sunnudagur, mars 12, 2006

Hrafntinnusker

Núna fyrstu helgina í marzmánuði á því herrans ári 2006 lagði jeppadeildin upp í leiðangur lítinn. Var stefnan sett á Hrafntinnusker og bárum við þá veiku von í brjósti að þar væri einhvern snjó að finna. Svona eins og áður hefur komið fram þá fannst snjór þarna uppfrá. Skárra væri það nú í rúmlega 1000 mys.
Fröken Skipuleif á nú mestan heiðurinn af þessari ferð og kunnum við henni beztu þakkir fyrir það.

Það var svo vaknað fyrir allar aldir á laugardagmorgninum og byrjað á því að sækja bíl upp í Digranes eftir að hafa skilið þar eftir vegna öldrykkju eftir fótboltamót vinnunnar. Hvað um það.
Þegar heim var komið var símað í Tiltektar-Togga og var hann þá að raða í Ladý, víð ákváðum þar að vinnufélagi hans myndi sækja Lítla Stebbalinginn. Skömmu síðar var Hrafn nokkur kominn og við tilbúnir að hitta liðið á Lélegt. Er við komum í hlað voru þar allir ferðafélagarnir mættir og farartækin. Hópurinn samanstóð af:

Hrafn og Stebbi Twist á Trooper

Tiltektar-Toggi, Frú Toggi, Tuddi og Auður á Ladý-Krúser

Haffinn og Jarlaskáldið á Lata-Krúser.

Eftir að bílar höfðu fengið sína tankfylli og mannfólkið sitt morgunkaffi var ekkert að vanbúnaði að koma sér af stað. Fyrsta stopp var svo í Hnakkaville, að vísu ekki til koma við á KFC, því þar þurfti sagnaritarinn að koma við í nýlenduvöruverzlun til þess að ná sér í epli, maðkað mjöl og aðrar nýlenduvörur. Þar þurfti líka að styrkja íslenskan landbúnað með einum helgar pabba eða var það helgar grís. Man ekki alveg hvort það var en annaðhvort var það. Eftir verzlunnarleiðangurinn var barasta að halda áfram inn í blíðunna í uppsveitir Árnessýslu. Næsti stanz var gerður í Árnesi og okkur karlpeninginum til mikilar vonbrigða var enginn Hulda að vinna. Þar fengu bílar að drekka og mannfólkið var sér úti um bílanammi. Auðvitað fékk maður sér hjúplakrís. Áfram var haldið upp Gnjúpverjahreppinn, framhjá Þjórsárdal með sínar minningar, upp Samstaðamúlan og að mannvirkjum Lalla frænda þar sem við fórum yfir Þjórsá og yfir í Rangárvallasýslu. Er við komum að Dómadal var loft frelsað úr hjólbörðum. Þarna var ekki snjókorn að sjá, það eina sem var hvít var vikurinn en ekki var hægt að kvarta yfir veðrinu.
Við ókum áleiðis Dómadalinn og þurftum við að fara yfir einn og einn snjóskafl en annars var að mestu bara keyrt á klaka. Þar sem aðeins var leikið sér og nokkrir hringir teknir. Gaman af því. Við komust svo í fyrsta snjóinn í fyrstu brekkunum eftir að beygt var við afleggjarann upp á næsta hól í tjekka aðeins á útsýninu, sem var ekki amalegt eiginlega bara stórfenglegt. Nóg um það.
Ferðin inn í Sker gekk svo nokkuð stóráfallalaust fyrir sig, aðeins meira hleypt úr í brekkunni við íshellinn og svo haldið áfram. Þegar við vorum rétt ókomin að skálanum komum við að bíl einum sem oltið hafði helgina áður. Hér má sjá restina af Hi-Luxinum og hvar hann fór fram af. Við komum svo inn í skálann á hádegi sem passaði vel því tími var kominn á hádegissnæðing.
Eftir að allir voru orðnir mettir var um að gera að halda áfram að keyra og leika sér. Við gerðum heiðarlega tilraun til að finna íshelli einn sem ekki bar árangur, í staðin fórum við upp á einhvern hól og fengum nokk gott útsýni. Sumir notuðu tækifærið og smelltu skíðum undir sig hengu svo aftan í eigin bíl meðan aðrir voru fengnir til að keyra, um leið reynt að smita menn af því að fá sér jeppa. Ákveðið var að kikja aðeins í skálann aftur en á för okkar þanngað þurftum við að bíða aðeins eftir Haffa. Eitthvað sáum við þá vera í kringum bílinn með skóflu í hönd en ákveðið var að koma sér til þeirra og athuga hvernig gengi. Þegar við komum til þeirra kom í ljós að Skáldið hafði verið í úlpunni svo þeir sátu pikkfastir. Því var kippt í liðinn hið snarasta með aðstoð nylons, en þó ekki stúlknabandsins. Er við komum aftur að skálanum voru Vésælsmenn þar og þurftum við aðeins að taka út hinn alameríska snjókött. Haffi fékk svo aðeins að taka í amerískasnjótækið. Var það mál manna að það færi drengum einstaklega vel að sitja svona undir stýri á amerískufarartæki. Vakti snjóbíll þessi mikla lukku meðal viðstaddra. Eftir þetta stopp var haldið áleiðis að Torfajökli. Nokkrar brekkur reyndust okkur snúnar þó svo að við kæmust nú upp um síðir. Þegar við vorum svo kominn bakvið Háskerðing komum við að brekku, sem var niður í móti, löng og brött. Var niðurstaðan sú að ekkert mál væri að fara niður en snúnara gæti verið að komast upp. Svo ákveðið var að snúa við og koma sér aftur í skálann. Á bakaleiðinni fékk Litli Stebbalingurinn aðeins að setjast undir stýri hjá Hrafni. Var það mál manna að strákurinn hefði nú gert það alveg einstaklega vel og sjaldan hafði sést annað eins
Við komum svo aftur að skálanum rúmlega 16:00 og því kominn tími á síðdegiskaffi. Þar sem engin var til staðar þegar við komum ákváðum við að færa okkur af svefnloftinu og niður. Þar var heitt en samt var sumum kalt, hvernig sem það var nú hægt. Hvað um það. Það var svo eftir kaffi sem hörðustu naglarnir skuppu í smá bíltúr til að kanna hvort mönnum hefði tekist að koma Hi-Lux hræinu e-ð áleiðis. Ekki sáum við það fólk svo við förum bara aftur að skála. Þar var sólarinnar notið með öl í hendi. Maður gat ekki látið svona tækifæri, til að verða brúnn undir höndunum, fara til spillis. Maður verður að sjálfsögðu að vera hesttanaður Þegar sólin lét sig hverfa bakvið einhvern hól þá kólnaði skyndilega. Humm, veit ekki alveg hvernig á því stendur. Er ekki var lengur hægt að vera brúnn undir höndum var alveg eins gott að koma sér inn í skála og fara að undirbúa kveldmatinn. Er undirbúningur fyrir kveldveizluna var í hámarki og menn að missa sig í salatgerð reyndu nokkrir jeppar í hlað.
Fljótlega eftir að fýrað hafði verið í grillunum skellu menn sauðlaukum á kolinn. Þegar undirritaður hafði svo skellt helgarpabbanum í grillið og var á leiðinni aftur inn rakst hann á kunnugtlegt andlit, úr hinum hópnum. Var þarna á ferðinni Birkir, Freysabróður, nokkur á ferðinni og eftir smá spjall kynnti hann þarna fyrir sagnaritaranum verðandi starfsfélaga. Gaman að því. Flestir skelltu svo sínum mat á grillið hver á eftir öðrum. Það verður bara að segjast að maturinn smakkaðist alveg ágætlega svona eftir að búið var að hreinsa mesta kolið í burtu. Ekki var svo tollurinn verri til að skola ljúfmetinu niður.Þetta var allt að því ómetanleg blanda og ekki spillti sósan hans Hrafns fyrir. Kveldið leið og bjórunum fækkaði það kom svo að því að við vorum beðnir að yfirgefa svefnskálann. Við fórum því fram í eldhús að spjalla við Birki og félaga. Kom þar í ljós að þar voru á ferðinni Útlagar, ekki gott að verða á þeirra vegi, spjölluðum við við á um jeppa og sumir um flugvélar og flugvélaviðgerðir. Þetta var því góð nördasamkoma þar sem skipst var á hetjusögum og öll afrek lítillega ýkt. Menn týnust svo í koju einn af öðrum og það endaði með því að eftir voru skýrzluhöfundur, Jarlaskáldið, Hrafn og Haffi. Ekki voru menn á því að heilsa strax upp á Óla Lokbrá endað var því í Lata. Þar kom líka einhver kall sem aðlega virstist hafa áhyggjur af kynhneigð okkar. Þegar bjórinn var svo öllum lokið var lítið annað að gera nema koma sér í draumaheima.

Maður vakaði svo á heldur ókristnilegum tíma á messudeginum við það einhverjir voru að ganga um á svefnloftinu sem og fólk var komið á fætur þarna niðri. Eftir morgunmat, messu og Mullersæfingar beið manni uppvaskið. Já, einhver neyddist til að ganga í verk hreingerningardeildinnar. Soffía frænka stoð sig líka alveg í stykkinu við tiltektir.
Eftir smá umræðu um hvert skyldi halda áleiðis heim varð niðurstaðan sú að fara niður á Dómadalsleið og fara inn í Landmannalaugar. Eftir að hafa gert alsvakalegar tiltektir þar sem séð til þess að ruslið yrði tekið með, var haldið áleiðis til Lauga. Ferðin niðureftir gekk bara eiginlega of vel og ekki var veðrið verra en á laugardeginum. Á einhverjum stað var stanzað og beðið eftir Tiltektar-Togga hann birtist um síðir og um leið koma skýring á töfinni. Það var nefnilega kvenmaður undir stýri. Allt á sér útskýringu. Er við komum aftur niður á klakann var e-ð loft endurheimt í hjólbarðana. Brunað var svo bara áfram uns við komum að Dómadalsbrekkunni þar var gerður stuttur stanz til að kanna aðstæður. Var brekkan vel fær en að venju brött og nú var hún frekar hörð. Haffi reið á vaðið og e-ð þótti sumum þetta heldur bratt. En niður komust allir bæði bílar og menn þó svo að sumir hafa farið niður á tveimur jafnljótum.
Svo lá nánast beinn og breiður vegur inn í Laugar og enginn alvarleg fyrirstaða á leiðinni. Við komum svo inn í Laugar rétt fyrir hádegi. Ákveðið var að skella sér í laugina og fá sér svo hádegisverðarhlaðborð. Ekki er beint hægt að segja að langlellahlaupið hafi verið spennandi því aðeins Litli Stebbalingurinn uppfyllti öll skilyrði fyrir þátttöku í þessari umferð í heimsbikarmóti V.Í.N. í langlellahlaupi. Laugin var hinn fínasta og mikið erfitt að koma sér upp úr, eins og stundum vill verða þegar lofthiti er ekkert of hár. Það hafðist að lokum að koma sér uppúr og þegar maður kom aftur í skálann var maður orðinn hálf frostþurrkaður. En það beið manns hádegisverðarhlaðborð með hamborgurum og pylsum, þó engar vær Dodda-pylsur í boði, allt mjög ljúft og gott. Við yfirgáfum því Laugarnar mettir og sælir. Kíkt var aðeins inn í Jökulgilið þó stutt væri. Haldið var svo bara áleiðis niður á láglendið. Þrátt fyrir snjóleysið þá var hægt að taka sneiðing og stytta sér leið yfir göngubrekkunna kom svona þægilega á óvart. Það var svo nánast enginn snjór í hrauninu eiginlega bara klakki og þar var aðeins meira lofti dælt í dekk. Við rúlluðum svo í Hrauneyjar og þar virkaði ekki loftpressan en sumir notuðu tækifærið og heilsuðu upp á Fógetann. Það var svo komið niður á láglendið og að sjálfsögðu var komið við í nýlenduvöruverzlunni í Árnesi þar sem heilsa átti upp á Huldu. Okkur til mikilar vonbrigða var þar engin Hulda svo ekki var nein ástæða til að staldra þar e-ð við. Það átti að koma við í Hnakkaville til að fá sér ís. Þegar til Hnakkaville var komið gátum við bræðurinir ekki setið á okkur og fórum á KFC meðan hinir skelltu sér á ís. Það verður að segjast að KFC smakkaðist alveg jafnvel og manni minnti. Enda hafði maður ekki komið á KFC síðan maður fór í opinbera heimsókn til Austurríska/Ungverskakeisaradæmisins. Ljúft var það. Eftir skítthoppara og ís var ferðinni slitið og hver og einn hélt sína leið til borg óttans.

Vill bara nota tækifærið og þakka samferðarfólki fyrir frábæra ferð. Þar sem veðrið og færið gerast vart betri.

Kv
Jeppadeildin (þessi er bara fyrir Haffa)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!