þriðjudagur, október 31, 2006

La Gran Bouffe - taka tvö

Góðir hálsar, líkt og hér kom fram fyrir ríflega mánuði síðan stendur til að halda hið svokallaða La Gran Bouffe dagana 17.-19. nóvember næstkomandi. Undir gleðina hefir Jarlaskáldið fest leigu á sumarbústað í eigu starfsmannafélags þess, nefndur Jónshús, eftir gefanda þess, Jóni "vonda" Ólafssyni. Mun hann vera staðsettur í Reykjaskógi (bústaðurinn þ.e., veit ekkert hvar Jón er), sem er ríflega 10 km fyrir norðan Laugarvatn, rétt áður en komið er að Brekkuskógi. Þar ku vera svefnpláss fyrir hátt á annan tug manna, sæmilega hátt til lofts og vítt til veggja, og ætti bústaðurinn því að geta húsað væntanlega gesti, fari fjöldi þeirra ekki fram úr hófi. Nú eru einungis 17 dagar til stefnu, og þó að það sé langur tími í pólitík er það mat undirbúningsnemdar að vissara sé að fara að huga að skipulagningu.

HVERJIR MÆTA?

Eins og þeir sem til þekkja vita snýst La Gran Bouffe um að útbúa og njóta góðs matar og drykkjar í fallegu umhverfi og helst ágætum félagsskap, þó að iðulega sé nú tekið upp á ýmsu öðru þegar leikar taka að æsast. Eðli fagnaðar þessa er ólíkt mörgum skemmtunum Vinafélagsins, einkum og sér í lagi sakir staðsetningar og viðhafnar, sem kemur í veg fyrir að allir og amma þeirra geti sótt fagnaðinn. En hverjir eiga og mega mæta? Einfaldasta skýringin væri: þeir sem eru í VÍN. En þar sem það mengi hefur aldrei verið almennilega afmarkað dugar það kannski ekki. Niðurstaða Jarlaskáldsins er því nokkurn veginn á þá leið að allir sem hafa mætt áður í La Gran Bouffe eða hefur verið sérstaklega boðið af til þess bærum aðilum eigi rétt til að sækja fögnuðinn. Til þess bærir aðilar eru þeir aðilar sem eiga VÍN-peysu, sem sullað hefur verið bjór á. Komi upp vafamál verða þau leyst af gerðardómi.
Þeir heppnu aðilar sem rétt eiga á að sækja fögnuðinn ættu að sjálfsögðu að fjölmenna allir sem einn, og þakka æðri máttarvöldum fyrir að njóta slíks heiðurs, en reynslan sýnir að það mæta aldrei allir, hverjar sem ástæðurnar eru. Það er hins vegar afar mikilvægt að vita hverjir ætla að mæta, og þeir sem ekki skilja hvers vegna það er, ja, þeir ættu líklega bara að vera heima. Tilvalið væri að nota kommentakerfið hér fyrir neðan til að tilkynna fyrirætlanir sínar, nota símtæki, eða tilkynna til þess bærum aðilum það á annan hátt.

HVAÐ SKAL ETA?

Sem fyrr segir er aðalatriðið í hátíð þessari að njóta góðra veitinga. En hvaða veitinga? Soðin lifrarpylsa og blóðmör? Brennivín í kók? Haggis? Campari? Langreyður? Rísottó!?! Nei, það er vissara að huga vel að veitingunum svo engin verði slysin. Því er ráðlegt að væntanlegir gestir fari að leggja höfuðið í bleyti og spá í hvað sniðugt væri að gera, og ef menn hafa góðar tillögur má alveg geta þeirra í kommentum. Svo væri ekki galið að halda einn af okkar sívinsælu undirbúningsfundum þegar nær dregur, t.d. seinni part næstu viku, og (vonandi) komast þar að niðurstöðu. Einn fyrir alla, allir fyrir einn, og aðeins dregið úr seldum miðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!