mánudagur, desember 16, 2002

Ég skrapp í stutta dagsferð á laugardaginn. Í för ásamt mér voru systir mín og vinkona hennar frá Noregi sem ólm vildi skoða eitthvað sem hugsanlega gæti flokkast sem hálendi Íslands. Til þess að gera stutta ferð ekki allt of langa var ákveðið að halda á Hagavatn og berja hið stórbrotna umhverfi þar augum. Fátt gerðist á leið uppeftir í fínu veðri, það tíðindasamasta er sennilega að ég tók eftir því að snjór er kominn í Bláfellsháls (leitt að það skuli teljast fréttnæt að það skuli vera snjór á hálendinu í desember). Þegar komið var að skálanum í Hagavatni bar hins vegar heldur betur til tíðinda, eftir að hafa ekið fram hjá tveimur "ófært" skiltum blasti við okkur bíll sem ekki var tommunni stærri en Toyota Avensins fullur af North Face innpökkuðum Bandaríkjamönnum með bíl fullan af tækjum til ísklifurs. Spurningar þeirra voru ekki af verri endanum "How far is it to the glacier?". Það gladdi þó mitt litla hjarta að ég komst akandi nær jöklinum en kanarnir sem sneru við hjá skálanum, án þess svo mikið sem að sjá jökulinn eða vatnið! Eftir að hafa nær hrætt líftóruna úr systur minni með því að spólast upp brekkuna við vatnið voru gönguskórnir teknir fram og þrammað á næstliggjandi Jarlhettu, lítillega á Langjökli, meðfram Hagavatnsströnd auk þess sem Farið var barið augum. Eftir þessa miklu göngu var haldið til baka og tók systir mín þá skynsamlegu ákvörðun að þramma niður Hagavatnsbrekkuna í stað þess að leggja líf sitt í hættu með mig við stýrið (þess má geta að Norðmaðurinn skemmti sér hins vegar konunglega við þessar aðfarir í brekkunni). Í miðri Hagavatnsbrekkunni var reyndar mannlaus bíll og hafði ökumaður greinilega ætlað sér að stöðva alla umferð (alla!!) til og frá Hagavatni með því leggja þvert á slóðann í miðri brekkunni. Mín för var þó ekki stöðvuð fyrr en í Hagavatnsskála þar sem áð var til nestisáts, hér skal reyndar játuð sú synd að gestbókarskrif gleymdust. Á heimleið var komið við á hinum miklu túristastöðum við Gullfoss og Geysi en það er ekki til frásagnar að öðru leiti en því að þar sá ég hinn nýja Land Cruiser í fyrsta sinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!