föstudagur, maí 02, 2003

Kíkti á tónleika á Gauknum í kvöld í þeim tilgangi að sjá Maus live. Verð að segja að tónleikarnir voru hreint frábærir. Nýju lögin gefa góð fyrirheit um plötuna sem er væntanleg í verslanir 12. - 20. maí næstkomandi. Einnig fluttu þeir nokkur gömul lög og var frábært að heyra nýja útsetningu á lögum eins og "égímeilaðig" og "kerfisbundin þrá". Sérstaka athygli undirritaðs vakti einmitt breyttur texti lagsins "allt sem þú lest er lygi" þar sem textanum sem áður var "lýgur þá fréttablaðið" hefur verið breytt í "lýgur þá morgunblaðið´" ..."af einskærum sið eða til hugsunar uppeldis". Þetta hefur textahöfundur (Biggi) væntanlega gert af ásetningi einum þar sem hann er tónlistarrýnir Fréttablaðsins. Bónus kvöldsins var að fá að heyra Dáðadrengi flytja nokkur frábær lög, þeir eiga heldur betur framtíðina fyrir sér, en Danni trommuleikari vildi einmitt líkja hæfileikum þeirra við Manchester borg á tímum Happy Mondays, fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur skal bent á myndina 24 tíma teitisfólkið. Fyrir tónleikaunnendur og unnendur góðrar rokktónlistar vil ég benda á næstu tónleika Maus sem fram fara í Iðnó miðvikudaginn 7. maí.
Ég lifi heill.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Talið!