Jæja, ég er frekar latur við að blogga en betra er seint en aldrei.
Skellti mér um helgina í fjallaferð. Í för ásamt mér voru Eyfi og Maggi Bra og fararskjótinn að þessu sinni eins og margoft áður var Súkkan mín. Tilefnið var að taka út GPS hæðarmælingar með þartilgerðu GPS tæki frá Raunvísindastofnun HÍ. Á föstudegi var ferðinni haldið í Landmannalaugar með viðkomu í Hekluhlíðum. Veðurlag var fremur furðulegt þannig að maður stóð í Hekluhlíðum og horfði á skýin fyrir neðan sig. Í Landmannalaugum var stuð að vanda og vaktaskipti í lauginni á miðnætti er erlendu ferðamennirnir fóru úr lauginni en íslenski vísitölutúristinn tók við. Vísitölutúristinn er iðulega vopnaður bjór þegar hann skellir sér í laugina þannig að það líður ekki á löngu þartil hann er kominn með sundskýluna yfir höfuð sér. Svo hress var ég því miður ekki að þessu sinni. Árla laugardagsmorguns lá leið okkar ferðalanga í íshellana í Hrafntinnuskeri, með viðkomu í Hrauneyjum. Því miður reyndist tæknibúnaður við GPS mælingar ekki nógu vel þannig að við þurftum að bregða okkur borgarleið og viðkoma í Reykjavík á leið í Tindfjöll var óumflýjanleg. Í þessum útúrdúr fengum við nýjan liðsmann í hópinn er Stebbi kallast og mætti hann á sínum fjallaWillys. Eftir hvassa nótt í Tindfjöllum var aftur haldið á Fjallabak til að taka mælingar, meðal annars við Laufafell og Hungursfit.
Fleira var það ekki að sinni
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Talið!