fimmtudagur, apríl 28, 2005

Góða kveldið,

Já, það styttist í að við getum notið góðs kvelds því stefnan er sett í Mörkina á laugardagskveldi komanda. Áætlað er að leggja land undir fætur eigi síðar en kl. 20 síðdegis laugardags og dvelja í tjaldi eður skála í Goðalandi. Þar verður Goðum vorum færðar fórnir auk þess sem lögð verður hönd á plögg við undirbúning fyrstu..??..merkurferðar.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Jæja víst fólk er enn í feikna gönguformi eftir Sumardagsfyrstagönguferð .. Hvernig væri þá að ganga á Heklu 5 mai (Uppstigningardag) ????????

Hef heyrt að það sé dúndur veður spá og ekki sé færið verra en á Snæfellsjökli.

Telemark kveðja.

mánudagur, apríl 25, 2005

Líkt og tvo hin fyrri ár þá fagnaði V.Í.N. sumri með gönguferð á Snæfellsjökull sumardaginn fyrsta. Eins og áður sagði þá var þetta árið engin undantekning. Allt stefndi í metþátttöku að þessu sinni. Það var svo á miðvikudagkveldinu, þ.e. síðasta vétrardag sem fyrra holið lagði af stað í leiðangur vestur á land. Eftir að fólk gerði inn matarkaup var hægt að komast úr bænum og í sveitaloftið. Þeir sem fóru á miðvikudagskveldinu voru:

Stebbi Twist, Maggi Móses og Dodda-pylsu Doddi á Lady Krúser.

Minnsti Stúfur og VJ á Lilla

Lyklalausi maðurinn, Katý og börn á Galloper.

Um 21:00 var stefnan tekinn á Snæfellsnesið. Stutt pylsu og hammarastopp var gert í Borgarnesi. Þegar ferðalangar voru orðnir mettir var ekkert annað að gera nema að koma sér á þjóðveginn og fjósa á Arnarstapa. Ferðin þangað frá Borgarnesi var heldur tíðindalaus nema hvað að engan höfðum við geislaspilarann og þurftum að láta ríkið duga. Við renndum svo á tjaldstæðið á Arnarstapa rúmlega 23:00 um kveldið. Þrátt fyrir margra mánaða hvíld þá gekk mönnum vel að slá upp tjaldbúðum, greinilegt að menn hafa engu gleymt í þeim efnum og koma til með að mæta sterkir til leiks í sumar. Eftir að tjöldin voru upprisin þá var bekkur góður sóttur og svo var setið með öl við hönd og málin rædd. Skálað fyrir nýju sumri á miðnætti og sumarið planað. Menn skriðu svo í rekkju um 02:00 aðfararnótt sumardagsins fyrsta 2005.

Það var svo um 09:00 að morgni sumardagsins hins fyrsta er fólk vaknaði. Var þar á ferðinni Frú Toggi sem bauð öllum góðan dag og leið og hún vakti okkur. Þarna voru sem sagt mætt á svæðið þau:

Tiltektar- Toggi, Frú Toggi og Arnar Tyroliabróðir á Herbie.

Menn spruttu á lappir og hófust um leið hefðbundin morgunverk, líkt og glöggir lesendur ættu nú að vita, morgunmat, morgunmessu og Mullersæfingar. Eftir 3M þá felldu menn tjöldin og allir voru fullir eftirvæntingar um það sem koma skyldi. Eftir að tjaldborgin var fallinn var næst málið að koma sér í nýlenduvöruverzluna. Þar var fólki tjáð að bannað væri að keyra á grasinu. Eftir að hafa fyllt vatnsbrúsa og verzlað inn rafhlöður var hægt að koma sér upp að jökli. Þegar þanngað var komið og við fórum slóðann upp að skíðalyftunni þar sem mokkrir skaflar voru á leið okkur og ekki mikið mál, ekki einu sinni fyrir Herbie. Í einum skaflinum urðu menn aðeins að í hver kæmist lengra og að sjálfsögðu endaði með því að báðir sáttu fastir. Bara gaman að því. Eftir smá úrhleypingar og skóflunotkun þá losnuðu báðir bílarnir og við komust lengra akandi. Sem er mjög gott þar sem spöruðust heilir 700 m. Það endaði svo með því að leggja þurfti Barbí og draga fram skíðin en allir sem voru í Barbí voru á skíðum. Allir hinir voru á tveimur jafnljótum, upp í það minnsta. Það var svo loks um hádegi sem lagt var í brattann. Hinir höfðu lagt af stað aðeins á undan okkur. Þarna leit jökulinn ágætlega út og þetta var bara hið besta mál. Þegar skinin voru kominn undir skíðin þá var ekkert að gera nema þrama af stað. Fyrir einhvern rangan misskilning þá var Perrinn skilin eftir. Við hittum svo restina af hópnum við skíðalyftuna og var þar gerð fyrsta pásan sem var frekar stutt. Þeir fótgangandi heldu svo upp hrygginn v/m við lyftuna meðan við á skíðunum fóru bara undir lyftunni. Við hittumst svo aftur við neðri þúfuna en þá var aðeins farið byrgja sýn. Við heldum samt ótrauð áfram með bjartsýnina að leiðarljósi um að það myndi létta til fljótlega og jökulinn rífa sig. Allir þá sáttir og glaðir. En eftir því sem ofar dró þá þéttist bara þokan og endaði með því að við sáum varla út fyrir buxnaklaufina á okkur. Það var því gengið eftir minni og svo giskað á rest. Tiltektar-Toggi var með GPS-tæki og var það notað til viðmiðunar þá aðallega til að sjá hvort við vorum ekki örugglega að hækka okkur. Eins og kom hér fram þá var skyggni frekar fágætt, bara farið að minna mann á Cortina hér forðum, þrátt fyrir það þá tókst okkur að ramba á toppinn eða í það minnsta það sem við heldum að værum toppurinn þangað til að annað kemur í ljós. Tiltektar-Toggi náði að finna blett þar sem logn var og snæddum við þar toppanestið og sumir gerðu skíðabúnaðinn klárann. Þar sem skyggni var af skornum skammti þá var ráðið að vera í samfloti niður á við svo að menn færu nú ekki að taka vitlausar beygjur einhversstaðar og enda niðri hjá Þórði á Dagverðará eða Hellisandshangikjétinu. Nóg um það. Það var heldur ekki mikið fyrir færinu að fara þarna í efri hlutanum. Greinilegt var að þarna hafði frosið saman vetur og sumar. Það hlýtur bara að boða turbosumar 2005. Menn renndu sér frekar hægt og eins og sjötugar tjéllingar til að byrja menn og voru ansi oft búnir að renna á rassaling. Það var svo ekki fyrr en svona 1100.m.y.s sem færið fór að mýkjast um leið og það fór að verða nokkurn vegin á hreinu hvert átti að fara. Við komum svo aftur að Barbí rétt fyrir 15:00. Tiltektar-Toggi og Frú Toggi bættust svo í hópinn aðeins seinna en Dodda-pylsu Doddi hafði rennt sér áfram niður. Þau hjónaleysingar yfirgáfu svo Barbí 700m neðar og fóru yfir í sinn Herbie. Við pikkuðum svo Dodda upp einhverju neðar og þegar hann var kominn um borð var stefnan sett á menninguna. Við heyrðum svo aðeins í Perranum þar sem hann var staddur við göngin hin hressasti. Loftstopp var gert á vegamótum og síðan ekið sem leið lá í nesið þar sem ætlunin var að hoppa í sundlaugina sem þegar við komum þar var aðeins 15.mín í upprekstur svo ekki tók því að dífa sér þar ofan í. Þarna var hungrið farið að segja til sín svo ákveðið var að heilsa upp á Dússa á Dússabar. Þar var líka lokað en þá birtist Dússi og opnaði fyrir okkur nema hvað engin var kokkurinn svo við höfðum ekki mikið þarna að sækja. Niðurstaðan var því að kíkja á Shellskálann var fjölskyldutilboð var tekið og það étið á staðnum. Þaðan fórum við mettir um 18:30 og enduðum fyrstu sumarferð V.Í.N. á því herrans ári 2005. Nú bíða menn bara spenntir eftir næstu ferð og af nógu ef að taka.

Að lokum er svo fólk hvatt til þess að gefa öllum öræfaótta langt nef og drullast með í næstu ferðir og þar sér í lagi stór ammælisferð í Þórsmörk þegar fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurferð verður farinn. Þess má geta að skráning er hafin. Fyrstir panta fyrstir eiga þá möguleika á stórglæsilegum vinningum. Svo er næsta undirbúnings- og eftirlitsferð ekki langt undan

föstudagur, apríl 22, 2005

Þetta var alveg þrælfínn sumartúr, þar sem vetur og sumar fraus saman (allavega á jökli). Má þá búast við allgóðu sumri.

Arnór er búinn að setja myndir á netið.

Mynd af mönnun nálgast toppinn á Snæfellsjökli (Tekið af síðu skáldsins).

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Jæja þá er þetta allt komið á hreint.

Það verður farið á morgun eftir fótboltaleik sem verður búinn um 21-leytið.

Eftir leik er keyrt á Arnarstapa þar sem slegið verður upp tjaldbúðum. Árla næsta dags er gengið á Snæfellsjökul, skíðað niður og svo keyrt heim.

Mætum ÖLL.

mánudagur, apríl 18, 2005

Það virðist alveg vera rífandi stemmning fyrir gönguferð á sumdardaginn fyrsta (21. april). Einnig er veðurspáin bara nokkuð góð :-)

Núna eru að spá í að mæta: Ég (Maggi), Jarlaskáldið, Perrinn, Stebbi Twist, Toggi og Vignir. Ekki slæmur hópur það.

Hvað segið þið eigum við að gista eða góna á fótbolta á miðvikudeginum ???

laugardagur, apríl 16, 2005

Þann 09.apríl á þessu ári var farin fyrsti, af vonandi almörgum, undirbúnings- og eftirlitsferð fyrir fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurammælisferð 2005. Þannaig var mál með ávexti að í hinni margrómuðu skíðaför úrvalshóps skíðadeildar til Wolkenstein í austurríska/ungverskakeisaradæminu kom upp sú hugmynd að fara í undirbúnings- og eftirlitsferð inn í Mörk þessa helgi. Jafnframt því að sinna undirbúning og eftirlitsskyldum þá ætlaði Perrinn að víga Pæjuna um leið. Þegar nær dró umrædda helgi var sem öræfaótti ýmiskonar væri í fólki og eftirstóðu þrír einstaklingar. Sökum fámennis var það afráðið að fara för þessa á einum bíl. Það þarf að koma fáum á óvart að farkosturinn var Galloper og Willy fékk, því miður, að hvíla sig. Það er líka svo sem alveg skiljanlegt að þau hafi fengið með sér einn þaulvanann til lóðsa sig inn úr.
Ferðalangar þessa helgu voru því

Stebbi Twist, sem þriðjahjól

Perrinn og Katý.

Þegar tíminn var langt genginn 16:00 á laugardeginum renndi eitt stk. Pæja í Logafoldina með það fyrir stafni að pikka upp Stebbalinginn. Eftir að hafa kíkt aðeins á Grænlandsleiðina, það segir mér hugur að þar eigi maður eftir að drekka áfengi einn góðan veðurdag, og komið við í nýlenduvöruverzlun var stefnan sett austur á bogin þó ekki fyrr en grút hafði verðið dælt á Pæjuna. Þjóðvegur eitt bauð ekki upp á mikið og til að reyna bæta það upp var fyrsti bjór opnaður við GSM-sendinn rétt við Þrengslabeygjuna. Það var svo farið hratt í gegnum Selfoss og allir voru sammála um að nýja Þjórsárbrúin sé ekki svipur hjá sjón m.v. þá gömlu. Þegar við komum á slóðir lessumyndbandsins olli það okkur miklum vonbrigðum að búið að rífa húsið og þjóðvegasjóppan er kominn í nýtt hús. Það leið svo ekki á löngu uns við nálguðumst Hellu. Þá kveikti Perrinn á perunni. Hann hafði gleymt lyklunum af litla skálnum í Básum í bænum. Hér eftir mun nefnast Snorri hinn lyklalausi eða bara hinn lyklalausi. Nú voru góð ráð dýr. Átti að snúa við og eyða c.a. 2.klst eða taka sjénsinn um að einhver væri innfrá. Síðarnefndi kosturinn var tekinn enda ekkert gaman ef maður tekur ekki neina áhættu. Ef enginn yrði inn í Básum myndi þetta bara verða fín dagsferð. Stutt stopp var gert á Hlíðarenda sem aðallega fór í að bæta á rúðupissið. Haldið var svo áfram en nú hafði verið skipt um bílstjóra og það meira að segja kvenkyns. Lítið annað við því að gera nema fá sér meiri bjór. Þegar sást í Seljalandsfoss hófust miklar umræður um Kapphlaupið mikla. Nóg um það. Við Stóru-Mörk var hleypt úr hjólbörðum og þá komu verðlaun úr hinum skemmtilegaleik um 25.000 gestinn að góðum notum. Haldið var svo áfram inneftir. Fyrstu lækirnir voru ekki til staðar og er við komum að neðra vaðinu á Lóninu sagði reynsla Stebbalingsins til síns enda þurfti að lóðsa kvenmann þar yfir. Það sem bjargaði málunum er það að ekkert var í Lóninu. Það sama átti við Steinholtsána en hún var tær og ekki mikið mál. Eftir því sem nær dró Básum þá varð alltaf hvítara og hvítara. Já, það var þunnur snjór yfir öllu sem ekki skemmdi fyrir. Gaman að koma þarna þegar smá snjóteppi er yfir öllu. Er við renndum á planið fyrir utan skálana í Básum þá var þar hópur. Hópur þessi var með lykill að skálanum svo við vorum í góðum málum þrátt fyrir að Snorri hinn lyklalausi hafi gleymt lyklunum í bænum. Við komum okkur fyrir á svefnloftinu og hófum undirbúning fyrir matargerð. Eftir að hafa vætt grísakjötið í BBQ-sósu og kryddað með Season all var ekkert til fyrir stöðu að halda góðaveislu. Sauðlaukunum skelltum við á kolin hjá sem á undan voru. Að sjálfsögðu var ölið aldrei langt undan við grillmennskuna ásamt eplasnafsinu. Rétt áður en kjötið var tilbúið skundi sérlegur sósugerðarmeistari V.Í.N. inn í skála til að huga að sósugerð. Kvöldmatur þessi var hinn prýðilegasti og ekki skemmdi dinnertónlist þeirra sem þarna voru en þeir voru byrjaðir á kvöldvöku er við hófum snæðing. Eftir mat þá hélt kvöldvakan áfram og haldið áfram við að sötra bjór. En um kveldið áður en full dimmt var orðið var skundað á Hattinn í léttri kvöld- og heilsubótargöngu. Eftir það heldu undirbúningsstörf áfram í formi neyslu á öli. Það var glamrað á gítar frameftir kveldi og ýmiskonar lög spiluð og sungið m.a. Þórsmerkurkvæði. Svo þegar leið fram á nóttu fór fólk að týnast í háttinn einn af öðrum.

Það var svo vakanað á frekar ókristnilegum tíma á sunnudagsmorgninum og það ekki einu sinni í messu. Eftir morgunmat, morgunbæn og Mullersæfingar var farið að huga að heimför. Eftir tiltekt sem að þessu sinni var án Tiltektar-Togga var hægt að leggja í´ann. Það skyldi skoða Krossá en sökum einbíla var ákveðið að sleppa því í þessari undirbúnings- og eftirlitsferð. (Blaut)Bolagil bíður því betri tíma sem verður vonandi næsta undirbúnings-og eftirlitsferð. Maður verður nú að kanna hvort bekkurinn góði sé ekki örugglega á sínum stað og gera eins og eina fallprufun á kamrinum góða. Ferðinn úteftir gekk alveg vonum framar og ekki hafði nú aukist í fallvötnunum. Gígjökull heldur áfram að minnka. Er við komum á Þjóðveginn var ákveðið að tjékka áfram á lessumyndbandinu og kíkja á Seljavallalaug. Þess má geta að nýja var lokuð og sú gamla skítköld ásamt því að hvergi var neinar lessur að finna svo horfið var fljótlega á braut aftur. Ekið var um suðurlandsundirlendið, komið við í Brautarholti þar sem sundlaugin var lokum og Hinn lyklalausi fékk að tefla við nýlátinn Páfann í kertagerðinni. Farið var í gegnum Laugarás og endað á Laugarvatni. Þar var skellt sér í sund og ekki greitt fyrir þökk sé félaga þess Lyklalausa. Er sundathöfnum var lokið og styttist í heimferð var ákveðið að fara stystuleið sem er að sjálfsögðu Gjábakkavegur. Þar var snjór og för. Sá lyklalausi virtist alveg skemmta sér við aksturinn þar og náði hann m.a.s. að festa Pæjuna eitt sinn. Ekki var þetta nú alvarleg festa því okkur tókst fljótlega að losna þrátt fyrir skófluleysi en með hjakki. Ekki meira en svo. Snjórinn minnkaði svo eftir því sem nær Þingvöllum dró uns vegurinn varð svo gott sem auður. Ekki var svo aksturinn yfir Mosfellsheiðina tíðindamikill er undan er skilið smá misskilningur með millikassann sem leystist fljót og örugglega. Stebbalingunum var svo skilað til síns heima rúmlega 16:00 á sunnudeginum. Þar með lauk fyrstu undirbúnings-og eftirlitsferð fyrir fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurammælisferð 2005.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Jæja er ekki tími á nýja færslu hér á síðunni.

Er ekki gríðarleg stemmning fyrir sumargöngu á sumardaginn fyrsta.

Fara á Snæfellsjökul, Heklu eða Eyjafjallajökul eftir því hvernig veðurspáin er.

Skíða og sumarkveðja.

Kv
Maggi (sem grillaði úti í hádeginu)