laugardagur, júlí 29, 2006

Ammili


Jæja, gott fólk, við erum hér stödd í þrítugsammili Vignis og það er allt á suðupunkti. Matnum var í upphafi skipt í tómatlausan annars vegar og ógeðslegan hins vegar, og hefur ekki frést af neinum sem orðið hefur meint af. Gjafir hafa verið ýmsar, fótbolti, klámspóla, Chevrolet Corvette, smjör og þar fram eftir götunum. Músík hefir einnig verið af ýmsum toga, við mismikinn fögnuð. Veðrið hefir verið til fyrirmyndar. Ekki hefir enn orðið vart við ofurölvun, en það ætti að fara að detta inn þá og þegar. Það er engin röð við salernið. Og skulum vér þar láta gott heita, og óska Vigni til hamingju með að vera orðinn alveg óskaplega gamall.

Góðar stundir.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Helgi komandi

Góðir hálsar!

Rétt eins og flestir landsmenn ættu að vita þá ætlar VJfagna 3.áratugum á komandi laugardag.
Að þessu sinni ætlar hann að breyta út af vananum og fagna því í höfuðstað þessa skers en ekki í Þjórsárdal líkt og mörg hin fyrri ár.
Þetta þýðir að ekki verður farið í helgarferð en það má vel fara í stutta ferð. Fara á flöskudaginn og koma svo aftur í bæinn á laugardag. Hæfilega snemma fyrir ammælisundirbúning.
Annaðhvort má fara og taka þjóðveginn beint á eitthvað tjaldstæði t.d. Þjórsárdal, svona til að halda í hefðina þessa helgina. Eða bara eitthvað allt annað. Allar hugmyndir um hvar má tjalda eru vel þegnar.
Hins vegar er spurning með að finna eitthvað smá jeppó. Ammælisbarnið hafði minnst á að hægt væri að fara Svínaskarð. Þá væri hægt að enda á Þingvöllum(vera alveg að drepast úr frumlegheitum), nú eða bara allt annars staðar. Svo er má alveg örugglega fara annað en samt betra að það sé ekkert alltof langt frá borg óttans né of langt. Allar hugmyndir eru vel þegnar. Ekki nennir maður né meikar að vera heila helgi í bænum svona yfir hásumarið. Að vera slíta þetta svona í sundur með ammælum. Hvað um það. Orðið er laust í þar til gerðu athugasemdakerfi. Ekki vera feimin

Kv
Jeppadeildin

sunnudagur, júlí 23, 2006

Helgarmyndirnar

Góðir lesendur!

Farið var núna dagana 21-23.júlí í Landmannalaugar og bíltúr um Faxasund og Skælinga. Fínasta ferð í alla staði.
Sérlegur hirðljósmyndari V.Í.N. stóð sig i stykkinu og tók myndir sem nú eru aðgengilegar á alnetinu. Þær er hægt að nálgast hér.

Góðar stundir!

(Uppfært 26.07)

Fyrir þá sem ekki hafa tekið eftir því þá hefur hinn myndasmiðurinn þ.e. enginn annar en Tiltektar-Toggi líka sett sinn myndaafrakstur inn á alnetið. Hanz myndir er hægt að nálgast hér.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Kæru landsmenn

Næsta helgi skal nýtt til útiveru. En hvurt er spurt. Mig langar að kasta fram hugmynd sem er eitthvað á þessa leið:

Fara Emstruleið inn í Hvanngil á föstudagskveldi og gista þar. Á laugardegi er farið inn í Landmannalaugar með viðkomu í íshellunum í Hrafntinnuskeri. Sunnudegi skal varið í heimferð með viðkomu í Hrunalaug ef við rötum!

Gaman væri að fá álit landsmanna á því hvað skal gjöra og hvet ég alla til að nota skilaboðaskjóðuna hér að neðan til að segja sitt álit.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Í fréttum er þetta helst...

Leifar af búnaði tveggja manna sem fórust á Skaftafellsjökli árið 1953 hafa fundist á jöklinum. Eyjólfur Magnússon og Alexander H. Jarosch, sem báðir stunda doktorsnám við Háskóla Íslands fundu hluta búnaðarins þann 6. júlí sl. og í kjölfarið var gerður út leiðangur til að leita að líkamsleifum mannanna.
Nánar hér.

föstudagur, júlí 07, 2006

Tjaldsvæði

Ef menn eru eitthvað í vandræðum með að ákveða hvert eigi að fara.

Þá er hérna listi yfir flestöll tjaldsvæði á Íslandi.

Bráðsniðugur vefur sem á eftir að eflast í framtíðinni.

http://www.tjaldsvaedi.is/

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Að vera maður eða músVonandi eru allir búnir að jafna sig eftir síðustu helgi, því ekki má slá slöku við, það þarf að nýta þetta örstutta íslenska sumar og ekkert múður. Út úr bænum skal halda, og þá er bara spurningin, hvert?
Sú hugmynd hefur komið upp að blanda saman sumarstemmningu við vetraríþróttir. Þá koma tveir staðir helst til greina, Snæfó og Kelló, hvort tveggja góðir kostir. Er það tillaga þess er hér ritar að sækja heim fyrrnefnda staðinn, enda langt síðan síðast, auk þess sem veðurguðirnir benda til þess að þar verði bongóið hvað mest um helgina. En þar sem þetta er ekki einræði (þó það myndi vissulega leysa mörg vandamál og vera að flestu leyti betra) er mál að áhugasamir tjái sig um hugmynd þessa, annaðhvort greiði henni atkvæði sitt eða komi með aðrar hugmyndir sem þeim þykir gáfulegri. Orðið er laust.

mánudagur, júlí 03, 2006

Myndir

Ef einhver hefur áhuga á að rifja upp helgina þá eru myndir mættar á lýðnetið. Sjáumst svo bara hress í Rugludal um næstu helgi. Og takk fyrir mig. Þetta var ekki næstum jafnleiðinlegt og ég óttaðist.