mánudagur, september 21, 2015

Agureyrish 2015: Dagur 1



Þá var komið að því þetta sumarið að fara norður til Agureyrish í hina árlegu sumarheimsókn. Þar sem Krunka þurfti að taka eina vinnuviku svona í miðju sumarfríinu síðustu vikuna á júlí var haldið í´ann norður yfir heiðar laugardaginn um verzlunnarmannahelgina þetta árið. Þar sem búið var að fezta kaup á ,,jeppa" var auðvitað haldið upp á hálendið til að komast í höfuðstað norðlendingafjórðungs. Enginn öræfaótti hjer.

Það átti sum sje að skrölta norður Kjöl og með smá útúrdúr á leiðinni. Fyrsti stanz var í Mosó þar sem það þurfti jú að snæða aðeins og varð Subway fyrir valinu. Síðan heldum vjer sem leið lá á Kjalveg yfir Mosfellsheiði. Ekki veit maður hvaðan allt þetta fólk kemur sem var við Geysi en þar var nú bara eitt stórt kaos en við sluppum þar í gegn.

Er komið var upp á Kjalveg og um leið og malbikinu sleppti var stökkið út til að mykja í dekkjunum. Kjölur var bara hin sæmilegasti enda búið að vinna í veginum og hækka hann upp nánast alla leið að Árbúðum. En þar rétt áður sleppir nýja veginum og sá gamli tók við. Þar þekkti maður Kjölinn sinn og var hann svoleiðis alveg fram að Hveravöllum og þessa 12 km norður af þeim.
Það að gjörður stuttur stanz á Hveravöllum, aðeins að teygja úr sjer og losa þvag. Úff hvað aðstaðan þarna er orðin sjoppuleg og eiginlega bara sóðaleg. Eftir að Skotta hafði aðeins fegnið að sletta úr klaufunum m.a í rennibraut og Litli Stebbalingurinn rölti um og skoðaði hin ýmsu farartæki sem þarna voru, eins og við má búast voru þarna nokkur áhugaverð tæki á ferðinni. Svo þurfti einfaldlega að halda áfram för oss þó svo sem að ekkert hafi legið á.
Við heldum sem leið lá í norðurátt og ekki leið á löngu uns vjer komum að Blöndulóni og er við komum að norðurenda þess var stefnan tekin í austurátt og keyrt yfir tvær stíflur við lónið. Þarna sá maður að greinilegt að ekki var mikið í lóninu eins og komið hafði fram í fréttum fyrr um sumarið. Þegar á Eyvindarstaðaheiði tókum við vinstri beygju og heldum í norður í átt að Blöndudal en þangað fórum við ekki heldur ofan í Svartárdal og nánast bara beint upp úr honum aftur og yfir Kiðaskarð. Þegar yfir Kiðaskarð var komið vorum vjer í Skagfirskaefnahagssvæðinu rétt við Mælifellshnjúk.
Í Varmahlíð var svo gjört örstutt pissustanz og svo beið manns bara Öxnadalsheiðin. En mikið fjári er langt til Agureyrish eftir að maður kemur niður af Öxnadalsheiði, held svei mjer þá að hún verði alltaf lengri og lengri eftir því hvað maður fer oftar þarna um. Við komum svo til Agureyrish og renndum bara beint í Tröllagilið.
Þar sem það var víst verzlunnarmannahelgi og Halló þarna Agureyrish var í gangi skruppum vjer í miðbæinn þar sem tónleikahöld voru í gangi. Þar komu fram m.a hinir þingeysku ,,Ljótu hálfvitar" við sáum þá spila á útisviði örfá lög og höfðum gaman af. Svo kíktum við á Símstöðina og fengum okkur Einstök White Ale úr krana. Ansi ljúffengur sá. Síðan bara haldið heim á þokkalegum kristilegum tíma.

Sé einhver vilji þá geta einstaklingar skoðað myndir frá deginum hjer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!