa athöfn þá héldu aðalfundarstörf áfram þar sem sumir áttu víst gott tal við Frú Togga. Bið að heilsa henni. Það var svo leitað á lendur skemmtanalífsins þegar leið á nóttina og var Lessukaffi en fyrir valinu. Fólk endist svo mislengi en allir skiluðu sér að lokum.

Þegar maður skreið á lappir á sunnudeginum var maður svona súr í meðalagi. Eftir morgunmat, morgunmessu og Mullersæfingar varð maður öllu hressari. Þarna var ákveðið að skíða í Tindastóll og hófust nú tiltektir að miklum krafti þar sem Tiltektar-Toggi fór hamförum. Það þurfti líka að ræsa þá sem voru í hinni íbúðinni og þess má geta að sagnaritarinn skellti sér yfir til að ná bakpoka einn og það á sebranærbrókunum. Eftir að allir voru upprisnir og loks var hægt að koma sér úr Agureyrish. Perrinn, frú og Tyrólabræður fóru fyrstir af stað. Við á Jenson vorum svo næst enda þurfti að tanka á meðan fóru strákarnir og skiluðu lyklunum. Þegar við vorum svo við Dalvíkurafleggjarann þá hringdi loks einn úr Súlum og let mig vita að kolsýrukúturinn væri fundinn. Við snérum við og brunuðum aftur til Agureyrish og niður í H-12 þar sem við sóttum kútinn. Þarna má segja að við náðum loks að klára ferðina góðu norður fyrir Hofsjökull. Líka var skíða-og menningarferðin orðin að jeppaferð nú þegar við vorum komnir með kolsýrukút. Eftir þetta var loks hægt að koma sér af stað. Ekki er hægt að segja það að aksturinn til Sauðárskróks hafi verið tíðindamikill en allir voru frekar súrir og sögðu fátt. Það þóttu vonbrigði mikil að sjá ekki Dr.Gunna á brúnni hjá Varmahlíð með þumalputta uppi. Hvernig sem stendur á því. Það hafðist svo að ramba á Sauðárkrók og meira að segja tókst okkur að komst í gegnum það skurðið. Loksins fannst svo skíðasvæði þeirra. Við Skáldið skelltum okkur í brekkuna en fyrir voru Perrinn, Katý og Tyrolabræður. Hin voru ekki alveg viss hvað gera skyldi en ljóst var að Alda var varla í ástandi til skíðaiðkunar. Brekka þessi var svolítið skrítin mjög flöt í endan og svo bætti nú mótvindurinn ekki stöðuna. Engu að síður var skíðað af fullum krafti. Svo áður en langt um leið koma Dolli og skilaði bíllyklunum og sagðist ætla fara heim með þeim Rafiðnarsambandsdrengjum í bæinn. Við bræður heldum áfram að renna okkur. Ekki leið svo á löngu uns hin fóru að huga að brottför og kvaddi maður liðið um 15:00 þegar það fór til höfuðborgarnar. Við Skáldið ákváðum að ekki væri nóg komið af rennsli ennþá og heldum áfram í ca klst. í viðbót. Þarna fengum við þá hugmynd af góðum djók en hann var að koma við hjá Kúreka norðursins og fá sér eins og einn Murder-burger hjá kappanum. Um að gera að nýta ferðina þar sem við ætluðum að fara Þverárfjallsleið og Skagaströnd ekki langt úr leið. Eftir að við töldum að gott væri komið að skíðun þessa helgina og ekkert betra að gera nema að koma sér í Kántrýbæ og fá sér að éta. Við ókum sem leið lá niður af Þverárfjalli og uns við komum að vegamótum þar sem sagði að 14 km væru til Skagastrandar. Ekki stór krókur fyrir góðan brandara. Verst þótti okkur samt Framsóknarfnykurinn sem á leið okkar var. Þegar við komum á bílaplanið fyrir framan Kántýbæ var allt tómt og ekki sála á ferli, þá meina ég í öllum bænum, allt var lokað og átti ekki að opna fyrr en kl:18:00 eða eftir rúmlega klst. Ekki nenntum við að bíða eftir því heldur forðuðum við okkur þarna hið snarasta. Var undirritaður að koma þarna í krummaskurð þetta í fyrsta skiptið og verður vonandi góð bið á að maður komi þarna aftur og vonandi aldrei um Verzlunarmannahelgina. Framsóknarfnykurinn var ekki minni á bakaleiðinni. Þar sem kántrýbær var lokaður fengum við okkur að éta í næsta krummaskurði. Fyrir þá sem ekki vita er það Blönduós. Gerðum við þar stanz í nýjum söluskála einum. Gott að byggja svona söluskála rétt áður en þjóðvegurinn verður færður. Nóg um byggðapólitík. Það var þó einn stór kostur við að fara Þverárfjallið en þá slapp maður við Langa(og leiðinlega)dali. Eftir að hafa sporðrennt einum þjóðvegaborgara var lítið annað að gera nema að koma sér heim. Sem fyrr voru Húnavatnssýslur mjög svo súrar að aka í gegnum. Allt hafðist þó að lokum og við komumst í Strandasýsluna upp á Holtavörðuheiði þar sem það snjóaði á okkur. Mikil gleði það. Flautað og veifað var svo þegar við fórum framhjá Hraunsnefi. Stutt þjónustuhlé var gert í Borgarnesi til að tanka. Hvalfjarðargöngin voru hress að vanda. Það var svo komið í Kleifarselið rétt eftir 20:00. Fljótlega var svo lagt við Logafoldina og þar með lauk skíða-og menningarferð V.Í.N. til Agureyrish 2005.

Þakka samferðarmönnum mínum fyrir fína helgi.
Nú er það bara austurríska/ungverskakeisaradæmið sem bíður okkar

Að lokum þá vil sjálfskipaður miðhópur skemmtinemdar undirbúnings-og eftirlitsdeildar minna á það að skráning er formlega hafin fyrir ammælisferð fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð. 100 fyrstu fara í pott sem dregið verður svo úr svo til mikils er að vinna. Það fer hver að verða síðastur því ekki eru nema 116.dagar í gleðina miklu, núna þegar þetta er ritað.