laugardagur, nóvember 26, 2005

Upphitunarferð

Jæja, þá kom að því að skíðadeildin hæfi starfsemi sína formlega þennan veturinn. Það var blásið til sóknar með ferð til Agureyrich um s.l. ekki var þó um að ræða hina einu sönnu skíða-og menningarferð V.Í.N.til Agureyrich. Sú umræða kom upp fyrir einhverju síðan að blása til norðurferðar þessa helgi en þá var skíðamennska ekki á teikniborðinu, ekki nokkur sála þorði að vera svo bjartsýn á þeim tíma, heldur var eingöngu hugsað sem afsökun fyrir því að skella sér á Sálarball á Sjallanum. Svo bara upp úr þurru byrjaði að snjóa og það snjóaði svo mikið að það tafði uppsetningu á snjógerðarvélum í Hlíðarfjalli. Greinilegt að þar var á ferðinni enginn annar en Murphy kallinn. Fólk var jafnvel farið að sjá smugu í skíðun þessa helgi. Þegar nær dró dulist það engum að prikin yrðu með. Hér kemur svo sagan af því

Flöskudagurinn 18.nóv rann upp og mikil spenningur var í sagnaritaranum því hann sá fram á að geta stígið á skíði og rennt sér, og það fyrir áramót. Eins og það eitt og sér væri ekki nóg, heldur líka í nýjum klossum. Eitthvað höfðu bílamál farið ofangarð og neðan. Lilli var eini farkosturinn og ekki kæmum við til með geta verið fjórar sálir þar hvað þá fimm. Undirritaður fór á stúfana og komst að því að Hjálmar í notuðum bílum var með bíll sem þurfti að komast norður og það sem meira var, líka bíll á hjá Brimborg Agureyrich sem hann vildi fá suður. Bílamál norður og suður þá leyst en eitt fylgdi þó. Þetta þýddi að maður var svo gott sem bíllaus í sveitaþorpinu á tíma leit út fyrir að það þyrfti jafnvel að fara heilar tvær ferðir á Lilla upp í fjall og svo niður úr því aftur. Þetta virtist vera óleysanlegt vandamál fyrir Skáldinu og gat hann tuðað yfir þessu eins og versta tjélling. Það kom svo í ljós að seinna á fimmtudagskveldinu að Tiltektar-Toggi og læknaneminn síkáti ætluðu líka norður. Eftir að hafa spjallað við kappann var málið leyst. Eins og sönnum V.Í.N.-liða þótti honum nú ekki mikið mál að leyfa okkur, Boga og Loga, jafnvel að fljóta með upp í fjall og heim aftur, jafnvel líka í svo í sund. Það virðist vera sem við strákarnir höfum svolítið gaman að því að keyra. Það leit út fyrir að allt væri því til reiðu að geta lagt af stað og Tiltektar-Toggi var svo jafnvel líka til að taka með skíðin okkar. Fátt var því til fyrirstöðu til norðurfarar.Það kom svo í ljós seinni part flöskudags að Svenni hafði ákveðið að koma með.
Þegar undirritaður mætti til að sækja kaggann sem ferja átti norður var enginn tilstaðar til að afhenda lykla. Það hafði átt sér stað rangur misskilningur sem varð til þess að lítil Stebbalingur misskildi hlutina vitlaust. Eftir nokkur símtöl leystist þá málið og maður fékk Terrano II í hendurnar til að koma norður. Það var rennt beint af Bíldhöfðanum í Bryggjuhverfið til að pikka upp VJ. Eftir að komið var til VJ og verið var að bera dótið hans út hringdi tiltektar-Toggi og ætlaði hann að renna við til að taka skíðin. Við skunduð út og höfumst handa við að hliðra dekkjunum til, sem voru í Terranoinum, til þess að koma dótinu okkar þar fyrir. Þá allt í einu upp úr þurru renndi Togaogýta Ladý-Krúser (reynda ekki þessi bíll) upp að okkur á 38´´ skóbúnaði og geymdi hann Tiltektar-Togga og Frú Togga. Hafði þá kauði nýverið fjárfest í þessum fáki, sem er allur hinn fínasti. Vill jeppadeildin nota þetta tækifæri og bjóða Soffíu Frænku og Fröken Dýrleifu velkomna í jeppadeildina. Alltaf gaman að endurheimta svona fallna félaga. Áður en hægt var að koma sér í norður átt var komið við í Grafarvoginum og allt dót sagnaritarans var komið fyrir í Ladý sem áður hafði gleypt dótið hjá VJ. Því næst var Svenson sóttur og haldið á Subway í Mósó.
Þar endurhittum við Naustabryggjuhjúin og eftir næringu var loks hægt að koma sér úr bænum. Fyrr um daginn höfðu Skáldið, Adólf og Viffi lagt í´ann norður á Lilla. Við hinn vorum í samfloti norður og bara ekin þjóðvegur1. Lítið markvert gerðist á leiðinni nema hvað að komist var að þeirri niðurstöðu að Terrano II með 2,4 veður ekkert í aflinu. Hvað um það. Stuttur stanz í Staðarskála sem aðallega var notað sem pizzustopp þó ekkert væri Staðarskálasyndrome í gangi. Síðan var örstutt stopp við Varmahlíð sem ýmist var notað til að teygja úr sér eða pizza svo var haldið inn Norðurárdalinn og upp á Öxnadalsheiði og því miður fékk Dr.Gunni ekki að njota sín þar. Það var svo komið til litlu eyrinnar við Eyjafjörðinn 01:15 aðfararnótt laugardagsins eftir tíðindalausan akstur þar sem autt var alla leiðina en á nokkrum stöðum mismikil rigning, sem okkur leist ekkert á eftir því sem nær dró höfuðstað norðurlands þ.e. Kópaskeri.
Við höfðum samband við undanfarana og fengum að vita hvar lykilinn var geymdur. Þegar við komum svo í Furulundinn var Tiltektar-Toggi mættur á svæðið sem var magnað í ljósi þess að hann var fyrir aftan okkur og aldrei sáum við hann fara framúr okkur. Skiptir ekki máli en gaman að því. Tókum dótið okkar úr Ladý en skildum skíðin eftir og kvöddum þau heiðurshjú. Höfumst svo handa við að undirbúa komu okkar í miðbæ Agureyrich sem aðallega fólgst í því að drekka bjór og skipta um föt. Við hittum svo liðið á Cafe Amor þar sem allir voru uber hressir, Viffi var ofurhress en þó enginn hafi slegið Skáldið út í hressleika. Nema þá eina helst hresst kvennfólk. Þarna voru nokkrir kaldir teigaðir ásamt skotum. Ekki náðu þeir sem komu með seinni skipunum að verða sérstaklega drukknir, það átti líka eftir að koma að góðu daginn eftir, skriðu menn heim um 04:00 og sumir rúmlega það.

Svo er komið að laugardeginum. Síminn glumdi 09:35 og þurfti hann aðeins að snúsa áður en á lappir var komið. Viffi hafði komið sér í efri kojuna um morguninn og var hann líka vaknaður. Eftir að hafa komið sér í gírinn var barasta að taka heilsubótargöngu í Stjánabakarí en fyrst vöktum við VJ og Skáldið sem láu saman í hjónarúminu. Verzlaður var staðbundinn og hollur morgunmatur ásamt meðlæti og skundað svo aftur í Furulundinn. Slegið var upp morgunverðarhlaðborði með því sem verzlað hafði verið hjá Stjána og trompinu sem Viffi var með. Hvað var Viffi svo með? Kunna nú margir að smyrja. Því er auðsvarað. Hann var með Trix og var því hellt í skál og étið. Eins og áður sagði staðbundinn og hollur morgunmatur.
Tiltektar-Toggi og Frú komu svo, á sínum fjallabíl, og hægt var að koma sér upp í fjall. Það var aðeins slædað af planinu og tísti þá í sumum. Eins gott að hin langi armur laganna var þar hvergi nærri. Flughált var svo á bílaplaninu við skíðahótelið en öllum tókst þó að endingu að leggja. Eftir að hafa græjað sig til var spretturinn tekinn í miðasöluna og þar reiddar fram litlar 1800ísl.kr fyrir dagsmiða. Þá meina ég litlar 1800.ísl.kr. Greinilegt að það á að hverjir eiga að greiða fyrir snjógerðarvélarnar. Passinn kominn og nú var ekkert til fyrirstöðu að renna sér og það fyrir áramót. Magnað. Það var ekki laust við það að nokkur spenningur og fiðringur væri í manni að komast aftur á skíði. Já, gaman var það að koma sér í fjarkann og svo beint í Stromplyftuna og alla leið upp.
Færi var ágætt en hlýtt var svo snjórinn var mjúkur og ekki gaman að renna sér utan brautar svo mest var haldið sig á tróðnum brautum. Mikið gaman og mikið grín. Við vorum svo upp í fjalli frá svona 10:30 og til klukkan að verða 13:00 er hungrið var farið að segja til sín. Sú hugmynd hafði komið upp að fara niður í íbúð og næra sig þar. Við orðuðum þetta við liðið er við hittum það í veitingasölunni var það samþykkt þar sem við þurftum hvor sem er að fara niður í bæ. Stebbalingurinn þurfti nefnilega að skila bílnum og sækja þann sem koma átti til Reykjavíkur. Þegar við komum aftur í Lundinn góða var liðið ennþá sofandi en fékk ekki að vera það mikið lengur.
Við skunduðum í búðina og á meðan eldun á súpudagsins stóð yfir skrapp Stebbalingurinn til að skipta á bílum. Fékk litli strákurinn Ford Focus Station til að koma til höfðuðborgarinnar. Er allir voru orðnir mettir var að kominn tími á meira rennsli en áður að því kom þurfti að koma við í einokunarverzlun ríkisins til að bæta á birgðirnar. Er við komum þar voru Skáldið og Adólf að koma þar út og fékk sagnaritarinn þar einn vondan í nesti upp í fjall. Inni í ríkinu sáum við kunnuglegt andlit frá Þjóðhátíð. Ekki var mikið tekið í mjólkurbúðinni en undirritaður ákvað koma sér í jólaskap með að fá sér jólabjór. Fyrst að jólin eru kominn í IKEA þá má alveg fá sér jólaölið. Áður en hægt var koma sér aftur upp í fjall þurftum við að skila Fröken Dýrleifu af okkur þar sem hún ætlaði að fara heilsa upp á fjölskylduna. Það voru svo aðeins sagnaritarinn, VJ, Tiltektar-Toggi og Viffi sem fóru aftur að renna eftir mat. Við vorum svo aftur mættir á milli 14:30 og 15:00 uppeftir og fljótlega komu svo Adólf, Skáldið og Svenson. Nú átti að senda Svenson í opin dauðan á bretti. Því miður misstum við að þessu en að sögn stóð drengur sig ágætlega og flaug ekkert á hausinn með glæsibrag enda hallaði brekkan nánast í öfuga átt. Svo um 16:00 var farið að hvessa og tilkynning þess efnis kom að hugsanlega yrði lokað ef ekki færi að lægja. Við vorum svo í Stomplyftunni og komnir svona c.a. 1/3 þegar hún stoppaði skyndilega og VJ gólar ,,Það er búið að loka´´ og brettadudinn sem var fyrir framan hann hrópaði hissa ,,Ert ekki að grínast?´´. Gæinn var vart búinn að sleppa orðinu þegar tilkynning kom um að búið væri að loka Stromplyftunni. Það var því ekkert annað að gera nema renna sér niður að skála. Þar var ákveðið að segja þetta gott þann daginn enda klukkan að verða 16:30 og stutt í lokun. Það var því rennt sér niður og opnaður bjór sem var að vísu vondur bjór en samt svo ljúfur. Ekki var svo mikið líf í Lundinum er við komum þanngað.
Það var svo skellt sér í sund að gömlum og góðum sið. Við vorum að vísu ekki nema fjögur sem heldum í hefðina góðu eða Litli Stebbalingurinn, VJ og hjúin á Ladý. Rétt áður en við komum í sund pantaði VJ borð kl:20:00 fyrir 8, eða 7 fullorðna og einn krakka, á Greifanum. Greifinn var á gulu spjaldi eftir för vor þangað i fyrra og hætta á viðskiptabanni líkt og með Bautann. Sundið var ljúft og þar hittum við Dóra, f.v. Broncomann og MS-ing. Við vorum aðeins of seinir í rennibrautina því er við komum úr gufunni var búið að loka rennibrautinni, sem okkur þótti miður og næst verður drifið sig beint í rennibrautina. Ekki laust við að maður hafi verið hálf dasaður er komið var upp úr. Það var bara svo bjór, afsleppi og fréttir er í Lundinn var komið. Er svo tíminn var að líða að kveldmat hafði maður sig í fataskipti. Við komum svo á Greifann svo til á réttum tíma og var okkur vísað til borðs. Á næsta borði var svo hljómsveit ein sem seinna átti eftir að koma nánar við sögu. Allir pöntuðu sér sinn rétt. Við fengum svo matinn okkar innan eðlilegra tímamarka svo að Greifinn sleppur við viðskiptabann að sinni en hann er ennþá á guæu spjaldi. Eftir matinn var svo haldið upp í Lundinn og þar voru nokkrir bjórar aflífaðir ásamt einhverjum opalskotum. Það bættist svo í hópinn því félagi Skáldsins koma og líka vinkona Adólfs. Það var svo haldið í Sjálfstæðiðsalinn eftir miðnætti, gengið beint inn og rekaleitt á barinn. Sálin hóf svo að leika fyrir danzi og að vonum stóðu þeir sig með stakri prýði. Þarna á ballinu rákumst við á eina partýþyrsta vinkonu hennar Eddu. Ekki virtist sem próflestur væri henni efst í huga. Eða eitthvað. Það er svo eins og minni sagnaritarans segi þá sá þessi sama mynd af Willy og var mjög hrifin. Smekk manneskja á Jeepa þarna á ferðinni. Greinilega ekki alslæm. Hvað um það. Eftir að síðustu tónarnir höfðu verið slegnir var skundað út og hangið aðeins fyrir utan þar sem við fréttum að Skáldið væri að brjótast inn um glugga á íbúðinni. Enda Breiðhyltingur þar á ferðinni.

Fólk skreið missnemma eða seint á lappir á sunnudeginum. Sumir voru ekki einu sinni búnir að skila sér heim og komu svo á einum sokknum. Tiltektar-Toggi og Frú komu svo til að taka skíðin og brettin ætlu svo að halda suður en fyrst ætluðu þau að fá sér ógeðslegan Brynjuís. Þeim var svo víst líka boðið í kveldmat á Bifröst. Það var svo ekki fyrr en rúmlega 16:00 að allir voru komnir á fætur. Við tók tiltekt og niðurpökkun og rúmlega klst síðar voru allir tilbúnir til brottfarar en fyrst var nauðsynlegt að stanza til snæðings. Rétt fyrir 18:00 var Agureyrich kvödd og yfirgefin og nú var sjálfur Viffi með okkur í bíl. Aksturinn gekk vel og rétt áður en að Blönduósi var komið hringdi Fröken Dýrleifu og voru þau að koma niður af Holtavörðuheiðinni og niður í Norðurárdalinn og sagði hún að hálka væri á heiðinni en að öðruleyti góð færð. Stuttu seinna fór svo að snjóa á okkur. Stutt stanz var gert í Víðigerði aðeins til að standa upp og smá nammipása. Þar hinkruðum við í góðan hálftíma eftir Skáldinu á Lilla, aðalmálið á þessari bið var víst benzínstopp á Blönduósi. Reyndar eiga þau að skammast sín að stoppa á Blönduósi og eyða þar penning. Blönduós er komið í viðskiptabann og þar verður ekki og á ekki að stanza nema brýna nauðsyn beri til. Það helt svo áfram að snjóa og mikið krapp var á veginum. Stuð og gleði. Rétt eins og Frú Toggi hafði talað um var hálka á Holtavörðuheiðinni. Að öllu öðru var þetta steindauður þjóðvegaakstur. Við komum svo aftur inn borgarmörkin rétt fyrir 23:00. Við gerðumst svo séðir að sækja skíðin og brettið áður en öllum var skilað heim til sín. Gott að vera búinn að því. Hvað um það. Þar með lauk fyrstu skíðaferð vetrarins og það fyrir áramót. Nokkuð góður árangur það.

Að lokum þakkar skíðadeildin fyrir sig og samferðafólki sínu fyrir frábæra helgi og góðan skíðadag

E.s Næsta upphitunar skíða-og menningarferð til Agureyrich 16-18.des? Einhver? Furulundurinn jafnvel þá aftur?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!