fimmtudagur, október 02, 2014

Hjólheztaferð FBSR: Dagur 2



Maður vaknaði upp á laugardagsmorgni endurnærður eftir góðan nætursvefn á snilldar hálendistjaldsvæði. Við tóku hefðbundin morgunverk s.s eins og morgunmatur, morgunmessa og Mullersæfingar. Eftir að tjöldin höfðu verið rifin niður, töskur skultlað í bíla var loks hægt að stíga á sveif. Allir voru léttir í lundu enda aðstæður til hjólheztareiðar hinar beztu ekki skemmdi veðrið fyrir. Ekki leið á löngu uns komið var að fyrsta vaði en það var lítið og auðvelt. Eftir að beygt hafði verið útaf Dómadalsleið kom fljótlega að því sem flestum kveið fyrir en það var ríflega 400 metra hækkun upp Pokahryggina. Hækkunin hafðist nú hjá öllum og hæðst fórum við í 977 m.y.s í hæð. Gaman að því.

Það hæðsta sem Litli Stebbalingurinn hefur farið á hjóli amk enn sem komið er. En ef minnið mitt er ekki að svíkja þá eiga VJ og Maggi á móti hæðarmetið í Hjóladeild V.Í.N. frá því að kapparnir hjóluðu Laugaveginn á því herrans ári 1999, en þá sáu Litli Stebbalingurinn og Willy um að trússa fyrir kauða. Það var gaman að því. Svo 2006 AD hjóluðu VJ og Jökla-Jolli Fimmvörðuháls og eiga því rúmlega 1000 m.y.s. á hjóli þar. Smá sögustund

Eftir þetta lá leiðin bara niður á við eða svona að meztu leyti. En við fylgdum þarna veginum að meztu og tókum nokkra brekkuspretti, bæði upp og niður en þeir niður í móti voru heldur skemmtilegri, við fórum nokkrum sinnum yfir Markarfljót á vaði. Lítið var í fljótinu og því auðsótt mál. Svo við Álftavatn skildu leiðir við bílana. Við hjólum sem leið lá að Torfahlaupi, með stuttri viðkomu í Líkhelli, og síðan meðfram hlíðum Sátu á reiðstígum. Mjög svo skemmtilegur kafli, uns við komum aftur að Markarfjóti við Krók en þar fórum við yfir á göngubrú og hinum megin beið náttstaður okkar sem var skálinn í Krók. Það er tiltölulega nýbúið að gera skálann upp og óhætt að fullyrða að þarna er kominn sannkölluð hálendishöll. Fáranlegur munur á skálanum frá því maður kom þarna síðast. Má hrósa nýjum eigendu/umráðamönnum fyrir það hvað vel hefur tiltekist í að endurbyggja skála þennan og alveg með þeim flottari sem undirritaður hefur komið í og gist í. Ekki skemmdi svo fyrir að bílstjórarnir höfðu hafið undirbúning fyrir grill en á matseðlinum var að sjálfsögðu fjallalambalæri. Óhætt er að fullyrða að þarna hafi verið sannkölluð hálendisveizla en ostar og kex í forrétt, lambalæri og tilheyrandi í aðalrétt síðan pönnukökur, rjómi og súkkulaði í eftirrétt og auðvitað kaffi. Allt þetta rann ljúft ofan í svanga munna. Svo eftir uppvask og ýmsar hetjusögur var bara skriðið ofan í poka og haldið í draumaheima

Hafi fólk áhuga má skoða myndir frá deginum hér


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!