föstudagur, nóvember 18, 2011

LA GRANDE BOUFFE 2011



Ansi langt er orðið síðan Jarlaskáldið skrifaði ferðasögu. En þegar annar eins stórviðburður og LGB 2011 á sér stað er nauðsynlegt að um hann sé ritaður pistill, ekki síst fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar, sem vilja fræðast um hvernig partí voru best haldin á öðrum áratug 21. aldarinnar.

Saga vor hefst í ágústmánuði 2011 þegar Haffa nokkrum fannst nóg komið af sumarbústaðahokri í Búffferðum, og festi leigu á veiðihúsi í Leirársveit, með rúmum fyrir 22 manns og gólfplássi fyrir talsvert fleiri. Boð voru send út á um 30 manns, og voru undirtektir hinar ágætustu, 17 manns skráðir innan fárra daga og urðu 24 (30 með ungviði) þegar á hólminn var komið. Þeir voru, í engri sérstakri röð:

Jarlaskáldið
Þórey
Haffi
Sunna
Stebbi Twist
Krunka
Helga
Vignir
Halldór
Erna
Óli
Gunnar
Alda
Eyfi
Auður
Agnes
Gaui
Maggi
Elín
Gústi
Oddný
Danni
Unnur
og að lokum Hrafn, ásamt sex ungviðum og einum hundi.

Eftir langa bið, undirbúningsfund og alls kyns trakteringar rann loks upp föstudagurinn 11. nóvember. Jarlaskáldið og spúsa hans lögðu fyrst af stað úr bænum og voru komin upp í Leirársveit um sexleytið með drekkhlaðinn bíl sinn, sem er reyndar ekki mikið afrek þegar maður ekur Kia Picanto. Eftir stutta leit fannst lykill og opnaðist þá heljarmikil höll, talsvert meiri og glæsilegri en bjartsýnustu menn höfðu leyft sér að vona, með tveim svefnálmum með alls 12 herbergjum, risastóru eldhúsi, matsal og tveim setustofum, misstórum. Leið okkur skötuhjúm svolítið eins og krækiberjum í helvíti fyrsta kastið, enda bergmálaði næstum í húsinu vegna tómleika. Undirrituðum til mikillar gleði var stóreflis klakavél í setustofunni, aldeilis að það var snjallt að gera sér sérstaka ferð til að kaupa klaka á leiðinni, auk þess sem þar var ísskápur, og var það skoðun flestra að slíkt ætti að vera staðalbúnaður í öllum betri setustofum. Ekki leið á löngu þar til næstu gestir fóru að tínast inn og áður en yfir lauk þetta kvöld voru alls 18 manns í húsinu, ef minnið svíkur ekki annálaritara, og verður það að teljast góður árangur og VÍN-verjum til mikils hróss.

Það var svo sem ekki verið að finna upp hjólið varðandi aðgerðir þetta föstudagskvöld, flestir fengu sér eitthvað í smettið, og bar þar helst heilmikil barbíkjúrifjaveisla með frönskum, gott ef þátttakendur hennar þurftu ekki velflestir að fara í sturtu til að þrífa af sér subbið eftir hana, en aðrir fóru bara beint í pottinn og undu sér þar vel þrátt fyrir eilítið kalsaveður. Annars er óþarfi að fjölyrða um föstudagskvöldið, hefðbundnum aðalfundarstörfum var sinnt eftir megni og fólk tíndist í háttinn eitt af öðru, a.m.k. man annálaritari ekki eftir neinu það markverðu að þörf sé að nefna það, en það þýðir ekki endilega að það hafi ekki gerst...

Veðrið skartaði sínu fegursta þegar fólk reis úr rekkjum morguninn eftir, eða um hádegisbil, allt eftir aðstæðum. Hefðbundin dagskrá átti að hefjast um fjögurleytið, og dreifðist hópurinn nokkuð um daginn, einhverjir brugðu sér í bíltúr, aðrir í göngutúr, og enn aðrir hafa sjálfsagt gert eitthvað allt annað, það er ekki á eins manns færi að vita hvað allt þetta fólk gerði. Áfram hélt líka að fjölga í kotinu, og þegar hefðbundin dagskrá átti að hefjast um fjögurleytið voru alls 29 manns með börnum og einn hundur mættir, og þarf varla að taka fram að það er met. Hrafn mætti svo síðar um daginn, flestum að óvörum. Eins og við mátti búast hófst skipulögð dagskrá ekki á réttum tíma, en þegar klukkan var eitthvað gengin í fimm var öllum hópnum safnað saman í setustofunni, og honum skipt í sjö þriggja manna lið með svokölluðu dýrakalli. Því næst var dregið fram stóra sörpræs helgarinnar, hinn óhemjugómsæti VÍN-bjór, sem allir voru sammála um að væri besti bjór sem bruggaður hefur verið, þótt ekki sé nema vegna límmiðans. Þá var og upplýst hvers vegna dregið var í lið, því annálaritari og spúsa hans höfðu samið Búff Quis í tilefni helgarinnar, þar sem spurningar voru allar með einum eða öðrum hætti tengdar VÍN og VÍN-verjum. Sá spúsan um lestur spurninga, enda með allmiklu ómþýðari rödd en annálaritari, sem gegndi hlutverki tæknimanns, enda var nútímatækni óspart beitt. Var nokkuð góður rómur gerður að þessu uppátæki, en að lokum urðu lyktir mála þær að Drykkjusvínin, lið skipað Haffa, Eyfa og Auði, hrósaði sigri og hlaut vegleg verðlaun sem annálaritari hafði stolið úr vinnunni.

Undirbúningur matseldar var þegar hafinn áður en leikurinn byrjaði, en færðist allur í aukana að honum loknum, auk þess sem Danni djús bjó til einhvern furðulegan fordrykk, eða forkrap réttara sagt, sem bragðaðist ákaflega vel, en með einhverjum töfrabrögðum hafði Danna tekist að fela allt áfengisbragð, því fljótt kom í ljós að drykkurinn/krapið var rammsterkur/t. Of langt mál væri að telja upp alla þá sem komu að matseldinni, eflaust lögðu allir hönd á plóg að einhverju leyti þótt mismikið væri, en allavega var borinn fram forréttur, ööö... einhvern tíma ekkert svo seint, og samanstóð hann af grillaðri hörpuskel og döðlum, vafið í beikon. Það þarf væntanlega ekki að útskýra fyrir lesendum hvernig það bragðaðist, það segir sig algjörlega sjálft. Aðalréttur var svo borinn fram einhverju síðar, holugrilluð lambalæri með kartöflu-rótargrænmetismixi, salati og einum fjórum gerðum af sósum, bernes-, sveppa-, rauðvíns- og sinneps/graslauks. Minna má það ekki vera. Hefði þessi matur verið borinn fram á veitingastað væri sennilega verið að henda allavega fjórum Michelin-stjörnum á hann í þessum töluðu orðum. Að lokum var svo eftirréttahlaðborð, minna dugði bara ekki, hlaðið alls kyns ljúffengum kræsingum, uns borðhaldi var slúttað með viðeigandi hætti, kaffi og konni í boði Djússins.

Yfir borðhaldi var endurvakin hefð sem dó með hvarfi Öldu af landi brott, afhending Bokkunnar. Voru fjórar bokkur afhentar að þessu sinni, Íþróttamaður ársins var Helga, Föðurlandsvinir ársins voru Alda og Gunnar, Par ársins voru Gaui og Hrafn, og að lokum var Óli verðlaunaður sem Höstlari ársins. Voru allir sérlega vel að verðlaununum komnir, og vonandi að þetta verði VÍN-verjum hvatning á komandi ári til að vinna slík afrek að þeir geti orðið sama heiðurs aðnjótandi.

Eins og við er að búast fer minni annálaritara að bresta um þetta leyti, eitt og annað var brallað fram eftir kvöldi og nóttu og ekki allt birtingarhæft, en eftirtektarverðast hlýtur þó að teljast stofnun og fyrsta æfing VÍN-drengjakórsins. Spreytti hann sig á laginu Hraustir menn, undir dyggri stjórn eina lærða söngvarans í VÍN, og um söng þann er líklega best að segja að vonandi skapar æfingin meistarann. Ef einhver á upptöku af þessum flutningi er hann vinsamlegast beðinn um að farga henni, eða í það minnsta koma í veg fyrir að hún verði nokkurn tíma gerð opinber.

Sunnudagsmorgunn rann upp jafnblíður og fyrri morgnar, og beið gesta þá dýrindis morgunverðarhlaðborð í boði Eyfa og Auðar. Það verður ekki af VÍN-verjum tekið að þeir kunna að næra sig. Fólk tíndist svo heim eitt eða tvennt af öðru þegar nauðsynlegri tiltekt hafði verið sinnt, og var ákveðið á staðnum að þetta yrði endurtekið að ári á sama stað, og viti menn, það ku vera búið að bóka húsið aftur...

Að lokum þakkar annálaritari kærlega fyrir sig og sína, þetta var einfaldlega frábær helgi í alla staði, enda virtust allir reyna að gera sitt besta til þess að svo yrði. Þarf ekki bara að halda svona búff oftar en einu sinni á ári? Svei mér þá...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!