miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Ef þú ert vinur okkar færðu alltaf far



Jarlaskáldið lagði til fyrir skömmu að endurtaka vitleysisgang síðan í fyrra og í þetta sinn með Ljótum hálfvitum. Undirtektir voru prýðisgóðar og hyggst nokkur hópur þegar þetta er ritað leggja malbik undir dekk og kíkja á tjaldstæðið hennar Hveragerðar á föstudagskvöldið í viðhafnarklæðum, sækja þar tónleika Ljótra hálfvita um kvöldið og svo er aldrei að vita nema Feðgarnir leiki fyrir dansi einhvers staðar að því loknu. Þetta er uppskrift að góðri kvöldstund fyrir alla fjölskylduna.

Á eftir föstudegi kemur laugardagur og er það skoðun þess er þetta ritar að engin ástæða sé til að gamanið endi þá. Þætti því tilvalið að halda enn lengra frá höfuðborgarsvæðinu og eyða annarri nótt í faðmi fjalla og fagurra hlíða og jafnvel ofan í heitri laug. En svo geta menn náttúrlega líka verið aular og farið heim að horfa á Friðarstillinn með Vin Diesel í hlutverki barnfóstru sem verður á dagskrá Stöðvar 2 þá um kvöldið. Ykkar er valið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!