Ekki gengur ferðalag þeirra félaga mjög vel. Ákveðið var að snúa frá Geitlandsjökli þegar 1,8 km voru eftir í skálann sökum leiðinlegs færis. Þegar þeir hringdu voru þeir í 2,74 km fjarlægð frá fyrr nefndum skála og var stefnan tekin á Húsafell. Ætla þeir að gista í félagsheimilinu á staðnum. Aldrei hefur Vignir nú tekið eftir þessu félagsheimili en hann beið spenntur eftir að sjá höllina. Skyggni er ansi slæmt þarna uppi við jökul sökum snjóbils og myrkurs og er heldur búið að bæta í vindinn en Vignir taldi að það væru um 20 - 22 m/s. Þar sem vindur er ansi hagstæður þarna voru þeir að láta sig dreyma um að skella á sig skíðunum og fallhlíf og svífa á Sjallann. Þar sem fallhlífarnar gleymdust heima þá urðu þeir að láta draumana duga og skella sér í staðinn í félagsheimilið. Áætluð koma í félagsheimilið er á milli 1.30 og 2. Er þá planið að reyna að ganga eitthvað á bjórinn. Það hafði nú ekki gengið vel hjá honum Vigni frá síðasta símtali og var hann einungis búinn að bæta hálfum bjór í belginn. Stefnt er á að vakna snemma í fyrramálið, athuga þá hvernig landið liggur og hugsanlega reyna við Hveravelli. Að lokum vildu þeir svo óska honum Einari til hamingju með nýja starfið og sögðust mæta í partý ef þeir yrðu í réttu kjördæmi. Sökum margra óvissuþátta gátu þeir ekkert sagt til um hvar þeir yrðu staddir þegar partýið færi fram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!