fimmtudagur, október 23, 2003

Um síðustu helgi brá jeppadeild V.Í.N. undir sig betri bensín fætinum, reyndar grútarfætinum hjá sumum. Þrátt fyrir að öræfaótti hafi hrjáð marga þá voru það fjórir sem létu ekki öræfaóttann buga sig. Stefnan var sett á Þjórsárver og láta svo bara kylfu ráða kast í sambandi við gistingu. Hér kemur sagan af því.

Menn risu úr rekju eldsnemma laugardagsmorguninn 10.okt sl. Eftir að menn höfðu nýtt sér nútíma tækni til samskipta var komist að þeirri niðurstöðu að hittast í Bryggjuhverfinu og hefja þar för okkar. Leiðangursmenn voru að þessu sinni undirritaður ásamt Jarlaskálinu á Willy og Maggi Móses sem var með Togga Túbu í HiLuxinum. Vegna hve menn voru snemma á ferðinni þá gleyndu allir, sem þurftu að gera ferð í Bryggjuhverfið, gönguskónum sínum. Var því brugðið á það ráð að hver og einn skyldi halda til síns heima og grafa upp þar til gerða skó ætlaða til göngu. Ekki vildur betur til nema að ég misskildi Skálið eitthvað vitlaust og hann hélt fram röngum misskilningi svo tafir urðu á okkur í svona c.a. 20.min. Ekkert til að tala um þegar V.Í.N. er annars vegar. Allt annað hefði verið fullkomnlega óeðlilegt. Þegar við í Willanum vorum rétt ókomnir á suðurlandsundirlendið var þeim félögum á lýsisbrennarnum eitthvað farið að lengja eftir okkur í Hnakkaville svo þeir héldu áfram áleiðis í Árnes og æluðu að bíða eftir okkur þar. Eftir að hafa verzlað okkur nýlenduvöru hröðuðum við okkur sem mest við máttum áður enn Selfosshnakkar færu að setja spolier á Willy og træbaltattó á okkur spilandi Skímó. Það hafðist að komast í Árnes þrátt fyrir að bensínmælirinn hafi verið á E alla leið úr bænum, þetta hafðist á gufunum. Eftir að hafa stutt Olíufélagið um rúmar 5000.kr og snædd pylsu var ekkert því til fyrirstöðu að koma sér á fjöll nema hvað að vargur einn sýndi för okkar mikin áhuga og var ekki rólegur fyrr en við höfðum komið með alla ferðaáætlun og sýnd honum á korti hvar Setur er á landinu. Leið okkar lá nú framhjá Þjórsárdal og Hólaskógi uns við beygðum út af þjóðvegi við Sultartangavirkjun. Þar notuðum við tækifærið og frelsum smá loft úr hjólbörðunum á einu að dýrasta úrhleypingarplani á landinu og þó víðar væri leitað. Kunnum við Lalla frænda bestu þakkir fyrir. Vorum við nú komnir inn á s.k Gljúfurleitaleið. Fátt markvert gerðist á leið okkar þar svona til að byrja með. Við komum svo að á einni er nefnist Dalsá. Þar getur maður þurft að passa sig og fara þvert á brotið og beygja svo upp til vinstri annars getur illa farið. Allt gekk þó vel í þetta skiptið og allir komumst yfir svona þokkalega heilir á geði. Næsta stopp okkar var við Bskálann Bjarnalækjabotna og snæddum við nesti okkar þar en slepptum nýju skónum. Urðum fyrir miklum vonbrigðum við að finna ekki gestabókina þó voru þarna tveir pennar. Allt hið dularfyllsta mál. Mikli-Lækur var næst á vegi okkar eða vegleysu, verð að segja að þetta var stór lækur kannski ekki mikli lækur, heldur var Kisa ekki mikið vandamál. Leið okkar var nú kominn á vegamót við Setursleið og Tjarnaver. Setum við stefnuna á Þjórsárver og vorum við núna á slóðum Norðlingaölduveitu. Þegar Maggi fór yfir Hnífsána þá var þar dýpsti álinn í allri ferðinni og gaman að því. Við renndum upp að skálanum í Tjarnarveri þó er réttara að tala um kofa frekar enn skála. Eftir að hafa kvittað fyrir komu okkur var ekkert að fyrirstöðu að halda lengra. Eða hvað? Maggi festi sig nefnilega í drullupit svona 60m frá skálanum og ekkert í stöðunni að gera nema krækja næloni á milli í Willy. Þegar spottinn var kominn á milli og drógu al-amerísk hestöfl ásamt BFG Mud-Terrain Lúxa upp úr drullunni. Þar sem ennþá stærri pitur var framundan og varla hægt að sneiða framhjá honum nema búa til önnur för var tekinn sú pólitíska ákvörðun að snúa við og halda í Setur og sjá ekki til hvort það væri ekki pláss þar fyrir eins og 4.litla og hrædda strákalinga. Eina frúttið á bakaleiðinni var þessi eini áll í Hnífsánni og svo sandarnir þar sem hægt var að eyða takmörkuðum orkulindum heimsins og hafa gaman að. Þegar Setrið fór að nálgast kom gömul vinkona okkar í spilið þ.e. þokan. Nokkrir skaflar urðu á leið okkar og var Maggi duglegar að máta þá aðeins þrátt fyrir að hægt væri að sneiða þá flesta. Það gerði ég enda Willy á inniskónum og ekki til að blotna í lappirnar. Við renndum í Setrið rúmlega 17:00 við skemmtilega tóna Ladda með sönginn um Búkollu. Þegar rúllað var á planið var ekki kjaftur í húsinu og þá mundu sumir að árshátíð 4X4 var um kvöldið svo við græddum á því. Næst var að koma einhverri kyndingu í gang og það hafðist að lokum eftir miklar pælingar. Maggi fór upp á loft og fann þar pappadiska, 200.stk af plastgöflum og góðan slatta af plasthnífum sem var eins gott því enginn af okkur var með þar til gerð áhöld til að neyta matar. Þarna uppi fann stráksi líka 3ja.fasa 12.V tengistykki og húkkuðum við Lúxa við 12.V kerfið í húsinu. Ekki var það að virka og það kom ekki ljós fyrr heldur að flugvirkinn og glussakallinn snéri einni perunni og þá kom ljós. Ekki mikið mál. Toggi fór svo leiðangur stóran að græja til vatn. Menn tóku svo til óspilltra mála við að grilla og ýmislegt á matseðilinum m.a Skjóni, lamb, svín ásamt piparsveppasósu og smakkaðist allt saman vonum framar. Þess má til gamans geta að við fjórir notuðum þarna samtals 17.pappadiska. Nokkuð góður árangur það. Það var svo setið og spjallað um hin ýmsu málefni ásamt því að skolla niður snakki. Menn skriðu svo í rekju um eitt leytið.

Menn vöknuðu svo um 10:00 á sunnudagsmorgninum og voru allir nokkuð hressir enda ekki annað hægt. Hafist var handa við morgunmat, morgunbæn og svo Mullersæfingar. Þar sem ekkert var nú hreingerningarlið þá þurftum við karlmennirnir að taka til eftir okkur sem og við gerðum og það verður að segjast að okkur tókst alveg merkilega vel til. Þetta er samt eitthvað sem við ætlum ekki að gera nema í algeri neyð eins og þegar hreingerningarliðið er skilið eftir í bænum með öræfaótta. Lagt var í´ann rúmlega 11:00 og komum við í Kelló rúmlega klst síðar eftir tíðindalausan akstur nema að því undanskyldu að við fórum svona samtals yfir 53,2 metra í snjó ef maður tekur alla skaflana saman. Í Kerlingafjöllum kíkjum við á pottinn sem er inn í Hvergili og þar sem ekki allir voru með sundföt ,eins og það sé einhver afsökun., þá slepptum við að fara í pottinn að þessu sinni enda var hann ekki geðslegur og ekki freistandi að fara upp úr honum í slyddunni. Eftir þetta var farið til baka og stóri gamli skálinn skoðaður. Þetta var alveg satt sem maður var búinn að heyra, ekki beint vistlegur sá. Svo var bara Kjölurinn ekinn heim. Það snjóaði, slyddaði og svo rigndi. Kjölur var frekar holóttur og vatnskorinn. Þegar við komum að Beinakerlingu hætti að rigna og eftir því sem sunnar dró létti til. Við komum svo á Geysi og loftuðum og fengum okkur nong í klebbi með bestu lyst. Við enduðum svo ferðinna við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!