mánudagur, febrúar 02, 2015

Á aðventu jólaSvona fyrst það er komið fram í febrúar er þá ekki tilvalið að reyna klára að gjöra árið 2014 upp í máli og myndum.

Þá er komið að síðustu ferð síðasta árs sem var hinn árlega aðventuför Litlu fjölskyldunnar til Agureyrish. Þetta árið var ekki ætlunin að skíða enda ekki búið að opna skíðasvæði heimamanna. Ekki það að slíkt þurfi að stoppa mann, En hvað um það.
Við lentum seinni part dags á flöskudegi og fljótlega var ætlunin að skella oss á jólahlaðborð á Hótel KEA. Sem og var gjört. Að gömlum og góðum vana var étið á sig gat og veitingunum skolað niður með norðlenskum jólabjór.

Þegar laugardagsmorgunn rann var ætlunin að skella oss austur yfir heiðar og í Mývatnssveit. Þar var ætlunin að halda í Dimmuborgir og heilza þar upp á sveina nokkra kennda við jólin. Sú hugmynd kom upp að heilza upp á Smartísinn fyrst maður var þarna á ferðinni. En eftir að hafa símað í kauða þá kom það í ljós að slíkt var illómögulegt því hann var bara staddur í kaupstaðnum fyrir sunnan.
En allavega við komum í Mývatnssveitina og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið okkur hliðhollir en það var stilla og auðvitað kuldaboli en það er bara til að herða mann. Eitthvað var Skotta smeyk við þá bræður en í staðinn tókst þeim bara að skemmta okkur sem eldri voru. En það er óhætt að mæla með heimsókn á þá bræður í Dimmuborgir á þessum árstíma. Við skoðum líka helli einn sem einhverjir af þeim bræðrum hafa aðstöðu í. Áður en haldið var heim á ný kíktum við í kakó í gámabænum sem er þarna.
Síðar á laugardagskveldinu gjörðust Litli Stebbalingurinn og Krunka mjög svo menningarlega og skelltu sér í samkomuhúsið. En þar var Hundur í óskilum að gjöra upp 21.öldina á sinn hátt. Líkt og með Dimmuborgir þá má vel mæla með þessu stykki og fáar afsaknir því það er víst farið að sýna þetta í hinu útsvarsniðurgreidda Borgarleikhúsi. Gaman að því

Svo á messudag var haldið örlítið í suðurátt og inná Hrafnagil þar sem litið var í Jólahúsið og aðeins bætt á jólaskrautið ásamt því að drekka í sig jólastemninguna. Svo biðu bara oss pönnsur áður en haldið var aftur í borg óttans.

Sé áhugi og nenna til staðar má skoða myndir frá helginni hjer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!