þriðjudagur, janúar 09, 2007
Agureyrish 2007
Eins og þeir vita sem fylgst hafa með er skíðavertíðin komin á fullt hjá VÍN-verjum, hófst formlega á aðventunni með skíðaferð norður yfir heiðar, Þorvaldur og Dýrleif fögnuðu nýju ári í Madonna og eftir ekki mikið meira en 18 daga munu vitleysingarnir þrír halda utan til Týról og gera þar einhvern óskunda. Svo er aldrei að vita nema það opni einhvern tímann í Bláfjöllum, furðulegri hlutir hafa gerst. Og nú er loks, samkvæmt þessari heimild, komin staðfesting á dagsetningu Telemarkhelgarinnar, en líkt og fyrri ár stefnir VÍN á að fjölmenna norður þá helgina með það yfirlýsta markmið að venju að benda þessu liði á hve bjánalegt sé að hafa lausan hælinn. Sumsé, takið 15.-18. mars frá í fílófaxinu, eða hvað svo sem menn nota nú til dags, því enginn sem ekki er löglega afsakaður (t.d. látinn, í dauðadái eða búinn að missa báðar lappir, önnur löppin er ekki nóg) færi að sýna af sér þann aumingjaskap og heigulshátt að skrópa á þessa stórhátíð. Og, já, kannski að húsnæðisnefndin fari að vinna í að redda gistingu, og jafnvel ekki verra að þeir sem hafi hug á þeirri gistingu panti sitt pláss sem fyrst því plássin eru fljót að fyllast og enginn er annars bróðir í leik og aðeins dregið úr seldum miðum. Svo mörg voru þau orð að sinni, veriði sæl og blessuð!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!