miðvikudagur, mars 19, 2003

Það hefur enginn gert sig líklegan til að skrifa pistil um aðalfundarstörf VÍN síðastliða helgi á Akureyri þannig að ég tek að mér skríbentastörfin í þetta skipti. Eins og allir vita er minnið mitt kennt við gullfisk þannig að þið hinir megið bæta við eftir þörfum.
Herlegheitin hófust þegar hersingin kom saman (Viffi, Alda, Blöndahlinn, Arnór, Eyfi, Gústi, Stebbi Twist ásamt húsráðanda) í Heiðarásnum (amk. flestir, sumir sáu sér ekki fært að mæta vegna tímaskorts og ruku beint af stað (Toggi, Dýrleif, Elín og Maggi Andrésar)) um 7 leytið á föstudagskveldi. Þess er skemmst að geta að ferðin norður tókst stóráfallalaust ef undan eru talin nokkur pissustopp og aðrar nauðþurftir og vorum við komin á Sjallann skömmu eftir miðnætti. Þar hófst drykkja sem ekki á sér hliðstæðu á fimmtudagskvöldi á Akureyri og er mér sjálfum fyrirmunað að átta mig á því hvað fram fór utan almenn drykkjulæti og ölvun.
Enda mættu timburmennirnir daginn eftir og kom Alka-Seltzerinn að góðum notum! Eftir morgunmat frá Kristjánsbakaríi (kærar þakkir Viffi) hófst almenn skíðaiðkun og reyndist þessi dagur hinn allra sæmilegasti þó sumir þyrftu frá að hverfa lítillega fyrr. Skíðaiðkun fór nær eingöngu fram í Strompinum þar sem snjór á neðri hluta skíðasvæðisins er með allra minnsta móti. Sund og pizzur komu að góðum notum en djammið var aðalatriðið. Partýið hjá okkur var fínt að þessu sinni þó það hafi farið frekar hægt af stað. Til leiks voru mættir kempur á borð við Stymma steinolíu, Gumma VanGilsíkók, Bjarna og fleiri og fleiri. Því næst var bærinn málaður blár.
Þynnka laugardagsins var ekki eins slæm og sú á föstudeginum þannig að hann var vel nýttur til skíðaiðkana auk þess sem Ísalp sá fyrir skemmtiatriðum í fjallinu. Jafnframt var sopinn teigaður og kunnum við Stymma steinolíu, Gumma VanGilsíkók og Dodda tjaldbúa kærar þakkir fyrir þeirra framlag til þess. Máltíðin á Greifanum var í fjörugra lagi. Ber það að þakka þjónum kvöldsins sem færðu Arnóri litabók, liti og ýmislegt fleira að gjöf. Vakti þetta mikla kátínu. Um kvöldið fóru fram partýhöld og djamm og er skemmst að minnast að ekki er neins að minnast.
Á sunnudeginum skiptust leiðir, sumir fóru í fjallið, aðrir í afmæli, aðrir drifu sig heim og enn aðrir hringdu um víðan völl til að reyna að redda sér fari heim (þess ber að geta að þær hringingar voru án árangurs). Það fór þó svo að lokum að mannskapurinn komst heim heill að húfi, þeir síðustu um 9 leytið á sunnudagskveldinu.
Þetta kallar VÍN venjuleg aðalfundarstörf.
Lifið heil.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!