laugardagur, apríl 16, 2005

Þann 09.apríl á þessu ári var farin fyrsti, af vonandi almörgum, undirbúnings- og eftirlitsferð fyrir fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurammælisferð 2005. Þannaig var mál með ávexti að í hinni margrómuðu skíðaför úrvalshóps skíðadeildar til Wolkenstein í austurríska/ungverskakeisaradæminu kom upp sú hugmynd að fara í undirbúnings- og eftirlitsferð inn í Mörk þessa helgi. Jafnframt því að sinna undirbúning og eftirlitsskyldum þá ætlaði Perrinn að víga Pæjuna um leið. Þegar nær dró umrædda helgi var sem öræfaótti ýmiskonar væri í fólki og eftirstóðu þrír einstaklingar. Sökum fámennis var það afráðið að fara för þessa á einum bíl. Það þarf að koma fáum á óvart að farkosturinn var Galloper og Willy fékk, því miður, að hvíla sig. Það er líka svo sem alveg skiljanlegt að þau hafi fengið með sér einn þaulvanann til lóðsa sig inn úr.
Ferðalangar þessa helgu voru því

Stebbi Twist, sem þriðjahjól

Perrinn og Katý.

Þegar tíminn var langt genginn 16:00 á laugardeginum renndi eitt stk. Pæja í Logafoldina með það fyrir stafni að pikka upp Stebbalinginn. Eftir að hafa kíkt aðeins á Grænlandsleiðina, það segir mér hugur að þar eigi maður eftir að drekka áfengi einn góðan veðurdag, og komið við í nýlenduvöruverzlun var stefnan sett austur á bogin þó ekki fyrr en grút hafði verðið dælt á Pæjuna. Þjóðvegur eitt bauð ekki upp á mikið og til að reyna bæta það upp var fyrsti bjór opnaður við GSM-sendinn rétt við Þrengslabeygjuna. Það var svo farið hratt í gegnum Selfoss og allir voru sammála um að nýja Þjórsárbrúin sé ekki svipur hjá sjón m.v. þá gömlu. Þegar við komum á slóðir lessumyndbandsins olli það okkur miklum vonbrigðum að búið að rífa húsið og þjóðvegasjóppan er kominn í nýtt hús. Það leið svo ekki á löngu uns við nálguðumst Hellu. Þá kveikti Perrinn á perunni. Hann hafði gleymt lyklunum af litla skálnum í Básum í bænum. Hér eftir mun nefnast Snorri hinn lyklalausi eða bara hinn lyklalausi. Nú voru góð ráð dýr. Átti að snúa við og eyða c.a. 2.klst eða taka sjénsinn um að einhver væri innfrá. Síðarnefndi kosturinn var tekinn enda ekkert gaman ef maður tekur ekki neina áhættu. Ef enginn yrði inn í Básum myndi þetta bara verða fín dagsferð. Stutt stopp var gert á Hlíðarenda sem aðallega fór í að bæta á rúðupissið. Haldið var svo áfram en nú hafði verið skipt um bílstjóra og það meira að segja kvenkyns. Lítið annað við því að gera nema fá sér meiri bjór. Þegar sást í Seljalandsfoss hófust miklar umræður um Kapphlaupið mikla. Nóg um það. Við Stóru-Mörk var hleypt úr hjólbörðum og þá komu verðlaun úr hinum skemmtilegaleik um 25.000 gestinn að góðum notum. Haldið var svo áfram inneftir. Fyrstu lækirnir voru ekki til staðar og er við komum að neðra vaðinu á Lóninu sagði reynsla Stebbalingsins til síns enda þurfti að lóðsa kvenmann þar yfir. Það sem bjargaði málunum er það að ekkert var í Lóninu. Það sama átti við Steinholtsána en hún var tær og ekki mikið mál. Eftir því sem nær dró Básum þá varð alltaf hvítara og hvítara. Já, það var þunnur snjór yfir öllu sem ekki skemmdi fyrir. Gaman að koma þarna þegar smá snjóteppi er yfir öllu. Er við renndum á planið fyrir utan skálana í Básum þá var þar hópur. Hópur þessi var með lykill að skálanum svo við vorum í góðum málum þrátt fyrir að Snorri hinn lyklalausi hafi gleymt lyklunum í bænum. Við komum okkur fyrir á svefnloftinu og hófum undirbúning fyrir matargerð. Eftir að hafa vætt grísakjötið í BBQ-sósu og kryddað með Season all var ekkert til fyrir stöðu að halda góðaveislu. Sauðlaukunum skelltum við á kolin hjá sem á undan voru. Að sjálfsögðu var ölið aldrei langt undan við grillmennskuna ásamt eplasnafsinu. Rétt áður en kjötið var tilbúið skundi sérlegur sósugerðarmeistari V.Í.N. inn í skála til að huga að sósugerð. Kvöldmatur þessi var hinn prýðilegasti og ekki skemmdi dinnertónlist þeirra sem þarna voru en þeir voru byrjaðir á kvöldvöku er við hófum snæðing. Eftir mat þá hélt kvöldvakan áfram og haldið áfram við að sötra bjór. En um kveldið áður en full dimmt var orðið var skundað á Hattinn í léttri kvöld- og heilsubótargöngu. Eftir það heldu undirbúningsstörf áfram í formi neyslu á öli. Það var glamrað á gítar frameftir kveldi og ýmiskonar lög spiluð og sungið m.a. Þórsmerkurkvæði. Svo þegar leið fram á nóttu fór fólk að týnast í háttinn einn af öðrum.

Það var svo vakanað á frekar ókristnilegum tíma á sunnudagsmorgninum og það ekki einu sinni í messu. Eftir morgunmat, morgunbæn og Mullersæfingar var farið að huga að heimför. Eftir tiltekt sem að þessu sinni var án Tiltektar-Togga var hægt að leggja í´ann. Það skyldi skoða Krossá en sökum einbíla var ákveðið að sleppa því í þessari undirbúnings- og eftirlitsferð. (Blaut)Bolagil bíður því betri tíma sem verður vonandi næsta undirbúnings-og eftirlitsferð. Maður verður nú að kanna hvort bekkurinn góði sé ekki örugglega á sínum stað og gera eins og eina fallprufun á kamrinum góða. Ferðinn úteftir gekk alveg vonum framar og ekki hafði nú aukist í fallvötnunum. Gígjökull heldur áfram að minnka. Er við komum á Þjóðveginn var ákveðið að tjékka áfram á lessumyndbandinu og kíkja á Seljavallalaug. Þess má geta að nýja var lokuð og sú gamla skítköld ásamt því að hvergi var neinar lessur að finna svo horfið var fljótlega á braut aftur. Ekið var um suðurlandsundirlendið, komið við í Brautarholti þar sem sundlaugin var lokum og Hinn lyklalausi fékk að tefla við nýlátinn Páfann í kertagerðinni. Farið var í gegnum Laugarás og endað á Laugarvatni. Þar var skellt sér í sund og ekki greitt fyrir þökk sé félaga þess Lyklalausa. Er sundathöfnum var lokið og styttist í heimferð var ákveðið að fara stystuleið sem er að sjálfsögðu Gjábakkavegur. Þar var snjór og för. Sá lyklalausi virtist alveg skemmta sér við aksturinn þar og náði hann m.a.s. að festa Pæjuna eitt sinn. Ekki var þetta nú alvarleg festa því okkur tókst fljótlega að losna þrátt fyrir skófluleysi en með hjakki. Ekki meira en svo. Snjórinn minnkaði svo eftir því sem nær Þingvöllum dró uns vegurinn varð svo gott sem auður. Ekki var svo aksturinn yfir Mosfellsheiðina tíðindamikill er undan er skilið smá misskilningur með millikassann sem leystist fljót og örugglega. Stebbalingunum var svo skilað til síns heima rúmlega 16:00 á sunnudeginum. Þar með lauk fyrstu undirbúnings-og eftirlitsferð fyrir fyrstuhelgaríjúlíárshátíðarþórsmerkurammælisferð 2005.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!