fimmtudagur, september 30, 2004

Rétt eins og glöggir lesendur vita þá eftir 8.daga brestur á ,,Matarveislan mikla´´. Við þann mannfagnað þykir við hæfi að gera smá jeppó á laugardeginum. Jeppadeildin lagðist í þunga þanka komst að eftirfarandi niðurstöðum, sem fæstar geta talist frumlegar. Skiptir ekki svo sem öllu.

Eins og flestir vita þá er bústaður þessi í Úthlíð. Það kann þá að þykja óþarfi að þurfa að yfirgefa svæðið til að komast á slóða einn sem liggur upp að Brúarskörðum. Að vísu þarf víst að rölta einhvern spöl til að geta litið þessa náttúruperlu augum. Spurning hvernig slíkt kann að leggjast í suma?

Annað í stöðunni er að koma sér niður á þjóðveg og taka þar hægri beygju og með stefnuna á Laugarvatn uns komið er að Miðdal. Þá yrði tekin aftur hægri beygja. spurning hvað Jarlaskáldið kann að segja við öllum þessum hægri beygjum? Eftir að útaf þjóðvegi er komið liggur brekka ein brött í áttina að Hlöðufelli. Eftir að þangað er komið er svo hægt að fara austan eða vestan megin við sjálft Hlöðufell og svo annað hvort niður á Haukadalsheiði eða Uxahryggi til að komast aftur ,,heim´´.

Eins og tölur í skoðanakönnunni benda til ætla allt að 28.manns að láta sjá sig. Gera má ráð fyrir að stór hluti þessa hóp séu gjafvaxta snótir á kjöraldri. Þá þykjir það þjóðráð að skella sér upp á Kjalveg og alla leið á Hveravelli. Þar er víst, fyrir þá sem ekki vita, pottur sem gott er að lauga sig í. Ef tími vinnst til er möguleiki að taka einhverja útúrdúra á Kili.

Það minnst spennandi er svo að fara á slóðir ammælisferðar VJ frá s.l. sumri og sama var gert í Grand Buffey í fyrra. Það er að kíkja upp á Hrunamannaafrétt.

Hið síðasta er svo að ákveða bara eitthvað á laugardeginum eftir að í bústaðinn yrði aftur komið í, en þá yrði það of seint.

Hvað gjöra skal? Veit ekki, erfitt að segja. Það verður bara spennandi að vita hve skæður öræfaóttinn verður og hve fáir láti sjá sig til að jeppast á laugardeginum. Jeppadeildin reiknar því með að fáir sem engin tjái sig um þetta mál og hefur því ákveðið að ekkert verði ákveðið fyrr en á laugardeginum og þá upp á sitt einsdæmi.

Kv
Jeppadeildin

þriðjudagur, september 28, 2004

Sæl,

Alda var að tala um að matseðil, ég er hérna með eina hugmynd.

Fordrykkur að hætti hússins. Ekki bjór heldur einhver dannaður drykkur með röri og regnhlíf, því við erum öll svo dönnuð :-)
Forréttur: Grafin gæs með piparrótar-rjóma og berja-ediksósu (ef ég redda aðeins fleirri bringum, það er allt í vinnslu)
Aðalréttur: Úrbeinað lambalæri að hætti hússins með öllu tilheyrandi.
Eftirréttur: Eldsteiktar Pönnukökur og Ananas í Tequila

Vín:
Vín með forrétt: Inycon Cabernet Sauvignon
Rauðvín með aðalrétt: Cabernet Sauvignon,
Bjór: Flest allar tegundir.
Snafsar: Það sem menn koma með.

Hvernig hljómar þetta ???

mánudagur, september 27, 2004

Þar sem Grand buffey fer alveg að skella á var ég að velta fyrir mér hvort það ætti að afhenda Bokkuna í ár. Er búin að velta þessu mikið fyrir mér og finnst að það þurfi endilega að gera þetta að árlegum viðburði. Svona eins og flest annað hjá VÍN. Eini gallinn er sá að hausinn á mér er alveg tómur þessa dagana og mér dettur ekkert í hug hverjir eiga skilið að fá Bokkuna og fyrir hvað. Vil ég því biðja alla meðlimi VÍN og aðra lesendur endilega að koma með tilnefningar til Bokkunnar 2004.


sunnudagur, september 26, 2004

Rétt eins og glöggir lesendur síðunar höfðu sjálfsagt tekið eftir þá var stefnan tekin á ammælistúr nú um helgina. Eins og svo oft áður var skæður öræfaótti ríkjandi meðal manna og á fimmtudagskvöldið voru það fjórir einstaklingar sem ætluðu að skella sér í Bása í tilefni þessara tímamóta. Þegar leið á föstudaginn og veður var ekki upp á sitt besta hætti einn leiðangursmanna við og eftirstóðuþrjú eftir. Þrátt fyrir slæma spá og ekki beint bongó blíðu var samt ákveðið að koma sér úr bænum og sjá svo til hvað myndi bíða okkar.

Það var svo ekki fyrr en um klukkan 21:00 sem loks var hægt að koma sér af stað eftir að hafa verzlað inn nýlenduvörur og alvöru okrugjafa. Hópinn skipuðu auk undirritaðs eða Stebba Twist, Jarlaskáldið og Adólf. Fararskjóti var svo Willy. Ekinn var sem leið lá yfir Hellisheiði í hliðarvind eða mótvind þar sem rigningin glumdi á og svo á Háheiðinni kom þoka allt til þessgert að gera þetta ógnarskemmtilegt. Þrátt fyrir myrkur og bleytu þá verður barasta að segja að leiðin milli Hnakkaville og Hvolsvallar er lítið skemmtilegri þanning, en nóg um það. Að vanda olli nýja Þjórsárbrúin okkur vonbrigðum en að sama skapi var jafn ánægjulegt og að vanda að keyra framhjá söguslóðum lessumyndbandsins. Á Hellu var ennþá truntuskítslyktin frá Lansdmótinu í sumar og bara eitt við því að gera og að var að koma sér sem fyrst í gegnum það krummaskurðið. Þegar við rendum í hlað á slóum Njáls og Gunnars var allt þar lokað, eftir að hafa gefið Willy að drekka var farið hinum megin við götuna í söluskálann Björkina of gædd sér á kjötafgöngum í brauði. Eftir að hafa gert þar stuttan stanz var ekkert annað að gera í stöðunni nema halda út í myrkið, bleytuna og óvissuna til þess eins að sjá hvað biði okkar. Eins og lög gera ráð fyrir var tekin vinstri beygja fljótlega eftir að hafa ekið yfir Markarfljótsbrúna. Má segja að eftir að þjóðveg 1 sleppti var ekkert nema myrkur og bleyta meira að segja áköflum var erfitt að greina veginn þar sem engar voru stikkurnar. Við vorum ekki kominn langt á leið á Þórsmerkurveginum eða rétt framhjá Merkurkeri er við komum að því sem oftast er í mesta lagi spræna ef þá eitthvað rennur í þessum læk. Eftir að hafa farið þar yfir og að næstu sprænu sem var orðin kolmórauð og náði uppfyrir miðjafelgu var haldin fundur. Komist var að þeirri niðurstöðu að best væri líklegast að snúa við því líklegast yrði Steinholtsáin ekki auðveld yfirvegar. Eftir að hafa snúið við og ekið aðeins sem leið lá til baka var Skáldið send út í óveðrið til að taka úr lokunum og varð kappinn nokkuð blautur eftir það litla verk. Ekki var nú mikil stemning í mannskapnum að halda beina leið aftur í bæinn svo tekin var sú ákvörðun að kíkja upp í Hagavatn og gista þar. Aðeins úr leið en bara gaman að því. Keyrt var því um undirlendi suðurlands í kolniðamyrkvi og nokkuð mikilli rigningu uns komið var að Geysi og þar var gerður stuttur stanz til að teygja úr sér. Þar kom líka í ljós að bensínsjálfssalinn var ekki að virka sem skyldi og var það nokkuð ljóst að lítið væri hægt að skoða Kjöl á laugardeginum. Hvað um það. Það verður bara að segja eins og er að nyji vegurinn á Kili, upp að Sandá, er eki alveg að gera sig. Amk ekki við þær aðstæður sem þarna ríktu. Þegar við renndum svo að skálanum við Hagavatn var þar eitt stykki Patrol, svo ekki hefur mótvindur verið meiri en það. Kom í ljós að þarna var á ferðinni fólk sem var í vinnuferð. Við komum okkur fyrir á svefnloftinu og förum bara að sofa. Vegna þessara fjölskyldu var lítið um bjórdrykkju það kvöldið. Kappinn sem þarna var hefði pakkað Tudda-Tuð saman ef þeir hefðu farið í hrotukeppi, slíkar voru drunurnar. Maður var fljótur að sofna þetta kvöldið og svaf nokkuð ljúft við vindgnauð í skálanum. Mjög notalegt ef ekki hefði verið fyrir skröllt í útidyrahurðinni sem maður rumskaði við öðru hverju.

Það var svo risið úr rekkju um 09:30 á laugardagsmorguninn. Eftir morgunmat, messu og Mullersæfingar var komið sér aftur út í bíl og lagt af stað til byggða aftur. Við renndum aftur á Geysi og þar voru tvo stykki af Patrolum svo maður vissi að okkurbiði mótvindur því báðir Pattarnir virtust vera með heddin í heilu lagi. Þeir voruí sömu vandræðum ogvið með kortasjálfsalan og eftir smábið komst hann í lag og þeir fengið grútinn sinn og Willy bensínið sitt. Allir sáttir, svo sannarlega. Um leið og Willy hafði fengið að drekka var lagt í´ann aftur í menninguna. Það var gerð svo örúttekt á Úthlíð og leið svæðið nokkuð vel út. Það var svo farið framhjá Laugarvatni, yfir Gjábakkaveg, framhjá Þingvöllum og yfirMosfellsheiði. Komið var í bæinn svo rétt fyrir 13:00 á laugardeginum.Það er hætt við því að það metverði seint slegið er varðar tímasetningu til byggða.

Að lokum er rétt að minna á Matarveisluna miklu er haldin verður eftir tæpar tvær vikur eða dagana 8-10. otk n.k. Það verður gaman að sjá hverja öræfaóttinn heldur í heljargreipum og hverjir sjái sér fært að mæta. Líka verður forvitnilegt að sjá hvort einhverjir forvitnir láti sjá sig. Það er bara vonandi að sem flestir láti sjá sig nú þegar V.Í.N. á 10.ára afmæli um þessar mundir, hvort sem það eru gamlir eða nýjir félagar. Þess má líka geta að jeppadeildin hefur nú lagt höfuðið í bleyti fyrir Grandinn og mun birta hugmyndir sínar fljótlega. Fylgist því spennt með

Kv.
Undirbúningsnemd eftirlitsdeilar í samstarfi við Jeppadeild undir dyggum stuðning frá sjálfskipuðum miðhóp skemmtinemdar ammælisviðs.



miðvikudagur, september 22, 2004

Bústaðadeild VÍN fundaði í gær og komst að niðurstöðu um að best væri að fara í Grand buffey 8-10 okt. Gengið var í málið og pantaður bústaður þá helgi. Sem fyrr er hann í Úthlíð, með potti og svefnlofti. Búið er að ganga frá greiðslu á bústaðnum og mun því dagsetning ekki breytast aftur. Þeir sem komast ekki þá helgi, sorry þið missið af veislunni.
Nú er því málið að fara að huga að matnum. Hvað skal borða og hve mikið? Hver ætlar að versla? Hver ætlar að elda? Þar sem einungis eru rúmar tvær vikur í brottför þarf nú að fara að huga að þessu þar sem VÍNverjar eru nú ekki sérstaklega þekktir fyrir skjóta ákvarðanatöku.

mánudagur, september 20, 2004

Þá er búið að panta bústað fyrir Le grand buffey. Dagsetning breytist úr fyrstu helginni í nóvember í síðustu helgina í oktober eða dagana 29-31. Bústaður þessi er í Úthlíð og er þar heitur pottur, sem er skilda, og svefnloft, sem er mikill plús svo allir geti sofið í bústaðnum.
Ég þarf að borga bústaðinn á miðvikudag. Hvet ég því fólk að láta skoðun sína í ljós með þessa dagsetningu sem fyrst svo hægt sé að breyta ef þess þarf.
Bústaðadeild VÍN

miðvikudagur, september 15, 2004

Núna fyrr í kvöld kom undirbúningsnemd eftirlitsdeildar saman til að ræða fyrirhugaða ammælisferð í Þórsmörk. Eitthvað var nemdin þunnskipuð á þessum undirbúnings- og eftirlitsfundi. Hvað um það. Þarna var ákveðið að halda öllum fyrri áformum um ferð. Þ.e. fara helgina 24-26.sept n.k. Nemdin komst að þeirri niðurstöðu að halda áfram að standa undir þeirri fullyrðingu sem Nonni Frændi kom með um daginn og vera í Básum, ef skálapláss leyfir. Það var bara einn galli á því að hægt sé að ganga strax í málið því ekki vissu fundarmenn hverjir stefna á ammælisferð. Því biður undirbúningsnemd fólk að tjá sig annaðhvort í kommentunum eða með að senda Stebba Twist sms, sjá neðar á síðunni t.v., svo hægt sé að sjá c.a hvað margir hafa áhuga og panta skálapláss eftir bestu getu. Biður nemdin fólk um að tjá sig f.h á flöskudaginn 17.sept. n.k.

Kv
Undirbúningsnemd eftirlitsdeildar

fimmtudagur, september 09, 2004

Jamm og jæja

Nú er farið að styttast örlítið í að við höldum okkar árlega Le Grand Buffé.

Það er því snjall leikur, sem og merki um þróttmikið vit og miklar gáfur, að huga að
hvaða helgi henti skrílnum undir hátíðarhöldin svo hægt sé að panta eitt stykki slott.

Hér með heimtar undirritaður ásamt Öldu(við tókum það víst að okkur í ölæðisvímunni í Svignaskarðinu að athuga með bústaði) að fólk tjái sig í commenta-kerfið hvenær því henti að éta á sig gat.

Okkar hugmynd er að reyna ná í fyrstu helgina í nóvember. Þetta eru dagarnir 5-7 nóv.

Deadline fyrir einhverja skoðanir (sama hversu heimskulegar þær eru) eru til miðvikudagsins 15. september svo hægt sé að panta timburkofann í tíma.

Þakka þeim sem á hlýddu...eða lásu

Magú

fimmtudagur, september 02, 2004

Eins og glöggir lesendur tóku eftir á vormánuðum, í svari við fyrirspurn frá Forvitnu Stelpunni (sjá gestabók), þá verða 10.ár, núna í septembermánuði, síðan V.Í.N. var formlega stofnað. Já, mikið rétt það. Nú á næstu dögum verður liðinn heil áratugur síðan nokkrir ungir drengir rottuðu sig saman í MS og stofnsettu félag þetta til að komast í skólafélagssjóð. Í tilefni þessu ámmæli er þá málið að fara í 10.ára ammælisferð. Líkt og fyrir áratug þá held ég að haustlitaferð í Þórsmörk sé málið og til að gera þetta að alvöru ammælisferð þá verður ferðin að vera farin síðustu helgina í september þ.e helgina 24-26 setp. n.k. Þó langar mig að gera eina breytingu á frá því fyrir 10.árum en það er að vera frá föstudegi fram á sunnudag en ekki eins náttaferð líkt og forðum. Nú er bara spurningin hvort málið sé Langidalur, eins og í fyrstu V.Í.N.-ferðinni eða Básar.

Gott fólk, velunnarar og aðrir. Tjáið ykkur og hvað ykkur finnst að ætti að gera í tilefni þessara tímamóta í lífi okkar allra.

Góðar stundir
Kv.
Undirbúningsdeild Eftirlitsnemdar ammælissvið í samstarfi við gleðihóp.