mánudagur, október 22, 2007

Er það grand eða nóló?

Sælt veri fólkið, og takk fyrir síðast. Þetta var sennilega með betri þrítugsammilum sem Jarlaskáldið hefur haldið.

Einhvern tíma þegar sól var hærra á lofti var sú lýðræðislega ákvörðun tekin að halda La Grande Bouffe helgina 26.-28. október. Það mun vera næsta helgi. Það er allt gott og blessað, en síðan virðist sem undirbúningsnefndin hafi ekki verið sérlega dugleg, og leikur grunur á að það hafi gleymst að skipa hana. Í það minnsta hefur ekkert nefndarálit borist.

Nú eru því góð ráð dýr. Eða hvað? Svo virðist sem Haffi hafi fundið ráð sem ætti ekki að vera neitt sérlega dýrt. Hann er sem sagt búinn að panta hús skammt sunnan Langjökuls sem kallað er Ríkið. Það er hið ágætasta hús sem rúmar dágóðan fjölda gesta, og því fleiri eftir því sem vinskapur gestanna er meiri. Þá er þar stórt grill og sauna, en að vísu enginn heitur pottur. Það er ekki á allt kosið. Í Ríkið er tæplega fólksbílafært, en allavega Lillafært, svo það ætti ekki að vera mikið vandamál að koma þeim sem vilja á staðinn.

Það er s.s. tillaga nýskipaðrar og um leið sjálfskipaðrar undirbúningsnefndar að fara í Ríkið um helgina og halda þar La Grande Bouffe, eða Semi-Grande Bouffe, eða jafnvel Grande Bouffe Nano. Tillagan er s.s. sú að fara á laugardaginn, grilla eitthvert gott ket og jafnvel eitthvað meira ef vilji er fyrir því, dreypa þar á fínasta víni og gista eina nótt. Hefur einhver áhuga á því?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!