fimmtudagur, maí 08, 2014
Sumarskíðun
Ætli það sé ekki óhætt að fullyrða það að sumarið sé komið. Nú þegar sumar gengur í garð þá fer maður út að leika sér. Magnús nokkur Andrésson skaut þeirri hugmynd að í gær að rúlla upp í Skálafell þá um kveldið, skinna þar upp, renna sér niður norðan megin, síðan skinna þar upp og að lokum renna sér sunnan megin niður að bíl. Litli Stebbalingurinn tók vel í þessar hugmyndir kauða og ákvað að skella sér með. Af ýmsum ástæðum urðu leiðangurmenn ekki fleiri en tveir þetta kveldið.
En allavega þá var blíða í Skálafelli er þangað var mætt og eftir að hafa græjað sig var hafist handa við að skinna upp í vorsólinni. Snjórinn þarna er farinn að taka upp og ekki langt í að brekkan vinstra megin við stólinn verði ekki lengur skíðafær. En hvað um það. Okkur tókst að komast á toppinn þar sem var safnað aðeins tani, flaggað og teknar toppamyndir. Allt á sígildu nótunum. En við vorum svo sem ekki alveg einir þarna því við heyrðum og sáum tvær mottur og svo flaug TF-POU yfir okkur. Gaman að því. Svo voru skinin rifin undan og látið sig gossa niður norðanmegin. Áttum við þar fínast rennsli en líkt og margt sem skemmtilegt er tók það fljótt af. Þá var barasta að skella skinunum aftur undir og ganga upp. Þegar komið var aftur upp á topp slitum við bara skinin undan og áttum síðan sérdeilis aldeilis prýðilegt rennsli niður að Polly. Þar sem sólin var horfin bakvið fjöllin vorum við í skugga á niðurleiðinni og aðeins farið að harðna færið en bara hæfilega. Líkt og hinum megin tók þetta fljótt af og við komum svo bara að bílnum. Skíðunum hent á toppinn, bakpokinn inní bíl og síðan bara aftur heim. Óhætt að segja að þetta hafi verið hin prýðilegsta kveldskemmtun í sumarblíðunni.
En alla vega þá geta áhugasamir kíkt á myndir hér
Kv
Skíðadeildin
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!