mánudagur, október 27, 2008

Bjó í tjaldi



Eins og getið var hér að neðan þá voru menn ekki alveg búnir að leggja tjöldunum þetta árið. Á laugardagsmorgun var haldið að Esjurótum til að hefja þar strætóútileguna. Rétt eins og nafnið ber til kynna þá sá strætó um almenningssamgöngur. Þarna voru á ferðinni þremenningarnir þrír ásamt félögum sínum í B1.
Byrjað var á því að snúa vagninum við vegna þess að hann fór framhjá okkur en hvað um það. Skundað var upp á Akrafjall, tekinn var þar hringur einn og kvittað í báðar gestabrækurnar þar. Farið var svo aftur upp í vagninn á Akranesi eftir að hafa rölt þanngað. Við rétt svo skutumst í gegnum gönginn. Er farið var út til móts við Blikadal þá tókst okkur að skemma vagninn þannig að ekki var hægt að loka aftari dyrinni. En hvað um það. Fundið var fínasta tjaldstæði í Blikadal og slegið upp tjaldbúðum þar. Verður það helst að teljast til stórtíðinda að skytturnar þrjár deildu með sér tjaldi og að auki bætist svo einn til viðbótar. Var þetta sögulegt því svona hefur aldrei gerst áður og mun líklegast ekki koma fyrir aftur. En aldrei að segja aldrei.
Á messudag var vaknað við klerkinn sem var hinn hressasti. Þegar fólk var ferðbúið var haldið áfram inn dalinn. Síðan upp Esjuna og á Kerhólakamp þar sem stefnan var tekin á Þverfellshorn. Allir náðu svo að skila sér heilum aftur niður á bílastæði rétt fyrir 15:00 sáttir og glaðir.
Ef einhverjir utan hópsins skyldu hafa áhuga að skoða stafrænar minningar úr túrnum þá má gjöra slíkt hér, frá Skáldinu, og síðan hefur Litli Stebbalingurinn dundrað inn sínum myndum hérna.

Kv
Nýliðarnir

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!