fimmtudagur, október 13, 2005

Matarveizlan mikla

Jæja, gott fólk. Núna um síðustu helgi var enn ein hefðin haldin hátíðleg hjá V.Í.N. Að þessu sinni var hefðin Matarveizlan mikla eða öðru nafni Le Gran Buffet. Eftir mikið japl, jaml og fuður var þrautalendingin að blása Hveravellina af, því miður, og fara í einhvern bústað. Ekki reyndist auðhlaupið að redda bústað sem uppfyllti V.Í.N.-staðla fyrir svona samkomur. Við vorum komin með húsnæði eitt í Húsafelli (þar sem hressar stelpur í gulum bolum halda sig og trúið mér það er ekki falleg sjón, hvað um það), þrátt fyrir athugun meðal flestra stéttarfélaga með stærri bústað var þessi 6-8 manna bústaður heimili okkar þessa helgina. Á undirbúningsfundi hafði matseðilinn verið settur saman og er hann hér neðar á síðunni svo ekki verður hann tíundaður meira að sinni.

Flöskudagurinn 7.okt rann svo upp bjartur og fagur. Þar sem sólin skein í heiði og ekki laust við að manni langaði til að skella pottunum á grillið. Svona upp á stemmninguna og til að fá grillkeiminn.
Jarlaskáldið og Adólf tóku daginn snemma, jafnvel í Róm kannski, heilsuðu uppá kaupmann Sívertsen og verzluðu af honum nýlenduvörur. Skilst mér að þau hafi svo mætt fyrst á svæðið á Lilla. Maggi Brabra, Frú Brabrason og einn laumufarþegi komu svo næst á Rollu, sem móðir þess fyrstnefnda á.
Eftir að hafa sótt VJ og þar var ákveðið að hitta okkar nýjustu vini á góðum stað í Mosó. Fyrir utan hitting þar átti að næra sig fyrir átökin á Kaldadal. En þá leið ætlaði jeppadeildin að fara uppeftir. Þrátt fyrir að hafa aðeins snætt eftir heimkomu að lokinni verðmætasköpun þá varð maður að vera með og hafði ungmennafélagsandann í heiðri. Bara vera með. Þaðan fór maður mettur og sáttur. Þarna var jeppadeildin fullskipuð en að þessu sinni skipuðu hana

Stebbi Twist og VJ á Willy

Haffi og Edda á Lata-Krúser

C.a á miðri Mosfellsheiðinni fór að bera á Tussugangi í Willy. En fór nú samt af gömlum vana ef maður passaði bara að vera á rólegri inngjöf. Nóg um það. Við frelsuðum svo loft úr hjólbörðunum um leið og malbikinu sleppti við Bolabás og Meyjarsæti. Eitthvað virtist Willy skána eftir því sem lengra dró frá Reykjavík og ofar var farið. Annað sem merkilegt var að eftir því sem ofar dró fór að bera meira á þessu hvíta efni. Tel að það sé þetta sem maður hefur heyrt öldungana í þorpinu tala um að hafi verið í þeirra æsku eða öldungaæsku. Gaman að sprengja skaflana og kom að lokutíma. Við skiptumst svo á að leiða. En mikið var þetta gaman.
Við renndum svo í Húsafellið einhverntíma milli 22:00 og 23:00. Eftir að að hafa símað í liðið sem komið var og fengið rötunarleiðbeiningar tókst okkur að ramba á réttan stað. Dótið var svo borið inn og fljótlega var fyrsti bjórinn opnaður. Stuttu síðar var búið að aflífa þann fyrsta. Það var svo gengið á bjórbirgðirnar, kíkt í pottinn og , étið snakk og gengið á bjórbirgðirnar. Einhvern tíma um nóttina var svo gengið til náðar. Ekki veitti af smá kraftkríu þar sem ætlunin var að herja á Langaskafl á laugardeginum og það með diesel Togaogýta svo nauðsynlegt var að vaka snemma næsta morgun.

Það var líkt með laugardeginum að hann rann upp líka bjartur og fagur. Heilsa manna var með ágætum eftir kappdrykkjuna á flöskudagskveldinu. Hvað um það. Eftir morgunmat, morgunmessu og Mullersæfingar var hafist handa við að gera klárt fyrir skrepp á Langaskafl. Reyndar varð 2/3 hluti hreingerningardeildarinar eftir. Enda veitti ekki af tiltekt og það þarf jú að vera fínt er góðan mat skal snæða.
Eftir að fákarnir höfðu fengið að drekka var ekið sem leið lá upp að Jaka. Framhjá skálanum við Jaka og upp á jökull. Færið var, tja, skítafæri. Þurr snjór sem ekkert þjappaðist. Samt skal reyna. Í fyrstu var maður í sínum 14.psi og tókst m.a. í þeim að hringa Lata-Krúser og það þrisvar. En fljótlega var loft frelsað úr dekkjum og niður í 4.psi. E-ð gekk nú aðeins betur en samt komst maður aldrei mikið meira en eins og eina bíllengd í einu. Svo var hjakkað og hjakkað. Farið niður í 3.psi. Hjakkað, hjakkað og hjakkað. Eftir tæpar 2.klst og 2.27 km var snúið við í 1047 m.y.s. Fyrst snéri Haffi við og brunaði niður á við. Við á Willy vorum aðeins lengur og komust c.a. 1,5.m lengra en Lati-Krúser. Svo var snúið við og haldið niður á við. Það var gaman.
Á meðan loftþrystingur var endurheimtur í gúmmímikla hjólbarða bifreiðanna dunduðu hinir sér við það að brjóta niður klaka. Svona fyrir kveldið. Þar sem við vorum sæmilega tímalega á því var ákveðið að kíkja á Hraunfossa og Barnafoss. Það átti eftir að reyndast afdrífarík ákvörðun. Á svipuðum stað og tjaldað var fyrir Langjökulsferð´96 fór að bera aftur á tussugangi í Willy. Rétt við Húsafell drap hann á sér en fór aftur í gang. Rétt eftir Húsafell, nánast á sama stað og dekki einu var fórnað í apríl´03, dó á Willy og hann neitaði að fara í gang. Þá var kominn tími til að viðra húddið. Það þarf jú að sýna þessu fólki hvernig alvöru vél lítur út, K&N-sían og 4.ja hólfa blöndungur. Hvað um það. Ekkert fannst að og sá gamli rauk í gang. Gekk hann að bílastæðinu við Hraunfossa.
Við Hraunfossa og Barnafoss var túrhestast í kulda og trekk. Gert grín af úllum sem voru að skoða land vort. Allt bara eins og það á að vera á svona dögum. Haldið var svo til baka. Einu sinni var á tussugangi og var því var dólað í Húsafell. Stuttur stanz var gerður í shopunni til að slátra eins og einum nong í klebb. Þarna notuðu líka sumir tækifærið og verzluðu sér morgunmat.
Er komið var svo aftur í bústaðinn var einn kaldur opnaður. Átti maður það svo sannarlega skilið. Sérstaklega í ljósi þess að kóarinn hafði skilið allann bjór eftir er haldið var á jökull.
Það var svo líka gripið í spil á meðan við bræðurnir nörduðumst í tölvunni með stubbastuð. Fyrst til að koma á laugardeginum, af þeim sem skrópuðu á flöskudagskveldinu, voru Tiltektar-Toggi og Frú Toggi á sinni brjóstgóðu bifreið Herbie. Fljótlega eftir komu þeirra var hafist handa við eldamennsku endi þurfti að malla humarsúpu sem þarf sín tíma. Í miðjum undirbúningi á forréttinum var sagnaritarnanum gefinn upptakari. Og það engin venjulegur upptakari heldur talandi Homer J. Simpson upptakari. Silld og takk fyrir mig. Þessi upptakari var notaður óspart eftir þetta og kemur til með að verða það á mannamótum í framtíðinni. Litlum Stebbaling til gríðarlegar kátinu og öðrum til leiðinda og ama.
Það kom svo tími á að skella sér í pottinn. Jú því ekki má snæða góða máltíð nema nýþveginn. Er í pottinum var legið birtist Þjalfi og Auður, er undarleg svo er nú það. Þar sem legið var í pottinum og bjórleysi var að hrjá mann. Þjálfi stoð undir vætningum og opnaði einn og kom honum til réttra eiganda. Eftir þvott var komið sér í viðhafnarfatnað sem aðallega samanstendur af rauðu sokkunum góðu.
Er nálgaðist forrétt var fordrykkurinn borinn fram. Mojito ala-Haffi. Sérdeilis aldeilis prýðilegur alveg hreint. Forrétturinn, úff slíka silldin manni skortir bara orð til að lýsa því. Saðsamt en samt svo létt. Til að redda aðalréttinum þurfti að leggja í leiðangur í næstu bústaði til að verða okkur úti um grill. Að endingu fengum við ,,lánað´´ gasgrill úr bústað í grendinni. Yfir kartölfukokkurinn týnist er hann átti að sjá um jarðeplin. Síðar kannst hann í koju að taka sér stutta kraft-kríu. En sauðlaukarnir sluppu fyrir horn. Er yfir eldunarmeistarnir voru að skella lambafille á kolinn fór sérlegur sósugerðarmeistari V.Í.N. í eldhúsið til að stunda sósugerð. Að vanda var sósan óaðfinnanleg. Þó maður segji sjálfur frá. Aðalrétturinn: það má segja að hann hafi bragðast allt að því ómetanlega. Ljúft rann lambið niður. Skyndi maður hafa dregið það í dilka ekki fyrir svo alls löngu. Skiptir ekki öllu.
Eftirrétturinn var frelsissúkkulaðikaka og ís. Fyrir þá sem vildu var eftirréttnum skolað niður með Starbucks-kaffi sem var hið ljúfasta kaffi.
Eftir að fólk var orðið mett hófst almenn skemmtidagskrá og aðalfundarstörf. Enn var beðið eftir keppendum í víðavangshlaupinu og erum við ennþá að bíða.
Bokkan var afhend við hátíðlega athöfn. Þetta árið hrepptu bokkuna:

VJ fyrir dýfingu ársins
Tuddi-Tuð fyrir eymingja ársins
Nýjustu vinir okkar fyrir nýliða ársins
Til hamingju með það öll sömul.

Í kjölfar bokkunar var önnur verðlaunaafhending en að þessu sinni var það fyrir heimsóknir á V.Í.N.-síðuna. Ekki var forvitna stelpan á svæðinu til að taka á móti sínum hluta en það var Maggi Móses sem átti inni nokkra vininga. Kappinn fékk m.a. lítið notaðar neðri spindilkúlur úr Explorer, notaða og góða bóntusku og síðast en ekki síst Gerber barnamat. Síðan var nýjasti verðlaunahafinn þ.e fyrir gestnr:40000 kallaður upp. Sá sem var nr:40000 eða 40001 var Edda og sem fulltrúi hreingerningardeildar fékk hún viðeigandi vininga. Í verðlaun fékk stelpan uppþvottabursta og uppþvottahanska sem áttu eftir að koma við sögu seinna um kveldið. Farið var í pottinn er leið á nottina. Skáldið var með framhaldskennslu í danzmenntum eins og lofað var. Ekki verður tíundað hér nánar hvað gerðist þarna um nóttina enda hafði óminnisnegrinn viðkomu hjá sagnaritaranum þessa nótt.

Á sunnudeginum var skriðið úr rekkju þegar kl. Var rúmlega gengin í 13:00. Heldur voru sumir framlagir. Gæti verið að neyzla görótta drykkja hafi þarna haft einhver áhrif. Þó ekki viss. Sumum lá meira á heim en öðrum meðan aðrir voru rólegir. Þó þegar líða tók á daginn fór fólk að huga að brottför. Meðan á tiltekt stóð fór undirritaður að sinna karlmannlegri störfum. Farið var að skoða hvað gæti örsakað tussuganginn. Einn grunsamlegur vír fannst við háspennukeflið og prufað var að tengja vír þann aftur. Eftir tilþrif og tiltektir var fólk ferðbúið.
Vegna ógangs í Willy var afráðið fara þjóðveginn heim. Já, steindauðan
þjóðvega akstur. Ferðin á þjóðveginum gekk vel í góðu veðri og ekkert bólaði á tussugangi. Virtist vera sem búið væri að laga. Ákveðið hafði verið að koma við á stað einum í Mosó til að snæða. Já, þar klikkaði skíthopparinn ekki frekar en fyrri daginn. Enda með nóg af BBQ sósu og majonesi. Blanda sem getur ekki klikkað. Þarna eftir næringaríka máltíð var helginni slúttað og allir kvaddir.

Að lokum þá takk fyrir helgina og takk fyrir matinn hann var góður!





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!