Eins og þegar hefur komið fram hérna á síðunni á undan þá fór jeppadeildin í nýliðaferð 4X4 nú um síðustu helgi. Að vísu fór jeppadeildin sem hópstjórar en ekki nýliðar. Einn spurning brann á okkur öllum og sú var: Skyldi Pétur Nýliði vera þarna á svæðinu í nýliðaferðinni.
Undirrituðum hafði verið úthlutað hópi D sem átti að leggja af stað frá Lélegt á Vesturlandsvegi kl:18:30 á flöskudagskveldinu. Eftir að hafa hringt út liðið á fimmtudeginum var skundað inn í skúr. Þá átti að gera njög svo einfaldan hlut sem var að strekkja á viftureim. Það byrjaði að brotna einn bolti sem varð að keðjuverkun sem endaði með ónýtum rafaflsgjafa. Nú var úr vöndu að ráða. Lítið sem ekkert að gera á fimmtudagskveldinu. Málið endaði með því að maður bónaði bara Willy á fimmtudagskveldinu og gerði allt annað klárt fyrir utan rafmagnsaflsgjafann. Nokkuð merkilegt að eitthvað sem er ekki til skuli geta stoppað mann svona. Eftir athugun á flöskudeginum kom í ljós að svona rafaflsgjafi var til í Hafnarfirði, af öllum stöðum, og endaði með því að Runólfur kippti einum með það sem hann átti leið um Hafnarfjörð. Kom hann honum til mín í vinnuna. Þar sem maður var ekki búinn að vinna fyrr en kl:18:00 og þá var drifið sig heim og beint í skúrinn. Það var sem manni væri ekki ætlað að fara þarna á flöskudeginum því nú kom það í ljós að enginn bolti var til að strekkja á rafaflasgjafanum. Þar sem þetta er tommubolti var ekkert hlaupið í Húsasmiðjuna til að redda bolta og maður sá fram á að vera í bænum með bullandi öræfaótta. Eftir að hafa talað við Runa og viti menn kappinn fór í málið og sagði svo: ,,farðu í Hafnarfjörð, (af öllum stöðum) til Kela mág og hann á bolta handa þér´´. Það var við það hoppað upp í bíl og ekið sem leið lá í guðsvolaðan Hafnarfjörð. Þar eru bara vegaframkvæmdir og hringtorg sem tefja mann og svo verður maður ringlaður af öllum þessum hringtorgum að maður getur ekki fundið staðinn og villist. Þarna var lítil, einmana og skíthræddur Stebbalingur í Hafnarfirði og það eftir að skyggja tók. Ekki veitir það á gott. Eftir að hafa svo loks fengið leiðsögn þá fannst skúrinn og boltinn fékkst. Nú var ekkert annað að gera nema koma sér úr Hafnarfirði og það sem hraðast og fyrst. Það var mikil léttir þegar litli Stebbalingurinn komst aftur í öryggið í Grafarvoginum og beinustu leið í skúrinn að skrúfa. Í fór rafaflsgjafinn og hlóð kvikindið sem nýr væri. Nú var bara að sjá hver staðan væri á hópi D (sem var upphaflega minn hópur og Runólfs) voru þeir þá að renna inn í Hrauneyjar. Eftir að hafa spjallað við VJ og við ráðið ráðum okkur og borið saman bækur sáum við að það var eiginlega heldur seint í rassgatið gripið og við værum alltof seinir til að geta náð hinum. Var því ákveðið bíða laugardags og sjá þá til. Við ákvæðum þess í stað að horfa á tímamótaverkið Old School og éta eitthvað af þessu nesti sem við höfðum verzlað kvöldið áður. Haft var samband við Skáldið og hann boðaður á staðinn, enda fer þar smekkmaður á kvikmyndir. Þegar svo vel var liðið á þessa epískustórmynd hringdi Runólfur og var að láta vita að þeir væru komnir yfir Þjórsá þar sem einn Bronco væri með ónýtan afturöxul. Minnist hann á ef hægt væri að útvega öxul hvort maður væri ekki til að koma til móts við þá með öxulinn. Ekki var hægt að skjótast undan þeirri ábyrgð.
Það var svo rúmlega 10:00 á laugardagsmorgni er síminn glumdi hjá mér og á línunni hinum megin var Runólfur. Hann tjáði mér að öxul væri á leiðinni til minn og hann yrði kominn einhverntíma milli 11:00 og 11:30. Líka varð hann að minnast á að þarna væri sól og blíða. Maður leit út og hugsaði ,,auðvitað´´. Líka tjáði hann mér að það væri frábært færi. Allt gert til að hrista úr manni öræfaóttann sem var þó eiginlega ekki til staðar. Maður spratt á lappir, ræsti út Vigni, fékk mér að éta, í sturtu og dótið inn í bíll. Þetta var allt saman gert til að vera tilbúinn og geta lagt af stað um leið og hluturinn kæmi. Svo beið maður og biðin varð lengri og aðeins lengri. Þegar svo Runólfur hafði samband um 12:30 og heyrði að maður væri enn að bíða eftir öxlinum fór hann að kanna málið. Það var svo rúmlega 13:00 sem haft var samband og spurt hvar ég væri svo hægt væri að koma stykkinu til mín. Ákveðið var að hittast á Olísstöðinni úti á horni. Þarna um 13:30 var maður loks kominn með öxulinn í hendurnar. Næst var að pikka upp VJ sem var gert og ekki tók það langan tíma. Nú þurfti bara að renna við í sérvöruverzlun ríksins og næla þar sér í jólabjór. Það var svo 13:45 sem við loks vorum komnir við borgarmörkin á leið til fjalla. Ekki fannst okkur leiðinlegt að vera loks komir með stefnuna í Setur þó eiginlega 2.klst seinna en til stóð í upphafi. Nóg um það. Það var frekar þungbúið og aðeins ýrjaði úr lofti á okkur. Þoka tók við í Hveradalabrekkunni en þó ekki lengi því fljótlega tók við heiðskýrt gat og við blasti suðurlandið og Vestmannaeyjar, með sínar 10 ljúfu minningar, þegar við renndum hjá Ingólfsfjalli var fjallasýnin ekki amaleg og við sáum þá hvað menn höfðu verið að tala um. Eftir stuttan stanz í Hnakkaville þar sem Willy fékk að drekka og Vigni sýndir alvöru bílar var haldið sem leið lá upp í Hrauneyjar. Lítið merkilegt gerðist þar á milli enda maður búinn að fara þessa leið oftar en tvisvar og jafnvel þrisvar. Þó fannst okkur sólin vera lágt á lofti klukkan 15:00 enda kannski ekki óeðlilegt miðað við hvaða árstími er. Við komum að benzínbælunni í Hrauneyjum nákvæmlega kl:15:35:48. Eftir að hafa tankað og gert það upp fengum við GPS-punkt hjá Runa hvar við ættum að beygja út af Kvíslaveituvegi. Að gömlum og góðum sið var kvittað í gestabókina og kíkt aðeins á Fógetann. Þar sem maður vissi hvað beið manns taldi maður enga þörf á að tefla við páfann í Hrauneyjum. Okkur var nú ekkert að vanbúnaði að halda för okkar áfram. Það verður að segjast að veðrið var vægast sagt frábært og fjallasýnin var mögnuð og jafnvel enn magnaðri þegar dalalæða kom þarna yfir. Það var svo aðeins frelsað loft úr hjólbörðunum til aðeins að mykja. Þegar við komum svo að GPS-punktinum sem Runi hafði gefið okkur þá fór það ekkert á milli mála að þarna átti maður að taka vinstri beygju. Nýr punktur var settur í GPS-tækið sem var Setrið og sagði það að 19 km væru í skála. Þarna var líka hleypt úr og farið niður í 6.psi því maður var aðeins smeykkur við grjót. Við ókum svo þar sem leið lá á vestur átt, upp og niður holt og hæðir bíðandi þess að koma að Sóleyjarhöfðavaði. Við vissum það að Broncoinn væri vestan megnin við vaðið sem var allt á ís. Við höfðum fréttir af því að vel hefði gengið að komast yfir þó aðeins hefði blotnað ísinn og skemmst er að minnast Hnjúkakvíslarninar. Þegar við vorum svo á voða fínni sléttu sáum við allt í einu glitta í bíl og þá föttuðum við það að við værum á miðri Þjórsá á ís. Allt gekk þó vel og við renndum við hlið Broncoins. Þarna var sú pólitískaákvörðun tekinn að nota þetta stanz til snæðings. Meðan undirritaður kom öxlinum fyrir frammí Broncoinum útbjó VJ túnfisksamloku handa okkur. Við höfðum séð ljós í fjarska í smá tíma og okkur grunnaði að þarna væru strákarnir á ferðinni að koma á móti okkur. Þar sem við sátum að snæðingi birtust þeir Runólfur og Maggi Brabra. Þarna með þeim í för voru Halli Kristins í Tvistinum og Tiltektar-Toggi og Dabbi í Barbíinum. Eftir stutt spjall var ekkert annað að gera í stöðunni nema bruna sem leið lá að Setrinu eða um 14.km leið. Það verður bara að segjast alveg eins og að færið var alveg geggjað og þrátt fyrir að nánast hafi verið malbikað að Setrinu þá var oft best bara að marka eigin för og mikið fjandi var gaman að láta gamninn geysa þarna. Við renndum svo í hlað fyrir framan Setrið rétt um 19:00 þarna voru saman komnir 30 jeppar auk þess sem við bættumst þarna í hópinn. Það yrði of langt að telja alla fram en hér er listi um nýliðina. Þó var Pétur nýliða hvergi að finna en við vorum þó ekki búnir að gefa upp alla von. Eins og hefð er þá verður maður að telja upp einhverja jeppa og þá sem í þeim voru og er þá ætlunin að hafa þá hópstjórana/fararstjórana:
Stebbi Twist og Vignir á Willy´s CJ7
Runólfur, Tiltektar-Toggi og Dabbi á Toyota Land-Cruiser 90
Maggi Brabra og Halli Kristins á Toyota Land-Cruiser 70
Arnór og Birkir á Toyota Hi-Lux Double Cap
Atli E á Toyota Hi-Lux Double Cap
Svo var það Elvar sem stýrði ferðinni úr bíl hjá einum af nýliðunum.
Þarna heilsaði maður upp á liðið sem var að fullu við að grilla og var okkur VJ bara tekið þarna fagnandi þrátt fyrir að hafa mætt seint en þó vonandi ekki illa. Bílaflotinn þarna samanstóð af nánast öllum tegundum. Þó nokkrir uppfylltu öll skilyrði til að vera fullgildir meðlimir í ,,Major League´´, nokkrir Semi meðlimir þ.e japanskir með amerískt hjarta og afgangurinn tilheyrði ,,Little League´´. Það leið ekki á löngu uns Albert nokkur birtist og þakkaði mér fyrir að koma með öxulinn sem var hið minnsta mál fyrst það gekk svona vel. Stuttu síðar var komið með fyrstu rolluafturhásinguna og þrátt fyrir að hafa verið nokkuð blóðug, allt að því jarmandi, þá var nánast slegist um að fá bita. Þeir sem voru að fara að redda Broncoinum fengu með þeim fyrstu og komu sér svo að stað til að lagfæra Broncoinn. Allir fengu svo kjét og vil ég þakka kokkunum fyrir góðan mat. Við fengum svo okkar hlut og settumst frammi þar sem við sáttum svo þar fram eftir kvöldi. Þarna ræddu menn um jeppa, tölvumál og fleira nördalegt en höfðu samt gaman af. Þarna hafði ekkert bólað á Pétri Nýliða en við vorum ekki búnir að gefa upp alla von meðað finna Pétur Nýliða. Það var svo skriðið í koju rúmlega 01:00 og farið að sofa. Það var svo seinna um nóttina sem við vorum vaktir af einum kappa sem tjáði okkur að einn bíll væri búinn að rústa dekki (þessi mynd kemur þessu máli ekkert við). Sá bíll fór víst til móts við þá til að kippa Patrolnum upp úr krapapit. En af björgunarleiðangrinum var víst að frétta að öxulinn var kominn í og dekkið á, en þeir náðu honum ekki í gang. Víst ónýt glóðarkerti. Þeir fóru svo til baka með eitt varadekk og skiptu um dekk. Þannig að það mál reddaðist .
Það var svo alltof snemma á sunnudagsmorgninum sem síminn glumdi hjá einum. Ekki reyndist svo auðvelt að finna símakvikindið til að slökkva á vekjaranum fyrr en einhver tjáði að síminnn væri undir dýnunni hans Elvars. Eftir að hafa komið sér á fætur urðu hin hefðbundnu morgunverk næst á dagskrá sem auðvitað eru morgunmatur, Mullersæfingar og að sjálfssögðu morgunbæn/messa. Maður var bara fljótur að verða ferðabúinn því maður hafði verið óvenjulega sjéður á laugardagskveldinu og tankað. Svo eftir að maður var búinn að pakka ofan í poka og fá sér kaffisopa var maður nánast ferðbúinn. VJ kom dótinu okkar fyrir inní Willy og á meðan gekk sá gamlin en um leið síungi, og fékk að hita sig. Það voru þó nokkrir fulltrúar hreingerningardeildar voru þarna svo að skálinn var þrifinn hátt og lágt. Áður en lagt var af stað var nauðsynlegt að taka eina loka fallprufun á kamrinum og að sjálfsögðu varð kamarinn fyrir valinu. Þar er á sama tíma var líka einn fulltrúi hreingerningardeildar að bíða eftir að komast á settið og þar sem maður er svo vel upp alinn herramaður þá eftirlét maður kvennmanninum vatnsklósettið. Ekki það að holan hafi verið verri kostur. Nóg um það. Þegar allt hafði verið gert klárt, þrifið og gengið frá eftir mannskapinn fór hver hópurinn af stað á eftir öðrum. Sjálfir fórum við með okkar upprunalega hóp eða hóp D. Þarna hafði hlýnað talsvert frá kvöldinu áður og hafði verið snjókoma/slydda í einhvern tíma. Eftir að lagt hafði verið af stað kom í ljós að snjóblinda var all mikill og allt rann saman í eitt hvít og varla að maður greindi förin. Sú leið sem var farin var norður fyrir Kerlingafjöll áleiðis á Kjöl. Ferðin gekk barasta nokkuð vel þrátt fyrir nokkrar festur hér og þar hjá hinum og þessum. Ekkert sem óeðlilegt geti talist. Þegar við vorum komnir undir Loðmund breytist slyddan í rigningu og ekki nóg með það heldur snarminnkaði snjórinn líka þarna. Þá var líka kominn tími til að bæta aðeins í dekkinn aftur því grjótið var farið að standa óþægilega vel uppúr á sumum stöðum. Við renndum svo í Kelló og áttu sumir í meira basli með síðustu brekkuna en aðrir. Allir komust þó upp að lokum. Þarna uppi á hryggnum er óhætt að segja að hafi verið skítaveður eða þvílíka rigningin og slíka rokið. Þarna minnkaði líka snjórinn alverulega og átti bara eftir að minnka. Næst var það Ásgarðsáin sem er ekki nokkur farartálmi. Leiðin upp á Kjöl var ekki svo slæm þrátt fyrir nokkra krapabelgi hér og þar en lítið mál var að þræða þá. Áin við Gýgjarfoss var frosinn og held ísinn svo ekki var það mikið mál. Næst svo einhver spræna sem ég man aldrei hvað heitir en þar voru bakkarnir sæmilega háir en ekki mikil fyrirstaða sérstaklega ef maður sveigði aðeins til hægri þegar uppúr átti að fara. Fljótlega komum við svo á Kjalveg og var hann all blautur. Það var svo við eina brekkuna stuttu eftir að við komum á Kjöl að annað drifskaftið hafði losnað undan Wagonernum og var 100% næloni komið á milli hans og Patrol. Menn festu sig svo hér og þar í krapanum á Kili en það er bara eitthvað til að hafa gaman af í. Alltaf minnkaði snjórinn eftir því sem sunnar dró og í stað krapans tók við fljúgandi hálka og tóku menn bílana í danskennslu og sýndu þeim sem á eftir voru vel valin spor. Brekkan upp að Beinakerlingunni reyndust sumum aðeins erfiðari en öðrum en allir komust upp að lokum. Eftir að Bláfellshálsinum lauk var nánast allur snjór farinn. Þegar við vorum svo komnir yfir Sandá má eiginlega segja að allt hafi verið orðið iðagrænnt eða svona allt að því. Menn stoppuðu svo til að pumpa í dekkinn og heldu svo niður að Geysi. Þegar á Geysi var komið fóru nokkrir að ráðum háttvirts Landbúnaðarráðherra og fengu sér einn ,,nong í klebbi´´ til þess að verða stórir og sterkir. Þarna var líka ferðinni slitið og menn þökkuðu fyrir sig um leið og þeir kvöddust. Við VJ tókum þá ákvörðun að fara Gjábakkaveg (Lyngdalsheiði) heim. Við höfðum fréttir af því að þar væru nokkrir skaflar sem ættu ekki að vera neitt vandamál. Við fórum svo þessa leið og þetta reynist satt. Nokkrir skaflar urðu á vegi okkar en ekkert vandamál. Þarna hittum við líka einn slyddujeppa sem ákvað að snúa við eftir að hafa rædd við okkur. Ekki er ég viss um að þessi leið hafi reynst vera fljótlegri en skemmtilegri var hún heldur en Hellisheiðin, enda vorum við svo sem ekkert að flýta okkur heim. Við komum svo í Árbæinn rétt fyrir fréttir á Stöð 2 á sunnudagskvöldinu eftir góða ferð.
Ég vil bara þakka ferðafélögum mínum fyrir góða helgi, þó stutt hafi verið hjá mér. Takk fyrir mig þetta var gaman. Eitt olli okkur þó vonbrigðum en það var að hvergi var Pétur Nýliða að finna í þessari nýliðaferð.
Að lokum. Þrátt fyrir frábæra helgi þá bar einn skugga á en það var banaslysið við Vonarskarð. Vill undirritaður fyrir hönd jeppadeildar votta aðstandendum, vinum og ferðafélögum þess látna samúð sína. Það er aldrei of varlega farið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!