mánudagur, apríl 21, 2003

Morten er komin á kreik á ný, en nú í hinsta sinn, í bili að minnsta kosti. Ég lagði í langferð á föstudaginn hinn langa. Tilefnið var að skella sér á skíði í fyrsta sinni í Noregi. Vorum komin til Norefjell um 14.30 síðdegis í um 15 stiga hita, sól og blíðu. Vegna lyklaleysis gátum við ekki komist inn í Íslendingahúsið á staðnum strax en þess í stað skelltum við okkur hið snarasta á skíði og eins og gefur að skilja var færið í blautara lagi. Jafnframt höfðu myndast miklir hólar og skurðir í brautirnar. En þrátt fyrir erfitt færi skemmtum við Siggi mágur okkur afar vel við skíðaiðkunina þann daginn. Laugardagurinn var tekinn snemma og þegar komið var upp í fjall var greinilegt að fryst hafði um nóttina og búið að troða allar brautir. Skíðafærið var því virkilega gott framan af og aðstæður allar hinar bestu. Þegar leið á daginn varð færið líkara því sem við kynntumst daginn áður. Þó var skíðað fram að lokun og við gættum okkur á því að vera efst á svæðinu (í 1188 m.) þegar lokaði þannig að við áttum eftir að lækka hæðina um einn km. (niður í 180 m.). Um kvöldið elduðum við hreindýrasteik sem bragðaðist mjög vel og að mat loknum var tekið lagið við undirleik Birkis trúbadors frá Önundafirði sem ásamt Eiríki Hauks. hefur gert garðinn frægan hér í Noregi. Á sunnudeginum var keypt hálfsdagskort og skíðað fram yfir hádegi og var færið mjög gott, þó hafði sú breyting átt sér stað á svæðinu frá því daginn áður að búið var að loka Ólympíubrekkunni vegna snjóleysis, enda sá maður breytingu á snjólögum milli daga. Því miður var lítið um eftirskíðun (e. afterskiing) þessa daga aðallega vegna þess að íslendingahúsið var ekki í göngufæri við helstu bari staðarins en einnig vegna fámennis á eftirskíðunabörunum. Um 14.30 leytið á páskadag var svo haldið til baka til Fredriksstad og þegar þangað var komið elduð hjartarsteik (alltaf í villibráðinni) og smakkaðist hún afar vel, gaf hreindýrasteikinni ekkert eftir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!