þriðjudagur, október 07, 2014

Hjólheztaferð FBSR: Dagur 3



Það rann upp messudagur í Skálanum í Krók og allir risu á fætur á u.þ.b. sama tíma. Merkilegt það. En eftir hefðbundin morgunverk sem samanstóðu ma af morgunmessu, morgunmat og Mullersæfingum. Eftir að því lauk var hafist handa við að gjöra sig klára fyrir daginn. Að sjálfsögðu var skilið við skálann í ekki síðra ástandi en við komum að honum og eftir það höfust menn og konur við að gjöra hjólheztafáka sína klára fyrir átök dagsins, það voru smurðar keðjur, stilltir gírar og sitthvað fleira smálegt.

Svo var bara stígið á sveif með stefnuna í Langadal í Þórsmörk. Fyrst lá leiðið að Mosum við Markarfljót. Ansi gaman að hjóla í gegnum gilið þar og þessa leið bara heilt yfir. Það var komið við í Hobbitaholunni sem er þarna á leiðinni. Er komið var að skálanum við Mosa var gjörður þar stuttur stanz áður en haldið var að Emstrum í gegnum Hattfellsgil. Sáum aðeins glita í skálanum við Hattfell en komum þar eigi við. En undir Hattfelli var vart stætt sökum hvassviðris en öllum tókst þó að skila sér í Emstrur. Þar var tekið hádegishlé. Að sjálfsögðu drógum við upp afganginn af lærinu sem snædd hafði verið kveldið áður með öllu tilheyrandi meðlæti. Það var gaman að sjá svipinn á sænsku ferðagöngugörpunum sem voru að pína ofan í sig þurrmat er við hin gúffuðum íslenska lambalærinu ofan í okkur. Þarna kom líka annar hjólahópur sem var að koma frá Strút.

Svo var kominn tími að halda áfram ferð vor. En þarna var aðeins farið að ýrja úr lofti en auðvitað kvartar maður ekki yfir því. Við tók ferð í Þórsmörk með fullt af giljum upp og niður en svo sem skemmtileg hjólaleið þar sem maður náði að hjóla. Við komum svo í Langadal og þar tóku á móti okkur heilagir munkar úr austurvegi. En þar sem ekki voru allir bílar komnir á svæðið var ekkert annað gjöra í stöðunni en að hjóla á móti þeim. Það gekk að meztu leyti og mættum við bílunm rétt vestan við Merkurker. Þá var bara hjólum skutlað á pallinn á Sexunni, skipt um föt og léttur snæðingur tekinn. Þar með eiginlega lauk formlega hjólheztaferð FBSR 2014 og mikili s(n)illdarför.

Hafi einhver áhuga má skoða myndir hjer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!